17.04.1963
Sameinað þing: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

Almennar stjórnmálaumræður

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þann stutta tíma, sem ég hef til umráða, ætla ég að tileinka landbúnaðinum og meðferð landbúnaðarmála hjá núv. hæstv. ríkisstj.

Fyrir síðustu kosningar lofuðu núv. stjórnarflokkar lækkandi dýrtíð, batnandi lífskjörum og að engar nýjar álögur skyldu lagðar á þjóðina. En hvernig hafa efndirnar verið? Þessu gleymdi hæstv. forsrh., Ólafur Thors, að skýra þjóðinni frá áðan í ræðu sinni, enda hyggilegt af honum, þar sem fögru loforðin gleymdust, um leið og ráðh. settust í valdastólana.

Eitt af fyrstu verkum hæstv. ríkisstj. var að fella gengi íslenzkrar krónu um 132.5%, afnema bann á okurvöxtum, skylda banka, sparisjóði og innlánsdeildir kaupfélaga til að frysta inni í Seðlabanka Íslands drjúgan hluta af sparifjáraukningu landsmanna. Þannig mun vera búið að frysta um 640 millj. kr., sem engum koma að gagni, og vaxtatapið nemur 57 millj. kr. Væri ekki nær að ávaxta svolítinn hluta af þessu fé í stofnlánadeild landbúnaðarins? En ársgreiðslur eru nú af 150 þús. kr. íbúðarhúsaláni í sveit 9900 kr. og hafa hækkað um 3000 kr. í tíð núv. ríkisstj., og ársgreiðsla af 300 þús. kr. útihúsaláni hefur hækkað úr 22200 kr. í 31800 kr. Við þetta bætist á hvern bónda að meðaltali á yfirstandandi ári 2000 kr. lánsfjárskattur til stofnlánadeildar landbúnaðarins. Allar þessar hækkanir nema 14 600 kr. á bónda á ári.

Tekjuöflun stofnlánadeildarinnar er þannig upp byggð, að bændur greiða til hennar 2 kr. á móti hverri 1 kr. frá ríki og neytendum. Samkv. áætlun ríkisstj. greiða bændur þannig á næstu 14 árum 618 millj. kr. til deildarinnar. Helmingur af þessari upphæð er til kominn vegna vaxtahækkunar og sérskatts á bændur, en hinn helmingurinn samsvarar þeim vöxtum af lánum, er áður voru. Ofan á þetta bætist það, að rekstrarvörur landbúnaðarins hafa stórhækkað: fóðurmjöl um 40% síðan 1958, kjarnaáburður um 34%, fosfóráburður 70% og kalí 91%. Ferguson standard dráttarvél hefur hækkað um 35 þús. kr. síðan 1958, eða um tæp 66%, ef reiknað er með tollum samkv. nýju tollskránni, og kostar því nú 88500 kr. En þessi vél var mun dýrari undanfarin 3 ár.

Á sama tíma hefur nýmjólk hækkað í verði til bænda sem næst 35% og sauðfjárafurðir um 40% .

Það gefur því auga leið, að framkvæmdir hafa farið minnkandi í landbúnaðinum hin síðari ár. Framræsla lands var 1958 4 millj. m3, en aðeins 2,5 millj. m3 s.l. ár. Árið 1958 voru byggðar heygeymslur 175 þús. m3, en árið 1961 voru þær 63 þús. m3 minni. Nýræktin er 800 hekturum minni árin 1960 og 1961 en hún var miðað við tvö næstu ár á undan, og jafnframt hefur jarðabótamönnum fækkað. Árið 1957 voru byggð útihús í sveitum fyrir 54 millj. kr., en 1961 fyrir aðeins 41 millj. kr., hvort tveggja miðað við verðlag árið 1954, samdráttur rúmlega 30%. Þannig mætti lengi telja og færa sönnur á þá þróun landbúnaðarins, sem verið hefur í tíð núv. ríkisstj. Viðreisnardýrtíðin var búin að hækka öll tæki til landbúnaðar um nálægt 100% frá því, sem var fyrir viðreisn. Þakklætisverð viðleitni er nú sýnd á lækkun með nýju tollskránni. Þar koma til áhrif frá Framsfl. og samtökum bændanna.

