10.04.1963
Neðri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1522 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

147. mál, kirkjugarðar

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég gerði aths. við þetta frv. þegar við 7.. umr. þess hér í hv. d., og í samræmi við þær aths. hef ég leyft mér að bera fram tvær brtt. á þskj. 634.

Fyrri brtt. er við 4. gr. frv. Ég legg til, að 1. mgr. þeirrar gr. verði umorðuð, en þar er ákvæði um yfirumsjón með kirkjugörðum. Sú breyt., sem ég vil gera á þeirri mgr., er þess efnis, að 2 af 5 mönnum í stjórn kirkjugarðanna verði kosnir af kirkjuþingi til 6 ára í senn. Hinir 3 samkv. frvgr., sem ég vil hafa óbreytta að því leyti, eru biskup Íslands, húsameistari ríkisins og þjóðminjavörður. En eins og gr. er núna, er gert ráð fyrir því, að einn maður verði kosinn af kirkjuþingi og annar af safnaðarráði Reykjavíkurprófastsdæmis. Mér finnst það óeðlilegt, að safnaðarráð eins prófastsdæmis á landinu kjósi mann í yfirstjórn allra kirkjugarða landsins. Ég tel eðlilegra, að þessir tveir til viðbótar embættismönnunum séu kosnir af kirkjuþingi.

Hin brtt. er um umorðun á 28. gr. frv., en í þeirri grein segir, að eigi megi veita leyfi til upptöku heimagrafreita. Ég legg til, að gr. verði orðuð þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er ráðh. að veita leyfi til að taka upp heimagrafreiti. Nú óskar einhver að taka upp heimagrafreit á jörð sinni fyrir sig og vandamenn sína, og sendir hann þá beiðni um það til biskups. Beiðninni skal fylgja uppdráttur af reitnum með fyrirhugaðri girðingu ásamt vottorði hreppstjóra eða tveggja skilríkra manna um það, að staður sé vel valinn. Biskup leggur síðan beiðnina með fskj. fyrir rn. ásamt till. sínum. Heimilt er biskupi að banna greftrun í heimagrafreit, sé viðhaldi hans og hirðingu ábótavant að dómi sóknarnefndar eða umsjónarmanns kirkjugarða. Sé ekki bætt úr að liðnum hæfilegum fresti, er biskupi heimilt að láta leggja grafreitinn niður. Leyfishafar heimagrafreits greiði sem aðrir til sóknarkirkjugarðsins, enda er þeim heimilt leg í honum.“

Þessi síðasta mgr. er tekin orðrétt upp úr frvgr., eins og hún nú er. Eg skal benda á það, að þessi ákvæði, sem ég legg til, að verði hér sett í lög, eru efnislega tekin úr gildandi lögum. Þau eru í lögum þeim, sem nú gilda um kirkjugarða frá 1932. Þar er þessi heimild handa ráðh. til að veita leyfi til að taka upp heimagrafreiti. Ég tel ekki rétt að láta þá heimild falla niður, en mér finnst of mikil þröngsýni birtast í frvgr., eins og hún nú er, og ég tel það vera spor aftur á bak, ef heimildin, sem verið hefur í lögum til þess að hafa heimagrafreiti, er niður felld. Landrými er nóg hér á landi. Grafarstæði hvert er aðeins þrír fermetrar, og mér finnst, að menn eigi að fá að ráða því, hvar þeir fá þennan litla reit, sem þeir hafa verið að vinna fyrir allt sitt líf. Frelsið er orðið lítið, ef menn mega ekki ráða slíku, og ég tel, að það sé engum til tjóns, að menn fái að kjósa sér legstað.