18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Góðir hlustendur. Enginn vefengir, að íslenzku þjóðinni hafi gengið flest í haginn hin síðustu missiri. Auðvitað er þetta ekki eingöngu ríkisstjórninni að þakka, enda halda hv. stjórnarandstæðingar því fram, að það hafi orðið þrátt fyrir vondan vilja stjórnarinnar. Málflutningur þeirra verður ekki skilinn á annan veg en þann, að hið vonda, sem við viljum, gerum við ekki. Um okkur snúa stjórnarandstæðingar því alveg við lýsingunni, sem postulinn Páll gaf á sjálfum sér: „Hið góða, sem ég vil, gjöri ég ekki, en hið vonda, sem ég ekki vil, það gjöri ég.”

Batnandi hagur almennings og þjóðarheildar, miklar framkvæmdir og yfirfljótanleg atvinna samfara stórum styrkari stöðu út á við, allt eru þetta svo augljósar staðreyndir, að ekki tjáir um að þræta. Á þessum staðreyndum munu kjósendur byggja dóm sinn yfir stjórnarfarinu. Stagl stjórnarandstæðinga um samdrátt, atvinnuleysi og örbirgð, sem við höfum viljað, en mistekizt að leiða yfir landslýðinn, lýsir þeirra eigin hugarfari. Slíkan málflutning meta kjósendur eftir því, sem hverjum þykir sennilegast. Þann dóm óttast stjórnarandstæðingar, og þess vegna hafa þeir síðustu mánuði mjög beint skeytum sínum að stjórninni fyrir mál, sem þeir hyggja að íslenzkir kjósendur eigi erfiðara með að dæma um af eigin raun með sama hætti og um ástandið innanlands.

Baráttuaðferðin er þó hin sama, því að eitt af hinu vonda, sem stjórnarandstæðingar segja að við höfum viljað, en ekki gert, sé að sækja um aðild að Efnahagsbandalagi Evrópu og þar með ofurselja frelsi og lífshagsmuni þjóðarinnar. Í veg fyrir þetta illvirki eiga tvö eða þrjú stórmenni að hafa komið: Fyrstur Adenauer kanslari Þjóðverja með því að tilkynna hæstv. fjmrh., Gunnari Thoroddsen, og hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, í Bonn hinn 28. sept. 1961, að okkur þýddi ekki að sækja um fulla aðild að bandalaginu. Síðan á annað mikilmennið til, eða öllu heldur tvö, eftir því hvor talar, Eysteinn Jónsson og eftir atvikum Þórarinn Þórarinsson, að hafa stöðvað okkur eða a.m.k. tafið á braut misgerðanna. Í öllum orðaflaumi framsóknarmanna þegja þeir hins vegar að mestu um fjórða stórmennið, de Gaulle, Frakklandsforseta, sem þó hefur óneitanlega töluvert komið við sögu um fjölgun bandalagsþjóða, enda þótt á annan veg sé en framsóknarmenn telja henta kosningahagsmunum sínum.

Þegar de Gaulle synjaði í janúar s.l. Bretum um aðild að bandalaginu, urðu flestir ókvæða við, og hafa fáir atburðir eftir stríðslok 1945 komið meira róti á hugi manna meðal lýðræðisþjóðanna.

Að sjálfsögðu reyndu talsmenn aðildar Breta að gera sem minnst úr því, sem skeð hafði. Þeir lögðu og leggja enn kapp á að koma í veg fyrir, að verra hljótist af, þ.e. að samvinna vestrænna ríkja rofni með öllu, eins og hinir svartsýnustu segja að við hafi legið. Talsmenn fimmveldanna, bandamanna Frakka, keppast við að fullyrða, að allt muni þetta lagast, áður en varir, og sjálfur tekur de Gaulle öðru hverju undir það. Hann segir, að vandinn sé sá einn, að Bretar fallist skilyrðislaust á Rómarsamninginn. Utanríkisráðherra hans, Couve de Murville, flutti enn hinn sama boðskap á fundi í Brüssel hinn 2. apríl s.l., og varð þá skarpur skoðanamunur milli hans og talsmanna Þjóðverja, þeirra Schröders utanríkisráðherra og Erhards efnahagsráðherra, að sögn Manchester Guardian Weekly frá 4. apríl.

