15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (154)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta var til umr. á síðasta þingi. Það var lagt fram nokkuð síðla á því þingi, og var gagnrýnt, að menn hefðu ekki nægan tíma til að átta sig á því til hlítar eða ræða það svo sem skyldi. Það varð þess vegna ofan á, að frv. var þá afgreitt með rökst. dagskrá, og í henni fólst áskorun til stjórnarinnar um að haga svo til, að ekki yrði tjón af því, þó að frv. yrði ekki afgreitt þegar í stað, en stjórninni jafnframt falið að leggja það fyrir þingið, strax og það kæmi saman aftur. Nú er frv. lagt fram óbreytt eins og það var borið fram á síðasta þingi.

Ég vil skýra frá því, að ráðinn hefur verið, eins og raunar tilkynnt hefur verið opinberlega, sérstakur maður til að undirbúa ráðstafanir í þessu efni, og vinnur hann ötullega að því undirbúningsstarfi og að kynna sér allar hliðar þessa mjög vandasama og viðurhlutamikla máls. Í annan kostnað hefur ekki verið lagt af þessum sökum enn þá.

Því miður eru horfur í alþjóðamálum enn slíkar, að óverjandi er með öllu að gera ekki einhverjar ráðstafanir til almannavarna hér á landi.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, heldur legg til, að því verði vísað til 2. umr. og allshn., og þar sem það er nú lagt fram svo snemma þings, þá gefst nú öllum nægur tími til að átta sig á því og koma fram sínum aths. og ræða málið eins og þá lystir.