04.03.1963
Neðri deild: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1468 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Hæstv. forseti. Ég skal játa það rétt vera, sem hv. frsm. minni hl. segir, að það væri miklu geðfelldara að geta selt þessa jörð í einu lagi og selt hana ábúanda. En það er búið að skipta jörðinni í tvennt til ábúðar, og það er ekki beiðni um það frá eigendunum eða stjórn eiganda að selja hana á annan hátt en að ábúandinn fái þennan hluta, sem hann er ábúandi að og hann hefur skilyrðislaust forkaupsrétt á. Hinn hlutinn er í leigu hjá Búnaðarsambandinu, og liggur ekki fyrir nein vissa um, að það vilji kaupa þann hluta, en það er gert ráð fyrir því í frv., að það sé heimilað.

Náttúrlega væri það með þessa jörð eins og allar aðrar heppilegast, að þær væru í einu lagi, því að nú standa þannig sakir í okkar landbúnaði, að það er mikil þörf á því, að búin séu sem stærst til þess að geta staðið undir vélabúskap.

Viðvíkjandi því, að hér sé verið að fara út fyrir hugmyndir gefandans í upphafi, en liðinn er geysilangur tími, frá því að þessi gjöf átti sér stað, þá er því til að svara, að með því að selja slíka jörð eða slíkar jarðir er þó verið að bjarga verðmætinu fram yfir það, sem annars mundi vera, ef jarðirnar yrðu látnar fara í eyði.

En það, að ábúandinn, sem hér er um að ræða, hefur ekki verið á jörðinni allan ársins hring, stafar af því, að íbúðarhúsið, sem þar er, er ævagamalt og ekki talið verandi í því að vetrinum, það er orðið svo úr sér gengið. Þess vegna er það lífsskilyrði, og til þess miðar heimildin til sölu fyrst og fremst, að það sé byggt upp á jörðinni.

Það, sem hér er tiltekið og hv. 6. þm. Sunnl. vék að um skýringar frá meiri hl. hreppsnefndar Rípurhrepps, þá er það að sumu leyti nokkuð mikið blekkjandi mál. Þar er sagt, að þessi ábúandi eigi aðra jörð, sem hann geti vel notfært. Þannig er því varið, að hann er ættaður frá Hróarsdal, sem er lítil jörð og var á sinni tíð skipt í þrjá hluta. Bræður hans tveir búa þar, og Hróarsdalur er svo lítil jörð, að það er fullkomlega erfitt að hafa hana sem tvíbýlisjörð, en hitt má segja að sé alveg óhæft, að ætla sér að gera hana að þríbýlisjörð, svo að þess vegna er þörfin fyrir þennan ábúanda fullkomin til þess að kaupa þann hluta, í Utanverðunesi, sem hér er farið fram á að heimila sölu á.

Varðandi hitt, sem hreppsnefndin var að tala um, að hætt sé við því, að jörðin lendi í braski, þá er ekki mikil hætta á því, að því er virðist, því að hingað til hefur ekki verið um það að ræða, að það hafi komið mikil tilboð í hana, og þar að auki hefur hreppsnefndin það alveg á valdi sínu á þessum stað eins og öllum öðrum, ef ábúandinn svikist um að halda jörðinni í byggð eða koma upp á henni húsum, svo að þar sé verandi, þá hefur hreppsnefndin það á valdi sínu að taka hana af honum skv. ábúðarlögunum. Þar er því ekki um neina hættu að ræða. En sem sagt, mér þykir ekki ástæða til að gera þetta mál að neinu þrætumáli hér. Við erum sammála um það, 4 nefndarmenn, að mæla með samþykkt frv. með þeim breytingum, sem við leggjum fyrir, og væntum þess, að hv. alþm. geti á það fallizt. Hitt er svo náttúrlega á valdi ráðherrans, sem framkvæmir söluna, hvað strengilega verður búið um kosti á jörðinni við þann kaupanda, sem samið væri við.