18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

Almennar stjórnmálaumræður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur nær og fjær. Núverandi stjórnarflokkar voru vissulega örlátir á gullin loforð og glæsileg fyrirheit, þegar þeir gengu til kosninga haustið 1959. Nú er komið að lokum kjörtímabils, og er því eðlilegt og sjálfsagt að líta á, hvernig efndir hinna glæstu loforða hafa orðið. Er þar skemmst af að segja það, sem við öllum blasir, að loforðin eru annars vegar á klakki, en svikin hinum megin.

Það hefur svo sannarlega ekki reynzt kjósendunum leið til bættra lífskjara að kjósa Sjálfstfl. í seinustu kosningum, eins og hann lofaði. Spurningin er bara sú: Láta menn gabba sig í annað sinn upp á ný svikaloforð?

Þessu næst vil ég víkja að svardögunum um stöðvun verðbólgu og dýrtíðar. Heldur því nokkur maður fram, að þeir svardagar hafi verið efndir? Nei, allir verða að játa það, að þeir eiðar hafa kirfilega verið sviknir. Um það þarf engin önnur vitni en vísitölu sjálfrar hæstv. ríkisstj. Þessi dýrtíðarmælir hennar sjálfrar var stilltur á 100 í marz 1959, og mun enginn gerast til að halda því fram, að hann ofmæli dýrtíðarvöxtinn síðan. Og hvernig stendur þá þessi mælir nú? Vafalaust á 100, skyldu menn halda. Nei, ekki aldeilis, hann stendur óvart á 130. Hann sýnir sem sagt meiri dýrtíðarvöxt en nokkurn tíma áður hefur átt sér stað á Íslandi á jafnskömmum tíma. Þetta eru efndirnar á eiðum Alþfl. og stjórnarflokkanna beggja að því er varðar stöðvun verðbólgu og dýrtíðar. Um þessa frammistöðu Sjálfstfl. og Alþfl. í lífskjara-, verðbólgu- og dýrtíðarmálum ásamt fleira gengur dómur í vor, og þar verður þú, kjósandi góður, í dómarans sæti.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, var í gærkvöld að bera blak af stjórn sinni. En hvorki fannst mér málsvörn hans vera karlmannleg né heldur fyllilega drengileg. Hann varpaði m.a. fram þessum spurningum: Hver veldur verðhækkunum? Hverjir valda gengisfalli? Við hvern er að sakast um verðbólguna? Og efnislega var svar hans: Ekki ég, ekki mín stjórn, ekki flokkarnir, sem styðja stjórnina. — En hverjum var þá að kenna þetta allt saman, og hver var sökudólgurinn? Jú, vinstri stjórnin og stjórnarandstöðuflokkarnir nú. Hvað segir þjóðin annars um þennan drengskap? Hvað segir hún um slíkan manndóm? Það, sem illa hefur farið, er ekki mér að kenna, ekki ríkisstj., sem með völdin fer, heldur fyrrverandi ríkisstj. og valdalausum stjórnarandstöðuflokkum.

Það er alkunna um illa uppalda götustráka, sem hlaupa frá pörum sínum, jafnvel þótt staðnir séu að verki, að þeir æpa á flóttanum: Ekki mér að kenna. Ég gerði það ekki. Það var hann. — En hamingjan hjálpi okkur: forsætisráðherra, það á þó að vera nokkuð annað, og um það hef ég ekki fleiri orð.

Hæstv. félmrh., Emil Jónsson, var drjúgur yfir farsællegu samstarfi við íhaldið og gat þess um leið, að nú hefði þetta nána samband staðið síðan haustið 1958, nærri 5 ár. Hversu farsælt það hefur verið þjóðinni er vissulega umdeilanlegt, að ekki sé meira sagt. Auk þess er ekki alveg óhugsandi, að miðað við Alþfl. sjálfan bæði í Hafnarfirði og annars staðar, sé annað orð en „farsællegt” öllu betur viðeigandi um þetta íhaldssamstarf, og þyrfti þá ekki annað en hugsa sér bæjarstjórnarkosningaúrslitin í Hafnarfirði síðast. En látum það liggja.

