12.02.1963
Neðri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

143. mál, vátryggingarfélög fyrir fiskiskip

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Í 11. gr. frv. til siglingalaga, sem liggur fyrir hv. d., er nýmæli þess efnis, að útgerðarmaður skuli vera ábyrgur gagnvart þriðja manni með 10% viðbót við vátryggingarverð skipsins, og er þetta, eins og segir í grg. með því frv., eitt af helztu nýmælum þess frv. En þannig stendur á, að í 1. um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip frá 1947 eru ákvæði þess efnis, að ekki er leyfilegt að vátryggja skip undir 100 rúmlestum nema fyrir 90% af andvirði eða virðingarverði skipsins, — 10% eru talin vera í eigin áhættu skipseigenda. Það kom þess vegna til athugunar, þegar sjútvn. hafði siglingalagafrv. til meðferðar, hvernig þetta nýmæli í því frv. verkaði á lögin um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip. Niðurstaðan af þeirri athugun er það frv., sem hér liggur fyrir, en þar er samkv. ósk Samábyrgðar Íslands á fiskiskipum lagt til, að ein mgr. bætist við vegna 208. gr. siglingal., eins og hún verður samkv. siglingalagafrv., eins og greinir í l. gr. þessa frv. Frv. stefnir sem sé að því að taka af tvímæli um það, að þessi 10% viðbótaráhætta er sérstakt vátryggingaratriði, sem útgerðarmenn verða að fá sér sérstaka tryggingu fyrir, þegar vátryggingarverð skipsins er annað en umrædd 110% trygging samkv. siglingalögunum. Um þetta segir í grg. með því frv., sem sjútvn. hefur samið, með leyfi hæstv. forseta, á þessa leið, í bréfi dr. juris Þórðar Eyjólfssonar, dags. 11. marz 1962, til samgöngu- og iðnaðarmálaráðuneytisins:

„Þetta ákvæði er einnig í fullu samræmi við samsvarandi ákvæði í siglingalögum Norðurlandaríkja, sbr. 257. gr., 1. tölulið, í dönsku, norsku og sænsku 1. Ákvæðið á rót sína að rekja til alþjóðasamþykktar um ábyrgð útgerðarmanna, sem sett var í Brüssel 25. ágúst 1924. Samkv. gildandi l. ábyrgjast útgerðarmenn sjókröfur með skipi og farmgjaldi, sbr. m.a. 236. gr. siglingalaganna, nr. 56 1914, en samkv. alþjóðasamþykktinni og þeim lögum einstakra ríkja, sem fylgja samþykktinni, kemur 10% viðbót við verð skips í stað farmgjaldsins. Sökum þess, hve siglingar eru alþjóðlegar og siglingalögum hvers lands oft beitt um erlend skip, tel ég varhugavert að víkja í íslenzkum lögum frá umræddu ákvæði. Þó að í 1. um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, nr. 61 1947, 11. gr., sé ákveðið, að 1/10 hluti virðingarverðs fiskiskipa undir 100 rúml. skuli vera í sjálfstryggingu, þá tei ég ekki koma til greina að miða almennt ákvæði í siglingalögum um ábyrgð útgerðarmanna við þá undantekningu. En auk þess lít ég svo á, að ákvæði 11. gr. l. nr. 66 1947 um sjálfstryggingu eigi aðeins víð um skipsverðið, en að aðra áhættu útgerðarmanna, þ. á m. nefnd 10%, sé heimilt að vátryggja sérstaklega. En ef svo yrði talið, að vandkvæði væru á þessu, þá álít ég réttara, eins og líka er bent á í bréfi Íslenzkrar endurtryggingar, að athugað verði, ef frv. verður að lögum, hvort og þá hvaða breytingar þurfi að gera á hinum lögákveðnu vátryggingarskilmálum fiskiskipa undir 100 rúmlestum.“

Þar endar tilvitnun í ummæli dr. Þórðar. Niðurstaðan af athugun þessa atriðis, sem gerð var í samráði við Samábyrgð Íslands á fiskiskipum, er það frv., sem hér liggur fyrir, og er talið nægilegt að bæta við l. um vátryggingarfélög fyrir fiskiskip, eða 19. gr. þeirra, þeirri setningu, sem felst í 1. gr. þessa frv.

Ég legg svo til, herra forseti, fyrir hönd sjútvn., að frv. verði samþykkt.