08.11.1962
Neðri deild: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm. bar fram til mín nokkrar spurningar, og er rétt, að ég svari þeim nú þegar, og hafði ég þó gert það strax í ræðu minni, þegar málið var hér síðast til umr, Í þeirri ræðu sagði ég m.a.:

„Þessi framkvæmdastjóri, sem ráðinn hefur verið, hefur gert ýtarlega grein fyrir því, að upphaf allra aðgerða er ýtarleg athugun og rannsókn á þeim hættum, sem fyrir hendi eru, og síðan athugun og skipulagning á þeim viðbrögðum, sem að athuguðu máli teljast nauðsynleg gegn þessum hættum. Það er fyrst, þegar þessari athugun er lokið, sem hægt er og skynsamlegt að taka ákvörðun um, hversu umfangsmikil þessi starfsemi eigi að vera.“

Þessu lýsti ég yfir í minni fyrri ræðu, og sú yfirlýsing er algerlega tæmandi svar við þeim spurningum, sem hv. þm. bar fram.

Það er fyrst, þegar fyrir liggur sú athugun, sem nú á sér stað, sem tímabært er að gera tillögur um einstakar framkvæmdir og bera fram óskir til Alþingis um hærri fjárveitingar en nú eru veittar á þessum fjárlögum og till. gerð um á næstu fjárlögum, En það er athyglisvert, að hv. þm. fór lofsamlegum orðum um starf þess manns, sem ráðinn hefur verið sem framkvæmdastjóri almannavarnanna. Og þó að ég sé honum ekki sammála um margt í þessu máli, er ég honum fyllilega sammála að þessu leyti. Ég hygg, að það hafi þegar komið fram, m.a. í svörum þeim, sem hann hefur gefið hv. 4. landsk. þm., að þessi starfsmaður hefur á þeim stutta tíma, sem hann hefur haft til umráða, sett sig mjög rækilega inn í þessi málefni og getur nú þegar gefið þingheimi og stjórnarvöldum margvíslegar upptýsingar, sem við áður höfðum ekki aðgang að. Það er því algerlega rangt hjá hv. þm., að ekkert hafi verið aðhafzt í þessum málum. Það hefur verið gert, sem hlaut að verða upphafið, að ráða færan og hæfan starfsmann til þess að verða ráðunautur ríkisstj. og Alþingis í málunum, og framkvæmdastjóri um aðgerðir, þegar þar að kemur. En samræmið hjá hv. þm. um afstöðu sina til þessa góða starfsmanns er eftir öðru, því að á dögunum var hann að hæðast að því, að ég hefði ráðið þennan mann með heimild í rökst. dagskrá, og taldi þá heimild auðsjáanlega ófullnægjandi. (HV: Beinist það nú ekki að hæstv. ráðh. heldur en að manninum?) Hann var að hæðast að þeirri ráðstöfun. (HV: Já, það var að hæðast að ráðherranum.) Það er nú erfitt að skilja, í hverju háð hv. þm. oft er fólgið, eða yfirleitt hans hugsanagang, en efni málsins var það, að hann var að gefa í skyn, að ekki hefði verið næg heimild til ráðningar þessa starfsmanns og þannig hefði að heimildartausu verið hafizt handa um upphaf aðgerða í þessum málum. En samtímis því fullyrðir hann, að nú þegar séu nægar heimildir og enga frekari lagaheimild þurfi til. En ef heimildirnar nú þegar eru ekki meiri en svo, að ekki mátti einu sinni ráða starfsmann til þess að vinna jafngott verk og hv. 4. landsk. þm. hefur viðurkennt að þessi starfsmaður hafi þegar unnið, þá er þar í hans eigin málflutningi strax komin fram sönnun fyrir því, að það er ekki rétt, að núgildandi lagaheimildir séu nógu víðtækar, enda vitnaði ég ekki um heimildina til þess að ráða þennan starfsmann í núgildandi lög um loftvarnir eða almannavarnir, heldur í fjárlagaheimildina, sem veitt var, þegar ákveðin var millj. kr. fjárveiting til almannavarna í núgildandi fjárlögum.

