15.11.1962
Neðri deild: 15. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

6. mál, almannavarnir

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Ég verð að lýsa undrun minni yfir þeim umr., sem hér hafa farið fram um það mál, sem hér er á dagskrá, frv. til l. um almannavarnir, og alveg sérstaklega um þær löngu umr., sem hér hafa átt sér stað af hálfu þeirra aðila, sem standa fyrir flutningi þessa frv. Hér hefur hæstv. dómsmrh., sem stendur að flutningi frv., haldið langar ræður, með því lengsta, sem hér hefur verið haldið í þinginu, dag eftir dag, og allajafna varazt mjög að ræða um það mál, sem á dagskrá var, en hins vegar hefur hann skárað alla heimsbyggðina fram og til baka, rætt um Kína og Indland, farið í gegnum meginhlutann af styrjaldarsögunni síðustu og að sjáifsögðu lesið upp heilmikið af því, sem birzt hefur í Verkalýðsblaðinu frá 1936, Þjóðviljanum frá 1938–39 og þar fram eftir götunum. Þetta hefur allt átt að vera innlegg frá hans hálfu sem aðalflutningsmanns að þessu frv. hér, frv. um almannavarnir, eins og nú væri háttað málum fyrir Íslendinga. Inn í þetta allt saman hefur svo auðvitað það tvinnazt, að frsm. meiri hl., þeirra aðila, sem vilja láta samþykkja frv., hv. 1. þm. Vestf., hefur auðvitað talið sér skylt að taka þátt í þessum leik og haldið hér skrifaðar ræður og til þeirra vandað talsvert, auðvitað um alheimskommúnismann. Hafi svo þeir, sem hér hafa tekið þátt í umr., leyft sér að ræða beinlínis um frv. og um þau gögn, sem fylgja frv., hafi menn vitnað í fylgiskjöl málsins, þá hafa þeir fengið frá hæstv. dómsmrh. ákúrur fyrir slíkt. Það hefur verið talið hreinlega óþarfi að vera að minnast á hinn erlenda hershöfðingja, sem gefið hefur umsagnir sínar í fskj. með þessu frv. um málið. Það hefur verið talið lítið viðeigandi að vera að minnast á það, sem hann segir, og enn þá siður viðeigandi að vera að lesa hér upp fyrirspurnir, sem lagðar voru fyrir sérfræðing ríkisstj. í þessum málum, forstjóra almannavarna, að vera að lesa hér upp fyrirspurnir, sem voru lagðar fyrir hann, og lesa upp svör hans hér aftur á móti. Slíkt hefur verið talið til þess, að hér væri verið að þæfa málið að óþörfu. Ég hlýt að vekja athygli á þessum vinnubrögðum, eins og þau koma fyrir. Og ég ætla enda, að þegar menn íhuga málið betur, sjái þeir samhengið í þessu; finni, að tilgangurinn er allt annar með flutningi þessa frv. en í upphafi var látið í veðri vaka. Hér er ætlunin að hafa uppi mikinn áróður um alls óskyld málefni og reyna að þvo af sér vissar ávirðingar, sem er vitað að á þeim hvíla einmitt í sambandi við þá hættu, sem steðjar að þjóðinni einmitt vegna þeirra samþykkta m.a., sem hæstv. dómsmrh. stendur að, og þeirra framkvæmda, sem hann stendur að í okkar landi.

Það hlýtur auðvitað að vekja athygli, að þegar hæstv. dómsmrh. er um það spurður hér í umr., hvað raunverulega standi til að gera í almannavörnum nú á næstunni, hvað t.d. sé fyrirhugað að byggja af byrgjum, loftvarnabyrgjum, mönnum til varnar, og hvort t.d. ætlunin sé að beita þeim heimildum, sem ráðgerðar eru í frv., að hægt sé að skylda alla húsbyggjendur til að breyta húsum sínum þannig, að í hverjum kjallara verði sérstök byrgi, sem eigi að geta orðið mönnum til varnar, ef til stríðs komi, — við slíkum spurningum sem þessum hefur hæstv. ráðh. ekkert að segja annað en það, að hann segir, að þetta verði allt að athugast, um þetta viti hann ekki neitt. Nú er það svo, að það er liðið heilt ár síðan undirbúningur þessa máls var tekinn upp skv. upplýsingum, sem hér liggja fyrir að nýju, síðan farið var an halda allmarga fundi um þetta mál og ráðgera, hvað gera skyldi. Það er alllangt síðan forstöðumaður var ráðinn fyrir almannavarnir. Og því verður varla trúað, að hæstv. ríkisstj. hafi talið brýna þörf á því að fá frv. um þetta efni samþykkt á síðasta Alþingi og leggi nú aftur fyrir frv. á þessu Alþingi, án þess að hún hafi gert sér grein fyrir því, hvað eigi að ráðast í í sambandi við almannavarnir, a.m.k. í fyrstu lotu. En það hefur sem sagt komið í ljós, að hæstv. dómsmrh. verður að játa það hér í þessum ræðustól, að um þetta viti hann ekki neitt, hreinlega ekki neitt, hann viti aðeins það, að ráðgert sé að verja í þessu skyni 1 millj. kr. á næsta ári, og henni muni verða varið sumpart til þess að kosta þær mælingar, sem fram hafa farið til þessa af Eðlisfræðistofnun ríkisins, og að öðru leyti til þess að borga laun forstöðumanns almannavarna, sem áfram eigi, að manni helzt skilst, að vera einn og símalaus og aðstoðarlaus og halda áfram að kanna málið. Allur þessi undirbúningur er með þeim hætti, að það hlýtur að vekja athygli. Þegar svo þessar umr. allar bætast ofan á, sem hér hafa farið fram, þá hygg ég, að fleirum en mér fari að koma til hugar, að lítill hugur fylgi máli hjá hæstv. ríkisstj. um raunverulegar almannavarnir og það sé fremur eitthvað annað, sem liggur á bak við flutning þessa máls hér inn á Alþingi. Það bætist svo einnig við í þessum efnum, sem horfir til nýlundu hér á Alþingi, að það skuli eiga sér stað, að langir útdrættir skuli vera birtir úr ræðum, sem hafa verið fluttar hér á Alþingi, kvöld eftir kvöld í ríkisútvarpinu, þar sem einkum og sérstaklega er haft eftir hæstv. dómsmrh. úr ræðum hans um öll heimsstjórnmálin, sem hann hefur verið að ræða hér um í sambandi við þetta mál. Ég kannast a.m.k. við það, að hér hafa farið fram umr, á Alþingi og það allmiklar um þau málefni, sem eru á dagskrá, sem varða allmikið oft og tíðum, og það hefur ekki unnizt tími til að segja frá þeim umr. í ríkisútvarpinu. Ég get vel skilið, að það væri ekki tími til að segja frá öllu því, sem fram fer á Alþingi, en það virðist vera nægur tími til þess nú í sambandi við þetta mál að lesa upp langa útdrætti úr þessum líka merkilegu umr., sem hér hafa farið fram, m.a. frá hæstv. dómsmrh. um upphafsmenn að síðustu styrjöld, hverjir hafi þar átt aðalhlut að máli.