Ráðh. viðurkenndi afdráttarlaust, að mistekizt hefði að halda niðri verðbólgunni í landinu, og það er góðra gjalda vert.

Mestum tíma varði hæstv. ráðh. til þess að mikla fyrir hlustendum endurbætur þær, sem orðið hefðu á tryggingunum í þessari stjórnartíð. Það skal játað, að bætur trygginganna hafa hækkað allmikið að krónutölu, enda hefði óbreytt krónutala bóta þýtt stórfellda skerðingu trygginga.

Mesta lagfæringin á tryggingunum seinustu árin er afnám skerðingarákvæðanna illræmdu og að landið hefur verið gert eitt verðlagssvæði. En hvaða flokkur hafði mest barizt fyrir þessum réttlætiskröfum? Það var Alþb. Hvað ætli Alþfl. hafi oft verið búinn að fella till. mínar um, að landið yrði gert eitt verðlagssvæði, og um afnám skerðingarákvæðanna? Um það má fræðast af þskj. En það má Alþfl. þó eiga, að hann hætti baráttunni gegn þessum réttlætiskröfum, þegar engum var stætt á að hamla lengur gegn framgangi þeirra. Alþb. hefur því knúið þessar bætur á almannatryggingunum fram með þrautseigri baráttu árum saman. Það er sannleikur málsins.

Ég lít alltaf á ellitryggingarnar sem einn veigamesta þátt allra trygginga. En hvaða umbætur hafa orðið á tryggingum gamla fólksins? Ellilífeyririnn er nú 1200–1300 kr. á mánuði, og ég leyfi mér að efa, að sú upphæð hafi nú meiri kaupmátt en ellilífeyririnn hafði, þegar tryggingarnar tóku til starfa. Ellilífeyririnn hefur því orðið út undan, dregizt aftur úr, og það er ekki til að státa af, heldur blátt áfram til skammar.

Hæstv. ráðherra Emil Jónsson gleymdi ekki að guma af frv. til breytinga á almannatryggingalögunum, sem nú liggur fyrir Alþ. Það er rétt, að í því felst nokkur lagfæring á tryggingunum, og nokkrar lagfæringar munu fást á frv. í meðferð þingsins. En um tvennt þagði þó ráðherrann vandlega: Í fyrsta lagi, að þetta frv. á ekki, þótt því sé nú flaustrað gegnum þingið vegna kosninganna, að taka gildi fyrr en á árinu 1964. Í öðru lagi þagði hann vandlega um það, að þegar hann flutti í útvarpinu ræðu sína um, að búið væri að endurbæta tryggingarnar svo stórkostlega, þá var hann rétt að koma frá að fella veigamiklar till. mínar, 12 talsins, bornar fram fyrir hönd Alþb. til stórbóta á almannatryggingalögunum. Þetta var dálitið leiðinleg tilviljun, en satt er það engu að síður.

Emil Jónsson ráðherra hélt því fram, að umbætur almannatrygginganna væru mesta afrek Alþfl. En ég held, að lækkun kaups með lögum, gengislækkanir, bönn við löglegum verkföllum stéttarfélaga og harkalegir gerðardómar til að skerða kjör sjómanna séu miklu einstæðara afrek af Alþfl. og eigi raunar ekki sinn líka í veröldinni. En af hógværð sinni minntist ráðh. á ekkert af þessu í viðskiptasögu sinni sem formanns Alþfl. við verkalýðshreyfinguna.

Ég verð að játa, að mér varð hálfflökurt undir ræðu hv. þm. Eggerts Þorsteinssonar í gærkvöld. Svo virtist sem hann teldi sig og Alþfl. hafa leyst öll vandkvæði húsbyggjenda og sérstaklega unga fólksins, og þó hafði maðurinn það eitt fram að færa í þessum málum, að meira fé er nú veitt að krónutölu til húsnæðismála en t, d. árið 1958, — og mikið var. En það segir harla lítið eitt út af fyrir sig. Hitt talar skýrara máli, að samkv. útreikningum hagstofunnar kostar meðalíbúð nú 149 þús. kr. meira en sams konar íbúð kostaði 1958. En nú er algert hámark íbúðarlána hjá húsnæðismálastofnun ríkisins 150 þús. kr. í stað 100 þús. kr. áður. Lánið allt fyllir því aðeins upp dýrtíðaraukninguna síðan og ekkert umfram það. Ungi maðurinn, sem nú ætlar að byggja, stendur því líkt að vígi og ef ekkert lán hefði verið veitt til bygginga 1958. Þetta er nú öll dýrðin.

