28.02.1963
Efri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

147. mál, kirkjugarðar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. frsm. þessa máls hefur getið þess, að n. hugsi sér að taka til athugunar eitt atriði í þessu frv., þ.e. um heimild til að tvígrafa í kirkjugörðum. Mér þykir vænt um, að hv. n. gerir þetta, því að þetta var eitt af þeim atriðum, sem ég er mjög andvígur og tel, að ætti að leiðrétta í þessu frv. En ég vona, að hv. n, taki til athugunar nokkur atriði í frv., sem ég mun minnast á, því að mér væri það kærara, að hv. n. gæti flutt brtt. sjálf um þau atriði heldur en ég þurfi að gera það sérstaklega, því að æskilegast er, að sem bezt samkomulag sé um þetta mál. Þetta er nokkurt tilfinningamál og þess eðlis, að óheppilegt er að hafa um það neinar deilur.

Ég vil taka undir það, sem hv. frsm. sagði við 1. umr. málsins, að það er mikil nauðsyn á því að setja nýja löggjöf um kirkjugarða í landinu. Ég held, að flestum sé kunnugt um það, að útlit ég ástand kirkjugarðanna víða í landinu, ekki alls staðar, en mjög víða, er með öllu óviðunandi og það er þjóðinni til vansæmdar. Það er því full nauðsyn á, að með löggjöf sé reynt að bæta úr í þessum efnum. En fyrst er að gera sér grein fyrir, af hverju þetta er svona um kirkjugarðana. Til þess að geta dæmt um, á hvern hátt verði bætt úr þessu ástandi, verður náttúrlega fyrst að koma auga á sjálfa meinsemdina. Það má sjálfsagt segja, að þarna sé eitthvað um að kenna hirðuleysi eða áhugaleysi manna. En ég held, að það sé ekki aðalástæðan. Ég held, að hún sé aftur á móti fyrst og fremst fjárskortur safnaðanna til þess að sinna kirkjugörðunum sem skyldi. Og ef þetta frv. felur í sér viðunandi bót á fjárhag kirkjugarða í landinu, þá finnst mér, að frv. sé mikilsvert, þrátt fyrir ýmsa agnúa á því, sem ég hef komið auga á.

Þau ákvæði frv., sem að þessu lúta, að bæta úr fjárhag kirkjugarða, eru í 27. gr. frv., en þar segir svo, að stofna skuli sjóð, sem nefnist kirkjugarðasjóður. Tekjur hans eiga að vera 5% af álögðum kirkjugarðsgjöldum, auk framlags úr ríkissjóði, 100 þús. kr., á ári í næstu 20 ár. Þetta verða þá tekjur kirkjugarðasjóðs, en hlutverk sjóðsins á hins vegar að vera að veita lán til girðinga um kirkjugarða og að veita styrki til að reisa minnismerki, þar sem áður hafa staðið kirkjugarðar, kirkjur eða bænahús, sem eru nú niður lögð. Því miður fylgja ekki frv. neinar upplýsingar um það, hvað áætla megi tekjur kirkjugarðasjóðs, og þess vegna erfitt að gera sér grein fyrir, hvernig verður séð fyrir þessu aðalverkefni sjóðsins, sem ég tel meginefni frv. Það stendur í frv., hvað kirkjugarðsgjald megi vera, 11/2 % af álögðum útsvörum, en hvað þetta nemur miklu miðað við t.d. s.l. ár eða eitthvert annað ár, er ekki hægt að sjá, en hefði þurft að koma fram. Ef maður hugsar sér, að skipulagsnefnd kirkjugarða, sem á nú að koma til og á að verða stjórn kirkjugarðasjóðs, láti t.d. minnismerki ganga fyrir, sitja í fyrirrúmi um lánveitingar eða um styrkveitingar, þá getur orðið litið afgangs til þess að lána til girðinga um kirkjugarða. Ég er ekki að segja það af því, að ég hafi neitt hugboð um, að svo verði gert, að minnisvarðar verði látnir ganga fyrir, en þetta tvennt er hlutverk sjóðsins: að styrkja byggingu minnisvarða annars vegar, hins vegar að lána kirkjugarðsstjórnum eða sóknarnefndum fé til að girða kirkjugarða. En það er ein höfuðástæðan til þess, hve kirkjugarðar líta illa út, að það eru ónógar eða með öllu óviðunandi girðingar í kringum þá, þótt margt fleira komi reyndar til. Ég óttast, að þessar tekjur kirkjugarðasjóðs verði langtum of litlar til þess að geta gegnt þessu hlutverki. Og þá væri illa farið, ef þetta verður aðeins lagaákvæði og lítið meira.