Það er alveg greinilegt, að upphafið að þessum einkennilegu umr. er það, þegar menn ræddu hér fyrst um þetta mál út frá efnishlið málsins, þegar menn ræddu hér um það, hvernig raunverulega ætti að bregðast við í almannavörnum, ef til stríðs kæmi, hvað þá væri raunverulega helzt til varnar. Og þegar það stóð svo í þeim umr., að mönnum varð ljóst, að það mundi vera harla litið fyrir okkur Íslendinga hér að gera til varnar, ef svo ógæfulega vildi til, að kjarnorkusprengju yrði varpað, t.d. á þéttustu byggðina hér suðvestanlands, þegar menn stóðu frammi fyrir þessu hér í umr., að þetta mundi vera svo og þetta væri einnig álit erlendra sérfræðinga, að það væri harla lítið til varnar, a.m.k. á því svæði, þá beindust umr. auðvitað nokkuð inn á þá braut að íhuga það, hvernig væri raunverulega hægt að koma sér undan þessari hættu, hvað væri hægt að gera af okkar hálfu til þess að forða okkur frá því, að hér félli nokkurn tíma nokkur sprengja.

Ég hygg, að öllum þeim, sem fylgdust með þessum umr., hafi litizt svo á eftir þær upplýsingar, sem hér voru gefnar, að það mundi vera til harla lítils að búa til nokkur loftvarnabyrgi, að það yrði til lítils gagns til að bjarga þjóðinni undan kjarnorkusprengju. En þá kom sem sagt hin spurningin upp, hvort það væri ekki til einhver leið hjá okkur til að fjarlægja frá okkur sjálfa hættuna, til að draga úr þeirri hættu, að hér gæti fallið kjarnorkusprengja. Og í beinu framhaldi af þessu kom það auðvitað, að menn fóru að tala um, hver væri hinn raunverulegi hættuvaldur, hvað það væri, sem drægi að sér kjarnorkusprengjuna hér.

Hinir erlendu sérfræðingar höfðu kveðið upp þann dóm alveg hispurslaust, að ef til styrjaldar kæmi, þá væri aðalhættusvæðið hér á Íslandi í kringum Keflavíkurflugvöll og byggðina hér í kringum Reykjavík og jafnvel í kringum Hvalfjörð.

Minni hluti heilbr.- og félmn., hv. 4. landsk. þm., hafði leyft sér að draga þá ályktun af þessu og gera hér tillögu í þá átt, að það, sem við þyrftum að gera, væri að reyna að fjarlægja úr landinu herstöðvarnar, sem fyrir væru í landinu, losa okkur við hinn erlenda her, og það gæti orðið til þess að draga úr hættunni. En þegar þetta var nefnt, þá rauk auðvitað hæstv. dómsmrh. upp og mótmælti þessu harðlega. Hann neitaði því, að það gæti verið herstöðin, sem drægi að sér hættuna, og hinn erlendi her, en vildi reyna að sanna, að það væri landið sjálft, lega þess í heiminum, sem ylli því, að við værum á hættusvæðinu. Hann reyndi að færa fram rök fyrir þessari skoðun, en ósköp tókst honum það báglega. Og ég er sannfærður um, að það hefur hann fundið sjálfur.

Mig langar til að fara um þetta örfáum orðum og leggja fyrir hæstv. ráðh. nokkrar spurningar í sambandi við þetta atriði.

Ef því væri nú slegið föstu, eins og hæstv. ráðh. gerir, að það væri lega landsins, sem hér réði úrslitum um hættuna, en ekki neinar herstöðvar, ekki neinn erlendur her, sem í landinu er, hvernig stendur þá á því, að það frv., sem hann leggur hér fram, gerir einmitt ráð fyrir því, að það eigi að flytja fólk til á landinu sjálfu, það eigi að flytja menn frá vissum svæðum á landinu til annarra svæða á landinu? Hvernig stendur á því, að það þarf endilega að gera ráð fyrir því að flytja menn frá Keflavíkursvæðinu og til annarra staða á Íslandi? Auðvitað er það vegna þess, að því er slegið föstu, að aðalhættusvæðið sé í kringum herstöðina á Keflavíkurflugvelli.

Þá vill hæstv. ráðh. halda því fram, að það sé ekki herstöðin, heldur sé það flugvöllurinn suður í Miðnesheiði, sem hér ráði meginúrslitum, það sé tilvera flugvallarins þar suður frá, sem sé hættuvaldurinn, ef það sé ekki beinlínis lega landsins, þá sé það flugvöllurinn. Nú er þetta alveg augljóslega röng skoðun, vegna þess að það eru auðvitað til mörg svæði, bæði hér á Íslandi, sem áður er upplýst um, og reyndar í mörgum öðrum löndum, þar sem auðvelt er fyrir flugflota að athafna sig, án þess að slík svæði skapi þessa sérstöku hættu. Það er alkunna, að hér á landi er á þó nokkrum stöðum á landinu, þar sem ekki eru einu sinni viðurkenndir flugvellir enn, mjög auðveld aðstaða fyrir heilan flugflota að athafna sig á, og það eru til margir góðir flugvellir, nokkrir hér á landi og víða í löndum, sem ekki er talið að dragi að sér neina sérstaka hættu. Nei, flugvöllur er nefnilega allt annað út af fyrir sig heldur en herstöð. Það er hægt að breyta flugvelli í herstöð með því að útbúa það svæði með sérstökum hætti. Það er fyrst, þegar Keflavíkurflugvelli eða því svæði var breytt í herstöð, þegar þar var búið að koma upp allmiklum vopnageymslum, ýmiss konar tækniútbúnaði, sem leiðbeindi á marga vegu, ef til styrjaldar kæmi, margs konar mannvirkjum, sem nú hefur verið unnið að um margra ára skeið og kostað hefur milljarða króna að koma upp, — það er uppbygging þessarar herstöðvar, en ekki flugvöllurinn, sem gerir það að verkum, að það er þetta svæði, sem dregur hættuna að sér.

