08.11.1962
Neðri deild: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (166)

6. mál, almannavarnir

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl., 4. landsk. þm., hóf framsöguræðu sína hér á því að lýsa mig ósannindamann að þeim ummælum mínum í framsöguræðu minni, að hv. 3. þm. Reykv. og flokksmönnum hans hefði sýnilega snúizt hugur í afstöðu sinni til varnarmálanna frá því 1941, því að þá hefði þeim ekki þótt nægilega langt gengið í því að treysta varnirnar, en nú vilja þeir draga úr öllum vörnum og opna allar gáttir, svo að vinirnir frá austri eigi hægara með að gera innrás í landið og ná þar yfirráðum. Skoraði hann á mig að leggja fram gögn á borðið til sönnunar þessum ummælum og spurði: Hvar er að finna tillögur okkar til þess að draga úr vörnunum? Ég hefði haldið, að jafnskýrum manni og hv. 4. landsk. gæti varla yfirsézt sú staðreynd, að hann í nál. á þskj. 85 leggur sjálfur öll þessi gögn á borðið og undirstrikar síðan þessar tillögur sínar og flokks síns svo að segja í hverju orði í hinni löngu ræðu sinni, sem að vísu var að meginefni til upplestur úr nál., sem nýlega hafði verið útbýtt í d., og það svo, að hæstv. forseta þótti tilefni gefast til þess að minna hv. frsm. á, að það væri hvorki þinglegt né venja hér að lesa upp þskj., sem útbýtt væri og þm. hefðu fyrir framan sig.

En einmitt þetta, að hv. 4, landsk. er það ekki ljóst, hvað hann sjálfur skrifar og talar um í þessu nái., sýnir ljósast, hvernig sefjun að austan er alger og bæði hann persónulega og flokkur hans því algerlega ódómbærir á þessa hluti, enda augu þeirra harðlokuð fyrir þeim hættum, sem landi og þjóð eru búnar, ef fallizt yrði á till. þeirra í varnarmálunum. Í nál. á þskj. 85 segir hv. frsm. minni hl., orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Lög um almannavarnir, sem væru pappírsgagn eitt, eru verri en ekkert. Slík lagasetning gerir varnarblekkinguna aðeins enn grófari og ódrengilegri.“

Og enn fremur segir í nál.:

„Auk alls þessa er nú augljóst mál, að engin alvara er hjá stjórnarvöldum landsins með framkvæmd almannavarna. Embætti hefur að vísu verið stofnað og ein milljón tekin á fjárlög, en það er líka allt og sumt. Getur nokkur maður talið, að þetta skapi þjóðinni öryggi?“

Ef þessi ummæli hv. frsm. minni hl. væru forsenda fyrir kröfu um meira framlag til varnanna og til betra skipulags á varnarmálunum, eins og auðsætt er að ummæli hv. 3. þm. Reykv. voru, þegar varnarmálin voru til umr. 1941 hér í þessari hv. d., þá væru ummæli mín, sem hv. 4. landsk. vildi mótmæla, ekki á rökum reist. En öllum hv. alþm. hlýtur að vera ljóst, og hv. frsm. minni hl. og flokkur hans er þar engin undantekning, að þessi orð eru ekki forsenda fyrir kröfu um meiri eða traustari varnir, heldur eru þau svo að segja, eins og öll ræða hv. þm. ber vitni um, beinlínis sögð til þess að reyna að sanna, að frv., sem hér er til umr. og þó gengur miklu lengra í að treysta almannavarnir en gildandi lög, sé pappírsgagn eitt og verra en ekkert, gróf og ódrengileg varnarblekking, eins og hv. þm. orðar það svo smekklega í nál.

