07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1470 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er út af formsatriði. Á dagskránni í dag eru tvö frv. um sölu ríkisjarða, þ.e. undir 3. lið og 8. lið. Enn fremur er útbýtt nál. um tvö hliðstæð frv., þ.e. um sölu tveggja eyðijarða í Árskógshreppi og eyðijarðarinnar Lækjabæjar í Fremri-Torfustaðahreppi. Enn fremur er mér kunnugt um, að til þingsins hefur verið send beiðni frá dómsmrn., að upp verði tekin heimild til þess að selja tvær prestssetursjarðir í því skyni að afla fjár til prestssetursbygginga á öðrum stöðum en hin eldri prestssetur voru. Nú vildi ég hreyfa því, hvort það væri ekki einfaldara að sameina öll þessi frv. í eitt frv., og skjóta því til n. Það er í raun og veru eðlilegt, að slík heimild til jarðasölu sé afgreidd í einu lagi í staðinn fyrir að vera með ein 5—6 frv., sem þurfa að ganga á milli og tefja fyrir. En ef þessi hugmynd ætti að takast upp, þá þyrfti nefnd að íhuga málið að nýju og þá breyta frv, og taka allar jarðirnar upp í hið sama.