Erhard efnahagsráðherra Þjóðverja er einn af þeim, sem mest hafa lagt sig fram um að reyna að róa hugi manna eftir áfallið í janúar. En eins og fram kemur í frægu viðtali, sem hann átti við Süddeutsche Zeitung og birtist hinn 5. febr., gerir hann sér fulla grein fyrir, að öll hans orð og yfirlýsingar eru einungis eins konar hjálp í viðlögum, miklu meira þarf til fullrar lækningar. Í því samtali spyr blaðamaðurinn: „Hvað er hægt að gera, til þess að England geti orðið hluti sameinaðrar Evrópu? Var endapunkturinn settur í Brüssel?” Erhard svarar: „Nei, að mínu áliti er svo ekki. Mér virðist þetta vera eins og þegar slys á sér stað. Fyrst er kallað á hjúkrunarliða, og hann er þegar reiðubúinn til að veita skyndihjálp, alveg eins og fyrir kemur á knattspyrnuvelli. Hjúkrunarliðar eru hins vegar ekki sóttir til þess að lækna sjúkdóminn, í þessu tilfelli mjög slæman sjúkdóm.” Síðar í samtalinu segir Erhard: „Ég lít á mig sem skottulækni, ef ég héldi því nú fram eftir áfallið mikla í Brüssel, að ég réði yfir einhverju undrameðali. Skoðun mín er þessi: Það þarf meira til en klastra upp á hlutina með plástrum. Rækileg læknismeðhöndlun er það eina, sem dugir.”

Erhard segir berum orðum, hvert hann telji læknisráðið vera. Það er að leita til Bandaríkjamanna: „Þeir verða að hjálpa okkur að sprengja þá skel, sem Evrópa virðist aftur vera að lokast inn í. Slíkt getur aðeins tekizt fyrir tilverknað brennandi hugsjónar, sem fyllir fólkið eldmóði.” Þetta eru orðrétt ummæli Erhards, og hann bætir síðan við: „Meginviðfangsefni okkar verður áfram að sýna það ótvírætt, að ekkert fái rofið pólitíska samheldni okkar og vestrænna þjóða, — ekkert og enginn, vildi ég segja, því að hvar stæðum við, ef við hefðum ekki getað treyst bandamönnum okkar, einkum Bandaríkjum Norður-Ameríku?”

Gegnum allt samtalið gengur það eins og rauður þráður, að það eru ekki fyrst og fremst Bretar, sem Erhard er að hugsa um, þó að hann vilji samstarf við þá, heldur eru það Bandaríkjamenn og víðtækt samstarf undir þeirra forustu, sem hann leggur megináherzlu á. Annað telur hann skottulækningu, sem að litlu gagni muni koma.

En það er ekki einungis Erhard, hinn fremsti meðhaldsmaður aðildar Breta innan Efnahagsbandalagsins, sem telur, að alveg ný viðhorf hafi skapazt við synjun de Gaulles. Einn af ákveðnustu andstæðingum aðildar Noregs í Efnahagsbandalaginu er Verkalýðsflokksmaðurinn Trond Hegna, formaður fjárhagsnefndar norska Stórþingsins. Hann skrifar í 3. hefti „Nordisk kontakt” grein um hin nýju viðhorf, sem skapazt hafi fyrir Norðurlöndin vegna atburðanna í janúar. Þar rekur hann fyrst, hvernig mismunandi afstaða til Efnahagsbandalagsins hafi horft til nýs aðskilnaðar og klofnings milli norrænu landanna fimm. Síðan segir hann: „Og svo erum við komnir að fundinum í Osló 1963. Hver sem ástæðan kann að vera, hvort sem það eru góð öfl eða ill, hvort sem það er tilviljun eða breytileiki heimsins, sem hefur leitt til niðurstöðunnar, þá er einn hlutur viss: hið liðna er horfið, og allt er orðið nýtt.” Í framhaldi þessa, segir hann síðar um norrænu löndin fimm: „Ekkert er bundið sérstökum fjárhagsskuldbindingum við önnur lönd og mun ekki verða það í fyrirsjáanlegri framtíð.”