Eins og sjá má af till. hv. frsm. minni hl. til rökst. dagskrár á þskj. 85, telur hann og flokkur hans, ef marka má ræðu hv. þm., að eina örugga vörnin sé sú að vísa hernum í burtu frá Keflavíkurflugvelli og það tafarlaust og leggja þar niður allar stöðvar. Þegar þessu sé fullnægt, þurfi engar frekari varnir nema á styrjaldartímum og þá megi framkvæma varnirnar samkv. þeim fyrirmælum, sem í gildi eru. Gerir hv. 4. landsk. sér það ekki ljóst, að ef þessi till. yrði samþykkt óbreytt og hún síðan raunverulega framkvæmd, svo sem til er ætlazt, þá yrði stórlega dregið úr vörnunum? Þá ætti m.a. enginn varnarundirbúningur að fara fram, fyrr en styrjöld væri skollin á. Og þá yrði landið gersamlega varnarlaust fyrir hvers konar innrás, svo sem það var 1939. Eins og málum er komið í dag, er árásarhættan á Íslandi ekki frá vestrænum þjóðum. Ef hún er fyrir hendi, þá er hún aðeins frá Rússlandi og engu öðru heimsveldi. Rökst. dagskráin á þskj. 85 er skýrasta og ótvíræðasta sönnun þess, að ummæli mín um kommúnistana, að þeir vilja opna allar gáttir til þess að auðvelda vinum sínum frá austri innrás og yfirráð á Íslandi, eru hárrétt.

Ég tel það vel farið, að þessi mál séu rædd hér á Alþingi. Ég tel enn fremur, að það sé þjóðarnauðsyn að svipta þeim blekkingarhjúp af, sem kommúnistar og flokkur þeirra hylja nú með takmarkið í stefnu sinni. Það hefur dregizt of lengi að gera róttækar tilraunir til þess að opna augu þjóðarinnar fyrir þessari hættu. Þegar leiðtogar kommúnistaflokksins hér á landi fundu andúð fólksins á þeirri stefnu að innlima Ísland í heimskommúnistasambandið og stuðla þannig að yfirráðum alheimskommúnismans með yfirstjórn í Rússlandi, þá sáu þeir sér ekki annað fært en taka upp annað nafn á flokknum og láta breyta um stefnu. Þá er tekið upp nafnið Sameiningarflokkur alþýðu, Sósíalistaflokkurinn, og er þetta gert til þess að blekkja kjósendur, einkum þá, sem fylgdu Alþfl. að málum. Nú skyldi láta líta svo út, sem flokkurinn hefði að fullu skilið við fyrri stefnu sína og skyldi nú vinna íslenzkri alþýðu allt. Heimskommúnistarnir skyldu kasta fyrir róða og af sér brjóta öll bönd, sem tengdu áður flokkinn við rússneska hagsmuni og rússnesk áhrif. En er fólkið sá, að ekkert af þessu var efnt, og kurr fór að koma í liðið, var enn breytt um nafn. Nú skyldi flokkurinn nefndur Alþýðubandalag. Til tryggingar umskiptingu flokksins í trú og í verki skyldi innlima nokkra Alþfl.menn, svo sem hv. 4. landsk., gefa þeim forustu í flokknum, skyldu þeir síðan sverja af sér alla samvinnu við heimskommúnismann og sigla gjarnan undir þessu falska flaggi. En hvenær sem hagsmunir Rússlands og heimskommúnismans komu til umr. utan þings eða innan, varð eyrnamarkinu ekki leynt. Skýrast og bezt hefur þetta komið fram, þegar varnir Íslands hafa verið til umr., hvort heldur það hefur farið fram utan þings eða innan. Þá hrópa þeir hver öðrum hærra: Burt með herinn. Fjarlægið frá Keflavík allt, sem getur gefið upplýsingar um ófriðar- og árásarundirbúning Rússa. Opnið allar gáttir fyrir árásum. Burt með allar varnir. Lýsið hvarvetna yfir hlutleysi. Dragið hlutleysisfánann að hún í Keflavík, og hann mun reynast okkur traustari vörn en öll loftvarnabyrgi, hann mun bægja burt allri hættu og öllum ótta.

