28.02.1963
Efri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1509 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

147. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf. hefur hreyft hér ýmsum aths. við frv. Ég skal aðeins víkja örfáum orðum að nokkrum þessara aths. og einnig að fsp., sem hann beindi til n., svara þeim að svo miklu leyti sem ég hef þekkingu á frv. til að gera spurningunum skil.

Ég skal þá fyrst koma að aths. hans í sambandi við 4. gr. frv., sem fjallaði um skipulagsnefnd kirkjugarða. Fyrst spurði hv. þm., ef ég man rétt, hvort það væri ætlunin, að þessi nefnd væri launuð. Svo mun ekki vera. Þá þótti honum það ekki fyllilega eðlilegt, að safnaðarráð Reykjavíkurprófastsdæmis kysi mann í skipulagsnefnd kirkjugarða. Eins og fram kemur í grg. með frv., er það komið inn í þessa grein fyrir eindregin tilmæli kirkjuþings nú á s.l. hausti, að í n. bætist við tveir menn kosnir til 6 ára, annar af kirkjuþingi, hinn af safnaðarráði Reykjavíkurprófastsdæmis. Ég hef ekki fulla vitneskju um það, hvaða rök voru færð fyrir því á kirkjuþingi, einungis veit ég, að það var einróma ábending frá kirkjuþingi í þessa átt. Á kirkjuþingi eiga sæti fulltrúar bæði klerkastéttar og leikmanna víðs vegar af landinu. Ég veit ekki, hvort það getur hugsazt, að því valdi sú staðreynd, að langsamlega mest af því fé, sem kemur í kirkjugarðasjóð sem 5 % af álögðum kirkjugarðsgjöldum samkv. frv., muni koma héðan úr Reykjavík, og skipulagsnefndin er um leið sjóðsstjórn. Ég skal ekki um það fullyrða, hvort sú er ástæðan, en að sjálfsögðu mun unnt að hafa á takteinum nánari upplýsingar um þetta atriði málsins fyrir 3. umr. málsins.

Þá vil ég koma að því, sem hv. þm. nefndi í sambandi við fjáröflun til kirkjugarðanna., sem um ræðir í 26. og 27. gr. frv. Þó að þetta frv, feli í sér ýmsar breytingar frá gildandi lögum, þá má þó segja, að veigamestar séu þær, sem lúta að því að gera söfnuðunum auðveldara að halda sínum kirkjugörðum sómasamlega við og þá bæði með breyttu skipulagi, sem suðveldar viðhald, og með aukinni tekjuöflun. Í 26. gr. ræðir um kirkjugarðsgjald, sem samkv. gildandi lögum er einnig heimilt að leggja á. Nú er það svo, að eftir gildandi lögum er ekki ákveðið neitt lágmark kirkjugarðsgjalds. Hins vegar má það vera allt að 2% af álögðum útsvörum í sókninni. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir, að kirkjugarðsgjald verði 11/2 %, það sé aðalreglan, og það er heimild til þess að fara með þetta allt upp í 4% af álögðum útsvörum og aðstöðugjöldum, eins og komið er inn í frv., — fara með það allt upp í 4% með samþykki tiltekinna aðila. Þarna stóreykst möguleiki kirkjugarðanna til tekjuöflunar heima í sóknunum.

Í þessari grein er, eins og hv. þm. vék að, einnig heimild til þess að fara lægra en í 11/2%, ef er hægt að sýna fram á það, að 11/2 % gjaldheimta mundi gera miklu meira en að mæta þörfum kirkjugarðsins, og það má segja, að það sé ekki eðlilegt að knýja kirkjugarðsstjórnir til þess að leggja á langtum hærri kirkjugarðsgjöld en þörf er fyrir á staðnum. En það að um leyfi til þess að fara niður fyrir 11/2 % þarf að sækja til annarra aðila eða til rn., en ekki einungis til safnaðarfundar og sveitarstjórnar á staðnum, það er með vilja gert, til þess að kirkjugarðsstjórnirnar hafi sem mest aðhald um að fara alla vega ekki neðar í gjaldheimtunni en svo, að það samsvari því, sem má telja eðlilega fjárþörf fyrir kirkjugarðinn. Þetta fléttast líka nokkuð saman við ákvæðin í 27. gr., þar sem 5% af álögðum kirkjugarðsgjöldum eiga að renna í kirkjugarðasjóð. Þá má segja, að það sé líka eðlilegt að vera á verði um hagsmuni hans að því leyti, að ekki sé farið lægra í gjaldheimtu err sanngjarnt og eðlilegt sé.

Hv. þm. spurði, hvað ætla mætti, að tekjur kirkjugarðasjóðs yrðu samkv. frv. Það er auðvitað mjög erfitt að segja ákveðið um það, vegna þess að 11/2% gjaldheimta er alls ekki rígskorðuð, heldur má búast við, að sumar kirkjugarðsstjórnir fari hærra, það er gert ráð fyrir, að það geti orðið allt upp í 4%, og aðrar fái leyfi til þess að lækka sig niður fyrir 11/2 %. En samkv. upplýsingum hafa samanlögð útsvör á öllu landinu árið 1961, — nýrri tölu hef ég ekki getað fengið, — numið um 474 millj., eða sem sé tæpum 500 millj., og ef maður reiknaði með því, að yfirleitt yrði notað 11/2 %, eins og lögin gera ráð fyrir sem aðalreglu við gjaldheimtuna, þá yrðu þetta eitthvað á 8. hundrað þús., eitthvað yfir 700 þús. kr. á ári. Auk þess kæmi svo 100 þús. kr. framlag frá ríkissjóði árlega.

Þá vék hv. þm. að heimagrafreitunum. Ég skal ekki fara að ræða það atriði með mörgum orðum, en vil einungis taka það fram, að ég býst ekki við, að n. flytji brtt. í þá átt, að fellt verði niður bannið við upptöku heimagrafreita, sem frv. fjallar um. Um rök fyrir því ákvæði vísa ég til grg., sem frv. fylgir.

Eins og ég áður hef sagt við þessa umr., mun menntmn. hafa frv. til athugunar milli umr., og auk þess atriðis, sem ég þá gat um, að n. mundi sérstaklega hafa til yfirvegunar, þá mun hún að sjálfsögðu einnig ræða þær ábendingar, sem fram hafa komið undir þessari umr., og þær brtt., sem fram kynnu að koma milli umræðna.