17.04.1963
Sameinað þing: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1780)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir vorkosningarnar 1959 var hleypt af stokkunum hinum öfgafyllsta kosningaáróðri, sem heyrzt hefur á Íslandi. Því var haldið fram, að með fyrirhugaðri kjördæmabreytingu væri beinlínis að því stefnt að eggja heil héruð landsins í auðn. Og í málgagni hinna æstustu framsóknarmanna, Kjördæmablaðinu, var jafnvel staðhæft, að kjördæmabreytingin gæti tortímt íslenzkri tungu og gróðurmætti íslenzkrar moldar. Fyrir þessum furðulega áróðri stóðu þeir menn, sem nokkrum mánuðum áður höfðu gefizt upp við að stjórna landinu eftir að hafa hleypt af stað óðaverðbólgu, framkvæmt ítrekaðar dulbúnar gengislækkanir, grafið undan trausti íslenzks gjaldmiðils bæði innanlands og utan og valdið efnahagslegu upplausnarástandi á góðæristímum, en síðast, en ekki sízt, haldið þannig á hinu mesta hagsmunamáli þjóðarinnar, landhelgismálinu, að hernaðarástand var ríkjandi á miðunum kringum landið.

Þótt ýmsir létu moldviðrið blekkja sig, lét þorri þjóðarinnar ekki villa sér sýn, og kjördæmamálið var farsællega til lykta leitt, og eftir hinn ömurlega stjórnarferil og uppgjöf vinstri stjórnarinnar fór svo, að það varð hlutverk Sjálfstfl., flokksins, sem vinstri stjórnin hafði að meginstefnumáli að klekkja á, að hafa forustu um að bjarga þjóðinni út úr ógöngunum í samvinnu við Alþfl., sem Framsókn hafði með Hræðslubandalaginu ætlað sér að innlima.

Síðan eru liðin nær 4 ár, tímabil styrkrar og samhentrar stjórnar. Auðvitað er þessi stjórnarstefna ekki alfullkomin fremur en önnur mannanna verk, en hún hefur verið heilsteyptari en stefna flestra eða allra annarra samsteypustjórna í landi voru. Þegar í upphafi var af festu tekið á vandamálunum, og stjórnarflokkarnir . hafa ekki látið kjósendahræðslu fæla sig frá að gera nauðsynlegar ráðstafanir, þó að óvinsælar hlytu að verða í bili. Og það er fyrst og fremst af þessum sökum að tekizt hefur að ná þeim ótrúlega árangri til viðreisnar efnahagskerfi þjóðarinnar, sem nú blasir við hverjum sjáandi manni. Þessi merkilega þróun, sem nú þegar gerir þjóðinni kleift að leggja út í stórfelldari framkvæmdir og umbætur á flestum sviðum þjóðfélagsins en áður hafa þekkzt, skal ekki rakin hér í einstökum atriðum, enda gerist þess ekki þörf, því að þessar staðreyndir blasa við augum allra, sem vilja sjá.

Mig langar hins vegar til, að við íhugum í nokkrar mínútur sameiginlega, hver hefur orðið raunin um eyðingu landsbyggðarinnar, sem framsóknarmenn boðuðu fyrir síðustu kosningar. Í kauptúnum og kaupstöðum hvarvetna um landið má heita, að hver vinnufær hönd sé að starfi allan ársins hring, þar sem víða var áður tímabundið atvinnuleysi mánuðum saman, og mjög víða vantar fólk, ekki hvað sízt til framleiðslustarfa, og nú er það framleiðslan, fyrst og fremst sjávarútvegurinn, sem sogar til sín vinnuaflið. Fleiri og stærri skip eru nú í smíðum fyrir útvegsmenn víðs vegar um landið en áður hefur verið, og þó að vissulega verði að fara með gát að aukningu skipaflotans, meðan vinnuafl skortir svo mjög, þá sýnir þessi þróun traust manna á framleiðslunni og framtíðinni. Mikil átök hafa verið gerð til eflingar síldariðnaðinum og enn meiri framkvæmdir víða um land fyrirhugaðar á því sviði í sumar, en þessar framkvæmdir sem raunar margar aðrar takmarkast fyrst og fremst af vinnuaflinu.