Hv. þm. vék svo að því, að ætlað mundi vera að greiða kostnað af rannsóknum um áhrif geislavirkni, — er það ekki kallað það, ég er ekki svo vel að mér í þessum tæknilegu heitum? — að ætlunin væri að greiða kostnað við þær rannsóknir af loftvarnafé. Ég hygg, að á þessu ári verði enginn annmarki á því að fara þannig að, því að kostnaður við framkvæmdir er ekki fyrirsjáanlegur verulegur á þessu ári umfram hálfs árs laun framkvæmdastjóra, og það er upphaf aðgerða í þessu máli að láta nauðsynlegar athuganir og rannsóknir eiga sér stað. Til þess hefur féð verið veitt á Alþingi, og það er fyrst, þegar rökstuddar till. liggja fyrir, byggðar á þeim athugunum og rannsóknum, sem nú er verið að gera, sem tímabært verður að óska eftir hærri ákveðnum fjárveitingum. Þetta var ljóst tekið fram í minni fyrri ræðu, og er ástæða til þess að ítreka það nú aftur að gefnu þessu tilefni.

Varðandi ummæli hv. þm. um þingfréttaflutning í útvarpinu og afskipti mín af upplestri þingfrétta, þá veit hv, þm. það ósköp vel, að ríkisstj. hefur engin afskipti af upplestri þingfrétta eða ráðningu manns til þess starfs. Ég hef ekki heyrt eða grennslazt eftir því, fyrr en ég heyrði á skotspónum áðan nafn á þeim manni, sem nú les upp þingfréttir. Það er ríkisstj. gersamlega óvíðkomandi að öðru leyti en því, sem við höfum okkar þingmannsrétt eins og hverjir aðrir til þess að kvarta undan, ef við teljum á okkur hallað. En mér skilst, að ef þm. telur, að þannig hafi verið með sig farið í þingfréttum, þá sé réttasta boðleiðin að koma kvörtun áleiðis til forseta Alþingis og skrifstofustjóra. Þetta ætti að vera óþarft að leiðbeina hv. þm. með, en vegna þess að hann beindi þessu til mín, er þó ástæða til að taka það fram.

Ég vil ekki segja, að hv. 3. þm. Reykv. (EOl) hafi unnið til mikillar velsældar eða umbunar fyrir sín stjórnmálaafskipti. En ég verð þó að segja, að mér finnst helzt til þungur kross á hann lagður að eiga hv. 4. landsk. þm. fyrir málsvara hér á Alþingi, einnig í þessu máli. Það hefur verið sagt stundum, að syndararnir ættu að taka út gjöld sinna synda í öðru lífi, og ég efast ekki um, að hv. þm. eigi að gera það eins og við aðrir. En að menn þurfi strax í þessu lífi að taka út svo ferleg hefndargjöld eins og hv. 3. þm. Reykv. hefur þurft að gera með því að hlusta á ræður hv. 4. landsk., bæði nú og í fyrradag, það er meira en hægt sé að bjóða þolinmæði flestra manna. Og það leyndi sér ekki, að samkomulagið á bænum þeim er ekki harla gott, því að þó að hv. 4. landsk. þm. væri með ýmiss konar skot á mig og hv. 1. þm. Vestf., þá var þó einna harðast skotið á 3. þm. Reykv., því að þá tókst hv. 4. landsk. fyrst upp, þegar hann fór að tala um það óðagot og fjarstæðu, ef ætti að fara að sprengja upp flugvellina í upphafi styrjaldar. En það var einmitt hv. 3. þm. Reykv., sem hafði borið þá till. fram, og verður nú fróðlegt að heyra viðbrögð hv. 3. þm. Reykv., þegar hann fer að svara sinum — ég veit ekki, hvort á að kalla það flokksbróður eða a.m.k. bandalagsbróður í sinni næstu ræðu. E.t.v. verður bandalaginu þá slitið, vegna þess að miklar fregnir berast nú um, að til standi að gefa þessum margnefnda flokki nýtt nafn, m.a. í því skyni að losna við hv. 4. landsk. þm. úr fylkingunni.

