18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1647)

140. mál, sala tveggja eyðijarða í Árskógshreppi

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Landbn. hefur haft mál þetta til meðferðar og athugunar og sendi það til umsagnar, bæði jarðeignadeildar ríkisins og landnámsstjóra. Ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þessar umsagnir þeirra stofnana, sem við vísuðum málinu til. Það er þá fyrst umsögn jarðeignadeildarinnar, dags. 2. marz 1963:

„Ráðuneytinu hefur borizt til umsagnar frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijarðirnar Hrafnagil og Grund í Árskógshreppi. Jarðir þessar hafa verið í eyði síðan á árinu 1925 og hverfandi líkur til, að þær byggist aftur. Lönd jarðanna hafa verið nýtt sem afréttarlönd fyrir baendur Árskógshrepps. Þeim afnotum geta bændur hreppsins haldið, þó að jarðirnar v erði ekki seldar. Hins vegar eru mörg fordæmi fyrir því, að eyðijarðir hafi verið seldar sveitarfélögum samkv. heimildarlögum frá Alþingi. Þar sem engar sérstakar ástæður liggja til þess, að ríkissjóður verði áfram eigandi jarðanna, getur jarðeignadeildin fallizt á, að sala þeirra verði heimiluð til hreppsnefndar Árskógshrepps.

F. h. ráðherra, Sveinbjörn Dagfinnsson.“

Og svo er hér einnig umsögn landnámsstjóra:

„Reykjavík, 26. febrúar 1963.

Með bréfi, dags. 19. febrúar 1963, hefur hv. landbn. Nd. Alþingis sent hingað til umsagnar frv. til I. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja tvær eyðijarðir í Arskógshreppi. Frv. er mál nr. 140, þskj. 250. Jarðir þær, sem um ræðir í frv., eru Hrafnagil og Grund í Þorvaldsdal.

Jörðin Hrafnagil hafði á sínum tíma tún 1.9 ha. Jarðabækur telja jörðina engjalausa, og ræktunarskilyrði austan megin í Þorvaldsdal eru því nær engin. Engin hús hafa verið á jörð þessari frá því 1922, en þá stóðu uppi torfkofar þar.

Grund var á sínum tíma 20 hundraða jörð. Sú jörð hafði 5 ha. tún og hefur nothæf ræktunarskilyrði. Þessi jörð féll í eyði rétt fyrir 1930. Allur húsakostur jarðarinnar er fallinn 1942.

Vegasamband til jarða þessara er ekki fyrir hendi. Frá þjóðvegi að Hrafnagili eru 6 km, en 4,3 km að Grund. Ég tel ekki ástæðu til, að eyðijarðir í Þorvaldsdal verði endurbyggðar, og land dalsins er skynsamlegast að nota sem afréttarland og sumarhaga, því að snjóþungt er í dalnum. Samkv. þessu mæli ég með, að Árskógshreppi séu seldar báðar þessar jarðir.

Virðingarfyllst,

Pálmi Einarsson.“

Nál. landbn. er á þskj. 353, og mælir n. eindregið með því, að frv. verði samþykkt.