Þá eru örfá atriði, sem ég vildi benda hv. n. á og biðja hana að athuga, áður en til 3. umr. málsins kemur. Það getur verið, að það sé fyrir ókunnugleika hjá mér, að ég hnýt nokkuð um sum þessara atriða, en það yrði þá upplýst við 3. umr., ef hér er um misskilning hjá mér að ræða í þessum efnum.

Ég vil nefna fyrst 2. gr. frv., þar sem rætt er um, að hver maður eigi rétt á legstað í þeirri sókn, þar sem hann andast o.s.frv. En í greininni segir einnig: „Heimilt er sóknarnefnd að taka legkaup fyrir þá, er teljast til annars trúfélags en þjóðkirkjunnar eða eiga heimili utan sóknar.“ Mér skilst, að það eigi ekki að taka neitt sérstakt legkaup fyrir aðra, heldur sé heimilt að taka það fyrir þá, sem tilheyra öðru trúfélagi eða eiga heima utan sóknar. Mér finnst, að þarna komi fram, ef þetta er rétt skilið hjá mér, hálfgerður ójöfnuður og það í garð dauðra manna, að vera að selja þeim afnot af jörðinni, ef þeir eru í einhverju öðru trúfélagi. Mega þeir nú ekki fá legstaðinn ókeypis alveg eins og aðrir? Skiptir það nokkru máli, í hverju trúfélagi maðurinn hefur verið, meðan hann lifði? Ósköp kann ég illa við þetta ákvæði. Ég veit ekki, hvað er meint með hinu, að þeir, sem eiga heimili utan sóknar, þurfi að borga fyrir sig. Ef maður, sem fluttur er úr sveitinni sinni, hefur óskað þess, að hann yrði grafinn heima í sinni sveit, þá getur hann fengið það, ef hann borgar fyrir sig, en konan hans, sem er kannske dáin á undan, hefur ekki þurft þess. Ég vil benda hv. n. á, hvort þetta er ekki eitthvað athugavert og heldur ógeðfellt, ef ég skil þetta þá rétt.

Í 4. gr. er rætt um skipulagsnefnd kirkjugarða, sem á að stofna til og á að hafa yfirumsjón með kirkjugörðum landsins. Það er ekkert talað um, hvort hún á að vinna kauplaust eða ekki, og vildi ég aðeins leita upplýsinga hjá hv. n. um það, hvort hún á að vera launuð eða ólaunuð, og ef hún á að vera launuð, hver á að greiða launin. Ef það væri nú t.d. kirkjugarðasjóður, þá skerðir það enn það meginhlutverk hans, sem frá er greint í þessu frv. En skipulagsnefnd kirkjugarða, sem er aðalyfirstjórn þessara mála á að vera skipuð þannig, að í henni eiga sæti biskup Íslands, húsameistari ríkisins og þjóðminjavörður, einn maður kosinn af kirkjuþingi og annar af safnaðarráði Reykjavíkurprófastsdæmis. Það, sem ég hnýt um þarna, er það, að safnaðarráð Reykjavíkur á að tilnefna einn mann í þessa stjórn, en enginn söfnuður annar á landinu á að hafa neinn slíkan rétt. Ég hef alls ekki á móti því, að maður sé frá þessu safnaðarráði, út af fyrir sig. En mér finnst, að þarna sé misræmi á milli, að safnaðarráð eins kaupstaðar eða borgar hafi þann rétt, sem enginn annar söfnuður í landinu á að hafa. Hitt virðist mér aftur á móti erfitt að koma fyrir, hvernig aðrir söfnuðir gætu komið manni að í þessa yfirstjórn kirkjugarða. Það er sjálfsagt ekki suðvelt að koma því fyrir. En óneitanlega felst eitthvert misrétti í þessu, að safnaðarráði höfuðborgarinnar sé veittur þessi réttur, en engum öðrum söfnuðum.

