13.11.1962
Neðri deild: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

6. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er margt, sem ber á milli mín og hv. 3. þm. Reykv. í þessu máli, og tel ég ástæðu til þess að víkja að sumu af því nú þegar. E.t.v. kemur meginskoðanamunur okkar bezt fram í því atriði, sem hv. 3. þm. Reykv. vék að snemma í sinni löngu ræðu. Það var, hverjir hefðu komið af stað síðustu heimsstyrjöld. Hv. 3. þm. Reykv. sagði hiklaust og byggði mjög á því allan sinn málflutning, að nazistarnir þýzku hefðu með bandalagi sínu gegn Sovétríkjunum átt höfuðþáttinn í því, að styrjöldin brauzt út. Nú vil ég ekki gera lítið úr sök Hitlers og félaga hans á upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar. Það er rétt, að án þeirra tilkomu og athafna hefði sú styrjöld aldrei brotizt út. En hitt er einnig víst, að þeir áttu sér góða bandamenn í upphafi þeirrar styrjaldar, og það var ekki bandalag andkommúnista, heldur einmitt bandalag nazistanna þýzku og Sovétstjórnarinnar, sem réð því, að styrjöldin brauzt út, bæði hvenær hún brauzt út, með hverjum hætti og sennilega einnig, að hún yfirleitt brauzt út, þó að það verði auðvitað aldrei fullyrt, hvað orðið hefði, ef atvik hefðu verið allt önnur en þau raunverulega voru. En það má ekki þola það mótmælalaust, hvorki á Alþingi Íslendinga né annars staðar, þar sem um þessi mál er rætt, að það sé gengið þegjandi fram hjá þeirri sök, sem Sovétstjórnin átti á upphafi þessarar styrjaldar.

Það var vitað mál, að allt sumarið 1939, frá því um vorið og þangað til í ágúst, voru erindrekar brezku stjórnarinnar staddir í Moskvu og vöru að semja um bandalag á milli brezku stjórnarinnar og vesturveldanna við Sovétstjórnina á móti Hitlers-Þýzkalandi. En á meðan þeir samningar stóðu, átti Sovétstjórnin algerlega á laun og án vitundar brezku stjórnarinnar í samningum við Hitlers-Þýzkaland um bandalag á milli Hitlers-Þýzkalands og Sovét-Rússlands. Og það var fyrst eftir að það bandalag var komið á, sem styrjöldin brauzt út, og það liggur fyrir óvéfengjanlega, að Sovétstjórnin vissi ofur vel, til hvers þessir samningar voru gerðir, því að þeir fjölluðu ekki sízt um skiptingu Póllands á milli Hitlers-Þýzkalands og Sovét-Rússlands. Það var með þessum samningum, sem siðari heimsstyrjöldinni var hleypt af stað.

Sök nazistanna þýzku er mikil og geigvænleg, en sök þáv. ráðamanna í Sovét-Rússlandi er vissulega einnig mikil, og segja má, að hún sé þeim mun ófyrirgefanlegri, þar sem þeir vissu ofur vel, við hvílíka misindismenn þeir voru að semja. Þeir höfðu áður farið um þá hörðum orðum og lýst þeim sem böðlum og illvirkismönnum, en engu að síður, þegar á reið og hægt var, að því er mönnum virtist, að stöðva útþenslu nazismans í Evrópu og þar með í heiminum, þá breytti Sovétstjórnin skyndilega um stefnu og gerðist bandamaður þessara sinna fyrri óvina og hleypti af stað þeim mestu ógnum, sem enn hafa yfir þennan heim gengið.

