16.04.1963
Efri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1530 í B-deild Alþingistíðinda. (1660)

140. mál, sala tveggja eyðijarða í Árskógshreppi

Frsm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd., og landbn. þeirrar d. sendi frv, til umsagnar jarðeignadeild ríkisins og til landnámsstjóra. Hvorir tveggja þessir aðilar mæltu með sölu þessara jarða, þ.e. jarðanna Hrafnagils og Grundar í Arskógshreppi í Eyjafjarðarsýslu. Jarðir þessar munu hafa farið í eyði fyrir því sem næst 4 áratugum, og samgöngur og akfært vegasamband að þessum jörðum er ekkert og húsakynni munu ekki vera þar nein heldur né tún, — þau litlu, sem til voru, munu fyrir löngu vera orðin sem úthagi. Og það mun vera allsnjóþungt á þessu svæði að vetrarlagi og litlar líkur fyrir því, að menn sæki eftir því síðar meir að byggja upp á þessum jörðum. Af þeim ástæðum telur bæði jarðeignadeildin og landnámsstjóri hyggilegt að heimila ríkisstj. að selja þessar eyðijarðir, og landbn. þessarar d. mælir með því, að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir.