25.03.1963
Neðri deild: 59. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

147. mál, kirkjugarðar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Ed. Ég vil þegar nú við 1. umr. gera nokkrar aths. við það.

Það er fyrst 4. gr. frv. Þar eru fyrirmæli um stjórn kirkjugarðanna. Samkv. frvgr, á að setja á fót nefnd, sem nefnist skipulagsnefnd kirkjugarða og á að hafa yfirumsjón með kirkjugörðum landsins. Í henni eiga sæti samkv. frvgr. biskup Íslands, húsameistari ríkisins og þjóðminjavörður og til viðbótar þeim þremur einn maður kosinn af kirkjuþingi og annar af safnaðarráði Reykjavíkurprófastsdæmis. Ég verð að segja, að það er mjög óeðlilegt, að safnaðarráð eins prófastsdæmis kjósi mann sérstaklega í landsstjórn kirkjugarðanna. Mér sýnist, að það væri nóg að hafa þetta þriggja manna stjórn og væru þá í henni þeir þrír, sem fyrst eru taldir í greininni, þ.e.a.s. biskupinn, húsameistari ríkisins og þjóðminjavörður. Ef mönnum hins vegar þykir þetta of fámenn stjórn, þá mættu þeir vitanlega vera fimm, en þá tel ég, að kirkjuþingið ætti að kjósa hina tvo.

Næst er það 18, gr. frv. Þar segir, að kirkjugarðsstjórn geti falið kirkjugarðsverði að taka allar grafir í garðinum gegn ákveðnu gjaldi o.s.frv., og enn fremur segir í þessari grein, að lögmætur safnaðarfundur geti veitt kirkjugarðsstjórn einkaheimild til þess að nota líkvagn við jarðarfarir gegn hæfilegu gjaldi. Hvers vegna að stofna þarna til einokunar? Ég sé enga þörf á slíku, og ég tel þetta óeðlilegt ákvæði.

En það, sem ég tel þó aðfinnsluverðast við þetta frv., er ákvæði 28. gr. þess. Það tel ég langaðfinnsluverðast. Í þeirri grein segir, að eigi megi veita leyfi til upptöku heimagrafreita. Með þessu tel ég of nærri höggvið frelsi manna og það algerlega að óþörfu: „Hún elskaði ekki landið, en aðeins þennan blett,“ svo sagði Guðmundur skáld á Sandi í kvæði sínu um Ekkjuna við ána. Það eru fleiri en hún; sem elska ákveðna bletti, þar sem þeir vilja leggjast til hinztu hvíldar. Og hverjum er slíkt til tjóns? Það er engum til tjóns. Þá er hægt að setja í lög fyrirmæli um viðhald heimagrafreita á sama hátt og almenningskirkjugarða. Verði misbrestur á því, má leggja grafreitina niður. Um þetta efni kom fram brtt. í Ed. frá hv. 4, þm. Vestf., en hún náði ekki samþykki þar.

Já, dýrt er landið. Samkv. þessu frv. eiga menn ekki að fá grafarstæðið, 3 fermetra að stærð, í verkalaun eftir ævidaginn án milligjafar. Menn eiga að borga kirkjugarðsgjald allhátt, meðan þeir bíða eftir því að fá þennan litla reit handa sér. Við því er ekki mikið að segja, því að kostnaður er af viðhaldi legstaða eins og við flest annað hér í veröldinni. En það er sannarlega hart, að menn fái ekki að ráða því, hvar þeim verður mældur út þessi litli reitur, sem þeir hafa verið að vinna fyrir allt sitt líf.

Löggjöf landsins á ekki að leggja óþarfa fjötra á menn, eins og stefnt er að með þessu frv. Þann einokunar- og frelsisskerðingaranda, sem birtist í frv., á að kveða niður, en samþykkja það síðan. Ég vil beina því til þeirrar þn., sem fær málið til athugunar, að athuga þau ákvæði frv., sem ég hef nefnt, og alveg sérstaklega vil ég skora á hv. n. að gera till. um breytingu á 28. gr. þess. Þar á að setja ákvæði um, að menn megi kjósa sér legstaði að lokinni ævi.