Sovétstjórnin lét sér ekki nægja að hleypa styrjöldinni af stað með þessum hætti, að semja beinlínis um það við nazistastjórnina, að hún skyldi hefja árás gegn Pólverjum, heldur eftir að svo hafði farið, þá níddist Sovétstjórnin á nágrönnum sínum, ekki einungis á Pólverjum, sem voru fyrsta fórnarlambið, en um frelsi þeirra hafði verið samið og ákveðið að eyða því í samningunum milli Hitlers og Stalíns, þar sem milligöngumennirnir voru þeir kumpánar Ribbentrop og Molotov, heldur hélt Sovétstjórnin þessum ljóta leik áfram. Og það er alveg sérstök ástæða fyrir okkur Íslendinga til þess að minnast þess, og einmitt hv. 3. þm. Reykv. hefur gefið ríkt tilefni til þess í ummælum sínum, að það sé rifjað upp, að fyrst byrjaði Sovétstjórnin með því að bjóða hinum litlu baltnesku ríkjum, sem svo voru kölluð og eru lítil á alheimsmælikvarða, en stór miðað við okkur, — Sovétstjórnin byrjaði með því að bjóða þessum ríkjum tryggingu fyrir þeirra sjálfstæði og fullveldi og fékk þau til þess að gera við sig gagnkvæman samning, sem átti að vernda þau gegn árás. En síðan voru þessir samningar, þessi ábyrgð Sovétstjórnarinnar á fullveldi þessara sjálfstæðu ríkja, einmitt sú ábyrgð, sem er hliðstæð þeirri ábyrgð, sem hv. 3. þm. Reykv, vill leita hjá Sovétstjórninni á sjálfstæði Íslands, — þessa ábyrgð notaði Sovétstjórnin sem átyllu til þess að ráðast inn í þessi litlu ríki, eyða sjálfstæði þeirra og meira að segja flytja burt mikinn hluta íbúanna, tugum eða hundruðum þúsunda saman, alla leið austur til Síberíu.

Nær Íslendingum var höggvið en þetta, að sjálfstæði þessara þjóða var eytt, en það var einmitt jafngamalt og endurheimt sjálfstæðis Íslands frá 1918, því að um haustið 1939 var einnig af hálfu Sovétstjórnarinnar ráðizt inn í Finnland algerlega að tilefnislausu og Finnar kúgaðir til þess að afsala Sovétstjórninni landi og þegnum.

Þessi þáttur Sovétstjórnarinnar í upphafi heimsstríðsins er vissulega mjög lærdómsríkur fyrir okkur Íslendinga, og ég hygg, að það hafi verið mjög mætur Íslendingur, orðhagur, svo að víðfrægt er, sem þá komst þannig að orði, að sósíalistar hefðu sízt ástæðu til þess að harma þessa þróun, því að hún hefði orðið til þess, að tugir milljóna eða réttara sagt, margar milljónir Pólverja hefðu hoppað inn í sósíalismann fyrirhafnarlaust. Þá var af hálfu íslenzkra kommúnista eða sósíalista, hvað sem þeir vilja kalla sig, ekki verið að harma örlög þessara þjóða, heldur var því beint tekið með fögnuði, að þannig skyldi ráðizt að bakí þeirra og þeirra frjálsræði brotið á bak aftur. Og í mörg ár munum við að a.m.k. flokksbræður hv. 3. þm. Reykv. áttu ekki ljótari orð til en tala um Finnagaldurinn svokallaða. Þessi Finnagaldur var sú samúð, sem af sjálfu sér brauzt út hjá íslenzku þjóðinni, jafnskjótt og hér var heyrinkunnugt um árás sovézka stórveldisins á hina finnsku, norrænu þjóð.

Nú kynni hv. 3. þm. Reykv. að halda því fram, að þá hefðu verið vondir menn við völd í Sovét-Rússlandi, það hefði verið mannhundurinn Stalín, fjöldamorðinginn, sem þá stjórnaði, og þess vegna væri ekki að marka, þó að svona hefði þá til tekizt. Nú væru þar við völd aðrir miklu betri og mildari menn, réttvísir, hógværir og vitrir, sem allt öðrum aðferðum mundu beita en Stalín sálugi gerði. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að fá vitneskju um það hjá hv. 3. þm. Reykv., hvort hann lítur svona á eða ekki. Hv. Alþýðubandalagsmenn hafa yfirleitt reynt að hliðra sér hjá að tala mikið um þær afhjúpanir stórkostlegra glæpa og ofboðslegrar kúgunar, sem átti sér stað í Sovétveldinu á dögum Stalíns. En í jafnumfangsmiklum umr. og hv. 3. þm. Reykv. hefur hér efnt til væri vissulega ástæða til þess fyrir hann að gera okkur grein fyrir, hvort hann telur, að Sovétríkin hafi að þessu leyti breytt um eðli frá því, sem áður var, við valdatöku hinna nýju húsbænda austur þar. Hitt vitum við frá fornu fari, að meðan atalin var við völd, þá taldi hv. 3. þm. Reykv. og hans skoðanabræður þennan einvaldsherra sízt vera misindismann eða illvirkja, því að óteljandi eru lofgreinarnar og lofkvæðin, sem þá voru birt í málgögnum þess flokks um þennan ofbeldisherra. Og grunur minn er sá, að hv. 3. þm. Reykv. eigi ekki síður þátt í þeirri lofgjörð heldur en ýmsir af hans fylgismönnum.

