10.04.1963
Neðri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1525 í B-deild Alþingistíðinda. (1637)

147. mál, kirkjugarðar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er misskilningur, að nokkur óeðlilegur hraði sé á afgreiðslu þessa máls. Ég hygg, að þetta sé a.m.k. þriðja skipti, sem frv. er lagt fyrir Alþingi og í meginatriðum óbreytt. Nokkrar breytingar hafa verið á því gerðar nú frá því, sem áður var, er þingið fjallaði um málið í fyrra. Það komst þá að vísu einungis til hv. Ed., en þar var málið nokkuð athugað í nefnd, og nú kom það snemma þings fyrir hv. Ed. og hefur verið þar alllengi til meðferðar og hlaut þar rækilega athugun í nefnd. Það er að vísu ekki mjög langt síðan það kom hingað, en það er ekki neitt sérstakt um þetta frv. Það hefur verið til athugunar hjá þm., eins og ég segi, þing eftir þing og menn átt fullan kost á því að kynna sér efni málsins.

Ásökun í þá átt, að það sé verið að hraða málinu eða knýja það fram með óeðlilegum hætti, fær ekki staðizt. Hitt skal ég játa, að þetta er tilfinningamál hjá mönnum og eðlilegt, að sitt sýnist hverjum. Ég skal einnig játa, að ég hef ekki svo ákveðnar skoðanir á því, hvernig með lík eigi að fara, að ég ætli að blanda mér í þær umr. Málið var flutt af n. vegna þess, að mér fannst eðlilegra, að till. kirkjuþings kæmi þá leið, heldur en ríkisstj. gerði málið beint að sínu máll. Mér stendur nokkuð á sama, hvað við mig verður gert, þegar ég er dauður, og vil þess vegna sem minnst blanda mér í, hvað við aðra verður gert.

En að með frv. sé verið að skerða persónufrelsi manna hér úr hófi, finnst mér nokkuð mikið sagt. Ég skil ákaflega vel till. hv. 1. þm. Norðurl, v., sem vill halda heimagrafreitum. Þetta hefur áður verið viðtekið, báðir þekkjum við mál, þar sem gömlum manni var það mikið áhugamál að fá heimagrafreit, þar sem hann hafði lengi búið. Þannig vitum við, að um ýmsa er. Kirkjustjórn aftur og kirkjuþingi er þetta mjög á móti skapi og telur reynsluna vera þá, að menn koma að vísu upp þessum heimagrafreitum, en þeim sé lítt við haldið og verði til leiðinda, þegar fram liða stundir. Þess vegna er lögð rík áherzla á það, sérstaklega af herra biskupnum, og ég hygg raunar af kirkjuþingi, a.m.k. meiri hl. þess, að sett verði algert bann við heimagrafreitum, og víst er það mun þægilegra fyrir kirkjumrn. að fá þá heimild afnumda, sem nú er í lögum. Þegar kirkjustjórnin, þ.e.a.s. biskup, er því andvigur og leggur á móti því, að þessi leyfi verði veitt, þá er viðbúið, að það verði meira eftir áróðursdugnaði þeirra, sem þetta vilja fá hverju sinni, heldur en málefnum, hvort leyfi endanlega fáist eða ekki.

Það, sem hv. 1. þm. Vestf. sagði, að það væri bannað að hirða um leiði, finnst mér mjög ofmælt. Það er sízt bannað að hirða um leiði, þó að ekki sé leyft að gera einkagirðingar innan kirkjugarða. Ekki fær staðizt, að það verði til þess, að traðkað verði á leiðum. Ætlunin er einmitt að búa þannig um kirkjugarða, að þeir verði vel girtir og skipulagðir með þeim hætti, að öll hvöt hverfi til þess að traðka á leiðum, þeir verði skipulagðir með plöntum og gangstígum og búið svo um leiði, að auðséð sé, hvar þau eru, og þá hverfur ástæðan til þess að hafa þessar girðingar um hvert einstakt leiði. Og þó að ég viðurkenni, að hér eins og ella varðandi þetta mál sé mikið um að ræða smekk og tilfinningu hvers einstaks, finnst mér sjálfum, að girðingar innan kirkjugarða séu hvimleiðar, það fari bezt á því að hafa þetta sem látlausast og búa jafnt um alla — eða sem jafnast um alla þá, sem látnir eru. En vitanlega geta aðstandendur jafnt eftir sem áður hirt um leiði sinna ástvina, þó að þeim sé ekki heimilað að setja um þau rammbyggilegar girðingar.

Sjálfur verð ég að segja, að mér fyndist það mjög óskemmtileg varðveizla á leifum látins ástvinar að hafa krukku með honum standandi í heimahúsum eða annars staðar en á þeim stað, sem sérstaklega er til þess ætlaður, og ég verð að játa, að mér finnst hinum jarðnesku leifum hvergi betri staður fundinn en einmitt í kirkjugarði.

Við hinu verður vafalaust ekki amazt, ef einhver kýs það heldur, að ösku verði dreift úti á víðavangi, vatni eða á sjó. Þetta hefur verið gert. Hv. þm. minntist á einn látinn heiðursmann og sagði, að hann hefði látið setja krukku með sinni ösku inn í stein. Ég hygg, að þetta sé misskilningur, að hann hafi einmitt lagt svo fyrir, að ösku sinni yrði dreift út yfir vatn og síðan hafi nafn hans verið höggvið á stein í nágrenni við þann stað, þar sem þeir stóðu, sem öskunni dreifðu. Ef menn vilja setja inn slíka heimild til dreifingar ösku, þá er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu, en eins og ég segi, við því yrði áreiðanlega aldrei amazt, að sá háttur yrði hafður á. En ef á að halda hinum jarðnesku leifum til haga, hvort heldur það er aska eða sjálfur líkaminn, þá segir mín tilfinning, að það sé bezt komið í kirkjugarði og sé því ekki ástæða til þess að fella niður það ákvæði frv., sem mælir fyrir um þá meðferð.