Afleiðing stjórnarstefnunnar er sú, að ungt fólk hvorki getur né vill eiga afkomu sína undir sól og regni og stunda landbúnað, meðan jafnilla er búið að því og hjá núv. ríkisstj. Ungir bændur horfa vonsviknum augum á afkomu sína í framtíðinni. Þetta skilur hæstv. ríkisstj. ekki og gerir því ekki neitt til að bæta úr í þessum efnum, nema síður væri, vitandi vits, að á meðal bænda eru fjöldamargir, sem aldurs vegna treysta sér ekki til að halda áfram búskap og verða að hverfa frá sínu, án þess að von sé til, að nokkur geti tekið við þeirra ævistarfi eða losað þá á sómasamlegan hátt við jarðnæði og mannvirki þau, sem þeir hafa lagt sig í sölurnar fyrir. En á sama tíma býður hver í kapp við annan í lóðir í höfuðborg landsins.

Það er uggvænlegt, hver hugsun og þróun er að verða í þessum málum nú undir forustu íhalds og krata. Það er kaldhæðni örlaganna, þegar hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, ber sér það í munn, að viðreisnin og batnandi hagur bænda fari saman. Sannleikurinn er sá, að viðreisnin og versnandi hagur bænda fer saman.

Fyrir rúmu ári lauk stjórn Stéttarsambands bænda við áætlun um framkvæmdir í landbúnaði fyrir árin 1961–1970. Áætlun þessi gerir ráð fyrir 13.8% minni framkvæmdum en þær voru á næsta 10 ára tímabili á undan, enda gerð á þeim tíma, sem ekki er mikils að vænta af valdhöfum. Í þessari nýju áætlun segir, með leyfi hæstv. forseta: „að aðstaða landbúnaðarins í þjóðfélaginu sé nú þannig, að þar muni ekki á næstu árum verða ráðizt í meiri framkvæmdir en brýnasta nauðsyn krefst og þó sennilega tæplega það. Aðgerðir stjórnarvalda geta riðið baggamuninn um, hvort bændum tekst að framkvæma það, sem þeir telja nauðsynlegt, til þess að landbúnaðurinn geti fullnægt þeim kröfum, sem eðlilegt er að gera til hans, og haldi sinum hlut í óhjákvæmilegri samkeppni við aðrar atvinnugreinar um vinnuafl og fjármagn.“ Þetta er viðhorf fróðra manna, sem hafa staðið í eldinum fyrir bændastétt landsins.

Öðruvísi var þetta árið 1960. Þá var einnig gerð framkvæmdaáætlun fyrir íslenzkan landbúnað, fyrir árin 1951–1960. Hvernig stóð sú áætlun? Um það ræðir stjórn Stéttarsambands bænda í Árbók landbúnaðarins 1961, og telur hún, að það viðhorf hafi ríkt á því tímabili eða sú stefna, að þjóðfélaginu í heild sé hagkvæmast, að viðhaldið sé byggð og þeim framleiðslumannvirkjum, sem til eru í sveitum landsins. Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þetta viðhorf og þær þjóðfélagsaðstæður, sem að framan eru greindar, voru höfuðorsök þess, að á árunum 1951—1960 má segja, að bylting hafi átt sér stað í vélvæðingu og ræktun í íslenzkum landbúnaði.“

Á þessu tíu ára tímabili stækkuðu túnin úr 44 þús. hekturum í 77 þús. hektara, eða um 75%. Og framleiðsluaukningin varð 300 millj. kr., miðað við verðlag ársins 1960.