En þó að fróðlegt væri að heyra álit hv. 3. þm. Reykv. á þessu, þá þurfum við í sjálfu sér ekki að styðjast við hans skoðun á því, hvort eðli kommúnismans hafi breytzt við þau skipti á valdsmönnum, sem orðið hafa í Sovét-Rússlandi. Krúsjeff hafði þegar tekið við völdum í Sovét-Rússlandi, var þar hinn valdamesti maður haustið 1956, þegar ráðizt var að Ungverjum. Og það er einnig mjög íhyglisvert fyrir okkur Íslendinga að minnast þess, með hverjum atburðum það varð. Svo virtist í fyrstu, eftir að ungverska byltingin var hafin og Sovétleppunum hafði verið steypt af stóli, sem Sovétstjórnin ætlaði að una því, sem orðið væri, láta heri sína annaðhvort vera afskiptalausa eða draga sig í hlé úr Ungverjalandi. En það varð fyrst eftir að ungverska stjórnin hafði lýst yfir því, að hún segði sig úr hernaðarbandalagi við Sovétstjórnina og vildi koma á algeru hlutleysi, afskiptaleysi Ungverjalands í alþjóðadellum, svipað og þá hafði áður verið samið um varðandi Austurríki, — það var fyrst eftir að ungverska stjórnin hafði gefið þessa yfirlýsingu, sem Sovétstjórnin undir forustu Krúsjeffs ákvað að senda lið sitt til Búdapest á ný og berja byltinguna niður með blóðugri hætti en áður hafði þekkzt, þrátt fyrir margar hörmungar á þessum slóðum, sem skráðar eru á sögunnar spjöld, þannig að við höfum því miður enga ástæðu, hvað þá tryggingu fyrir því, að Sovétstjórnin hafi í þessu breytt um eðli frá því, sem áður var. Við höfum þvert á móti alla ástæðu til þess að ætla, að Sovétstjórnin noti slíkar yfirlýsingar, sem hv. 3. þm. Reykv, sækir eftir að Íslendingar öðlist hjá Sovétstjórninni, sem átyllu fyrir íhlutun, jafnvel í innanlandsmál, og jafnvel gereyðingu frelsis þeirra þjóða, sem af einhverjum ástæðum annaðhvort hafa látið blekkjast eða neyðzt til þess að leita slíkra ábyrgðaryfirlýsinga.

Það er ekki Sovétstjórnin ein, sem þannig hefur farið að, vegna þess að nú einmitt þessa dagana sjáum við, hvernig bræðrastjórn Sovétstjórnarinnar, þeirra andlegu bræður í Kína, kemur fram gegn Indverjum. Það eru ekki ýkja mörg ár síðan kommúnistastjórnin í Kína gaf ásamt Indlandsstjórn út yfirlýsingu um fimm meginreglur, sem ættu að tryggja góða sambúð Kínverja og Indverja, og raunar átti sú yfirlýsing að geta orðið grundvöllur að viðtækara samstarfi margra annarra þjóða. En þrátt fyrir þessa hátíðlegu yfirlýsingu, sem átti mikinn hlut í þeirri ákvörðun Indverja að halda fast við sitt hlutleysi, ráðast Kínverjar nú inn í indverskt land, gersamlega að tilefnislausu, þannig að jafnvel Sovét-Rússland sýnist a.m.k. öðru hverju vera tvístígandi í stuðningi sínum við Kínverja í þessu síðasta ofbeldi þeirra.