Og það eru fleiri en beinir þátttakendur í deilunni um aðild Evrópuþjóða að Efnahagsbandalaginu, sem telja, að slík fjölgun sé úr sögunni um fyrirsjáanlega framtíð.

Bandaríski blaðamaðurinn Sultzberger, sérfræðingur stórblaðsins New York Times í utanríkismálum, skrifaði grein í blað sitt um væntanlega heimsókn hins nýja formanns brezka verkamannaflokksins, Harolds Wilsons, til Bandaríkjanna, rétt áður en hann kom til Washington. Í greininni segir, að búast megi við því, að Harold Wilson verði, áður en langt um liður, forsætisráðherra Stóra-Bretlands. Efni greinarinnar er það að sýna fram á, að Bandaríkjastjórn þurfi ekki að kvíða samstarfi við Wilson, þeim muni koma saman um flest annað en aðild Breta að Efnahagsbandalaginu, sem Wilson er andvígur, en það skipti ekki miklu máli, því að eins og standi, sé það mál ekki aðkallandi.

Þegar til Bandaríkjanna kom, lýsti Harold Wilson sjálfur yfir því, að sögn New York Times frá 2. apríl, að ef flokkur hans fengi völdin, mundi hann „á réttum tíma og með réttum skilyrðum” vera reiðubúinn til að taka upp samninga um aðild Breta að Efnahagsbandalaginu. En hann bætti því við, að ekki virtust neinar bráðar horfur á nýjum samningum.

Málin standa því þannig nú, að de Gaulle segir, að Bretar geti hvenær sem er fengið aðild að bandalaginu, ef þeir falli frá þeim skilyrðum, sem núverandi ríkisstjórn í Bretlandi hefur sett. Hún telur sig hins vegar hafa teygt sig svo langt sem frekast er unnt og hefur ekki sízt fyrir þá undanlátssemi goldið afhroð meðal kjósenda. Það afhroð er svo mikið, að formaður andstöðuflokksins er þegar farinn að ferðast um til að sýna sig sem væntanlegan forsrh. Stóra-Bretlands og sjá aðra, sem hann þá ætlar að hafa samvinnu við. Hann segir, eins og de Gaulle, að víst komi aðild Breta að Efnahagsbandalaginu til mála, ef — og þá kemur það, sem skilur á milli og úrslitum ræður — Frakkar fallist á ný viðbótarskilyrði af hálfu Breta umfram þau, sem íhaldsstjórnin hefur sett og de Gaulle hefur þverneitað.

Um afstöðu stuðningsmanna bandalagsins í Bretlandi má lesa í forustugrein Manchester Guardian Weekly, hinn 11. apríl, en það blað hefur mjög eindregið stutt inngöngu Breta í þetta bandalag. Þar segir: „Ekki eru margir, sem geta hugsað sér að taka upp samninga, jafnvel eftir að de Gaulle er farinn frá. Brezkur iðnaður óskar ekki nýs, langs óvissutímabils, og brezkir stjórnmálamenn hafa ekki lyst á að endurtaka Brüssel-reynsluna. Jafnvel þó að synjan de Gaulles hefði ekki komið til, hefðu skilyrðin, sem líkleg voru, verið skaðsamleg. Betra kynni að hafa verið fyrir okkur að fallast hreint og beint á Rómarsáttmálann og semja innan frá í bandalaginu, en eftir 5 ár héðan í frá mun bandalagið hafa tekið þeim þroska, að slíkt mundi óframkvæmanlegt.”