Vegna hinnar miklu aukningar fiskiflotans og hinna nýju, stóru skipa eru hafnargerðirnar víða mesta vandamálið. Miklar framkvæmdir hafa víða verið á því sviði, og í ár er gert ráð fyrir að verja miklu meira fé til hafnargerða en nokkru sinni áður, eða um 120 millj. kr., en á s.l. ári var unnið fyrir um 70 millj. kr. Í framkvæmdaáætlun ríkisstj. er ráðgert að vinna með þeim hraða, sem auðið er, að nauðsynlegum hafnargerðum. Er þetta eitt mesta hagsmunamál útgerðarinnar víðs vegar um landið. Árið 1958 fluttum við nokkrir þm. Sjálfstfl. þáltill. um gerð framkvæmdaáætlunar um hafnargerðir og endurskoðun ákvæða um greiðslu kostnaðar við þær. Var svokallaðri atvinnutækjanefnd falið að gera 10 ára áætlun um framkvæmdir þessar og endurskoða lögin. Er ekki sízt nauðsynlegt að gera sér grein fyrir getu hinna einstöku byggðarlaga til að standa undir kostnaði og haga skiptingu kostnaðar í samræmi við það, svo að ekki þurfi að koma til stórfelldra vanskila á ríkisábyrgðarlánum, sem er viðkomandi sveitarfélögum sízt til gleði.

Vegna meiri aflabragða á næstu miðum hefur útgerð smábáta víða um land aukizt mjög mikið.

Öll þessi hagstæða þróun í útgerðinni, segja stjórnarandstæðingar nú, að sé fyrst og fremst landhelginni að þakka. Sú staðhæfing stingur illa í stúf við fullyrðinguna um það, að landhelgissamningurinn við Breta mundi eyðileggja árangurinn af stækkun landhelginnar.

Það er vissulega ánægjuleg staðreynd, að í flestum kaupstöðum og kauptúnum landsins býr almenningur nú við betri lífskjör en áður og aðstaða til allrar lífsbjargar og atvinnurekstrar fer batnandi. Á mörgum stöðum hefur atvinnubótafé komið að góðu haldi til uppbyggingar atvinnulífinu með löggjöfinni um atvinnubótasjóð, sem fyrst tókst að fá samkomulag um í tíð núv. ríkisstj. Er stefnt að því að koma föstu skipulagi á þá starfsemi.

En hvað þá með sveitirnar? Hafa þær þá ekki lagzt .í auðn, úr því að framsóknarverndina vantaði? Ég held, að fátt sé landbúnaðinum nauðsynlegra en að losna undan áhrifum og hugsunarhætti Framsfl. Samvinnuhreyfingunni hafa framsóknarmenn stórspillt með því að gera hana að flokkslegu áróðurstæki, og virðulegar stofnanir eins og búnaðarþing eru þeir að gera að marklausri samkundu síðustu árin, þar sem flokkspólitísk sjónarmið eru sett ofar hagsmunum bænda og landbúnaðarins. Merkilegast er í rauninni það, að framsóknarmenn með Tímann í broddi fylkingar skuli ekki vera búnir að tæma sveitir landsins með þessum sífellda áróðri ár og síð, ekki aðeins í tíð núv. ríkisstj., heldur um áratugi, að bændur byggju við lökust kjör allra í þjóðfélaginu. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að Framsfl. hafi ekki ýmislegt gert til hagsbóta fyrir bændur, en sem sveitamanni hefur mér oft sárnað það, að í orðræðum sínum og skrifum hafa framsóknarmenn oft talað í þeim dúr, að landbúnaðurinn væri atvinnuvegur, sem gæti ekki bjargað sér sem jafnoki annarra atvinnuvega. Mín skoðun er sú, að með skynsamlegum starfsháttum geti landbúnaðurinn staðið fullkomlega jafnfætis öðrum atvinnuvegum og bændur þurfi ekki að vera háðir neinu náðarbrauði, hvorki frá Framsókn né öðrum.