Það er þess vegna af þeim dæmum, sem ég hef nú talið, og þau gætu vissulega orðið miklu fleiri, fullkomin ástæða til þess að ætla, að hér sé um sameiginlegan hugsunarhátt, sameiginlegt einkenni á kommúnistískri stjórn yfirleitt að ræða. Slíkt getur ekki heldur komið á óvart. þegar hugleitt er, að kommúnistar hafa þá trú, að þeir séu boðberar nýrra sanninda, sem muni endast öllu mannkyninu til mikillar blessunar, og að þeir séu eins konar framkvæmendur sögulegrar þróunar, sem hljóti raunar að verða, hvort sem þeir sjálfir hafi sig í frammi til að ýta undir hraða hennar eða ekki. En þeir telja þó, þar sem þeirra stefna eigi framtíðina fyrir sér, að það sé á sér söguleg skylda til þess að ýta undir þróunina, greiða fyrir henni, ryðja brautina þannig, að þetta geti orðið sem skjótast, að allt mannfólkið verði þeirrar blessunar aðnjótandi, sem kommúnistískri stjórn er samfara að þeirra áliti. Það er einnig vitað, að þeir telja, að venjulegar skuldbindingar, samningar og annað slíkt, sem menn í borgaralegum lýðræðisþjóðfélögum telja að hljóti að eiga að vera undirstaða og uppistaða samlífs manna, allt slíkt sé í raun og veru einskis virði, heldur eigi að notast eingöngu til framdráttar þessum nýju kenningum, þessari alheimsblessun, sem kommúnistar telja að sínu stjórnarfari sé samfara. Það er vegna þessarar meginskoðunar, sem ég og fjölmargir aðrir, bæði hér á landi og annars staðar, telja, að það sé óhjákvæmilegt fyrir þjóðirnar að snúast til varnar og vera því viðbúnar, að okkar þjóðir verði fyrir sams konar ásókn og við höfum dæmin fyrir okkur um Pólverja, um baltnesku þjóðirnar, um Finnland, um Ungverja, um Austur-Þjóðverja, svo að einungis örfá dæmi séu talin. Og það er sannfæring okkar, að það v æri ekki einungis þýðingarlaust, heldur hið mesta glapræði, beinlínis til þess að bjóða hættunni heim, er við horfum á þau fordæmi, sem við okkur blasa, ef við leituðum eftir þeirri ábyrgð, sem hv. 3. þm. Reykv. er stöðugt að hampa framan í okkur að Sovétstjórnin muni verða fáanleg til þess að veita á sjálfstæði og öryggi íslenzku þjóðarinnar.

Hv. 3. þm. Reykv. játaði nú, að hann hefði áður fyrr haldið því fram, að hlutleysi Íslands væri lítils virði og raunar úrelt, en vildi telja, að þau rök, sem hann þá færði, og sú skoðun hefði einungis átt við, meðan hætta stafaði frá Hitlers-Þýzkalandi. Það er alveg rétt, að hv. 3. þm. Reykv. miðaði mjög í málflutningi sínum á árunum fyrir 1939 við Hitlers-Þýzkaland. En því fer fjarri, að þær skoðanir, sem hann þá hélt fram, eigi síður við þá hættu, sem heimsfriðnum er búin nú, heldur en þær áttu þá við. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég t.d. minna á, að í Verkalýðsblaðinu 15. maí 1936, — en ég hygg, að hv. 3. þm. Reykv. hafi þá verið ritstjóri þess blaðs, eða er það ekki svo? — þá segir í ritstjórnargrein, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er alveg ófyrirgefanlegt að gera ekki allt, sem auðið er, til að ná samningum við lönd eins og Frakkland, Bandaríkin og Norðurlönd til þess að tryggja sjálfstæði landsins, eftir því sem kostur er, og gera þannig aðstöðuna betri til þess að knýja einnig England og Þýzkaland til þess að viðurkenna sjálfstæði landsins.“

Þetta var sagt í Verkalýðsblaðinu 15. maí 1936. Ég hygg, þó að ég þori ekki að ábyrgjast, að hv. 3. þm. Reykv. hafi þá verið ritstjóri blaðsins, eins og ég sagði áðan. Hitt veit ég með vissu, að í febrúar 1939 var hv. þm. ritstjóri Þjóðviljans, en þá segir í ritstjórnargrein þar, á ábyrgð hv. þm., sem ekki fór leynt að hann hafði einnig skrifað, með leyfi hæstv. forseta:

„Yfirlýsing Roosevelts sýnir og sannar, að fullur möguleiki er á því, að Bandaríkjastjórn mundi láta ábyrgð á friðhelgi Íslands til sín taka. Það er því fullkomið ábyrgðarleysi gagnvart sjálfstæði og framtíð íslenzku þjóðarinnar að sinna ekki tillögum vorum.

