09.04.1963
Neðri deild: 68. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1521 í B-deild Alþingistíðinda. (1631)

147. mál, kirkjugarðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. í 5. gr. frv. á þskj. 268 stendur svo, með leyfi hæstv, forseta: „Þar, sem kirkja er ekki í kirkjugarði, leggur sveitarfélag veg frá henni til kirkjugarðs og heldur honum akfærum. Enn fremur leggur sveitarfélag til ókeypis hæfilegan ofaníburð í götur og gangstíga kirkjugarðs, ef þess er krafizt.“ En í næstu málsgr. stendur: „Í kaupstöðum og kauptúnum sér sveitarfélag fyrir nægilegu vatni til vökvunar blóma og trjágróðurs í kirkjugörðum.“

Ég vildi í sambandi við þetta benda á það, að það er þó nokkurs staðar á landinu, þar sem vegir frá kirkju til kirkjugarðs eru þjóðvegir eða sýsluvegir, og ég geri ekki ráð fyrir, að þetta ákvæði 5. gr. afnemi skyldu þeirra aðila til þess að halda við þeim vegum, þó að þetta verði samþ. Ég tel, að það sé kannske nægilegt, ef hæstv. ráðh. vildi lýsa því yfir, að til þess sé ekki ætlazt, eða ég skyti því til n., hvort nauðsynlegt sé að breyta þessu ákvæði. Ég þekki þó nokkra staði, þar sem kirkjugarður liggur svo fjarri kirkju, en á milli þessara tveggja staða eru annaðhvort þjóðvegir eða sýsluvegir, og er náttúrlega ekki eðlilegt að taka þá kvöð af ríkinu eða sýslufélögunum að halda þeim vegum við. Ég veit ekki, hvað átt er við hér, að sveitarfélagið skuli sjá fyrir nægilegu vatni, hvort það sé meiningin, að sveitarfélagið á að leggja vatnsleiðslur frá þeim stað, þar sem næst er hægt að ná í vatn á sinn kostnað, og hygg ég, að sú kvöð geti orðið allþung. Ég vil m.a. benda á, að ef þetta ætti að gerast í Suðurfjarðahreppi, þá mundi það kosta allmikið fé að leggja frá síðasta húsi í hreppnum til kirkjugarðsins nýjar vatnsleiðslur. Ég vildi gjarnan biðja hv. n. að athuga það atriði.

Þá segir hér í 15. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Eigi má setja girðingar úr steini, málmi eða timbri um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. Eigi má gera grafhýsi í kirkjugarði.“ Nú er vitað, að þetta hefur verið gert í stórum stíl. Er það hugsun n. og er það hugsun Alþingis að banna mönnum að girða þannig af leiði og er þá ekki rökrétt afleiðing af því að rífa niður allar þær girðingar, sem fyrir eru í kirkjugörðum? Mér finnst, að hér sé gengið ákaflega nærri tilfinningum ættingja, ef þeir mega ekki á einn eða annan hátt, eins og venja hefur verið til, afmarka leiðin með einstökum girðingum, hvort heldur er úr steini eða járni. Ég hef að vísu séð í einum kirkjugarði hér á landi, að þeir hafa verið á undan hv. menntmn. í þessu atriði, því að þeir hafa sópað svo að segja öllum girðingum í burtu og jafnvel minnismerkjum og hent því í eina hrúgu út fyrir kirkjugarðinn. En ekki sýnist það vera skemmtilegt fordæmi, og öllum þeim umfarendum, sem fara um þann merka kirkjustað, hefur þótt það heldur kaldranalegt að sjá minnismerkjum fyrri alda manna safnað saman þar í eina hrúgu. En mér skilst, að það sé nokkuð sama leið, sem verið er að fara í þessu sambandi.

Ég vænti þess, að hv. menntmn. taki þetta til athugunar og athugi, hvort ekki sé hægt að breyta þessu, áður en málið fer út úr þessari hv: deild.