Þessar eru staðreyndir málsins. Fram hjá þeim verður með engu móti komizt, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Íslendingar ráða engu um þróunina í þessu, og við gerum okkur broslega, ekki einungis í augum annarra, heldur okkar eigin, ef við ímyndum okkur, að við vegna væntanlegra kosninga hér getum lagað atburðarásina í okkar hendi. Nauðugir, viljugir verðum við að bíða og sjá, hvað setur. Hið liðna er horfið, en enginn veit, hvað við tekur. Þess vegna sýnist flest þarfara en að eyða orku og tíma í að þræta um það, sem liðið er, hvað þá nú eftir á að vera að búa til ágreining um það, sem aldrei var ágreiningur um að efni til milli lýðræðisflokkanna, því að þegar menn tala um annaðhvort aukaaðild að Efnahagsbandalaginu eða viðskipta- og tollasamning við það, ef til hefði komið, þá er það einungis ágreiningur um form, en ekki efni. Hv. framsóknarmenn játa sjálfir, að þeir hafi lengi vel talið aukaaðild æskilegt form, en horfið frá því, þegar þeir seint og um síðir fengu vitneskju um, að hugsanlegt væri að gera tolla- og viðskiptasamning við bandalagið. Það tjáir ekki nú eftir elleftu stundu að láta svo sem aukaaðild hljóti að hafa einhverjar ákveðnar okkur óhagkvæmar skuldbindingar í sér fólgnar. Framsóknarmenn vita jafnvel og aðrir, að aukaaðild getur náð yfir 1-99% skuldbindinga Rómarsamningsins. Það fer allt eftir því, hvernig um semst. Framsóknarmenn vita einnig ofur vel, að aukaaðildarsamningur þarf alls ekki að leiða til fullrar aðildar síðar, svo sem glögglega hefur komið fram í viðræðum Svía, Svisslendinga og Austurríkismanna við fulltrúa Efnahagsbandalagsins. Þá er það og hrein fjarstæða, að viðskipta- og tollasamningur tryggi, að viðsemjendur fitji ekki upp á ýmiss konar réttindaveizlum sér til handa gegn því að veita viðskipta- og tollaívilnanir. Hvernig sem að er farið, reynir hvor aðili í þessum samningum sem öðrum að gæta sinna hagsmuna, lætur ekkert af höndum, nema hann telji sig fá jafnvirði í staðinn. Slíkur er lífsins gangur, frá honum sleppum við ekki fremur en aðrir.

Aðild annarra Vestur-Evrópuríkja að Efnahagsbandalaginu mundi óhjákvæmilega hafa skapað okkur mikinn vanda. Frá þröngu eiginhagsmunasjónarmiði Íslendinga getum við því grátið þurrum tárum yfir því, að úr þessari stækkun bandalagsins virðist lítt ætla að verða í bráð. Ég segi þetta ekki vegna þess, að við sjálfstæðismenn hefðum skotið þessum vanda fram af okkur, ef hann hefði að höndum borið, slíkt er ekki okkar háttur. Þó að við teljum þýðingarlaust að deila um það, sem ekki hefur orðið, þá gerum við okkur fullljóst, að aukið samstarf þjóða í milli, einnig í efnahagsmálum, er fyrr eða síðar mögulegt í einhverri mynd. Á meðan með öllu er óvíst, til hverra það nær og hversu víðtækt það kann að verða, er þýðingarlaust að tala um einstök efnisatriði, hvað þá form. En meginstefnan er ljós, það er sama stefnan, sem við höfum frá upphafi fylgt gagnvart Efnahagsbandalaginu. Ég skal því rekja hana nokkuð og það því fremur sem andstæðingar okkar hafa þar mjög hallað réttu máli. Því erum við raunar svo vanir, að ég mundi láta það mér í léttu rúmi liggja, en um leið og ég hrek ásakanir þeirra, geri ég samtímis grein fyrir framtíðarstefnu okkar, hvenær sem á reynir.