Við eigum strax að leita tryggingar Bandaríkjanna og annarra ríkja fyrir sjálfstæði voru og friðhelgi, svo að við séum ekki einangraðir og varnarlausir ofurseldir yfirgangi og ágirnd hins nazistíska Þýskalands.“

Þetta sagði hv. 3. þm. Reykv. í febrúar 1939. Ég hygg, að flestir Íslendingar geti tekið undir þetta nú, þeir mundu einungis enda á öðru árásarveldi en hinu nazistíska Þýzkalandi. Hv. þm. veit ofur vel, hvert það veldi er, sem flestir Íslendingar mundu nú telja jafngilda um árásarvilja hinu nazistíska Þýzkalandi.

Hv. þm. minnti á, að hann hefði haldið ræðu 1. des. 1938, skömmu eftir Münchensamninginn. Hinn 7. des. sama ár ítrekar hv. þm. þetta í grein, sem hann skrifaði í Þjóðviljann um utanríkispólitík Íslands, og segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar við Íslendingar lýstum yfir fullveldi voru 1918 og hófum fyrstir allra þjóða í veröldinni tilveru sem herlaust og varnarlaust ríki, þá gerðum við það í barnslegri trú á, að aðrar þjóðir viðurkenndu mannréttindi vor sem helgan rétt vorn og engri þjóð dytti í hug að granda sjálfstæði voru sökum virðingar þeirrar, er viðkomandi þjóð sjálf bæri fyrir réttindum hverrar þjóðar til að ráða sér sjálf.“

„Aðrir halda, að vopnleysið muni hjálpa okkur. Menn níðist ekki á vopnlausum mönnum. — Ég ætla að biðja menn að vera ekki með drengskaparhugmyndir Íslendingasagnanna um kvenna- og barnamorðingjana í Berlín og Róm,“ sagði hv. þm.

En hvað um innrásarmennina í Ungverjaland? Hvað um mennina, sem réðust á verkalýðinn 17. júní 1953 í Berlín, nokkrum mánuðum eftir dauða Stalíns, þannig að þau verkalýðsmorð verða ekki lögð á hans syndumhlöðnu herðar?

Hv. þm. segir, að sér hafi verið brugðið um það 1938, að hann vildi koma hér á herstöðvum. Hann neitar því algerlega, að hann hafi nokkurn tíma viljað láta Íslendinga vera kennda við herstöðvar eða vopn.

Hinn 14. okt. 1937 stendur í Þjóðviljanum á ábyrgð hv. þm., með leyfi hæstv. forseta: „Ísland verður að gera ráðstafanir til að tryggja sjálfstæði sitt.“ — Og enn fremur: „Frá því Ísland fékk sjálfstæði sitt 1918; hefur orðið svo stórfelld breyting á alþjóðaháttum, að sú trygging, sem menn þá treystu á að nægja mundi fyrir sjálfstæði smáþjóða eins og Íslendinga: virðing fyrir sjálfstæði þjóðar og drengskapur gegn vopnlausri smáþjóð, er nú horfin.“

Hv. þm. segir ekki þarna berum orðum, að við eigum sjálfir að taka upp vopn. En í ræðu, sem hv. þm. hélt 1. maí 1939, segir hann, þar sem hann þakkar þeim Íslendingum, sem tóku þátt í Spánarstyrjöldinni, „að þeir hefðu þrír með því að leggja líf og limi í hættu bjargað alþjóðlegum heiðri íslenzku verkalýðshreyfingarinnar.“ Þarna beinlínis telur hann, að íslenzka verkalýðshreyfingin hefði glatað sínum heiðri, ef menn úr henni hefðu ekki farið suður til Spánar til þess að berjast þar. En hvað telur hann þá um varnir síns eigin lands?