Undir farsælli og einbeittri forustu núv. hæstv. landbrh. hefur mikilvægum hagsmunamálum landbúnaðarins þokað það mjög í jákvæða átt síðustu árin, að hagur bænda er áreiðanlega að ýmsu leyti traustari nú en var á tímum vinstri stjórnarinnar. Verðlag landbúnaðarvara er nú þannig, að eigi aðeins hafa verið bættar verðhækkanir í tíð núv. ríkisstj., heldur einnig hluti verðhækkana frá fyrri tíð, sem bændur voru sviknir um í tíð vinstri stjórnarinnar, þétt enn vanti á, að bændur hafi viðunandi tekjur. Hækkun tilkostnaðar kemur nú fram fjórum sinnum á ári í stað einu sinni áður. Og síðast, en ekki sízt, má nefna þau réttindi, sem eru einstæð, að ríkissjóður verðbætir nú allar útfluttar landbúnaðarafurðir til jafns við söluverð innanlands. Styrkir vegna byggingar íbúðarhúsa hafa verið hækkaðir, og hin sérstaka aðstoð ríkisins við ræktun nær nú til 15 hektara túnstærðar í stað 10 hektara.

Eitt merkilegasta átakið til eflingar uppbyggingu landbúnaðarins er endurskipulagning stofnlánasjóða hans, sem vinstri stjórnin skildi við gjaldþrota, samhjálp ríkisins, framleiðenda og neytenda, er byggi upp stofnlánadeild fyrir landbúnaðinn, sem á að geta orðið fær um að veita smám saman í auknum mæli stofnlán til þeirrar eflingar í landbúnaðinum, sem nauðsynleg er í framtíðinni. Með þessari nýju löggjöf eru stóraukin framlög ríkissjóðs, og til viðbótar kemur 1% framlag frá bændum og 0,75% frá neytendum. Margir framsýnir bændaleiðtogar hafa fagnað þessari löggjöf sem ómetanlegu hagsmunamáli landbúnaðarins, þótt í þeirra hópi sé því miður ekki hv. 1. þm. Vesturl., sem flutti hér áðan dæmalausar tölulegar blekkingar um stofnlánadeildina. Það er ömurlegt dæmi um ógiftusamlega forustu Framsóknar í bændasamtökunum, þegar síðasta búnaðarþing mótmælir framlagi til stofnlánadeildar landbúnaðarins og gefur jafnvel í skyn, að það sé stjórnarskrárbrot, en biður um svipað leyti Alþingi að lögfesta gjöld á bændur til hótelbyggingar í Reykjavík, sem vitanlega er þá ekki síður stjórnarskrárbrot. Og það er næsta kaldhæðrúslegt, að framsóknarforustan í bændasamtökunum skuli hamast gegn bæði gjaldi bænda og neytenda í stofnlánadeildina, en engin neytendasamtök hafa haft uppi nein mótmæli, og þann möguleika að stofna lífeyrissjóð bænda í sambandi við stofnlánadeildina minnist framsóknarforustan ekki á, en það merkilega mál er nú í sérstakri athugun. Fyrst og fremst vegna löggjafarinnar um stofnlánadeildina hefur verið hægt að auka verulega lánveitingar til ýmissa framkvæmda bænda, og nú fyrst hefur verið talið auðið að hefja lánveitingar til kaupa á dráttarvélum. Í athugun eru lán til súgþurrkunar, en það er einnig til athugunar fyrir forgöngu landbrh., hvort ekki sé auðið að veita styrk til súgþurrkunar.

Síðustu 3 árin hafa stofnlán til landbúnaðarins yfirleitt hækkað um 50—100%, en hækkuðu ekkert, þegar vinstri stjórnin lagði á 55% yfirfærslugjaldið. Með l. um stofnlánadeildina var gert ráð fyrir að leysa fjárþörf veðdeildar Búnaðarbankans með því, að stofnlánadeildin keypti vaxtabréf veðdeildarinnar. Því miður hefur veðdeildin alla tíð verið of mikið vanrækt, hverjir sem í stjórn hafa verið, en nú hafa verið gerðar ráðstafanir til að afla veðdeildinni nokkurs fjár, svo að auðið er að hækka verulega lán úr veðdeildinni til jarðakaupa.