Eitt af þessum margendurteknu hrópum er að finna á þskj. 85, sem nú er hér til umr. Þarf þó ekki að fletta mörgum blöðum styrjaldarsögunnar til þess að sýna, að hlutleysisyfirlýsingar einar gefa enga vörn. Íslendingar óskuðu þess innilega að halda hlutleysi sínu í síðustu styrjöld. En hvernig fór? Er Bretar sáu sér hag í því að hernema landið, var því ekki slegið á frest. Það var ekki verið að spyrja um okkar vilja í því máli, og hefði landið ekki verið hertekið af þeim, þá hefðu Þjóðverjar hernumið það, svo þýðingarmikil er lega þess.

Þýðing landsins í hernaði er meiri nú en nokkru sinni áður. Vörn þess nú er því þýðingarmeiri en nokkru sinni fyrr. Allt hjal um, að hlutleysisyfirlýsingar bægi hættunum frá, er blekking ein, gersamlega ósamboðin menningarþjóð á borð við Íslendinga. Hlutleysi Norðmanna, Finna, Dana, Hollendinga, Frakka, Belgíumanna, Póllands og Eystrasaltslandanna var alls staðar brotið niður með hervaldi, þrátt fyrir alla friðarsamninga á milli þeirra og árásarríkjanna. Hlutleysi Svíþjóðar var ekki brotið, af því og af því einu, að það var verndað heima fyrir með gnægð vopna og gnægð vopnfærra manna. Og hlutleysi Íslands verður því aðeins verndað í næstu styrjöld, að hér séu nægilega sterkar varnir, sem óvinurinn teldi sig ekki hafa hag af að reyna að brjóta niður.

En dagskrártill. á þskj. 85 miðar sannarlega ekki að því að skapa hér slíkt öryggi. Allt er þetta hv. frsm. minni hl. og flokki hans vel ljóst. Öll ummæli þeirra um hið gagnstæða eru blekking ein, borin fram vísvitandi til þess eins að þóknast vinunum í austri. Það væri bæði mannlegt og drengilegt af þeim að kasta grímunni og játa hreinlega fyrir þjóðinni, að þannig er þetta. En til þess hafa þeir ekki þor, þeim óar við þeirri holskeflu af fyrirlitningu, sem mundi falla yfir þá, ef þeir viðurkenndu þetta fyrir alþjóð. Og þeir eru vissir um, að þeir sjálfir mundu farast í slíkri holskeflu.

Það er sjálfsagt öllum heimilt í lýðfrjálsu landi að hafa sína trú á mönnum og málefnum og það átelur það enginn út af fyrir sig, þótt einhverjir menn telji veröldinni bezt borgið undir stjórn alheimskommúnismans. Hitt er átöluvert, að telja mönnum, sem eru algerlega andvígir slíkri stjórn, trú um, að ákveðnar aðgerðir feli ekki í sér hættu á slíku einræði, sem sviptir menn sjálfræði, frelsi og oft fjöri, þegar því hefur verið komið á, og hamra svo á því sí og æ, að einmitt þetta sé til þess að treysta varnir gegn slíku ofbeldi. Það kann vel að vera, að sefjun þessara manna sé svo alger, að þeir sjái ekki hættuna, en sé svo, því þyngri skylda hvílir á okkur hinum, sem erum í engum vafa um, hvaða hætta er á ferðum, að berjast fyrir því af alefli að bægja þessari hættu frá.