Í 12. gr. er ákvæði um, að heimilt sé að tvígrafa í sömu gröf. Að þessu hefur hv. frsm. vikið, og skal ég þá sleppa því. En ég tel það fjarri öllu lagi að leyfa slíkt og mun væntanlega flytja um það brtt., ef hún kemur ekki frá n. eða einhverjum öðrum.

Þá er rætt um það í þessari grein, að rétt til grafarstæða hafi eftirlifandi maki, börn hjónanna og kjörbörn, á meðan búsett eru í sókninni, en ekki lengur. Nú hafa hjón fengið grafreit í kirkjugarði, en kannske annað hjónanna flutt burt, hitt dáið. Svo þegar hitt deyr eða barn þessara hjóna deyr, þá eiga þau því aðeins réttinn, að þau séu ekki flutt í burtu úr sókninni. Ef þetta er rétt skilið hjá mér, þá tel ég, að þetta sé mjög misráðið. Rétturinn á ekki að vera bundinn við búsetu mannsins eða afkomenda eða þeirra, sem eiga að erfa réttinn til legstaðarins. Sá réttur á að haldast jafnt fyrir það að mínum dómi, hvort fólkið er flutt burt úr sókninni eða ekki.

Í 15. gr. eru ákvæði um það, að eigi megi setja girðingar um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. „Eigi má setja girðingar úr steini, málmi eða timbri um einstök leiði.“ Ég held, að þetta sé réttmætt ákvæði, og ég hef ekkert við það að athuga. En ég vildi benda hv. n. á, hvort nokkuð á að vera að telja upp, úr hvaða efni það er, hvort það er úr steini, málmi eða timbri, því að mér sýnist, að þegar girðingar eru um reiti, séu þær alveg jafnóhentugar, þótt þær séu úr einhverju öðru en þessum efnum. Það eru til mörg efni fleiri, sem væri hægt að girða með, heldur en þessi þrjú, og það er óþarft að vera að telja þetta upp.

Í 18. gr. segir: „Lögmætur safnaðarfundur getur veitt kirkjugarðsstjórn einkaheimild til þess að nota líkvagn við jarðarfarir gegn hæfilegu gjaldi, sem rennur í sjóð kirkjugarðsins.“ Þetta er að því leyti vel hugsað, að þarna er verið að styðja kirkjugarðsstjórnina í að afla tekna með því að veita slíka heimild í lögum. En vægast sagt kann ég ekki við að fara að einoka útfararathafnir, og þó að það sé gert í þeim tilgangi að afla kirkjugarðinum tekna, þá er það heldur óviðkunnanleg tekjuöflun að ætla sér að græða á líkvagni. Ég vona, að hv. nefnd athugi þetta ákvæði.

Í 26. gr. segir, að tekjur kirkjugarða skuli vera m.a. 11/2% af útsvörum og aðstöðugjöldum á því svæði, er rétt á til kirkjugarðsins. En það segir einnig, að heimilt sé kirkjugarðsstjórn, að fengnu leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar, að hækka þetta allt upp í 4%. En svo kemur síðar í greininni, að komi í ljós, að tekjur kirkjugarðasjóðs fari verulega fram úr áætluðum gjöldum, þá geti kirkjumrn. heimilað hlutaðeigandi kirkjugarðsstjórn fyrir eitt ár í senn að innheimta lægra hundraðsgjald. Mér er alveg óskiljanlegt, hvers vegna þarf að fara alla leið upp í kirkjumrn. til þess að fá leyfi til að lækka gjaldið, ef engin þörf er að hafa það svo hátt. Getur ekki sveitarstjórn veitt þetta leyfi, eins og hún veitir hitt leyfið, að hækka megi gjaldið?

