19.02.1963
Efri deild: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1501 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

147. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Þetta frv. er flutt af menntmn. að beiðni hæstv. kirkjumrh., og hafa einstakir nefndarmenn óbundnar bendur um að flytja við frv. brtt. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Þetta frv. er hv. þm. í þessari hv. þd. áður kunnugt í verulegum atriðum. Upphaflega var frv. samið af nefnd, sem kirkjumrh. skipaði árið 1955 til að endurskoða kirkjuleg lög og tilskipanir. Það var fyrst flutt af menntmn. þessarar hv. þd. að beiðni kirkjumrh. á þinginu, er sat árin 1957–58. Síðan hefur það þrisvar sinnum verið lagt fyrir Alþingi og jafnframt verið um það fjallað á kirkjuþingum. Og á þessum tíma hefur frv. tekið nokkrum breytingum frá sinni upphaflegu mynd.

Á s.l. hausti skipaði hæstv. kirkjumrh. n. til að endurskoða frv. N. gerði á því allverulegar breytingar, og það var síðan í þeirri breyttu mynd lagt fyrir kirkjuþing nú s.l. haust. Kirkjuþingið gerði enn nokkrar breytingar á frv. og samþ., frv. þannig breytt einróma. Jafnframt samþykkti kirkjuþing áskorun til Alþingis um að hraða afgreiðslu málsins og lögfesta frv.

Frv. hefur að geyma ýmis nýmæli. Það miðar að bættu skipulagi kirkjugarða og umhirðu, sem viða er ábótavant, eins og við öll þekkjum, og það svo, að tæpast getur talizt vansalaust. Hjálpast þar að óheppilegt skipulag kirkjugarða og fjárskortur fámennra safnaða, að kirkjugarðar hafa víða komizt í það ófremdarástand, sem raun ber vitni. En með frv. er gerð tilraun til að bæta úr í þeim efnum.

Núgildandi lög um kirkjugarða eru frá 1932. Síðan hafa orðið hjá okkar nágrannaþjóðum miklar framfarir í skipulagningu kirkjugarðanna. Frv. miðar að því, að gera allt skipulag kirkjugarðanna einfaldara og þar með umhirðu þeirra og viðhald ódýrara, svo að það sé viðráðanlegra fyrir söfnuðina að halda kirkjugörðunum í sómasamlegu ástandi. Og jafnframt er ætlunin að koma því til leiðar, að kirkjugarðarnir verði smekklegar skipulagðir en nú tíðkast.

Ég skal aðeins drepa hér á nokkur nýmæli, sem í frv. felast, þau veigamestu.

Þá er fyrst þar að nefna, að í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að skipulagsnefnd kirkjugarða hafi yfirumsjón með kirkjugörðum landsins, eftir því sem nánar er tiltekið eða ákveðið í frv. Skipun skipulagsnefndarinnar hefur nokkuð verið breytt frá því, sem var í frv., þegar það lá síðast fyrir þessari hv. þd. Þær breytingar hafa verið gerðar fyrir einróma tilmæli kirkjuþings. Það hefur verið fjölgað þar um 2 menn. Skal annar kosinn af kirkjuþingi og hinn af safnaðarráði Reykjavíkurprófastsdæmis til 6 ára í senn.

Þá var í frv., eins og það síðast lá fyrir, gert ráð fyrir, að skipulagsnefnd kirkna og kirkjugarða hefði þessa yfirumsjón. En það er einnig samkv. óskum kirkjuþings, að nú er lagt til, að skipulagsnefndin hafi eingöngu með kirkjugarða að gera, en ekki einnig kirkjubyggingar.

Þá er, að ég ætla, næst í 11. gr., sem um nýmæli er að ræða. Það er gert ráð fyrir, að tvigrafa megi í kirkjugörðum, og er í grg. með frv. gerð nánari grein fyrir því ákvæði. Einnig er þar fyrirmæli um það, að slétta skuli yfir grafir. Eins og við vitum, tíðkast það nú, að grafir eru nokkuð upphækkaðar. Slíkt torveldar hirðingu garðanna, gerir hana langtum tímafrekari og kostnaðarsamari. En hér er lagt til, að sléttað verði yfir allar grafir til þess að auðvelda viðhald og hirðu, og á slíkt ekki að koma að sök, þar sem grafir verða tölusettar, eins og vikið er að á öðrum stað í frv.

