07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1476 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Það er út af þessum umr., sem hér hafa orðið, að ég vildi koma mínu sjónarmiði að og láta í ljós mína skoðun um þetta mál.

Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar, að bændurnir eigi að eiga ábúðarjarðir sínar sjálfir. og sú skoðun mín er algerlega óbreytt. Það var um margar aldir, að flestallir bændur í landinu voru leiguliðar. Þá átti kirkjan jarðirnar, og ég hygg, að íslenzkir bændur hafi aldrei lifað við meiri ánauð en þá, þegar þeir voru leiguliðar, og þegar bændurnir fóru að ná eignarhaldi á jörðunum, þá fyrst fór hagur þeirra að batna og blómgast, og hagur þjóðarinnar allrar rétti við á sama tíma, fyrst og fremst vegna þess, að jarðeignirnar komust í hendur ábúendanna sjálfra.

Ég vildi segja það í sambandi við sölu á þeirri jörð, sem hér er verið að ræða, Utanverðunesi í Skagafjarðarsýslu, að þegar sú jörð var gefin til þess að vera til framfæris munaðarlausum börnum, þá hafði það vitanlega mikinn tilgang og góðan. En hvað hafa nú munaðarlausu börnin upp úr því að eiga að lifa að einhverju leyti á þessari jörð, þegar hún er komin í eyði og enginn geldur eftir hana? Það er fjöldamargt, sem forfeður okkar gerðu, sem við verðum af eðlilegum ástæðum að rífa niður, koma í veg fyrir og breyta, alveg á sama hátt og ég er viss um það, að margt af því, sem við erum að gera nú í dag og teljum gott og þýðingarmikið, það verður rifið niður af komandi kynslóðum, vegna þess að þá er það orðið úrelt og til trafala í daglegu lífi.

Ég ætla t.d. að minnast á það, að einn ágætur maður í Árnessýslu gaf fyrir nokkuð mörgum áratugum nokkrar jarðir. Hann var auðmaður, og hann gaf nokkrar jarðir í góðum tilgangi. Afgjaldið af sumum þeirra átti að verða til menntunar fátækum börnum, afgjaldið aftur af öðrum þeirra átti að verða til framfæris hjúum bænda, sem voru orðin ófær til vinnu og þurftu á framfæri af opinberri hálfu að halda. Það kom í veg fyrir það, að útslitin gömul hjú færu á sveitina. Þetta vitanlega stendur enn í dag. Það mátti aldrei veðsetja jarðirnar og aldrei selja þær, ekkert gera annað við þær en leigja þær ábúendum og taka afgjaldið eftir þær og nota það til þeirra hluta, sem mælt er fyrir um. Í dag er svo komið um þessar jarðir, að þær eru allar í eyði og það er ekkert afgjald af þeim. Það hafa ýmsir gagn af þeim, sem í nágrenninu búa, þeir beita þessar jarðir, þær eru ógirtar, og landið liggur opið fyrir öllum. Enginn hefur afgjald af þeim, og engir hafa gagn af þessum eignum aðrir en þeir, sem sízt skyldi.

Þetta þykir mér hinn mesti misskilningur af svo gáfuðum manni sem hv. 3. þm. Reykv. er, að hann skuli ekki geta fallizt á það, að við verðum að breyta þessu, sem var gott og gilt fyrir mörgum öldum. Það þýðir ekki að ætla sér að hanga í því, sem var gott og gilt fyrir mörgum öldum.

Ég fyrir mitt leyti vildi lýsa þessari skoðun minni. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar, að bændurnir eigi að eiga ábýlisjarðir sínar sjálfir, og ég styð þá skoðun mína þeim rökum, sem ég nefndi áðan, að þá fyrst fór hagur bændanna á Íslandi að blómgast, þegar þeir gátu orðið sjálfseignarbændur, þegar þeir hættu að vera leiguliðar.