Að lokinni síðustu heimsstyrjöld ól almenningur allra þjóða í heiminum þá von í brjósti, að nú væri öllum hörmungum styrjaldanna að fullu lokið. Nú skyldi setzt að samningaborði og samið um varanlegan frið á milli þjóðanna. Nú skyldu fangar leystir úr ánauð og sendir heim, hver til síns lands. Nú skyldi frelsi gefið öllum þjóðum, lýðræði verndað og mannréttindi viðurkennd. Nú skyldi stríðshætta bæld niður, hvar sem væri í heiminum, framleiðsla eyðingarvopna stöðvuð og friður tryggður öllum þjóðum. Til þess að koma þessu í framkvæmd fylktu þjóðirnar sér hver eftir aðra undir merki Sameinuðu þjóðanna, stofnunar, sem þær höfðu komið sér saman um að koma upp til þess að tryggja friðinn í heiminum. En hvernig hefur þáttur Rússa reynzt í þessu friðarstarfi? Engin þjóð hefur jafnoft og Rússar beitt neitunarvaldi gegn því að koma fram nauðsynlegum framkvæmdum til eflingar friðnum í heiminum. Engin þjóð hefur sem Rússar brugðizt skyldum sínum um fjárframlög til samtakanna, beinlínis til þess að lama aðstöðu þessarar stofnunar til þess að lægja ófriðaröldurnar. Engin þjóð braut svo skefjalaust mannréttindastefnuskrá Sameinuðu þjóðanna sem Rússar, því að vitað er, að enn halda þeir þúsundum manna í ánauð, sem samkv. mannréttindaskránni ættu að vera frjálsir ferða sinna. Þegar þessi staðreynd liggur fyrir, — og því verður ekki neitað, að hún liggur fyrir, — er þá ekki rétt, að við gerum okkur ljóst, hvers við megum vænta, ef það ætti fyrir okkur að liggja að komast undir yfirráð þessarar voldugu þjóðar. Við höfum reynt hersetu Breta í ófriði og síðan hersetu Bandaríkjamanna. Því neitar enginn, að við höfum orðið fyrir margvíslegum óþægindum, sem beinlínis stöfuðu af hersetunni. En hitt er alveg jafnvíst, að herseta í síðustu styrjöld fór í engu öðru landi jafnmildum höndum um þjóðirnar, sem við það urðu að búa, eins og hersetan hér á landi. Við höfum að styrjöldinni lokinni búið við hervernd Bandaríkjamanna, og þó að þetta hafi skapað nokkurn vanda, þá er sá vandi aðeins brot af þeim hörmungum, sem þær þjóðir verða enn að búa við, sem herseta er í frá Rússum. Enginn Íslendingur, sem ekki er blindur á þessi mál, mundi vilja skipta á þessum kjörum, sem þeir búa við, sem þannig voru settir, og hinum, er við höfum búið við öll þessi ár, sem deilan milli herveldanna hefur staðið. Og það er vegna þessara staðreynda, að Íslendingar vilja fúslega leggja töluvert að sér til þess að fyrirbyggja það, að þjóðir, sem daglega sýna slíka lítilsvirðingu mannréttindum, nái hér yfirráðum, hvorki í friði né í stríði. Allur sá fjöldi, sem er þeirrar skoðunar, krefst þess, að till. um rökst. dagskrána á þskj. 85 verði felld og frv. verði samþykkt.

Herra forseti. Okkur hv. þm. er veittur sá trúnaður að leggja fram hér á Alþingi prentuð þskj., sem öll eru síðan lesin upp í ríkisútvarpinu, svo að fólkið geti fylgzt með því, sem hér er að gerast. Í sumum þessum þskj. er sjálfsagt að finna einhvern keim af auglýsingum og áróðri fyrir ákveðnum stefnum og framgangi ákveðinna mála. En ég hygg, að það sé alveg einsdæmi, að í slíkum þskj. séu beinlínis borin fram bein ósannindi til að ófrægja pólitíska andstæðinga, eða óviðurkvæmileg orð eða setningar um þá, beinlínis til þess að fá þetta birt í útvarpinu, þar sem andstæðingurinn á engin tök á því að leiðrétta slík ummæli. En einnig hér á hv. 4. landsk. þm. met. Í nál. á þskj. 85, bls. 7, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Meiri hl. n. lagði mikið kapp á að hraða afgreiðslu málsins sem allra mest. Var ósk minni um, að hinn nýskipaði almannavarnastjóri, Ágúst Valfells, skyldi kvaddur á fund n. til að gefa upplýsingar um málið, fremur þunglega tekið í fyrstu, en þó var á það fallizt.“

Þessi ummæli eru bersýnilega sett fram í nál. til þess, að almenningur, sem á þau hlustar í útvarpi, fái þá skoðun á störfum þingsins, að minni hl. n. sé beittur slíku ofríki og honum sé neitað um upplýsingar í málum, áður en þau eru afgreidd. Nú veit hv. þm., að hann fer hér með algerlega rangt mál. Það voru aldrei borin fram nein mótmæli gegn því að kalla þennan mann á fund við nefndina, enda sýnir það sig, að allur sá fjöldi af spurningum, sem borinn var fram, þær voru ræddar í n. og það var gefinn nægur tími til þess að ræða þær og það alveg sérstaklega ákveðið að hafa tveggja klst. fund til þess að gefa þessum hv. þm. tækifæri til þess að spyrja eftir vild þann mann, sem ráðinn hafði verið.