Þá er í 12. gr. tekið upp ákvæði um fjölskyldugrafreiti. Það hafa ekki v erið hingað til nein skýr ákvæði til um slíka grafreiti í lögum, og er talið, að það hafi valdið óþægindum og jafnvel deilum, og þótti því rétt að ákveða, hverjir ættu rétt til legs í slíkum grafreitum. Þá er í frv. lagt til, að gjald fyrir slíka grafreiti sé ákveðið af skipulagsnefnd kirkjugarða að fengnu samþykki kirkjumrn. til tiltekins tíma. Í frv., eins og það síðast lá fyrir, var ákveðið gjald í krónutölu. Það þykir ekki heppilegt. Með breyttu verðlagi er eðlilegt, að slíkt gjald breytist einnig, og er þá eðlilegast að hafa þennan hátt á, heldur en það þurfi að gera með lagabreytingu í hvert sinn.

Þá er í 13. gr., tekið upp ákvæði um friðunartíma grafa, og er hann þar bundinn við 75 ár, en þó með heimild til friðunar áfram með nánar tilteknum skilyrðum. Fyrir framlengingu friðunartíma er ætlazt til að komi gjald, sem skipulagsnefnd kirkjugarða ákveði til 10 ára í senn með samþykki kirkjumrn. Í grg. við frv. er gerð nánari grein fyrir þessu ákvæði og einnig vikið þar að tímalengdinni. Þar er það tekið fram, að t.d. í okkar nágrannalandi, Danmörku, sé friðunartími aðeins 20–30 ár, en með tilliti til veðráttu hér á landi, hinnar köldu veðráttu, þótti rétt að hafa pennan friðunartíma verulega lengri hér eða 75 ár.

Þá eru í 15. gr. nýmæli. Það er þá fyrst það, að girðingar um einstök leiði skuli ekki vera leyfðar í kirkjugörðum og að aðstandendur skuli sækja um leyfi, ef þeir vilja setja minnismerki á leiðin, skuli fá til þess leyfi kirkjugarðsstjórnar, og er með því ákvæði ætlað að koma í veg fyrir, að ósmekkleg eða óheppileg minnismerki séu sett á leiðin. Þá er lagt til í þessari gr., að það sé bannað að gera grafhýsi í kirkjugarði. Samkv. núgildandi lögum er slíkt leyfilegt, en n. sú, sem endurskoðaði frv., taldi eðlilegt, að bann yrði lagt við slíku. Ég vil aðeins minna á það, að þegar frv. var til umr. í þessari hv. þd. síðast, — eða hvort það var næstsíðast, ég man það ekki svo glöggt, — þá kom einmitt fram till. um það, að bönnuð yrðu grafhýsi í kirkjugörðum. Þá er í þessari gr., einnig ákvæði um tölumerkingu á leiðum í kirkjugörðum.

Í 17. gr. frv. eru ákvæði um það, að þegar líkbrennsla fer fram, þá skuli skylt að búa um öskuna í þar til gerðum duftkerum, og eru þar ákvæði um meðferð eða varðveizlu slíkra duftkera. Eins og nú háttar til, er mönnum frjálst að varðveita duftker á hvern þann hátt, er þeir óska, en slíkt þykir tæpast viðeigandi og er því í gr. lagt til, að þau skuli ávallt varðveitt í vígðum grafreit.

Í 19. gr. frv. eru ákvæði um kirkjugarðsstjórnir. Sóknarnefndir hafa yfirleitt á hendi umsjón og fjárhald kirkjugarða, en eins og í 3. gr. segir, þá er heimilt að kjósa sérstaka nefnd, sem fari með stjórn kirkjugarða, og eru nánari ákvæði um það í 19. gr. frv. Það er ekki um neinar verulegar breytingar að ræða frá núgildandi lögum. Þó er þar nokkur breyting á í þá átt, að utanþjóðkirkjusöfnuðir með a.m.k. 2000 gjaldskylda meðlimi skuli kjósa einn mann úr sínum hópi í kirkjugarðsstjórn, en samkv. núgildandi lögum er það bundið við 1000 gjaldskylda meðlimi.