Nákvæmlega sama er að segja um ráðgerða flotastöð í Hvalfirði. Hvalfjörður er út af fyrir sig góður fjörður, skapar mikla möguleika. Þeir eru miklu fleiri til á Íslandi en Hvalfjörður, sem mundu veita ósköp svipaða aðstöðu, en sá er bara munurinn, að í Hvalfirði hefur þegar verið komið fyrir allþýðingarmiklum mannvirkjum, sem gefa honum annað gildi fyrir hernaðaraðila heldur en margir aðrir firðir á Íslandi geta gefið nú. Og það er þegar búið að efna til ýmiss konar framkvæmda í sambandi við Hvalfjörð, sem gera hann kannske eina fjörðinn á Íslandi, eins og sakir standa nú, sem vissir hernaðaraðilar geta haft full not af fyrir kafbátaflota sinn. Það er vegna ýmiss konar mælinga, sem þar hafa farið fram. Það eru vitanlega þessar aðgerðir, sem miða að því að breyta Miðnesheiði í herstöð og miða að því að breyta Hvalfirði einnig í kafbátastöð, sem draga hættuna sérstaklega að þessum svæðum, enda fer það ekkert dult, að það er ráðgert að breyta Hvalfirði í almenna flotastöð, ef á þurfi að halda. Annar af hinum erlendu sérfræðingum, sem leggur greinargerð fram með þessu frv., gerir beinlínis ráð fyrir þessu, orðar það alveg beinum orðum.

Ég veit, að hæstv. dómsmrh. þekkir það líka, eins og við allir hinir, að aðrar þjóðir haga sér þannig í þessum efnum, að þær gera hér mikinn mun á, hvert þær hafa í landi sínu erlendan her eða ekki, hvort þær láta byggja út tiltekna staði í landi sínu sem herstöð eða hvort þar eru aðeins almennir flugvellir. Það er engin tilviljun, að Norðmenn hafa ekki viljað taka erlendan her til sín inn á viss svæði hjá sér. Þeir hafa algerlega neitað að taka þar við erlendum her. Það er heldur engin tilviljun, að þeir hafa alveg neitað að taka til geymslu í sínu landi ákveðin vopn. Það er vegna þess, að þó að þeir hefðu flugvelli á þessum svæðum, þá vissu þeir, að engin veruleg hætta var af því út af fyrir sig, en það stórjókst hættan fyrir þá, ef þeir létu koma upp herstöð, útbúinni herstöð, í sínu landi, og það jafnvel með erlendu herliði. Á þessu gerðu þeir auðvitað mikinn mun, og það er það, sem auðvitað ræður úrslitum hjá okkur, að hættusvæðið er óumdeilanlega suðvestanlands, það er sú ameríska herstöð, sem hefur verið byggð upp suður á Miðnesheiði, og það er sá erlendi her, sem þar dvelst. Ég skil fyrir mitt leyti, að hæstv. dómsmrh. kunni illa við, að umr. um þetta mál berist mjög að hinum erlenda her, sem dvelst í okkar landi, og að þeirri herstöð, sem hefur verið byggð upp með hans samþykki allan tímann þar suður frá. Hæstv. ráðh. er minnugur þess, að á sínum tíma lýsti hann því yfir mjög hátíðlega, þá sem ráðh. hér, eftir að hafa farið til Bandaríkjanna og rætt þessi mál við æðstu menn þar í landi, þá gaf hann þá yfirlýsingu, þegar hann kom aftur, en það var 22. marz 1949, að það skyldi aldrei vera her á friðartímum hér á Íslandi eða herstöðvar hér í okkar landi. Það var þá, sem hæstv. ráðh. sagði orðrétt það, sem ég skal nú lesa hér upp: „Við munum aldrei samþykkja,“ sagði ráðh., „að erlendur her eða herstöðvar væru í landi okkar á friðartímum. Er því allur ótti um það, að fram á slíkt verði farið við okkur, ef við göngum í bandalagið, gersamlega ástæðulaus,“ Þetta sagði núv. hæstv. dómsmrh. 22. marz 1949, einmitt um það leyti, sem var verið að leggja grundvöllinn að því að byggja hér upp herstöð á Íslandi og fá erlendan her hingað inn í landið. Það er mjög skiljanlegt, að þeim manni, sem hefur viðhaft þessi orð og lofað þjóð sinni jafnákveðið tilteknum atriðum, eins og hann gerði í þessu tilfelli, líki ekki allt of vel, að umr. snúist um uppbyggingu herstöðvarinnar og á það sé bent, að sú hætta, sem steðjar að okkur nú, ef til styrjaldar drægi, stafar fyrst og fremst af uppbyggingu þessarar herstöðvar, sem var hreinlega svikin inn á Íslendinga.

Í þessu sambandi reynir svo hæstv. dómsmrh. að verja sig með því, að reynslan hafi sýnt, að hlutleysisstefnan sé orðin löngu úrelt, hún sé orðin gagnslaus, og því sé ekki um annað að gera en að treysta á hernaðarlegar varnir og síðan almannavarnir þar á eftir til að bjarga því, sem sleppur lifandi út úr sjálfri stórorustunni. Og þegur hann reynir að sanna þessa kenningu sína, að hlutleysisstefnan sé orðin úrelt, þá er það, sem hann gripur til þess að ræða um landamærastyrjöld þá, sem nú geisar milli Kína og Indlands. Það er alkunna, að Indland er einmitt eitt af þeim löndum, sem hallazt hefur að hlutleysisstefnunni. En nú hefur það skeð, að Indland hefur lent í styrjaldarátökum við nágranna sinn, Kína. Og þá er hæstv. dómsmrh. ekki lengi að draga ályktanir. Hann segir: Þar sem það liggur nú fyrir, að ráðizt hefur verið á Indland, — Indland var hlutlaust land, — þá er það alveg sannað mál, að hlutleysið er gagnslaust. Af þessum ástæðum getum við hætt að hugsa um hlutleysi, og þá er varla annað til bragðs en að byggja upp sem allra sterkastar hervarnir. Alveg á sama hátt gæti ég tekið aftur dæmi af landi, sem liggur nær okkur. Ég gæti bent á Svíþjóð og sagt, að Svíþjóð hefði fylgt hlutleysisstefnu, m.a. í síðustu styrjöld, og reynslan varð sú, að Svíar sluppu við það að dragast inn í styrjöldina. Og það hefur ekki verið ráðizt á Svíþjóð enn, og af því er hægt að draga þá ályktun, að hlutleysisstefnan dugi. Þetta eru út af fyrir sig ekki ýkja merkileg rök. En ég ætla líka, að hæstv. dómsmrh. megi viðurkenna það, að hans rök séu ekki ýkja þung á metaskálunum. Indland heldur því enn fram, að þrátt fyrir þau landamæraátök, sem fara fram á milli Kína og Indlands, þá muni Indland halda sér við hlutleysisstefnuna. Forustumenn þar í landi hafa ekki breytt skoðun sinni á þeirri stefnu, þrátt fyrir þau styrjaldarátök, sem þarna fara fram. Og það er ekki vitað til þess, að neitt af hinum almennu hlutleysisríkjum hafi skipt um skoðun á hlutleysisstefnunni, þrátt fyrir einstaka árekstra, sem kunna að verða í heiminum. En hitt er vitað, að stórveldin hafa einmitt nú hvað eftir annað orðið að leysa vandamál sin á milli, þar sem varla hefur verið annað sjáanlegt en að það væri að brjótast út styrjöld, þau hafa orðið að leysa þessi vandamál sín einmitt með því að viðurkenna hlutleysið. Síðasta dæmið í þessu er frá Laos, þar sem leit út fyrir, að ætlaði jafnvel að verða tilefni til stórstyrjaldar á milli stórveldanna. Þá var helzta útgönguleiðin einmitt sú að koma sér saman um að gera landið að hlutlausu landi, og þau öfl náðu undirtökunum þar í landi, sem hölluðust á þá sveifina. Forustumaður hlutleysisstefnunnar þar í landi myndaði stjórn í landinu, og það var síðan yfirlýst stefna þess lands. Þar var það almannadómur, að það, sem bezt mundi tryggja frið, væri einmitt að halla sér að hlutleysisstefnu. Það er auðvitað enginn vafi á því, að hættan er miklum mun meiri fyrir þær þjóðir, sem hafa skipað sér í aðra hvora höfuðsveitina, sem mest hættan er á að kunni að takast á í styrjöld, að það er auðvitað yfirgnæfandi hætta á því, að þau löndin, sem hafa skipað sér ákveðið í aðra hvora sveitina, að það verði þau, sem dragist inn í þau styrjaldarátök, fremur en þau löndin, sem hafa ákveðið að standa hlutlaus utan við. En það dettur auðvitað engum manni í hug að halda því fram, að það sé orðið fullkomið öryggi að skipa sér í sveit hinna hlutlausu landa. Það getur vissulega farið svo, að annar hvor styrjaldaraðilinn telji sér henta að brjóta hlutleysið og ráðast inn í hið hlutlausa land. Við játum það, þeir sem aðhyllast hlutleysisstefnuna, að hún veitir ekkert fullnaðaröryggi. En ég ætla, að allir geti viðurkennt það, sem hleypidómalaust fást til að ræða málið, að líkurnar eru miklu meiri til þess; að þeim löndum takist að halda sér fyrir utan ófögnuðinn, sem hafa ekki látið draga sig beinlínis í dilk annars hvors aðilans, sem mestar líkur eru til að kunni að eigast við í styrjöld. Ég held því, að allur bægslagangur hæstv. dómsmrh. gegn hlutleysisstefnunni í þessum efnum hafi lítið að segja, hann bjargi út af fyrir sig litlu, sá bægslagangur bjargi ekki því, að hann geti haldið fullri sæmd sinni í sambandi við þá stefnu, sem hann hefur rekið hér með því að vinna að því að draga Ísland í dilk með annarri hernaðarblökkinni.

Þá er eitt atriði enn, sem mig langar til að víkja nokkuð að í þessu sambandi við þessar almennu umr., sem aðalflm. málsins hafa fitjað hér upp á, en það er kenning hæstv. dómsmrh. um það, að samþykkt Alþingis frá 28. marz 1956 um brottför hersins sé raunverulega dauð og grafin eða hún sé fallin úr gildi. Það var greinilegt í umr. nú fyrir nokkrum dögum, þegar þetta mál var rætt, að hæstv. dómsmrh. vildi leggja mikla áherzlu á að reyna að sanna þetta. Honum var ekkert um að sjá það hér á þskj., að því væri slegið föstu, að samþykkt Alþingis í þessum efnum frá 28. marz 1956 stæði enn í fullu gildi. Hæstv. ráðh. hefur auðvitað munað eftir þeim orðaskiptum, sem fram fóru hér á Alþingi í desembermánuði 1956, þegar nokkur þáttaskil urðu í þessum málum, þegar ákveðið var af þáv. ríkisstj. og tilkynning birt um það hér á Alþingi að fresta þeim samningaviðræðum, sem þá höfðu verið hafnar við Bandaríkin um brottflutning hersins. En það var einmitt þá, sem það gerðist, að tveir af stjórnarflokkunum, Framsfl. og Alþfl., stóðu að því að ákveða, að það væri óhjákvæmilegt, miðað við það ástand, sem þá var í heiminum, að láta niður falla um sinn, eins og það var orðað, þær endurskoðunarviðræður, sem þá höfðu staðið yfir við Bandaríkin. En þriðji stjórnarflokkurinn, sem var Alþb., gaf þá yfirlýsingu hér á Alþingi, að þó að hann út af fyrir sig teldi enga ástæðu til þess að hika við að halda fram þeirri yfirlýstu stefnu, sem átti að vera hjá ríkisstj., en það var að vinna að því, að herinn yrði látinn fara úr landinu, þá gæti hann út af fyrir sig fallizt á það, þar sem samstarfsflokkar hans virtust ekki viðbúnir að standa við þessa samþykkt, að málinu yrði frestað um skeið. Þegar þetta gerðist hér á Alþingi, talaði núv. hæstv. dómsmrh. nokkrum sinnum um málið og gekk mjög fast eftir því að fá þeirri spurningu svarað, hvort það væri rétt, sem fram hefði komið í ræðu Hannibals Valdimarssonar þá, að það, sem gerzt hefði í málinu, væri það, að aðgerðum væri frestað um 2–3 mánaða skeið, eins og hæstv. dómsmrh. orðaði það þá. Og hann margspurði þáv. utanrrh., Guðmund Í. Guðmundsson, um það, hvort hér væri um frestun að ræða eða hvort hér væri raunverulega fallið frá þeirri samþykkt, sem Alþ. hafði áður gert í málinu. Og sömu spurningu beindi núv. hæstv. dómsmrh.forsrh., sem þá var, Hermanni Jónassyni, hvort hér væri um frestun að ræða eða hvort samþykktin frá 1956 væri niður fallin. Hann spurði ekki um þetta einu sinni og ekki í einni ræðu, heldur í mörgum ræðum og varð vondur og því verri, eftir því sem ræðurnar urðu fleiri. En hann fékk auðvitað alltaf það svar, þegar honum var svarað, að það, sem gerzt hefði í málinu, væri það, að ákveðið væri að láta umr. við Bandaríkin falla niður um skeið, það hefði verið ákveðið. Hæstv. forsrh., sem þá var, Hermann Jónasson, viðhafði orðið frestun, en sagðist ekki geta sagt um það, hvað málinu yrði frestað lengi, því að það yrði að fara eftir því, hvenær flokkar ríkisstj. teldu heimsástandíð hafa breytzt svo mikið, að þeir teldu tiltækilegt að taka málið upp á ný. Þessum umr. lauk auðvitað þannig í þetta skipti, að núv. hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, sat uppi með spurningar sínar, vildi að vísu endilega fá það fram, að fallið hefði verið frá samþykkt Alþingis frá 1956, en fékk engan til að taka undir það með sér, og enginn hafði mótmælt því í þessum umr., sem Hannibal Valdimarsson sagði þá, að hér væri um hreinan frest að ræða, enda var það mjög greinilegt samkv. því samkomulagi, er þá var gert, að hér var aðeins um frest að ræða.