Rafvæðingin hefur gengið samkv. áætlun, og hefur ríkisstj. ákveðið að stefna að því að ljúka framkvæmd 10 ára áætlunarinnar á tilsettum tíma, eða árið 1964, þrátt fyrir stórkostlega aukinn tilkostnað.

Loks má nefna breytingu á 65 millj. kr. lausaskuldum bænda í 20 ára lán, sem er bændum mikil stoð, en því miður ýmsir misstu af, þar eð þeir hlustuðu á áróður framsóknarmanna.

En hvað þá um vextina? Víst eru þeir tilfinnanlegir. En þeir eru þáttur í efnahagsaðgerðum, sem ekki er hægt að komast hjá, og auðvitað er hér ekki um hrein útgjöld bóndans að ræða, því að í verðlagsgrundvellinum í ár er reiknað með 24793 kr. vaxtagreiðslu, en aðeins 8188 kr. 1958.

Síðast, en ekki sízt, má svo nefna hinar miklu tollalækkanir á landbúnaðarvélum, er tollur á dráttarvélum lækkar t.d. úr 34% í 10%. En auðvitað vilja bændavinirnir í Framsókn gera enn betur. Dráttarvélar eiga að vera tollfrjálsar, hámark ræktunaraðstoðar á að vera 20 hektarar, en ekki 15 hektarar, og í stað gjalds bænda og neytenda til stofnlánadeildar á ríkissjóður að leggja fram árlega 30 millj. kr., auk annarra framkvæmda ýmiss konar, sem hv. 1. þm. Vesturl. taldi hér upp áðan. Gallinn er bara sá, að þeim hefur ekki komið til hugar að beita sér fyrir neinu slíku, meðan þeir voru í stjórn. Það er ódýrt að vera öllum góður, þegar menn þurfa enga ábyrgð að bera. Framsfl. er mikill umbótaflokkur, þegar hann er ekki í stjórn.

Vegna réttrar skráningar á gengi krónunnar hefur iðnaðurinn nú fengið ný tækifæri, enda hefur margvíslegur iðnaður blómgazt og möguleikar fyrir ýmiss konar útflutningsiðnað áreiðanlega miklir, og fyrir forgöngu núv. hæstv. iðnmrh. hefur grundvöllur verið lagður að stórauknum stofnlánum iðnaðarins.

Framlög til verklegra framkvæmda víðs vegar um landið hafa síðustu árin vaxið mun meira en verðhækkunum nemur, og í framkvæmdaáætluninni er sérstök áherzla lögð á bættar samgöngur.

Lögfest hefur verið stóraukin þátttaka ríkissjóðs í löggæzlukostnaði, sem hefur mikla þýðingu fyrir landsbyggðina, framlög stóraukin til margvíslegra menningarmála, almannatryggingar auknar meira en dæmi eru til áður og afnumin verðlagssvæðaskiptingin, sem hafði áður í för með sér lægri lífeyri fyrir fólk utan Reykjavíkur. Þá er og vert að minnast hluta sveitarfélaganna af söluskatti, sem fyrst var lögfestur fyrir forgöngu hæstv. núv. fjmrh. og nemur í ár rúmlega 100 millj. kr. Er hlutur hinna minni sveitarfélaga þar hlutfallslega stærstur.

Hér er aðeins stiklað á nokkrum atriðum, en nægilega mörgum til að sanna það, að stjórnarstefnan og þróun atvinnulífsins hefur eigi síður verið til hagsbóta sveitum og sjávarplássum víðs vegar um landið en höfuðborginni og þéttbýlinu. Ótalið er þó eitt, sem hefur verkað mjög örvandi á allt athafnalíf, ekki síður utan höfuðborgarinnar, en það er afnám haftakerfisins og allrar þeirrar spillingar, sem því fylgdi. Meðan haftakerfið var í algleymingi urðu menn utan af landi að sitja tímunum saman í Reykjavík til þess að fá nauðsynleg leyfi, en nú er það úr sögunni.

