17.04.1963
Sameinað þing: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1600 í B-deild Alþingistíðinda. (1782)

Almennar stjórnmálaumræður

Til þess að sætta almenning við þessar harkalegu aðgerðir beittu stjórnarflokkarnir aðallega tvennu í áróðri sínum:

Reynt var að telja fólki trú um, að hér væri aðeins um stundarfyrirbæri að ræða, aðrir og betri tímar væru á næsta leiti og í annan stað var hamrað á því, að kauphækkanir væru tilgangslausar, og því beinlínis hótað, að kauphækkunum skyldi svarað með nýjum gagnráðstöfunum.

Ekki verður annað sagt en að verkalýðsfélögin og launþegar almennt hafi sýnt stjórnarflokkunum mikla biðlund. Í full tvö ár höfðu þeir frið til að láta dóm reynslunnar skera úr um verk sitt. En þá var líka svo komið, að það var einróma álit verkalýðsfélaganna, að ný kaupgjaldsbarátta væri óumflýjanleg. Jafnt stjórnarsinnar sem stjórnarandstæðingar voru á einu máli um, að kaupið yrði að hækka, enda höfðu neysluvörur almennings hækkað um 17% frá því í marz 1959 og þangað til í febrúar 1961 samkv. vísitölu hagstofunnar. Á tveggja ára valdatímabili viðreisnarflokkanna hafði kaupið þannig lækkað um 20–30%. Ekki var því að undra, þótt allir væru sammála um, að það yrði að hækka á ný.

Þetta mikla óréttlæti gagnvart launþegum leiddi svo til kaupgjaldsbaráttunnar og verkfallanna vorið 1961. En rúmu hálfu ári áður en til þeirra atburða dró, höfðu fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar farið á fund ríkisstj. og leitað eftir samkomulagi um kjarabætur eftir öðrum leiðum en kauphækkunum. Þessu var algerlega neitað. Ekkert var hægt að gera í lækkunarátt. Á þessum tíma spöruðu stjórnarblöðin þó ekki slagorðin um kjarabætur án verkfalla, en þegar gengið var eftir athöfnum af hálfu stjórnarvaldanna í þá átt, reyndust öll sund lokuð.

Kröfur verkalýðsfélaganna um vorið 1961 voru mjög hógværar. Þau fóru aðeins fram á hækkun, er nam nokkrum hluta þeirrar kaupskerðingar, sem orðin var. Vitað var, að fjöldi atvinnurekenda vildi semja við félögin. Til verkfallanna kom fyrst og fremst vegna þess, að það var stefna ríkisstj. að semja ekki. Hún hugsaði sér að lama verkalýðsfélögin, svo að þau væru síður í það búin að svara um hæl gagnráðstöfunum hennar. Meðan kaupdeilurnar stöðu yfir 1961, gaf ríkisstj. öðru sinni út brbl., sem bönnuðu löglega boðuð verkföll, hið fyrra sinni var í júlí 1960, þegar verkfall flugmanna var bannað, og nú var lagt bann við verkfalli verkamanna við millilandaflugið. Með þessum ráðstöfunum, sem eru einsdæmi í okkar sögu, voru atvinnurekendur bakkaðir upp í andstöðu sinni við verkafólkið.

Svo fór þó að lokum, að verkalýðsfélögin báru sigur úr býtum og sömdu um 10% kauphækkun. En ríkisstj. lét ekki á sér standa að sanna verkamönnum, að þeir græddu ekki á kauphækkunum. Aðeins einum mánuði eftir að samningarnir voru gerðir var nýrri 13% gengislækkun skellt yfir með brbl., og einu rökin, sem fram voru færð fyrir henni, var þessi 10% kauphækkun. Þessi gengislækkun var því furðulegri sem vitað var, að árið 1961 mundi verða eitt mesta veltiár, sem komið hefði yfir íslenzka útflutningsatvinnuvegi. Gengisfellingin var bein hefndarráðstöfun til að gera að engu þá kauphækkun, sem samdist um, og þar með höfðu stjórnarflokkarnir í þriðja sinn á röskum tveimur árum lækkað kaup almennings með valdboði.

Að sjálfsögðu ætlaði verkalýðshreyfingin ekki að una þessu ástandi til lengdar. Mörg félög sögðu strax upp samningum sínum. Enn hófust viðræður við ríkisstj. um leiðir til að auka kaupmátt launanna án kauphækkana. En þær fóru á sama veg sem fyrr. Ríkisstj. sá engin ráð til að fara þá leið. Verðlækkunarleiðin, sem verkalýðsfélögin helzt kusu að fara, reyndist ávallt lokuð. En nú brá svo við, að ríkisstj. lýsti því yfir, að hún teldi réttmætt, að hinir lægst launuðu fengju nokkra kauphækkun, og kom nú í ljós, að verkföllin 1961 höfðu ekki orðið áhrifa- eða árangurslaus.

Í maí í fyrra var enn samið um 9% kauphækkun til verkamanna, en auðvitað bætti hún ekki nema lítinn hluta þeirrar skerðingar á kaupinu, sem orðin var. Góð orð voru höfð um það af hæstv. ráðh., að reynt skyldi að sjá svo um, að þessi kauphækkun yrði varanleg. En reynslan varð sú, að er á leið sumarið, var kauphækkunin svo til öll horfin í nýjar verðhækkanir. Verkalýðsfélögin áttu þá þann eina kost að segja enn á ný upp samningum sínum með það fyrir augum að fá hlut sinn réttan. Jafnhliða viðræðum við atvinnurekendur var enn farið á fund ríkisstj. og þess krafizt aðallega, að kaupið yrði verðtryggt, að séð væri um, að kauphækkun, sem kynni að semjast um, yrði varanleg. Fulltrúar verkalýðsfélaganna töldu núverandi ástand óþolandi fyrir launþega og raunar fyrir atvinnurekendur einnig. Samningar væru oftast lausir og alger óvissa í þeim málum. Ekki reyndist þó mögulegt að fá neina verðtryggingu á kaupið, og þessum viðræðum lauk í bili með því, að atvinnurekendur hækkuðu kaup ófaglærðra verkamanna um 5% í lok janúarmánaðar s.l., án þess að nýir samningar væru gerðir. Þeir eru áfram lausir. Þessi hækkun var ofur lítil viðurkenning á þeim þungu rökum, sem eru fyrir því, að kaupið verði að hækka.