En svo gerðist það á þessum fundi, að það var greinilegt, að það hafði orðið nokkur breyting á frá 1956. Nú gat núv. hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, talað við utanrrh., sem nú er og þá v ar, Guðmund Í. Guðmundsson, með allt öðrum hætti en hann gat 1956. Nú gat hann látið hann tala. Nú gat hann látið hann gefa þá yfirlýsingu, sem hann þurfti á að halda og hefur viljað fá. Það leyndi sér ekki, hver var orðinn húsbóndi nú. Fyrir nokkrum dögum sem sagt kv að dómsmrh. upp í umr. þann dóm, að samþykktin frá 1956 væri fallin niður. Síðan var honum bent á það í umr., að hann gæti ekki fært eina einustu samþykkt Alþingis fram, sem benti til þess, að Alþingi hafi fallið frá þessari yfirlýsingu sinni. Og þá vék hann sér að hæstv. utanrrh. og sagði honum, að hér yrði hann að gera það, sem hann neitaði að gera 1956, nú yrði hann að koma hér upp í stólinn og skrifta og lýsa því yfir umbúðalaust, helzt flytja till. um það, að samþykkt Alþingis frá 1956 væri niður fallin. Þessi leikur allur sýnir, að hæstv. dómsmrh. hefur séð, að samþykkt Alþingis frá 1956, eins og segir í dagskrártill. hv. 4. landsk. þm., stendur í fullu gildi. En hann ætlar sér að fá breytingu nú á þessu þingi á þessari samþykkt með beinni atkvgr., og það má vel vera, að honum takist að fá það fram. Það er staðreynd, sem við höfum staðið frammi fyrir, að Sjálfstfl. ráði öllum gerðum Alþfl. Það má vel vera, að hann geti nú látið hvern einn og einasta þm. Alþfl. falla frá þessari samþykkt og samþykkja nú, að þessi yfirlýsing Alþ. skuli hér með niður falla. Það má vel vera, reynslan ein sker úr um það. En umr. frá 1956 um þessi mál skera alveg ótvírætt úr um, að það, sem gerðist í desembermánuði 1956 hér á Alþingi í þessu máli, var aðeins það, að því, sem heitið hafði verið að gera, til þess að samningunum við Bandaríkin yrði breytt með það fyrir augum, að herinn færi úr landi, var þá frestað, en aðeins frestað. Það er svo í þessu sambandi alveg augljóst mál, að orð hæstv. dómsmrh. í garð okkar Alþb.-manna um það, að við höfum ekki hirt um að taka þetta mál um brottför hersins upp á þinglegan hátt, á meðan við vorum í ríkisstj., eftir þá atburði, sem gerðust í málinu í desember 1956, að þessi ummæli hans eru auðvitað út í loftið. Við höfðum enga ástæðu til þess að taka málið upp þann tíma, sem við vorum í ríkisstj., eins og hann segir, á þinglegan hátt, vegna þess að Alþingi hafði talað í málinu. Og það, sem gerzt hafði, var aðeins það, að þeim samningum, sem lofað hafði verið, var aðeins frestað. Við gengum eftir því með þremur bréfum og mörgum sannanlegum við tölum við samstarfsráðh. okkar á tímabilinu frá desember 1956, þar til ríkisstj. var slitið haustið 1958, að það yrði staðið við þessa samþykkt og þau loforð, sem gefin voru í sambandi við myndun stjórnarinnar, og að viðræður yrðu teknar upp aftur með það fyrir augum, að herinn yrði látinn fara. En við gátum auðvitað ekki fengið því ráðið sem minni hl. í ríkisstj., þegar hinir flokkarnir tveir, Framsfl. og Alþfl., neituðu að verða við þessum kröfum okkar. Það er því fullkomlega út í hött hjá hæstv. dómsmrh. að tala um það, að við höfum unnið óeðlilega að þessu máli með því að taka það ekki upp á þessum tíma sem sérstakt þingmál. Tillöguflutningur okkar um þetta mál síðan sannar ekki heldur, eins og hæstv. utanrrh. vildi segja í sinni ræðu, það, að við hefðum álitið, að samþykktin frá því í marz 1956 væri niður fallin, því að allar okkar tillögur, sem fluttar voru á Alþingi síðan um málið, voru í þá átt að krefjast þess, að staðið yrði við yfirlýsingar Alþingis frá 28. marz 1956.