En hv. þm. hefur skrifað svo margt um þetta, að það verður allt seinlesið. Ég skal að lokum minna á eina af hans till. Hún er skrifuð 20. okt. 1938, með leyfi hæstv. forseta:

„Viðnámsstefnan til þess að fyrirbyggja heimsstyrjöld er of vel kunn til þess, að það þurfi að lýsa henni út í æsar. Hún er blátt áfram sú, að öll ríki heimsins, er það vilja, að árásarríkjunum þremur undanskildum, að öllu óbreyttu, gangi í allsherjarbandalag, þar sem ábyrgðin á sjálfstæði ríkjanna sé gagnkvæm og altæk í senn. Þá mundu árásarríkin komast að raun um, að vörn væri að mæta frá varnarbandalagi allra þjóða heims til viðhalds friðnum, ef þau gerðu árás.“

Það er einmitt slíkt bandalag, sem Íslendingar hafa nú gerzt aðilar að og vel hefur reynzt, sem sagt Atlantshafsbandalagið. Og það hefur sannazt, að eftír að þetta bandalag var myndað, þá hefur hinn kommúnistíski árásarhugur ekki þorað með sama hætti og áður að láta á sér kræla í þeim heimshluta, þar sem þetta varnarbandalag tekur til. Ég hef vitnað í þessi ummæli hv. 3. þm. Reykv. til þess að sýna fram á, að hann hefur manna fyrstur og manna skeleggast bent á, hvernig Íslendingar ættu að snúast við árásarhættu, sem vera kynni fyrir hendi. Og þess vegna getur hann ekki með neinu móti borið á móti því, að út frá þeim forsendum, sem við höfum um, hvaðan árásarhættan sé, þá fylgjum við rökréttum afleiðingum. Við fylgjum þeim sömu kenningum og hann setti fram og reyndust vera réttar 1939 og 1945 gegn þeim árásaraðila, sem þá var mestur voði af. En eins og ég sagði áðan, þá náði sá árásaraðili sér niðri á þeim, sem hv. 3. þm. Reykv. þá taldi m.a. að við ættum að leita verndar hjá og nú enn ítrekar að eigi að verða okkar skjöldur og skjól.

Hér er þess vegna í raun og veru skoðanamunurinn um það eitt, hvort árásarhætta sé nú til í heiminum og þá hvaðan hún komi. Allar kenningar hv. 3. þm. Reykv. og hans flokksbræðra um, að það sé þýðingarlaust, út í bláinn eða verra en það að ganga í bandalög og leita sér verndar, þær eru fluttar þvert ofan í þeirra fyrri boðskap, þvert ofan í það, sem þessir menn vita að er rétt. Þeirra eina vörn er sú að halda því fram, að ekki geti komið til greina árás frá þeim, sem þeir aðhyllast og hafa mesta samúð með. En eins og ég sýndi fram á í upphafi máls míns, þá er árásarhættan, sem nú vofir yfir, einmitt fyrst og fremst frá þessum aðila, og það eru einungis örfáir dagar síðan enn sannaðist, hvernig árás og viðbrögðum frá þessum aðila er bezt svarað og hvaða mál það er, sem hann virðist helzt skilja.

Kúbumálið er vissulega þess vert, að Íslendingar geri sér grein fyrir þeim lærdómum, sem af því má draga. Það verður þó ekki rakið að sinni. En ég vil einungis leggja áherzlu á, að það er fyrst, þegar Sovétríkin eða þess stjórnendur sannfærast um, að nógu mikill styrkur er settur á móti þeirra áformum, þeim undirbúningi til árásar, sem verið var að gera í Kúbu, sem þau hörfa undan og breyta algerlega um stefnu. Það má að vissu leyti segja, að það sé og hafi verið mikilmannlegt af Krúsjeff að sjá, að hann var þarna kominn of langt, hafði hætt sér lengra en óhætt var fyrir öryggi hans eigin þjóðar, svo að um heimsfriðinn sé ekki talað. Það þarf vissulega mikinn styrk og að vissu leyti viðsýni til þess að láta svo gersamlega í minni pokann sem Krúsjeff hefur hér gert fyrir Kennedy Bandaríkjaforseta. En þó að þetta sé viðurkennt, þá haggar það ekki því, að það er fyrst, þegar ljóst er, að það muni skerast í odda, að það muni ekki verða látið undan, án þess að til hinna alvarlegustu átaka komi, sem Sovétstjórnin tekur sína kúvendingu. Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að sér hefði mislíkað, að Kennedy hefði verið að hælast um yfir einhverju í þessu máli. Ég skoða mig ekki á sama hátt verjanda Kennedys og hv. 3. þm. Reykv. telur sér skylt að verja allt, sem Sovétveldin gera, en ég vil þó aðeins minna á, að nú er upplýst, að Kennedy beinlínis beindi þeirri áskorun til bandarískra blaða að gera sem minnst úr ósigri Krúsjeffs og fara um hann vægilegum höndum, e.t.v. vegna þess, að hinn stjórnmálalegi sigur Bandaríkjanna var svo augljós, að ástæðulaust var að fjölyrða mikið um eða hælast yfir, en e.t.v. einnig vegna þess, sem allir gera sér nú grein fyrir, að Krúsjeff hefur ekki áorkað þeirri stefnubreytingu, sem varð hjá Sovétstjórninni, nema með mjög miklu átaki og við mjög miklar deilur í sínu heimalandi.