Það er vissulega mál þjóðarinnar allrar, að byggðin dragist ekki of mikið saman, og það er skylt að miða allar aðgerðir í atvinnu- og fjármálum við það, að eðlilegt jafnvægi sé í byggð landsins. Það er því nánast barnalegt að halda því fram, að það geti verið vísvitandi áhugamál nokkurs flokks, að heil byggðarlög leggist í auðn, og það er óvirðing við þjóðina að bjóða, henni slíkan málflutning.

Reynslan hefur ótvírætt sannað, að auk þess sem kjördæmabreytingin var lýðræðisleg nauðsyn, hefur hún á margan annan hátt verið til góðs og einkum til hagsbóta fyrir hin minni héruð, sem nú fá miklu fleiri talsmenn. Í dag talar heldur enginn um, að hún muni leggja heilar byggðir í auðn. Þar er aðeins um að ræða eitt hinna mörgu öfgayrða, sem stjórnarandstæðingar vilja gjarnan að séu gleymd, svo sem móðuharðindalýsingar hv. 1. þm. Norðurl. e., spádómar Þjóðviljans um stórfellt atvinnuleysi vegna stjórnarstefnunnar, allt talið um samdrátt í atvinnulífinu og síðast, en ekki sízt, hin einstæða yfirlýsing formanns Framsfl., að hann muni segja upp landhelgissamningunum við Breta, ef hann fær aðstöðu til, þótt þeir verði endanlega farnir úr landhelginni, og efna þannig til nýs ófríðar. Er þetta að vísu í næsta góðu samræmi við þá utanríkismálastefnu, sem annar þm. Framsfl. markaði á þann veg, að heppilegast væri að semja ekki við aðrar þjóðir, því að þá gætu menn ekki samið af sér. Hamingjan hjálpi þjóð, sem nú á dögum hefði slíka utanríkismálastefnu.

En stjórnarandstæðingar treysta á, að þjóðin sé gleymin. Nýju moldviðri er blásið upp í málefnafátæktinni, staðreyndum er mótmælt, reynt er að hræða með gengisbreytingu og hlutlaus, og raunsæ skýrsla Seðlabankans um efnahagsástandið er afflutt. En kjarni áróðursins er þó sá, að stjórnarflokkarnir ætli að ofurselja þjóðina erlendu peningavaldi, framlengja landhelgissamninginn við Breta og með þessum aðgerðum raunverulega tortíma sjálfstæði þjóðarinnar. Virðingin fyrir dómgreind almennings hefur sannarlega ekki aukizt í þeim herbúðum.

Val kjósenda hefur sjaldan verið einfaldara en nú. Annars vegar er fastmótuð stefna stjórnarflokkanna og árangur hennar, sem ekkert moldviðri fær dulið. Hins vegar eru mennirnir, sem gáfust upp 1958, hafa ekki gert annað síðan en reyna að torvelda uppbyggingarstarfið og biðja nú um traust með áróðri, sem sæmir ekki ábyrgum mönnum. Annars vegar er áframhaldandi uppbygging á traustum efnahagsgrundvelli, hins vegar upplausn og óvissa, sem hin dæmalausa ræða formanns Framsfl. hér í kvöld var glöggt dæmi um, því að þar örlaði ekki á öðrum úrræðum í vandamálum þjóðarinnar en að lækka vexti og ausa út gjaldeyrisvarasjóðum, sem er öruggasta leiðin til fullkominnar upplausnar.

Leiðin til bættra lífskjara hefur verið mörkuð. Efnahagsleg undirstaða áframhaldandi uppbyggingar og framfara hefur verið lögð, og það er vissulega ástæða til þess að lita björtum augum á framtíðina, ef þjóðin kann fótum sínum forráð og lætur staðreyndir og raunsæi ráða afstöðu sinni við næstu kosningar. — Góða nótt.