Þegar hæstv. dómsmrh. ræddi um þetta atriði málsins, sagði hann, að við Alþb.-menn gerðum þá kröfu til hans og núv. ríkisstj., að staðið yrði við þessa samþykkt, og hann skildi það ekki, af hverju við beindum þessum kröfum til ríkisstj., spurði um það, hvort við tryðum núv. stjórn betur en þeirri stjórn, sem við vorum í sjálfir, og sagði svo, að hann vissi, að við hefðum auðvitað ástæðu til að treysta því, að hann og þrír, sem með honum væru nú í ríkisstj., stæðu alltaf við öll sín loforð, en það hefði verið meira en hægt hefði verið að segja um vinstri stjórnina. Ég hef minnt hæstv. ráðh. á það fyrr í minni ræðu, hvernig hann stóð við það loforð, sem hann gaf þjóðinni 22. marz 1949 um, að í landinu skyldi aldrei verða erlendur her og hér skyldu aldrei verða erlendar herstöðvar á friðartímum. Miklu fleiri atriði mætti þar til nefna um það, hversu vel hann og sú ríkisstj., sem hann er í, hefur staðið við sin loforð. Ég dreg enga dul á það, að sú ríkisstj., sem ég var í, stóð ekki við þetta loforð. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir af minni hálfu og okkar ráðh. Alþb. tókst okkur ekki að fá ríkisstj. til að standa við þetta loforð. En það er vitanlega hin mesta fjarstæða hjá hæstv. dómsmrh. að ætla að skella sökinni af því, að svo fór, á okkur, sem gengum sannanlega eftir því, að staðið yrði við þessa samþykkt Alþingis.

Ég hef nú rætt þetta mál á nokkuð breiðum grundvelli, að gefnu tilefni. Ég vil taka það alveg skýrt fram, að ég var ekki upphafsmaður að því, að þessar umr. fóru út á þennan vettvang, sem þær hafa farið, og við Alþb.-menn áttum ekki hlut að því, heldur höfum við haldið okkur fyrst og fremst við eðli þessa máls, sem hér liggur fyrir, við almannavarnirnar, hvað hægt væri að gera í þeim efnum, og um hættuna, sem okkar stafaði beinlínis af herstöðinni, sem er í landinu, og hvernig árangursríkast væri fyrir okkur til að tryggja líf og limi borgaranna í landinu að fjarlægja hinn erlenda her úr landinu og leggja niður herstöðvarnar. Það var um þetta, sem við ræddum. En það vorum ekki við, sem byrjuðum á því að draga inn heimspólitíkina almennt í umr.

Mig langar svo að lokum að víkja nokkru nánar að efni frv. sjálfs, nokkrum atriðum þess.

Þegar þetta mál var rætt á síðasta þingi, talaði ég nokkuð um málið. Ég benti þá á, að í frv., eins og það var lagt fyrir, væri um að ræða eina grundvallarbreytingu frá því, sem verið hefði í eldri lögum um sama efni hér hjá okkur, og að þessi breyting væri hreint ekki lítil. Þetta frv. er byggt upp á þeirri meginreglu, að það sé ríkisstj. sjálf, sem á að hafa frumkvæði um það, sem gert er í almannavarnamálum. Það skuli vera á valdi ríkisstj. og fyrst og fremst þess ráðh., sem fer með þessi mál, að ákveða um það hverju sinni, hvað skuli gert í almannavarnamálum. Og í beinu framhaldi af þessu eru hæstv. ráðh. gefnar mjög víðtækar heimildir, heimildir, sem ná jafnvel svo langt, að hann getur með einfaldri ákvörðun ákveðið að láta kalla til æfinga í landinu alla menn, sem eru á aldrinum frá 18–65 ára, til æfinga, sem í öllum meginatriðum geta orðið svipaðar eða eins og heræfingar eru t.d. hér á Norðurlöndum. En mjög verulegur hluti þeirra æfinga er einmitt um þau efni, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En í eldri löggjöf um þetta sama efni var þetta byggt upp á allt annan veg. Þá var gert ráð fyrir því, að valdið væri í höndum bæjar- og sveitarstjórnanna í landinu að ákveða það, út í hvaða ráðstafanir væri lagt. Bæjarstjórn Reykjavíkur gat ákveðið að efna til þar tiltekinna ráðstafana. Hún stóð auðvitað í nánustum tengslum við borgara síns bæjarfélags, og þeir gátu þá auðveldlega talað við sín borgaryfirvöld. Og reynslan af þessu varð auðvitað sú, að það var gætt mjög hófs hjá flestöllum sveitarfélögum í landinu í því, hvað gert var, bæði miðað við getu og allar aðstæður. En með þessu frv. er ákveðið að skipta hér algerlega um. Bæjar- og sveitarstjórnirnar eiga hér ekki að ráða, hvað gert er, heldur er það ráðh., sem fá í sínar hendur allt þetta vald og getur fyrirskipað það, sem heimildir laganna gera ráð fyrir. Og með því er einnig ákveðið, að ríkisvaldið getur tekið til að byggja hér upp allkostnaðarsama yfirstjórn þessara mála.

Ég fyrir mitt leyti álít, að þessi uppbygging í sambandi við almannavarnir sé mjög hæpin, a.m.k. á þeim grundvelli, sem er lagður í þessu frv., því þó að þetta sé ákveðið, þá er því haldið áfram, að það eiga að vera bæjarog sveitarfélögin, sem eiga að standa undir kostnaði við framkvæmdirnar að mjög miklu leyti. Ef ríkisstj. vill fá allt þetta vald í sínar hendur, á hún líka að leggja til um leið, að allur kostnaður af þessum framkvæmdum verði að vera ríkisins. Það er tilgangslaust að ákveða það með stjórnskipun, að hin einstöku sveitarfélög skuli koma upp sérstökum öryggissjúkrahúsum, að verulegu leyti á sinn kostnað, til þess að halda þeim fulltilbúnum með öllum nauðsynlegum útbúnaði vegna hugsanlegs hættuástands, á sama tíma og svo háttar til, að flest sveitarfélög í landinu geta ekki einu sinni að fullu lokið við þau sjúkrahús, sem þau hafa með að gera nú, og haldið rekstri þeirra uppi með eðlilegum hætti, m.a. vegna þess, að ríkið greiðir ekki einu sinni það hlutfall til þeirra, sem ríkið á að gera samkv. lögum, og skuldar þar stóra fjárhæð. Það er ekki einu sinni hægt að sinna þeim sjúku og veiku í dag, eins og lög og reglur standa til. Ef ríkisstj. telur, að sú pólitík, sem hún hefur staðið fyrir, leiði yfir okkur slíka hættu, að við verðum að ráðast hér í tugmilljóna eða hundraða milljóna kr. framkvæmdir á hverju ári til öryggis borgurunum í landinu, ef til styrjaldar kæmi, þá á líka ríkisstj. að játa það, að hún verður að sjá um að útvega það fjármagn, sem þarf til þess að koma nauðsynlegum öryggisákvæðum fram, en skjóta sér ekki undan vandanum á þennan hátt.