Eftir að Bretar höfðu sótt um aðild að Efnahagsbandalaginu, var það almenn skoðun seinni hluta sumars 1961, að öll eða nær öll Evrópuríki vestan járntjalds mundu með einum eða öðrum hætti reyna að tengjast þessu bandalagi og öruggasta leiðin til þess að ná hagkvæmum samningum við það væri að sækja um aðild. Með öðrum hætti yrði ekki kannað til hlítar, hvaða kostir væru í boði, enda væri hægurinn hjá að leita lausari tengsla eða hætta samningsgerð, ef aðgengileg kjör fengjust ekki.

Þessi skoðun kom fram hjá samtökum allra meginatvinnuvega Íslendinga, sem ríkisstj. leitaði álits hjá sumarið 1961, nema Alþýðusambandi Íslands. Það eitt lagðist gegn því, að við sæktum um aðild. Hin öll, þ. á m. Samband ísl. samvinnufélaga og bændasamtökin, voru hlynnt því, að við legðum fljótlega fram inntökubeiðni í Efnahagsbandalagið. Undir þessa skoðun tók Morgunblaðið hinn 19. ágúst 1961 og sagði hana rétta, „einkum þegar það er haft í huga, að við getum á hvaða stigi sem er hætt samningaumr.,” eins og segir í blaðinu. Um þetta meginatriði þegja framsóknarmenn, þegar þeir vitna í þessa Morgunblaðsgrein. Þessi skoðun, sem flestir aðrir en kommúnistar höfðu þá, var skýrt orðuð í samþykkt, sem gerð var á þingi ungra sjálfstæðismanna, sem haldið var á Akureyri, fyrri hluta september 1961. Samþykkt hinna ungu manna hljóðar svo:

„Þingið telur rétt, að Ísland sæki um upptöku í Efnahagsbandalag Evrópu, svo að unnt sé að fá sem gleggstar upplýsingar og viðræður um réttindi og skyldur vegna slíkrar upptöku. Síðan skuli metið, hvort æskilegt sé að óska aðildar að þessu bandalagi.”

Rétt eftir að þessi samþykkt var gerð, eða um miðjan september 1961, tók ég við störfum forsrh. og gegndi þeim í forföllum Ólafs Thors til ársloka. Á þessu tímabili gafst mér nokkrum sinnum færi á að ræða opinberlega um afstöðu Íslands til Efnahagsbandalagsins og setti þar fram skoðun ríkisstjórnarinnar á málinu, sem Sjálfstfl, hefur óhikað fylgt. Það fyrsta, sem ég sagði um þessi efni, var við norskan blaðamann, sem talaði við mig hinn 20. sept. 1961. Samtal þetta birtist m.a. í Sunnmörsposten í Álasundi hinn 26. sept., þ.e. tveimur dögum áður en samráðh. mínir áttu viðtölin í Bonn, sem stjórnarandstæðingar hafa hér á Alþingi fullyrt að gerbreytt hafi afstöðu ríkisstj. til þessa máls, og geta ummæli mín með engu móti verið til orðin v egna áhrifa af þeim samtölum, sem síðar fóru fram. Sunnmörsposten hefur þetta eftir mér m.a.:

„Ísland hefur enn ekki gert sér ljóst, hverja afstöðu við eigum að taka til Efnahagsbandalagsins. En mikill áhugi er fyrir málinu, bæði meðal stjórnmálamanna og almennings. Greinilegt er, að margir erfiðleikar eru á því fyrir okkur að ganga í bandalagið, eftir því sem málin liggja nú fyrir. En það eru einnig miklir erfiðleikar á því að vera utan við.

Þetta er ein af viðurhlutamestu ákvörðunum, sem Ísland hefur þurft að taka lengi. En við erum ekki komnir svo langt, að við getum sagt, hver úrslitin verða að lokum. Enn hafa hvorki flokkarnir — nema kommúnistar — né ríkisstj. myndað sér neina skoðun um, hvernig við eigum að meta málið.

