12.02.1963
Neðri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1527 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

140. mál, sala tveggja eyðijarða í Árskógshreppi

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt skv. beiðni hreppsnefndar í Árskógshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Jarðir þær, sem ræðir um í frv., eru fyrir löngu komnar í eyði og mjög litlar líkur og raunar engar til þess, að þær byggist að nýju. Það er þó ekki eingöngu vegna þess, að hér hafi verið um svo lélegar bújarðir að ræða á sinni tíð, því að jarðir þessar voru allvel setnar fyrr á árum að þeirrar tíðar hætti. En nú er langt um liðið og miklar breytingar hafa átt sér stað í búskaparháttum, svo sem alkunna er, og voru þessar jarðir komnar í eyði, áður en gæta tók áhrifa nýrrar búskapartækni. En jarðir þessar, Hrafnagil og Grund, eru í svonefndum Þorvaldsdal, sem skerst í suður frá Árskógsströnd að baki meginfjallsins á vesturströnd Eyjafjarðar. Er Þorvaldsdalurinn í raun og veru langt og mjótt skarð, sem opnast að sunnan fyrir ofan Dagverðartungu í Hörgárdal, en meginhluti Þorvaldsdals hefur frá öndverðu verið afréttarland og vissulega sótt æ meir í það horf, eftir að jarðirnar í norðanverðum dalnum fóru í eyði.

Eins og segir í grg., er nú aðeins búið á einum bæ í Þorvaldsdal, þ.e.a.s. Kleif, yzta bænum í dalnum. Í dalsmynninu eða þar rétt utan við eru svo Brattavellir, en sú jörð getur varla talizt til Þorvaldsdals, enda yfirleitt talin til Arskógsstrandar, sem eðlilegt er. Þorvaldsdalur er því að langmestu leyti kominn í eyði og þróunin orðið sú, að hann hefur nær allur verið notaður sem afrétt undanfarna áratugi. Er þar gott beitiland viðast og Árskógsströndungum því mikilvægur afréttarauki. Miðað við þessa þróun og alla staðhætti er eðlilegt, að Árskógshreppur eignist eyðijarðir þessa dals. Hreppurinn hefur þegar keypt Kúgil, sem er syðst af Þorvaldsdalsjörðum, og lagt undir afrétt sína, en sú jörð var í einkaeign, og nú er það ósk hreppsins að fá keyptar af ríkinu þessar eyðijarðir, Grund og Hrafnagil.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þetta mál, enda skýrir það sig að mestu sjálft. Ekki þarf að óttast, að með sölu þessara jarða sé verið að fara inn á nýjar brautir, því að nær árlega hefur Alþingi samþykkt að selja eyðijarðir, þegar líkt hefur staðið á sem hér um ræðir. Það er að vísu ekki sársaukalaust að verða vitni slíkrar þróunar í byggðamálum sem hér hefur orðið, en jafngagnlaust er að berja höfðinu við steininn og horfa fram hjá óvefengjanlegum staðreyndum. Eins og nú horfir, mun Þorvaldsdalur bezt verða nýttur sem afrétt, og því eðlilegt að sá hreppur, sem mesta hagsmuni hefur af þeirri nýtingu, eignist umræddar eyðijarðir og fái þannig óskoraðan yfirráðárétt þeirra gagnsmuna, sem þessar jarðir búa enn yfir.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að gera það að tillögu minni, að málinu verði nú að lokinni þessari umr, vísað til 2. umr: og hv. landbn.