Það er að vísu rétt, að enn er ekki lýðum ljóst nema lítið af því, sem þarna hefur skeð. En svo mikið er þó ljóst nú þegar, að þarna hafa orðið mikil átök, ekki eingöngu í Moskvu sjálfri, heldur einnig í allri hinni kommúnistísku fjölskyldu. Við þurfum ekki annað en að lesa hina litlu útgáfu málgagns Sovétríkjanna á Íslandi, Þjóðviljann, til þess að sjá þá miklu breytingu, sem varð frá því, að fullyrt var, að Sovétríkin mundu snúast til varnar gegn íhlutun Bandaríkjamanna um siglíngar til Kúbu, til þess, þegar Þjóðviljinn nú er farinn að halda því fram, að það sé mikill sigur fyrir Sovétríkin, að bandarískir sjóliðar fá að koma um borð í sovézk flutningaskip og skoða þar farm og er jafnvel fengin vodkahressing til þess að halda upp á þessi vissulega mjög einstæðu tíðindi.

En það er ekki einungis fróðlegt að athuga og fylgjast með hinum mjög breytilegu skrifum í Þjóðviljanum. Það er einnig ljóst, að á milli kínverskra kommúnista og Sovét-Rússlands er mjög mikill ágreiningur í þessum efnum, að kommúnistar í Kína fordæma mjög það hyggilega undanhald, sem Krúsjeff ákvað að taka upp, eftir að hann sá framan í mátt Bandaríkjanna. Og það skyldi þá aldrei vera svo, að sú breyting, sem nú er komin fram, að Sovétstjórnin hefur ákveðið að senda hernaðarflugvélar til Indlands þrátt fyrir allt, eigi að einhverju leyti rætur sínar að rekja til þess mikla ágreinings, sem á sér stað einmitt í herbúðum kommúnista af þessu tilefni.

En út af orðum hv. 3. þm. Reykv. áðan, þegar hann sagði, að það væri víst, að Sovétstjórnin mundi ekki láta Kommúnista-Kína í té atómvopn, þá spyr ég: Hvaðan kemur honum sú vitneskja? Hvernig veit hann, að það mundi ekki ske? Er það e.t.v. vegna þess, að hann telji ágreining þessara ríkja og e.t.v. einmitt sérstaklega nú vegna þessa undanhalds Krúsjeffs vera svo mikinn, að þetta komi ekki til greina? En þá spyr ég, ef hann getur fullvissað okkur um þetta, hvernig stendur á því, að valdamennirnir í Kreml skuli bera þeim mun minna traust til sinna bræðra austur í Kína, að ekki komi til mála, að þeir láti þá fá atómvopn, þegar sannað er, að þeir voru að reisa slíka stöð á Kúbu. Eða var það þá alls ekki svo, að þeir ætluðu að láta Kúbuverjum í té þessi vopn sér til varnar, eins og kommúnistar hafa haldið fram, heldur hafi í þessu fólgizt, að Rússar hafi þarna raunverulega verið að koma upp sinni eigin herstöð, eins og þeirra andstæðingar hafa haldið fram? Hv. þm. tjáir ekki að koma hér og fullyrða, að Sovétstjórnin sé ekki reiðubúin eða aldrei geti til þess komið, að hún láti kínverska kommúnista fá þessi drápstæki í sínar hendur, án þess jafnframt að gera okkur nánari grein fyrir þessu ævintýri, sem gerðist vestur á Kúbu og hann hefur manna beztan aðgang að að segja okkur eitthvað af innri sögunni um.

Hæstv. forseti. Ég er enn ekki búinn að ljúka máli mínu og er bundinn eftir kl. 5, svo að ég vildi óska þess að mega halda ræðu minni áfram á næsta fundi, á fimmtudaginn.— (Frh.)