Í 28. gr. segir: „Eigi má veita leyfi til upptöku heimagrafreita.“ Ég held, að þetta ákvæði frv. muni verða nokkuð umdeilt, og þetta er mjög mikið tilfinningamál. Í grg. frv. er þetta ákvæði rökstutt með því, að þeir séu svo vanhirtir, þessir reitir. Það fólk, sem upphaflega stofnaði til þessara heimagrafreita, sé kannske flutt burt, jörðin jafnvel komin í eyði, enginn hirði um reitinn og hann sé til vansæmdar. Sjálfsagt eru þess dæmi, að svona vanhirða eigi sér stað. En eru þetta rök fyrir því, að það eigi að banna með öllu heimagrafreiti? Það mætti alveg eins segja, að þessi rök gildi um kirkjugarðana sjálfa. Þeir hafa verið vanhirtir. En nú er ekki hægt að leggja þá niður. Þess vegna er sett löggjöf um að koma í veg fyrir, að þessi vanhirða eigi sér stað áfram. En er ekki alveg eins hægt að tryggja það með ákvæðum í þessum lögum, að heimagrafreitunum verði sinnt betur en verið hefur, tryggja það nokkurn veginn, engu síður en um kirkjugarðana, að þarna sé sómasamlega um hirt og að heimild til þess að leggja þessa reiti niður sé fyrir hendi, ef ekki verður um þá hirt af þeim, sem um þá eiga að sjá? Mér sýnist engin vandkvæði á því að setja slík ákvæði í þessi lög og hafa þau allströng, að heimila niðurlagningu reitanna, ef ekki eru uppfyllt þau skilyrði um hirðingu þeirra, sem sett eru í l. En að það þurfi að banna þá með öllu, það sé ég ekki.

Þá segir í þessari sömu grein: „Í heimagrafreit má eingöngu jarða heimamenn.“ Enn kemur þetta sama fyrir, að fólki, sem er flutt burtu, en hefur kannske óskað þess að hvíla í ákveðnum kirkjugarði eða heimareit, því á ekki að vera það heimilt. Ég held, að þetta sé óþarflega strangt, að fyrirskipa eða réttara sagt að banna greftrun annarra en heimamanna.

Í 32. gr. er rætt um heimild kirkjumrn. til að flytja lík til milli kirkjugarða og innan kirkjugarðs. Út af þessu vildi ég aðeins óska eftir upplýsingum frá hv. n. um það, hvað er meint með þessu. Undir hvaða kringumstæðum kemur það fyrir, að það þurfi að standa í slíkum flutningum? Mér er þetta ekki ljóst, og ég vil heldur ekkert fullyrða um, að ekki sé ástæða til þess að veita þessa heimild. En mér er algerlega óljóst, hvaða ástæða er til slíkra flutninga. Og ég tel, að það beri að forðast það í lengstu lög að hrófla við gömlum gröfum. Það er að vísu sagt í gr., að réttur aðili til að senda slíka umsókn er eftirlifandi maki eða foreldrar, ef um barn dáið innan 18 ára aldurs er að ræða, eða systkin. En svo segir líka: „Einnig er kirkjugarðsstjórn rétt að senda slíka umsókn, ef nánir ættingjar hins látna eru ekki lífs eða ef samþykki þeirra liggur fyrir.“ Þarna getur kirkjugarðsstjórn af einhverjum ástæðum óskað eftir því, að farið sé að flytja til líkin, kannske innan kirkjugarðsins, kannske í annan kirkjugarð. Þó að ekki séu neinir nánir ættingjar manns á lífi eða ekki náist til þeirra, þá finnst mér ákaflega hæpið að leyfa slíkt, og það verður að vera einhver brýn nauðsyn til slíkra flutninga, ef það á að eiga sér stað.

Ég vil nú ekki nefna fleira, en ég vænti þess, að hv. frsm. þessa máls taki til velviljaðrar athugunar þessar ábendingar og beiti sér þá fyrir því að flytja um það brtt. við 3. umr. málsins, ef n. getur fallizt á einhverjar þeirra. En hitt vil ég að lokum endurtaka, að nauðsyn á því að setja lög um kirkjugarðana er mikil, og jafnvel þó að ýmsir agnúar kunni að vera á frv., mundi ég vilja fylgja því samt í þeirri von, að síðar tækist að nema þá af. En bezt er að ganga svo til verks, að frv. sé sem ýtarlegast og sanngjarnast og réttlátast, svo að ekki þurfi að hrófla við slíkri löggjöf eftir skamman tíma.