07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1471 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Í 1. gr. þessa frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til, að stjórn Utanverðunesslegats verði heimilað að selja ábúanda hálfa jörðina Utanverðunes í Rípurhreppi. Í næstu mgr. á eftir segir: „Jörðin skal seld því verði, er dómkvaddir menn meta, nema hærri tilboð liggi fyrir.“ Ég fæ ekki séð, að þetta hvort tveggja geti staðizt hlið við hlið. Það er lagt til í upphafi greinarinnar, að heimilað sé að selja ábúanda, en þá engum öðrum. Hver ætti þá að bjóða hærra verð en dómkvaddir menn ákveða, ef enginn annar kaupandi kemur til greina en ábúandinn? Mér sýnist því vera sá formgalli á þessu frv., að það sé ekki hægt fyrir d. að afgreiða það eins og það liggur fyrir, og ég vil taka undir ummæli hæstv. ráðh., að það væri ástæða til, að n. tæki þetta frv. og þá önnur sama eðlis til athugunar. Ég vildi styðja þá tili., að umr. væri frestað og málið tekið út af dagskrá.