17.04.1963
Neðri deild: 72. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1534 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

244. mál, tilkynningar aðsetursskipta

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 648, er flutt af allshn. Nd. eftir beiðni hagstofustjóra og í samráði við fjmrh. N. stendur öll að flutningi frv., en einn nefndarmanna, Gunnar Jóhannsson, áskilur sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.

Þetta frv. er seint lagt fram, en því er til að svara af hálfu allshn., að beiðni um flutning þess barst n. fyrst siðasta starfsdag þingsins fyrir páskafríið. N. vildi samt freista þess að fá frv. afgreitt á þessu þingi, þar sem gert er ráð fyrir, að það þurfi að nota ákvæði þess nú þegar í sumar, og skal ég síðar gera nokkru nánari grein fyrir því. Og á hinn bóginn vildi n. gera þetta vegna þess, að frv. snertir efnislega aðeins tæknileg atriði varðandi framkvæmd tilkynningarskyldu vegna aðsetursskipta og flutnings milli Norðurlandanna og ekki líklegt, að það valdi neinum ágreiningi.

Eins og fram kemur í grg. fyrir frv., var á síðasta þingi Norðurlandaráðs samþ. að mæla með því, að ríkisstjórnir landanna tækju upp samstarf á sviði almannaskráningar í samræmi við tillögur norrænnar sérfræðinganefndar, er skilaði áliti 1961. Var nefnd þessi sett á laggirnar á árinu 1955 skv. ályktun Norðurlandaráðs um samnorræn flutningavottorð. Fulltrúi Íslands í n. var hagstofustjóri.

Það þarf að gera smávægilegar breytingar á núgildandi lögum um tilkynningar aðsetursskipta, til þess að Ísland geti orðið aðili að þessu samstarfi Norðurlandanna, og felast í þessu frv. þær breytingar, sem gera þarf til þess að það verði kleift. Í tillögu n. er gert ráð fyrir, að Norðurlönd verði ein heild í skráningarlegu tilliti, þannig að maður, sem flytur lögheimili sitt úr einu Norðurlanda í annað, sé aldrei felldur af skrá í brottflutningslandinu, fyrr en hann hefur verið tekinn á skrá í innflutningslandinu, og enn fremur, að hann sé ávallt felldur af skrá í brottflutningslandinu, ef hann er tekinn á skrá í innflutningslandinu enda ræður síðarnefnda landið skráningu, þegar ágreiningur er. Til þess að koma þessu kerfi á verða notuð svonefnd flutningsvottorð (flytteattester), og hver sem flytur lögheimili sitt milli tveggja Norðurlanda fær flutningsvottorð frá skráningaryfirvaldi í brottflutningslandinu. Er hann kemur til innflutningslandsins, framvísar hann vottorðinu hjá viðkomandi skráningaryfirvaldi, er sendir afrit þess til skráningaryfirvaldsins í brottflutningslandinu, og fellir það þá hlutaðeigandi af skrá hjá sér. Er hér um að ræða sama fyrirkomulag og notað er í öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi í sambandi við flutninga milli umdæma innanlands. Hér á landi eru ekki notuð flutningavottorð af þessu tagi, vegna þess einfaldlega að þeirra er ekki þörf, þar sem um eina heildarskrá eða þjóðskrá er að ræða.

Er gert ráð fyrir því, að hið nýja skráningarkerfi komi til framkvæmda í sumar, og mun vera stefnt að því, að það komi til framkvæmda 1. júlí n.k. Finnland hefur gert fyrirvara um sína aðild fyrst um sinn, en hin 3 Norðurlöndin, Danmörk, Noregur og Svíþjóð, hafa þegar gert ráðstafanir til þess, að löndin verði aðilar að þessu samstarfi frá byrjun, sem væntanlega verður þá 1. júlí. Hafa legið fyrir þingum þeirra frv., sem nauðsynleg voru til að koma þessu í kring.

Ef fyrirhugað samstarf Norðurlandanna á sviði almannaskráningar kemur til framkvæmda, mun það leiða af sér stórbætta framkvæmd á tilkynningarákvæðum, að því er tekur til aðsetursskipta milli viðkomandi landa. Þetta er mikill ávinningur fyrir þjóðskrána og fyrir skattyfirvöld og aðra, sem hér eiga hlut að máll. Þess skal getið, að tilkynningar um aðsetursskipti milli landa hafa hér verið miklu lélegri í framkvæmd en um flutninga innanlands, og af flutningum milli landa eru náttúrlega mestir flutningar milli Norðurlandanna, og er þess vegna mikil bót að því, ef þetta fyrirkomulag og samstarf kæmist á.

Í 2. gr. frv. eru ákvæði, sem nauðsynleg eru til þess, að Ísland geti orðið aðili að þessu samstarfi. En í 3. gr. eru ákvæði, sem heimila að undanþiggja námsmenn frá þessari tilkynningarskyldu og sjómenn að einhverju leyti líka.

Málið er flutt af allshn., og ætti ekki að vera ástæða til að vísa því til nefndar, nema eitthvað sérstakt komi fram við þessa umr. Ég legg því til, að því verði vísað til 2. umr.