Þá er einnig sagt á bls. 12 í nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Það, sem gerir Ísland líklegt skotmark í upphafi kjarnorkustríðs, er Keflavíkurflugvöllur. Um það verður ekki deilt. Það er því hersetan, sem leiðir bráðustu hættuna yfir þjóðina. Þetta vita núverandi valdhafar Íslands mætavel. Og þeir hafa samvizkubit af því að hafa leitt þessa tortímingarhættu yfir land og þjóð. Þess vegna segja þeir nú: Við viljum skapa þjóðinni öryggi. Við viljum setja upp víðtækt almannavarnakerfi. Við setjum lög, sem koma skulu í veg fyrir, að almenningur verði fyrir líkamstjóni. Við skulum sem sagt sjá ykkur borgið. En hér er farið með viðurstyggilegt fals og blekkingar.“

Ég hygg, að hér eigi hv. frsm. met, bæði í ósannsögli og ósmekklegu orðavali í þskj., sem birt er m.a. til þess að lesa upp í útvarpið.

Ég skal ekki eyða tíma hér í þessari hv. d. til þess að ræða eða svara ræðu hv. 3. þm. Reykv. (EOl). Öll ræðan var mjög prúðmannleg að undanteknu upphafinu. En það má segja, að hér sannist gamall málsháttur, að „sannleikanum verður sérhver sárreiðastur“. Hann hellti sér þar nokkuð yfir mig fyrir að hafa lýst starfsemi foringja kommúnistaflokksins hér á Alþingi, og sé ég ekki ástæðu til að vera að svara því persónulega og mun því ekki eyða tíma þingsins til þess.

Hvað snertir þær brtt., sem liggja fyrir hér, fyrst brtt. á þskj. 103 frá Valtý Guðjónssyni, þá þykir mér rétt að geta þess, að þessar till. voru ræddar í n. Meiri hl. n. vildi ekki fallast á till. nr. 1. Og enn fremur var till. nr. 2 rædd allýtarlega. Það var bent á það við umr., að þetta væri til þess að draga úr vörnunum, að gefa heimild til þess, að borgarstjórinn í Reykjavík skipaði sérstakan framkvæmdastjóra, og meiri hl. n. féllst á, að það væri ekki rétt að gera það. Ég get því ekki lagt til fyrir hönd meiri hl., að þessar till. verði samþ., og sé ekki ástæðu til þess að taka þær aftur til umr. í nefndinni.

Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að hafa fallizt á brtt. nr. 1 á þskj. 63, við 17. gr.

Brtt. nr. 2 var allýtarlega rædd í n., og það var vilji n., að frv. yrði breytt svo sem þar segir, og vildi ég vænta þess, að hv. Alþingi vildi fallast á hana, og þó að hæstv. ráðh. hafi látið þá skoðun í ljós, að hann teldi, að það færi betur að hafa hana á þann veg, sem er í frv., þá muni hann einnig geta fallizt á, að henni verði breytt svo sem þar segir.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar. Ég þykist hafa fært fullar sannanir fyrir því, að ummæli mín hafi ekki verið ofmælt, þau er ég sagði í minni fyrstu ræðu hér, og ég endurtek, að ég tel, að það sé mjög mikil nauðsyn, að þjóðin fái að vita, hvert er takmark kommúnista með öllum þeirra áróðri, sem þeir halda hér uppi fyrir vini sína í austri, og að það sé ekki illa varið þeim tíma þingsins, sem fer í að ræða þau mál opinberlega.

Ég legg svo til fyrir hönd meiri hl. n., að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem hann ber fram á þskj. 63.