Þá eru í 26. og 27. gr. frv. ákvæði um fjárreiður kirkjugarðanna, og má segja, að það séu e.t.v. veigamestu ákvæði frv. Samkv. núgildandi lögum er heimilt að innheimta kirkjugarðsgjald, sem má nema allt að 2% af álögðum útsvörum í sókninni. Heimilt er að hafa það hærra en þetta, jafna niður hærri prósenttölu en 2, ef til kemur samþykki safnaðarnefndar. Hins vegar er ekkert lágmark ákveðið í núgildandi lögum. En í frv. þessu er lagt til, að kirkjugarðsgjaldið sé bundið við 11/2–2% af álögðum útsvörum og aðstöðugjöldum í sókninni, og er það gert í samræmi við þær breytingar, sem orðið hafa á löggjöf um tekjustofna sveitarfélaga. Hrökkvi það, sem þannig innheimtist með 11/2 %, ekki fyrir framlögum kirkjugarðsins það ár, þá er samkv. frv. lagt til, að það verði heimilt að hækka allt upp í 4% með samþykkt safnaðarfundar og að fengnu leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Verði hins vegar hægt að sýna fram á, að 11/2 % geri meira en að hrökkva fyrir þörfum kirkjugarðsins, þá er heimild í frv. til handa kirkjumrn. til þess að leyfa hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn fyrir eitt ár í senn að innheimta lægra hundraðsgjald af útsvörum og aðstöðugjöldum en 11/2%. Þessi grein hefur því tekið töluverðum stakkaskiptum frá því, er frv. var lagt fyrir síðast, en þá var ákveðinn hundraðshluti 11/2 % með heimild til hækkunar, eins og reyndar nú er líka, en í frv. var þá engin heimild til þess að fara lægra en í 11/2 %. Það var sýnt, að það gat leitt til þess, að kirkjugarðsstjórnir yrðu að jafna niður og innheimta kirkjugarðsgjöld, sem næmu verulega hærri fjárhæð en hlutaðeigandi kirkjugarður í rauninni þyrfti á að halda, og þótti slíkt ekki vera sanngjarnt.

Þá er í 27. gr. frv. fjallað um kirkjugarðasjóð. Tekjur hans er lagt til að verði 5% af álögðum kirkjugarðsgjöldum og auk þess framlag úr ríkissjóði, 100 þús. kr. á ári í næstu 20 ár. Kirkjugarðsstjórnum er frjálst að ávaxta fé kirkjugarðanna, það sem umfram er árlegar þarfir, í þessum sjóði, en þá gegn venjulegum innlánsvöxtum. Enn fremur er beinlínis skylt samkv. 20. gr. frv. að ávaxta í þessum sjóði legstaðasjóði, sem þar er um fjallað, í 20. gr.

Við endurskoðunina hefur þessi gr. tekið verulegum breyt. Í frv., eins og það síðast lá fyrir, var kirkjugarðsstjórnum gert að skyldu að ávaxta fé það, sem kirkjugörðunum áskotnaðist og var umfram árlegar þarfir, þeim var beinlínis gert að skyldu að ávaxta það í kirkjugarðasjóði og þá gegn vöxtum, sem voru t,öluvert lægri en venjulegir innlánsvextir. Það var sýnt, að með þessu ákvæði hefðu kirkjugarðarnir orðið fyrir verulegu vaxtatapi, og auk þess hefði mátt ætla, að fé það, sem þeir voru skyldaðir til þess að binda í sjóðnum, væri ekki alltaf tiltækilegt, þegar þeir þyrftu á því að halda til stórra og fjárfrekra framkvæmda, eins og t.d. ef gera átti nýjan kirkjugarð. Ég ætla, að þetta ákvæði ásamt bindingunni á kirkjugarðsgjaldinu hafi verið það, sem hindraði það eða átti mestan þátt í því, að frv. hefur ekki hlotið afgreiðslu á þingi.

Þá er þess að geta, að í 28. gr. frv. er lagt til, að bann verði lagt við því, að upp verði teknir heimagrafreitir. Í frv. eins og það upphaflega lá fyrir Alþingi var ekki gert ráð fyrir slíku banni, en hins vegar settar allmiklu strangari reglur um upptöku heimagrafreita en gildandi eru. En nú er lagt til, að upptaka heimagrafreita verði ekki lengur heimil. Í grg. með frv. eru raktar ástæður fyrir því, að þetta er lagt til, og skal ég ekki fjölyrða um það frekar og hef þar enda ekki neinu sérstöku við að bæta.

Þá eru í 32, gr. tekin inn ákvæði um uppgröft og flutning líka í kirkjugarði, hvort heldur innan kirkjugarðs eða milli grafreita.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að fjölyrða frekar um frv. Ég vil aðeins ítreka það, sem ég áður sagði, að kirkjuþing hefur mjög eindregið óskað eftir því, að frv. yrði lögfest á þessu þingi. Menntmn. mun að sjálfsögðu hafa frv. til athugunar milli umr., en þar sem frv. er flutt af n., geri ég ekki till. um, að því sé vísað til n., en legg til, hæstv. forseti, að frv, verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.