En annars verð ég að segja, að það er ákaflega erfitt að rökræða við hv. 4. landsk. þm. Hann vildi halda því fram, að það væri gersamlega að tilefnislausu, að ég hefði lýst það rangt, þegar hann hafði það eftir hinum norska hershöfðingja, danska lækni og Ágústi Valfells, að þeir hefðu sagt, að það væri dvöl hersins eða varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem skapaði árásarhættuna á landið. Hv. þm. fullyrti, að það væri rangt hjá mér, að hann hefði í þessu mishermt. Síðan sagði hann svo alveg í sama orðinu, að ég hefði rétt fyrir mér, þegar hann vitnaði til ummæla Ágústs Valfells orðrétt og skýrði frá ummælum hershöfðingjans. Þær tilvitnanir hv. þm. voru alveg skýlaus sönnun þess, að ég hafði rétt fyrir mér, en hann hafði mishermt, þegar hann sagði, að þeir hefðu sagt, að það væri dvöl herliðsins eða varnarliðsins, sem skapaði árásarhættuna. Hv. þm. sagði svo í öðru orðinu, að það mætti deila um sínar ályktanir af þeirra orðum, en þeirra orð væri ekki hægt að vefengja. Það er alveg rétt, þeirra orð er ekki hægt að vefengja, en þau segja ekkert um það, að dvöl hersins eða varnarliðsins skapi þessa hættu. Orð Ágústs Valfells, þau sem hér hefur verið vitnað til, benda þvert á móti til hins gagnstæða. En það er hv. 4. landsk. þm., sem dregur þessar ályktanir af þeirra orðum. Að sjálfsögðu er honum heimilt að draga sínar ályktanir af orðunum, ef hann, eins og hann gerði áðan í öðru orðinu, tilgreinir rétt það, sem þeir segja, og svo verður hver að meta, hvort hann telur ályktun hv. þm. vera rökrétta afleiðingu af þeirra ummælum. En þetta virðist hann ekki skilja, mismuninn á þessu tvennu, og mann, sem ekki skilur jafnaugljósan hlut, er sannast sagt þýðingarlaust að ætla að rökræða við. Það er hægt að deila við hann, það er hægt að skamma hann og gera gabb að honum og alla mögulega hluti, en rökræður eru gersamlega þýðingarlausar, það er eins og að skvetta vatni á gæs að segja rök við Hannibal.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið á þessu stigi. Ég vil enn vekja athygli á hinum mjög mikla og djúptæka mun, sem er á skoðun hv. 4. landsk. þm. og hv. 3. þm. Reykv., og ég vil nú beina því til hv. 3. þm. Reykv., að hann láti leiðrétta missögn, sem er í hans blaði í morgun. Þar er sagt, að ég hafi gerzt sérstakur talsmaður þess, að það ætti að flytja Reykvíkinga eða flesta Íslendinga burt og láta þá búa — mig minnir sem melrakka í greni. Ég vék ekki einu orði að þessum brottflutningi í ræðu minni hér síðast. Það var einmitt hv. 3. þm. Reykv., sem fór mörgum orðum um nauðsyn brottflutningsins og að hann kynni, næst á eftir sprengingu flugvallanna, sem hv. 4. þm. landsk. fór sem háðulegustum orðum um, að verða helzta úrræðið til bjargar. Af einhverjum ástæðum hafa blaðamenn Þjóðviljans hér villzt á mér og hv. 3. þm. Reykv., og ég veit, að okkur er báðum jafnilla við að vera ruglað saman, svo að ég treysti því, að leiðréttingin birtist í Þjóðviljanum á morgun.