Ég hef hér brugðið upp skyndimynd af þróun kaupgjaldsmálanna í valdatíð núv. stjórnarflokka og afskiptum ríkisvaldsins af þeim málum, og er þó ýmislegt ótalið. Ég hef t.d. ekki nefnt hinn hataða gerðardóm í kjaramálum sjómanna í fyrrasumar, ekki heldur brbl. í deilu ríkisstj. við lækna og verkfræðinga. Vert er að minnast þess, þegar þessi ferill er rakinn, að það var eitt af fyrirheitum hæstv. ríkisstj., þegar hún kom til valda, að hún ætlaði engin afskipti að hafa af deilum verkamanna og atvinnurekenda, þær ættu deiluaðilar einir að leysa. Efndirnar á þessu fyrirheiti eru hins vegar þær, að vegur hennar síðan er varðaður valdboðum gegn verkalýðshreyfingunni og öllu launafólki.

Þá er ekki síður athyglisvert, að á þessu tímabili, sem svo mjög hefur verið keppzt við að halda niðri kaupi verkafólks, hefur þetta sama verkafólk fært stærri björg í þjóðarbúið með vinnu sinni en nokkru sinni áður í sögu þjóðarinnar. Þjóðarframleiðslan hefur stóraukizt, bæði að magni og verðmæti. En það eru aðrir en verkafólkið, sem þar hafa fleytt rjómann af.

Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, tók sér fyrir hendur í des. s.l. að sanna þjóðinni, að kjör launþega væru þá 10% betri en þan voru 1958. Hversu fráleit þessi fullyrðing er, sést glöggt af eftirfarandi dæmi: Í des. 1958 var almennt kaup verkamanna kr. 23.86 á klst., en í des. s.l. var það kr. 24.80 á klst. og hafði því hækkað um aðeins tæp 4%. Hins vegar segja Hagtíðindin okkur, að helztu nauðsynjavörur almennings, a-liður vísitölunnar, hafi hækkað um 43% frá því í marz 1959 og þar til í desember 1962. Kaupið hafði hækkað um 4%, en nauðsynjavörurnar um 43%. Ég skal að vísu viðurkenna, að þetta dæmi sýnir ekki alveg rétta mynd, en það sýnir þó í aðaldráttum, hver hefur verið þróun kaupgjaldsmálanna annars vegar og verðlagsmálanna hins vegar á þessu tímabili. Það er sennilega þessi þróun, sem hæstv. forsrh. hafði í huga í kvöld, þegar hann sagði, að við værum á hraðri leið til bættra lífskjara.

Hæstv. viðskmrh. byggði fullyrðingar sínar á því, að atvinnutekjur manna hefðu hækkað verulega, og það er rétt. Atvinnutekjur manna hafa hækkað þrátt fyrir viðreisnina. En atvinnutekjur og lífskjör eru ekki endilega eitt og hið sama. Maður, sem verður að þræla meiri hluta sólarhringsins, býr ekki við góð lífskjör, en slíkur þrældómur er nú hlutskipti allt of margra í okkar þjóðfélagi. Vegna þess, hve launin eru lág, verða menn að leggja nótt við dag til þess að afla nauðsynlegra tekna fyrir heimilin, en slík þróun er háskaleg, bæði einstaklingunum og þjóðfélaginu í heild.

Stefna ríkisstj. í efnahagsmálum hefur leitt til þess, að gengi hverrar krónu, sem verkamaðurinn vinnur sér inn, er svo lágt, að óhugsandi er, að hann geti lifað sómasamlegu lífi af 8 stunda vinnudegi. Ég vil þó ekki í þessu efni taka eins sterkt til orða og áróðursstjóri hæstv. viðskmrh. gerði nýlega í blaði sínu, Alþýðublaðinu, en þar sagði hann orðrétt:

„Átta stunda vinnudagur er óhugsandi á Íslandi í dag, því að óbreyttur borgari, sem ynni átta stunda vinnudag, yrði hungurmorða.”

Þetta er dómur ritstjóra Alþýðublaðsins um ástand launamálanna í dag, og sjálfsagt er það kaup þessa láglaunafólks, sem stjórn Seðlabankans segir um í nýlegri skýrslu sinni að hækkað hafi að undanförnu meira en æskilegt hefði verið.

Stefna stjórnarflokkanna á liðnu kjörtímabili hefur fært launþegum lækkað kaup og lengdan vinnudag. Réttindi og frelsi verkalýðsfélaganna hefur hvað eftir annað verið skert, og stjórnarflokkarnir krefjast nú endurskoðunar á vinnulöggjöfinni til þess að þrengja kosti verkalýðshreyfingarinnar enn meira.

Gegn þessari stefnu verður alþýða landsins að fylkja liði í komandi kosningum. Með öflugri sókn í kosningunum, sem helzt í hendur við hagsmunabaráttuna, er hægt að tryggja batnandi lífskjör, stytta vinnudaginn með óskertum tekjum og hægt að vernda frelsi og réttindi verkalýðshreyfingarinnar. Þetta gerum við með því að fylkja okkur um Alþb.