Það, sem við Alþb.-menn höfum gert í þessu máli, er, að við höfum lýst því hér yfir allir, sem rætt höfum málið, að við erum ekki á móti almannavörnum. Við viljum gjarnan styðja almannavarnir. Við viðurkennum, að það steðjar hætta að þjóðinni, ef til styrjaldar kæmi. Og við viljum ekkert draga úr því, að þjóðin sé viðbúin. En við segjum: Við viljum ekki taka þátt í þeim ljóta leik að reyna að telja þjóðinni trú um það, að hún sé úr mestri eða allri hættu, ef löggjöf eins og þessi sé samþykkt og nógu mikið sé talað um það að grafa að innan Arnarhól og búa þar til eitt stórt byrgi eða breyta flestum kjöllurum í húsum í landinu í sérstök loftvarnabyrgi. Við viljum ekki taka þátt í því að blekkja almenning í landinu á þennan hátt, því að það væri illa gert og það væri hættulegt. Við álítum, að það eigi að draga réttar ályktanir í sambandi við þá hættu, sem allír virðast vera sammála um að þjóðin stendur frammi fyrir, ef til styrjaldar kæmi, og viðurkenna, hvað er aðalhættuvaldurinn, hvað það er, sem veldur mestri hættu fyrir íslenzku þjóðina í þessum efnum, og reyna að draga úr hættunni. Við álitum, að það ætti að draga úr hættunni með því að láta herinn víkja úr landinu og með því að leggja niður herstöðina sem herstöð. Það er líka auðvitað alger blekking að ætla að hanga í því, að vegna þess að það er til stór og mikill flugvöllur, sem hefur verið byggður upp meira og minna sem hernaðarflugvöllur suður í Miðnesheiði, að af því að aðeins flugvöllurinn sé til, þá vofi hættan yfir okkur og það sé ekki hægt að gera neitt við því. Það er auðvitað tiltölulega auðvelt verk að eyðileggja einn flugvöll eða gera hann þannig, að hann verði ekki þýðingarmikill hernaðarlega séð, og það þarf ekki einu sinni að nota svo stór orð í þeim efnum að tala um að sprengja eitthvað í loft upp. Það er hægt með tiltölulega litlum aðgerðum að eyðileggja einn flugvöll, þannig að það þurfi svo að segja að byggja hann upp að nýju. Það er hægt að gera hann þannig, að stærstu og hættulegustu hernaðartækin geti ekki notað völlinn. Spurningin er bara sú: Vill maður hallast að þeirri skoðun, sem við Alþb.- menn höfum, að orsökin sé herstöðin, hernaðaraðstaðan öll með hinum erlenda her, að hættan liggi í þessu, eða eru menn á hinni skoðuninni, sem hæstv. dómsmrh. túlkar hér, að við getum ekkert gert til þess að draga úr hættunni annað en það að hafa sem sterkastar hernaðarvarnir fyrir í landinu? Þeir, sem eru á þeirri skoðun, vilja auðvitað moka að sér hergögnum og hermönnum og halda, að hættan verði þeim mun minni sem hervarnirnar séu sterkari. En ég er ósköp hræddur um það, að áframhaldið af þeirri stefnu leiði til þess, að það þurfi að byggja byrgi um allt Ísland og það þurfi svo að segja að geyma alla Íslendinga undir jarðarskorpunni einhvers staðar, ef á að láta þá ver a sæmilega örugga.

Við Alþb.-menn erum enn sömu skoðunar og við vorum 28. marz 1956. Við álítum, að það eigi að standa við þá yfirlýsingu, sem Alþingi gerði þá, það eigi að vinna að því, að herinn fari úr landinu. Við teljum, að með því væri stigið stórt skref í rétta átt, einmitt í þágu almannavarna. Og það er auðvitað alveg tilgangslaust fyrir hæstv. dómsmrh. að tala um það hér í einhverri vonzku, að kommúnistar vilji þetta og vilji hitt og það séu aðeins kommúnistar, sem séu á móti því, að nokkuð sé gert í þessum málum. Hæstv. ráðh. veit mætavel, að það er meiri hl. Íslendinga, sem óskar eftir því í dag, að herinn fari úr landinu. Hann veit, að það hefur verið leitað álits víða um land, til manna úr öllum flokkum, um það, hvort þeir vildu beinlínis tjá það á skriflegan hátt, hvort þeir væru með því, að herinn færi úr landi, eða ekki. Og það hefur komið í ljós, að í hverju kjördæminu af öðru tjáir sig alveg ákveðinn í þessu máli meiri hl. kjósenda. En það er auðvitað hægt í þessu máli eins og öðru að berja höfðinu í steinvegginn allan tímann og neita staðreyndum og segja eins og svo oft áður er sagt: Það eru bara vondir menn, sem halda þessu fram. Þetta eru bara kommúnistar, og af því þarf ekki að taka neitt mark á því.