Fyrir Noreg er erfitt að taka ákvörðun um aðild að Efnahagsbandalaginu, það skiljum við. En það er enn þá erfiðara fyrir Ísland. Noregur hefur náð miklu lengra í uppbyggingu atvinnu- og efnahagslífs. Það er erfiðara fyrir okkur, sem ekki erum komnir jafnlangt.

Ég vil ekki segja neitt jákvætt, hvorki með né á móti aðild að Efnahagsbandalaginu.” Hefur hlutleysið, hreint pólitískt, nokkra þýðingu? spyr blaðamaðurinn.

„Það hefur hvergi nærri sömu þýðingu eins og í Svíþjóð. Það eru önnur atriði, sem munu vega þungt, t.d. rétturinn til atvinnurekstrar. Á Íslandi geta lifað miklu fleiri menn en nú. Frjáls vinnumarkaður í svo litlu landi sem Íslandi er ekki jafneinfaldur eins og í landi, sem þegar áður hefur náð langt í iðnvæðingu.”

Hinn mikli fiskútflutningur frá Íslandi mun sennilega hafa mikla þýðingu, þegar þið takið afstöðu? spyr blaðamaðurinn.

„Já, ef Ísland yrði útilokað frá hinum stóru mörkuðum í Efnahagsbandalagslöndunum, mundi það verða alvarlegt áfall fyrir landið. Við höfum haft sterkast viðskiptasamband við löndin í Vestur-Evrópu, svo verður og sennilega í framtíðinni. Við seljum einnig til Sovét og annarra landa í austri.

Enginn getur sagt skilyrðislaust já við Efnahagsbandalaginu í dag.”

Þetta er útdráttur þess, sem Sunnmörsposten hafði eftir mér.

Nokkrum dögum eftir að ég átti þetta blaðaviðtal, vék ég að sama efni í ræðu, sem ég hélt hinn 24. sept. á samkomu í hátíðasal Oslóarháskóla, og sagði m.a.:

„Enn í dag hefur fordæmi ykkar” — þ.e. Norðmanna — „ómetanlega þýðingu fyrir okkur. Aðild Noregs að Atlantshafsbandalaginu hafði úrslitaáhrif á Íslandi. Eins kann að verða um þau miklu efnahagssamtök, sem nú er verið að efna til. Er ljóst, að gallarnir við frjálsan vinnumarkað og rétt til stofnunar og rekstrar atvinnutækja eru því meiri, sem þjóðin er minni og land hennar minna nýtt, en hættan á einangrun e.t.v. einnig meiri. Í þessum efnum er bæði Noregi og Íslandi mikill vandi á höndum. Íslendingar hafa þess vegna ríkan áhuga fyrir nánu samráði við Norðmenn um lausn þessa vanda.”

Raunar hafði ég fyrr í þessu erindi vikið að ýmsum þeim atriðum, sem úrslitaþýðingu hafa um afstöðu okkar til Efnahagsbandalagsins. T.d. spurði ég:

„Getur svo fámenn þjóð hagnýtt svo stórt og erfitt land, þannig að það verði henni ekki ofviða? Og þá ekki síður: Getur svo fámenn þjóð haldið sinni eigin menningu, byggt upp nútímaþjóðfélag og haft sitt eigið ríki með öllum þeim kvöðum og skyldum, er slíku fylgja? Um þetta er það eitt að segja, að okkur kemur ekki annað til hugar en að gera það. Við segjum eins og Lúther forðum: Hér stend ég, ég get ekki annað.”

Síðar held ég áfram og segi:

„Meiri hluti íslenzku þjóðarinnar veit, að hún lifir ekki ein í heiminum og verður að taka þátt í þeim alþjóðasamtökum, sem nútíminn krefst.