Ein höfuðorsök þess, að þessi þróun varð í íslenzkum landbúnaði, var skilningur þáv. stjórnarvalda á gildi hans fyrir þjóðina. Á þessum árum var landbúnaðinum séð fyrir lánum með lágum vöxtum og sjóðir Búnaðarbankans efldir með innlendu og erlendu fjármagni án þess að skattleggja bændur sérstaklega í því skyni. Afurðalán til bænda voru tryggð 67% af verðmæti framleiðslunnar og fóru því hækkandi með aukinni framleiðslu og hækkandi verðlagi.

Störf og stefna Framsfl. hefur jafnan miðazt við það, að atorka vinnandi fólks nyti sín. Með stuðningi félagslegrar uppbyggingar og hjálp samvinnufélaga og búnaðarfélaga hefur uppbygging og ræktun í sveitum landsins vaxið jafnt og þétt og framleiðsluaukning orðið í landbúnaði þrátt fyrir allt. En þessi framleiðsluaukning byggist á fjármagni því, sem veitt var í landbúnaðinn undir forustu Framsfl. Bændur væru nú mun verr settír, ef þeir hefðu ekki notfært sér þá framfarastefnu, sem þá ríkti í landbúnaðarmálum. Undir forustu Framsfl. var með margs konar löggjöf miðað að því að tryggja aðstöðu bændanna. Ýmsum þáttum þeirrar löggjafar hefur verið gerbreytt í tíð núv. ríkisstj. og þá fyrst og fremst lánstíma og vaxtakjörum. Í sumum málum hefur hæstv. ríkisstj. ekki aðhafzt neitt. Þannig er það með frv. til jarðræktarlaga, sem afgreitt var frá búnaðarþingi 1962 og fól í sér réttmæta hækkun á ræktunarframkvæmdum miðað við vaxandi dýrtíð. Engan árangur hefur það borið, þótt hæstv. landbrh., Ingólfur Jónsson, hafi látið í veðri vaka, að hann vildi framgang málsins. Hefði þetta frv. verið samþ. á þessu þingi, mundu bændur hafa hlotið á annan milljónatug hærra ræktunarframlag en þeir fá nú. Andi hæstv. ríkisstj. speglast m.a. í því að halda vísitölu á ræktunarframlagi óbreyttri þrátt fyrir síaukinn ræktunarkostnað.

En Framsfl, er þess albúinn að hefja nýja sókn í málum, þegar hann fær aðstöðu til. Má þar til nefna m.a. frv. til laga. um bústofnslánadeild, frv. til l. um eflingu stofnlánadeildar landbúnaðarins og niðurfellingu lánsfjárskattsins, lækkun vaxta, endurskoðun jarðræktarlaga, breyting á l. um framleiðsluráð landbúnaðarins, koma á fót tryggingum, sem bæta stórfellt tjón á uppskeru og búfé o.fl., greiða fyrir eigendaskiptum á jörðum, sjá um, að bændum verði tryggt, að þeir fái verð afurða sinna greitt við afhendingu, en þurfi ekki að bíða, svo að mánuðum skiptir, eftir kaupi sínu, stuðla að því, að garðyrkju- og gróðurhúsaframleiðsla verði efld, auka og efla aðstöðu til almennrar og faglegrar menntunar bændastéttarinnar, efla tilraunir og rannsóknir í þágu landbúnaðarins ásamt nauðsynlegri leiðbeiningastarfsemi.

Allt fram á þessa öld voru Íslendingar að miklu leyti bændaþjóð. En nú hefur þróun mála orðið sú, að sumar aðrar atvinnustéttir eru orðnar fjölmennari. Eiga þær líka sín vandamál og á margan hátt um sárt að binda eftir viðreisnardýrtíð síðustu ára. Ég hef að þessu sinni rætt um landbúnaðinn fyrst og fremst, jafnframt því sem aðrir ræðumenn ræða önnur efni. Við framsóknarmenn teljum, að það sé, hvernig sem á það er litið í einstökum atriðum, sameiginlegt hagsmunamál alþjóðar, að landbúnaðurinn standi traustum fótum, og þessu megi aldrei gleyma. — Góða nótt.