04.03.1963
Neðri deild: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1466 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir til 2. umr., er gert ráð fyrir því, að heimiluð verði sala á jörðinni Utanverðunesi í Rípurhreppi í Skagafjarðarsýslu. Þessi jörð er kristfjárjörð, og eins og hv. alþm. kannast við, þá gilda um slíkar jarðir æði strangir skilmálar, þannig að strangt til tekið er sala þeirra ekki heimil. Slíkt eignarhald er til komið með gjafabréfi, og gefandi hefur á sinni tíð gefið viðkomandi eign til þess að vera framfæri fyrir fátæk börn í viðkomandi héraði, og eru slíkum jörðum settar sérstakar yfirstjórnir. Nú leggur yfirstjórn þessarar jarðar til og hefur fengið flutt um það frv, hér á Alþingi, að leyfð verði sala á þessari jörð. Hún verði bútuð niður í tvennt og seld tveim aðilum, sinn helmingurinn hvorum aðila. Nefndin segir hérna: „Frv. gerir ráð fyrir því, að kaupandi annars hluta jarðarinnar verði núverandi ábúandi hennar.“ En ekki er tiltekið í frv. um kaupanda að hinum helmingnum. Hér er því augljóslega um það að ræða, að þetta er ekki venjulegasta gerð á sölu, heldur á að hluta í sundur eignina með sölunni. Þá liggur það enn fremur fyrir, að það hefur enginn falazt eftir kaupum á öðrum helmingi jarðarinnar, en ábúandi sá, sem hefur með að gera þann helminginn, sem hér er sérstaklega tiltekið, að honum megi selja, hann vill kaupa og telur kaupin vera skilyrði fyrir, að hann geti haldið áfram búsetu á jörðinni.

Ég skal fúslega játa, að það eignarhald, sem kallað hefur verið kristfjárjörð, fellur illa að þeim þjóðfélagsaðstæðum, sem í dag eru, og ég mun ekki verða til þess að halda því fram, að það sé óumbreytanlegt og að ekki geti komið til mála að umþoka því á einn eða annan hátt. Ég tel, að ekki sé goðgá að selja slíkar jarðir t.d. heilu hreppsfélagi, sem ætlar að hafa hönd í bagga með nytjun á jörðinni, né heldur koma í veg fyrir það, að jörðin geti ekki með eðlilegum hætti verið nýtt og setin. En það, sem skiptir sköpum um það, að ég legg til, að þetta frv. verði fellt, er álit hreppsnefndarinnar í Rípurhreppi á þeirri sölu, sem hér er fyrirhuguð. Ég hef leyft mér með mínu nál. að birta útdrátt úr fundargerð hreppsnefndar Rípurhrepps frá 29. jan. á þessu ári og einnig skýringar, sem meiri hl. hreppsnefndarinnar gefur á sinni afstöðu til málsins. Í fundargerðinni frá 29. jan., fundargerð hreppsnefndarinnar í Rípurhreppi, segir:

„Oddviti lagði fram samrit af frv. um heimild til sölu á kristfjárjörðinni Uanverðunesi, sem Gunnar Gíslason alþm, flytur á yfirstandandi Alþingi, ásamt með samriti af bréfi, er stjórn Utanverðunesslegats skrifaði flm. Allmiklar umr. urðu um málið, en síðan samþ. með öllum atkvæðum svofelld till.: Hreppsnefnd Rípurhrepps mælir fyrir sitt leyti með því, að frv. til 1. um heimild til sölu á kristfjárjörðinni Utanverðunesi í Rípurhreppi verði samþ., en telur eðlilegt, að salan sé ekki bundin við núverandi leigutaka.“

Og síðan skrifar undir þetta öll hreppsnefndin. En eins og þessi fundargerð ber með sér, hafa í hreppsnefndinni orðið miklar umr. um þetta mál, og í sjálfri fundargerðarútskriftinni kemur auðvitað ekki nákvæmlega fram, um hvað þessar umr. hafa snúizt, en hreppsnefndin lætur fylgja þessari útskrift úr fundargerð sinni til skýringar nokkurt álit, — álit a.m.k. meiri hl. hreppsnefndarinnar, ef ekki allrar hreppsnefndarinnar, það kemur ekki alveg fram í yfirlýsingunni sjálfri, sem einnig er prentuð sem fskj.: með því nál., sem ég hef gefið út um málið á þskj. 322. Þar segir m.a.:

„Hreppsnefnd er ekki andvíg því, að heimiluð sé sala á jörðinni. Hins vegar telur meiri hl. n. hverfandi litlar líkur til þess, að tryggð mundi framtíðarábúð á Utanverðunesi, ef núverandi ábúandi, er s.l. 2 ár hefur dvalið að mestu á Sauðárkróki og eigi haft teljandi búrekstur á jörðinni, aðeins nokkrar kindur, fengi eignarhald á henni. Má í því sambandi geta þess. að ábúandi á Utanverðunesi á jörðina Hróarsdal í sama hreppi ásamt með gólfhæð í stóru íbúðarhúsi þar, steinsteyptu, fárra ára gömlu, en nytjar þá jörð lítt. Það er að sjálfsögðu þessu litla sveitarfélagi mikið áhugamál, að Utanverðunes, sem er hlunnindajörð, ágætlega í sveit sett, hefur til að bera mikil og hagstæð skilyrði til ræktunar og beitiland víðlent og gott, komist í trygga og örugga ábúð, en lendi ekki í braski. Því væri mjög æskilegt, að sveitarstjórn gæti haft nokkra hönd í bagga um kaupanda, ef til sölu á jörðinni skyldi koma.”

Að fengnum þessum upplýsingum hreppsnefndarinnar í Rípurhreppi eða meiri hl. hennar, þá finnst mér sem það liggi ljóslega fyrir, að mat hreppsnefndarinnar er það, að ef sala á jörðinni fer fram eftir því frv., sem hér liggur fyrir, þá muni verða nytjuð hlunnindi jarðarinnar, en ábúð, sem því nafni getur heitið, verði ekki á jörðinni Enn fremur fer það ekkert á milli mála, að hjá hreppsnefndinni leynist uggur um það, að sú sala, sem hér er áformuð, sé hreinlega hugsuð sem liður í braski.

Þótt ég haldi ekki fast við það, að eignarhald kristfjárjarða sé óumbreytanlegt, þá sýnist mér, að sú sala, sem hér er fyrirhuguð, liggi svo fjarri hugmynd gefanda, að það væri hrein misþyrming á henni að leyfa sölu þá, sem fyrirhuguð er í þessu frv.

Ég teldi eðlilegt, að hreppsnefndinni yrðu gerðir kostir á því að kaupa jörðina og ráðstafa henni þar með. En sú sala, sem hér er fyrirhuguð, er öll af því tagi, að ég hef leyft mér að leggja til, að þetta frv. verði fellt. Og ég vænti þess, að við yfirvegun muni hv. alþm. skoða hug sinn tvisvar, áður en þeir greiða atkv. á þá lund, sem hv. meiri hl. landbn. hefur leyft sér að leggja til í sínu nál.