Öll vitum við, að þróunin sækir í þá átt, að stærri og stærri samtök ríkja myndast. Án slíkra samtaka verða möguleikar tækninnar ekki nýttir, enda krefst afnám fjarlægðanna nánara samstarfs en nokkru sinni fyrr. Samtímis því, að þessi nauðsyn verður æ augljósari, fer fram splundrun gamalla ríkisheilda, því að hver þjóð fyrir sig vill ráða sínum örlögum. Saga Íslands og raunar einnig Noregs er dæmi þessarar þróunar. Þarna sýnist hvort stríða á móti öðru.

Þegar betur er skoðað, eru andstæðurnar ekki eins miklar og í fljótu bragði virðist. Samstarf frjálsra manna hvílir á því, að það séu í raun og veru frjálsir menn, sem ákvarðanirnar taka. Skilyrði þess samstarfs, sem nú stefnir að, er, að hver þjóð hafi frelsi til ákvörðunar um, hvort hún tekur þátt í því eða ekki. Það tjáir ekki að beita kúgun, heldur verður frjáls ákvörðun hvers um sig til að koma, — ákvörðun, sem byggist á því, að eigin hagur ásamt réttmætu tilliti til annarra réði því, sem gert er.

Sumir tala um nauðsyn þess að mynda nýjar, stórar ríkisheildir. En allt slíkt, sem hefur þvingun í sér fólgna, er orðið úrelt, heyrir til liðinni tíð. Sannmæli er það, sem ég heyrði bandarískan fræðimann, sem sennilega er betur en nokkur annar að sér um þýðingu þjóðernis fyrir framvindu síðustu alda, segja á alþjóðafundi í fyrra: „Hugsið ekki um nýjar ríkisheildir. Lítið til Norðurlandanna og lærið, hvernig þjóðir geta unnið saman.”

Þetta sagði ég m.a. í umgetinni ræðu í samkomusal Oslóarháskóla. Ég vek enn athygli á því, að allt var þetta sagt, áður en umr. í Bonn áttu sér stað hinn 28. sept. 1961. Eru því staðlausir stafir fullyrðingar hv. stjórnarandstæðinga hér á Alþingi um, að íslenzka ríkisstj. hafi fyrst eftir þær viðræður horfið frá því að þvinga Ísland inn í þá ríkisheild, sem þeir segja Efnahagsbandalagið vera.

Allt, sem ég sagði síðar í málinu, er í fullu samræmi við þessar fyrstu yfirlýsingar mínar, og get ég því farið fljótar yfir það og einungis minnt á niðurstöðurnar.

Á landsfundi Sjálfstfl. 1961 komst ég hinn 19. okt. m.a. svo að orði:

„Af þeim sökum getur skilyrðislaus aðild Íslands að þessu bandalagi ekki komið til mála. Og hætt er við, að skilyrðin verði svo mörg og skapi slíkt fordæmi, að aðrir aðilar eigi erfitt með að una þeim.”

Ályktun sú, sem landsfundurinn gerði um þetta mál, er mjög í samræmi við það, sem sagt var í ræðu minni, og er ályktunin á þessa leið:

„Þjóðir Vestur-Evrópu, sem Íslendingar hafa frá fornu fari haft mest og bezt viðskipti við, efla nú mjög samvinnu sína í efnahagsmálum, og er Íslandi brýn nauðsyn á að slitna ekki úr tengslum við þá þróun. Þess vegna ber að leitast við að tryggja aðild okkar að Efnahagsbandalagi Evrópu án þess að undirgangast samningsákvæði, sem hér geta með engu móti átt við.”

Sama skoðun kom enn fram í ræðu, sem ég hélt á samkomu stúdenta í háskólanum hinn 1. des. sama ár. Þá sagði ég m.a.:

„Með þessu er ekki sagt, að við eigum ekki að taka þátt í efnahagssamstarfi nágranna okkar og vina. En við getum því aðeins gert það, að tekið sé réttmætt tillit til okkar óumdeilanlegu sérstöðu og sérþarfa.”