Ég vil nú skora enn einu sinni á hæstv. dómsmrh., sem stendur að flutningi þessa frv., að hann geri Alþingi grein fyrir því, áður en þetta mál er afgreitt út úr deildinni, hvað það er, sem hann hugsar sér að framkvæma samkv. þessum væntanlegu lögum í fyrstu lotu, t.d. á næsta ári. Ég trúi því alls ekki, að hann hafi ekki gert sér grein fyrir því, á hverju eigi að byrja. Ég vil alveg sérstaklega spyrja hann um það, hvort t.d. sé meiningin að byrja nú á næsta ári á því að grafa eitt mikið byrgi í Arnarhól. Það er vitað, að það mál er búið að vera lengi í athugun og það er búið að mæla og teikna og reikna heilmikið út og menn vita allmikið um verkið. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hefur ekki hann, sem hefur mikinn áhuga á þessu máli og þá ekki sízt fyrir því að bjarga Reykvíkingum, úr því sem komið er, myndað sér skoðun á því, hvort þarna eigi að byrja að grafa á næsta ári? Og hvað álítur hann þá að þurfi að áætla mikla fjárhæð í þessu skyni? Það væri auðvitað einnig mjög fróðlegt að fá að vita um það, hvernig á að afla fjárins, því að það hefur viljað við brenna, a.m.k. þegar við stjórnarandstæðingar leggjum eitthvað til á Alþingi, að varið skuli einhverri upphæð til gagnlegra framkvæmda, að þá höfum við verið spurðir um það, hvar eigi að taka tekjurnar. Ég vildi gjarnan fá að vita um það beint frá hæstv. ráðh., hvað ráðgert er í þessum efnum. Ég efast ekkert um, að þeir fjölmörgu menn í landinu, sem nú standa í húsbyggingum, sem nú standa frammi fyrir því að horfa á útreikninga hins opinbera um það, að meðalstór íbúð, eins og hún er talin vera í landinu nú, kosti um 560 þús. kr. í byggingarkostnaði, og eiga alls ekki kost á því að fá meira lán en 150 þús. kr. til þessara framkvæmda, — ég býst við því, að þeir menn, sem standa í þess háttar framkvæmdum, vildu gjarnan fá að vita um það, hvort það er ætlun hæstv. ríkisstj. að skylda þá alla til þess að breyta kjöllurum í væntanlegum húsum sínum á þann hátt, að í hverjum kjallara sé loftvarnabyrgi, sem telja megi til einhvers gagns, ef til styrjaldar drægi. Það er gert ráð fyrir þessu í frv., og það er sennilega ekki ótrúlegt, að þetta yrði eitt af því fyrsta, sem gripið yrði til. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hefur hann ekki kynnt sér þessa hlið málsins? Og ráðgerir hann, að hafizt verði handa í þessum efnum samkv. þeim heimildum, sem hann óskar að fá í sínar hendur til ákvarðana í þessum efnum?

Ég veit, að hæstv. dómsmrh. sér og viðurkennir, að það er svar út í hött við þessum spurningum og ekki sæmilegt í sambandi við þetta mál að segja, að þetta verði nú allt athugað, sérfræðingar verði látnir skoða málið og það sé fyrst að athugun þeirra lokinni, sem eitthvað sé hægt að segja um það, hvað skuli gera. Það hefur ekki þótt sæmilegt hér á Alþingi áður að fara fram á svona víðtækar heimildir, án þess að mönnum sé gerð grein fyrir því, hvað stendur til, a.m.k. í fyrstu lotu. Eða er hitt kannske meiningin, eins og umr. hér óneitanlega bera mjög vott um, að aðaltilgangurinn sé sá að hefja upp mikinn áróður og halda margar réttlætingarræður hér af hálfu ríkisstj. um, að það sé nauðsynlegt að hafa hér sem mestar hervarnir, það sé nauðsynlegt að afneita hlutleysisstefnunni, það sé nauðsynlegt að afneita þeirri stefnu, sem Alþingi hefur lýst yfir áður, að það beri að stefna að því, að herinn fari úr landinu? Er þetta tilgangurinn með málinu, að flytja áróðursræður um þetta, og svo til viðbótar almennar skammir um kommúnista, um Rússa og aðra vonda menn, og í krafti þess, hvað þeir séu óskaplega vondir, megi halda áfram að hervæða landið?

Ég segi, að mér finnst, eins og umr. hafa verið hér, að það bendi óneitanlega margt og mikið til þess, að tilgangurinn með flutningi málsins hér inn í þingið sé þessi. En ég vil nú vænta þess, að jafnhliða því, sem skýrt verður í stjórnarblöðunum og væntanlega einnig í útvarpinu frá hinum gagnmerku ræðum hæstv. dómsmrh. um heimspólitíkina almennt og alheimskommúnismann og síðustu styrjöld o.s.frv., þá verði ekkert undan dregið af því heldur, hver sé afstaða og stefna okkar Alþb.-manna til þessa máls. Ég hygg, að hún hafi komið hér alveg greinilega fram. Við erum ekki á neinn hátt á móti almannavörnum. En við þorum að horfast í augu við veruleikann og við vekjum alveg hiklaust athygli á því, hvaðan hættan stafar og hvað hægt er að gera til þess að bægja hættunni frá.

Ég mun ekki í þessum umr, taka þátt í kappræðum um það, hvernig síðustu styrjöld bar að og að hve miklu leyti megi draga úr sök þýzku nazistanna í sambandi við styrjöldina. Ég nenni satt að segja ekki, a.m.k. á þessu stigi málsins, að fara í slíkar umr., sé ekki, að það kalli mikil þörf á það. Hins vegar er auðvitað ekkert við því að segja, þó að hæstv. dómsmrh. haldi áfram slíkum ræðuhöldum hér, ef hann óskar eftir og telur það til gagns þessu máli, sem hér liggur fyrir. En ég held nú samt, að nær væri honum, heldur en að halda hér öllu lengra á þeirri braut, að fást til að ræða við okkur óbreytta þm. um efni þessa máls, sem hér liggur fyrir, og svara okkar fsp. hér beint um áætlaðar framkvæmdir í málinu.

Það er nú komið að fundarlokum, og ég skal ekki ræða þetta mál öllu lengur nú. Að vísu var brtt. sú, sem hæstv. utanrrh, flutti hér, með mjög sérkennilegum hætti. Ég hafði vikið nokkuð að henni áður, en ég ætla, að framkoma hennar og efni sé með þeim hætti, að það sé ekki mikil þörf á því að ræða hana út af fyrir sig. Ég held. að það sýni sig mjög ljóslega, að hún sé flutt samkv. fyrirskipun, og það skilur maður mætavel, hvað á bak við liggur. Ætlunin er að knýja nú fram stefnubreytingu af hálfu Alþingis varðandi herinn og slá helzt af öllu fastri þeirri stefnu, sem hefur verið stefna núv. hæstv. dómsmrh. um langa hríð, að við eigum að stefna að því að hafa hér her í landinu á öllum tímum. Það má vel vera, eins og ég sagði, að hæstv. dómsmrh. takist að fá fram slíka samþykkt nú á þessu þingi. En vonandi stendur sú samþykkt ekki lengur en fram yfir næstu kosningar, að Alþingi verði þannig skipað áfram að meiri hl. til, að það kjósi að slá því föstu, að það skuli vera her, erlendur her og erlendar herstöðvar, í landi okkar á öllum tímum.