11.03.1963
Neðri deild: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1542)

125. mál, sala Utanverðuness í Rípurhreppi

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. þetta er nú komið til 3. umr. hér í hv. d., og meiri hl. landbn. mælti með því, að frv. yrði samþ. Í grg. með frv. er prentað sem fskj. bréf til flm. frá stjórn Utanverðunesslegats. Í niðurlagi þess bréfs segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Legatsstjórnin telur eftir atvikum mjög æskilegt, að söluheimildin verði eigi eingöngu bundin við núv. leigutaka, heldur hafi hún óbundnar hendur um að leita kauptilboða og haga sölu í samræmi, við það.“

Ég vil vekja athygli á þessu í niðurlagi bréfsins frá stjórn legatsins. Hins vegar hefur hv. n. ekki tekið neitt tillit til þessa í umsögn sinni eða tillögum um málið.

Þá vil ég enn benda á það, að með nál. hv. minni hl. landbn. er fskj., útdráttur úr fundargerð hreppsnefndar Rípurhrepps frá 29. jan. í vetur, ásamt skýringum á afstöðu meiri hl. hreppsnefndar. Í þessari umsögn segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hreppsnefnd Rípurhrepps mælir fyrir sitt leyti með því, að frv. til l. um heimild til sölu á kristfjárjörðinni Utanverðunesi í Rípurhreppi verði samþ., en telur eðlilegt, að salan sé ekki bundin við núv. leigutaka.“

Þarna kemur fram það sama hjá hreppsnefndinni og hjá stjórn legatsins. Það er óskað eftir því, að salan sé ekki bundin við núv. leigutaka jarðarinnar. Þá segir og í þeim skýringum, sem með fylgja frá meiri hl. hreppsnefndar í Rípurhreppi, að það væri mjög æskilegt, að sveitarstjórn gæti haft nokkra hönd í bagga um kaupanda, ef til sölu á jörðinni skyldi koma. Fram hjá þessu er alveg gengið hjá hv. landbn. Hún tekur ekkert tillit til þessara atriða, sem ég hef nú vikið að. Við 2. umr. málsins vakti ég einnig athygli á því, að frv. væri þannig úr garði gert, að það væri ekki hægt fyrir d. að láta það frá sér fara í þeim búningi, sem það nú er, þar sem þar er lagt til, að veitt verði heimild til að selja ábúanda hálfa jörðina, en síðar segir, að jörðin skuli seld því verði, sem dómkvaddir menn meta, nema hærri tilboð liggi fyrir. Það liggur í hlutarins eðli, að um slíkt er ekki að ræða, ef aðeins má selja ábúanda. Þá mundi hann aldrei fara að bjóða hærra en dómkvaddir menn meta. Þannig er þetta frv. svo gallað, að ég get ekki séð, að það sé hægt fyrir hv. d. að samþ. það, eins og það liggur fyrir. Ég vil vekja athygli á því, að ég tel, að landbn. hefði þurft að athuga betur þessar umsagnir og miða síðan till. við að taka nokkurt tillit til þeirra.