Loks tók ég svo til orða í áramótagrein í Morgunblaðinu 31. des. 1961: „Efnahagsbandalag Evrópu er í örri uppbyggingu. Fleiri og fleiri þjóðir sækjast eftir aðild í því, annaðhvort sem fullgildir félagar eða aukaaðilar. Ef úr aðild allra þeirra verður, sem nú hugleiða hana, er ótvírætt, að Íslendingum skapast mikill vandi. Innan bandalagsins myndast þá markaður, sem Íslandi er höfuðnauðsyn að útilokast ekki frá.

Jafnframt er alveg ljóst, að full skilyrðislaus aðild Íslands kemur ekki til greina. Munur á mannmergð og allri aðstöðu er slíkur, að Íslendingar geta ekki undirgengizt að láta öðrum í té þau réttindi, sem fullri, skilyrðislausri aðild eru samfara. Því meira ríður á, að rétt sé með farið. Á þessu stigi hljótum við að fylgjast náið með því, sem gerist innan bandalagsins sjálfs og í samningum þess við þá, sem nú æskja aðildar. Jafnframt verðum við að kynna öðrum afstöðu okkar, annars vegar þörf á eðlilegu samstarfi og því að útilokast ekki frá nauðsynlegum mörkuðum og hins vegar að þessu fylgi engir þeir kostir, sem skaðlausir eru fyrir stærri og öflugri þjóðir, en mundu verða afarkostir fyrir okkar fámennu þjóð, sem enn er að mestu háð harla óvissum fiskimiðum umhverfis landið.”

Þessar tilvitnanir sýna, að ríkisstj. hefur frá upphafi fylgt í þessu vandasama máli stefnu fyrirhyggju og varúðar. Málið liggur nú ekki fyrir í þeirri mynd, sem ráð hafði verið fyrir gert. Um lausn vandans verður ekki dæmt, fyrr en sést, hvort hann skapast og þá hvers eðlis hann verður. Ef víðtæk efnahagsbanda lög myndast, má svo fara, að ákvarðanir þeirra ráði úrslitum um okkar hag, svo smáir sem við erum, jafnt hvort sem við verðum aðili eða ekki. Kynni þá að verða eina ráðið, til þess að hagsmunir okkar verði ekki þverbrotnir, að við tengjumst þessum samtökum með einhverjum hætti. En þá má aldrei láta af þeirri varúð, sem við sjálfstæðismenn höfum viljað gæta gegn Efnahagsbandalagi Evrópu og ég hef hér að framan rifjað upp.

Slík er einnig stefna ríkisstj. Hér er um slíka lífshagsmuni íslenzku þjóðarinnar að tefla, að þá má aldrei gera að leiksoppi, sízt af öllu villa um fyrir mönnum með því að búa til deilur út af því, sem a.m.k. allir lýðræðissinnar eru sammála um í meginatriðum, hvað þá að skrökva því upp, að til standi að afsala rétti yfir landi eða landhelgi. Og er þá óneitanlega ólíklega til logið, þegar látið er í það skína, að ríkisstj. hafi í hyggju að gera sinn mikla sigur í landhelgisdeilunni að engu með því að veita erlendum þjóðum veiðiréttindi innan fiskveiðilögsögunnar, eftir að fullar sættir hafa náðst við Breta með endanlegri viðurkenningu þeirra á 2 mílum og okkar nýju, ómetanlegu grunnlínum. Þeir, sem slíkar sögur semja, sanna einungis, að þeir óttast umr. um hin raunverulegu úrlausnarefni, og viðurkenna þar með, að ríkisstj. hefur tekizt svo vel í gerðum sínum, að þeir vilja umfram allt hindra, að kjósendur kveði upp sinn dóm á þeim grundvelli. Þess vegna er þrautaráðið að gera okkur upp vondan vilja, sem er í algerri andstöðu við allar okkar athafnir og það, er áunnizt hefur íslenzkri þjóð til heilla, eftir að viðreisnin hófst. — Lifið heil.