21.03.1963
Efri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1517 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

147. mál, kirkjugarðar

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. formaður menntmn. og frsm. þessa máls hefur lýst skoðun sinni á þessum brtt. mínum og er andvígur þeim öllum.

Um 1. till., þ.e. um skipulagsnefnd kirkjugarða, taldi hv. þm., að ég hefði ekki farið rétt með, þar sem ég hefði nefnt Reykjavíkursöfnuð. Ég held, að ég hafi nefnt safnaðarráð

Reykjavíkur, eins og stendur líka í frv. Það er rétt, að það er meira en Reykjavík, það er Kópavogur og Seltjarnarnes, en þetta er Reykjavíkurprófastsdæmi, og þetta er eina prófastsdæmið í landinu, sem fær að skipa fulltrúa í þessa stjórn kirkjugarða. Engin önnur prófastsdæmi fá þennan rétt. Þetta er þó staðreynd. Og það er þetta misrétti og það smekkleysi, sem mér finnst felast í þessu, sem ég kann afar illa við. Því fá ekki önnur prófastsdæmi þá alveg eins þennan sama rétt? Hv. þm. gerði enga aths. aftur á móti við hitt, sem ég nefndi, að það væri ekki hægt að rökstyðja þetta með framlagi til kirkjugarðasjóðs, þar sem er sama regla um allt land.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið eftir einróma samþykkt kirkjuþings, að þetta hefði verið sett þannig í frv. Ef það er svo, þá held ég, að kirkjuþing þurfi ekki að kvarta, ef það sjálft fær að kjósa manninn í staðinn. Getur það þá ekki kosið hvern sem það vill og úr hvaða söfnuði sem er? Ég skil ekki, að það fari mikið í bága við óskir kirkjuþings, að það sjálft kjósi manninn, fyrst það vill verða við óskum þessa prófastsdæmis.

Um 2. brtt., hvað snertir heimagrafreitina, er ekkert að segja. Hv. þm. er andvígur heimagrafreitum, vill ekki hafa þá. En mér finnst ágalli á hjá þeim, sem vilja ekki hafa þessa heimagrafreiti, að þeir skuli þá ekki leggja hreinlega til, að þessir gömlu og vanhirtu og vansæmandi grafreitir verði þurrkaðir út. Það er ekki gert. Það eru hins vegar möguleikar til þess eftir minni till. Og sú breyt., sem hv. n. flytur um þetta, felst í minni till. Þó að mín till. væri samþ., þá væri ekki hróflað við þeirri breyt., sem hv. n. flytur. Sá eini munur, sem er á þessum tveimur till., er annars vegar, að óheimilt sé að leyfa heimagrafreit áfram, hins vegar, að heimild samkv. minni till. er beitt til að afnema þá, ef þeim er ekki haldið í viðunandi ástandi, en það felst ekki í frv.

Um 3. till. sagði hv. frsm., að hann vissi að vísu ekki til þess, að nefnd hefðu verið nein önnur dæmi en ég nefndi í minni brtt., sem sönnuðu það, að kirkjugarðsstjórn þyrfti að fá heimild til að flytja til lík. Ég býst við, að það verði dálítið erfitt að finna önnur dæmi. Hv. þm. sagðist treysta þessum yfirvöldum til þess að misnota þetta ekki. Það get ég líka gert, ég get treyst þeim til þess. En það er ekki víst, að mönnum í framtíðinni þyki það nokkur misnotkun á heimildinni, þó að það séu flutt til lík. Hvað getum við sagt um það, hvort kirkjugarðsstjórn, sem situr eftir nokkra áratugi, kann ekki að líta svo á, að slíkt sé sjálfsagður hlutur og þurfi ekki að snerta neinn, þar sem allir nánir ættingjar eru löngu fallnir frá? Þrátt fyrir það er ég á móti slíku. Það hefur ekki komið fram í umr. nokkur önnur átylla til þessarar heimildar en þær, sem ég nefni í minni till., og þess vegna vil ég einskorða heimildina við það og sé enga nauðsyn að hafa þetta víðtækara, meðan menn geta ekki fundið neina átyllu til þess að veita þessa heimild umfram það, sem ég legg til.