Fram á s.l. haust mátti heita, að l. um verkamannabústaði væru óvirk, og enn hafa verið veitt miklu færri lán til verkamannabústaða í þessari stjórnartíð heldur en gert var á árunum 1957–59. Þá sker það svo úr, að skýrslur Framkvæmdabankans sýna, að tala fullgerðra íbúða hefur aldrei verið jafnhá og á dögum vinstri stjórnarinnar, og því verður hvorki hnekkt með leiðu sjálfshóli né skrumi út í loftið um afrek Alþfl. í húsnæðismálum. Húsbyggjendur hafa aldrei átt í jafnmiklum erfiðleikum og nú. Það er staðreyndin.

Það er vandalaust fyrir kjósandann að gera upp við sig, hvort hann vilji framlengja völd stjórnarflokkanna eða hvort hann vill það ekki. En Framsfl. reynir oft að villa á sér heimildir. Hann er, eins og allir vita, milliflokkur og kastar sér ýmist til hægri eða vinstri. Nú rekur hann mikinn vinstri áróður. En hvað hyggst þessi flokkur gera eftir kosningar? Ætlar hann að nota atkvæði vinstri manna til að komast í stjórn með íhaldinu? Hyggst hann ef til vill safna undir sig vinstra fylgi til stuðnings hægri stefnu? Við þessum og þvílíkum spurningum verða vinstrisinnaðir kjósendur að fá svör og því fyrr því betra. Mikla athygli hafa þau vakið, ummæli Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstfl., um þetta, sem hann viðhafði í þingræðu hinn 13. febr. s.l., en þá sagði hann á þessa leið:

„Það getur vel verið, að þið framsóknarmenn getið með þessu náð því, sem þið augsýnilega ætlizt til, að afla vinstri atkvæða til þess að semja svo við Sjálfstfl. um að koma með honum í stjórn eftir kosningar. Það getur vel verið, að þið getið með þessu fengið því áorkað, úr því að þið teljið það nú orðið þá mestu gæfu, sem þið tölduð hina mestu ógæfu 1955. Ég vonast til þess, að það verði maklegur hrís á ykkur, ef þið komið í stjórn með okkur aftur.”

Þetta voru orð Bjarna Benediktssonar. En Ólafur Thors forsrh. vék að þessu sama í ræðu sinni í gærkvöld. Hann hafði að vísu engan refsivönd á lofti, en kvaðst mundu hafa gaman af því að sjá þá Þórarin og Eystein stíga viðreisnardans, ef svo vildi verkast.

Vegna þess, hvað hér er um þýðingarmikið pólitískt málefni að ræða, spyr ég beint og óska þess, að ræðumenn Framsóknar, sem hér tala á eftir mér, svari þessari spurningu afdráttarlaust, játandi eða neitandi: Er það útilokað með öllu, að Framsfl. fari í stjórn með Sjálfstfl. eftir kosningar? Komi við þessu játandi svar, teldi ég það hreinsa loftið verulega, en þögn eða loðið svar þýðir, að þeir geti þrátt fyrir allt hugsað sér að fara undir vöndinn hans Bjarna eða í dansskóla viðreisnarinnar til ballettmeistarans Ólafs Thors. Ég vænti um þetta skýrra svara.

Framsókn má ekki fá þá afsökun eftir kosningar, að enginn möguleiki hafi verið til vinstra samstarfs um stjórn landsins. „Þess vegna hef ég nú hallað mér að íhaldinu,” gæti hún þá sagt. Glæsilegur sigur Alþb. er einn þess megnugur, að vinstri sjónarmiðin ráði einnig í Framsókn eftir kosningar.

Það var víst hæstv. félmrh., Emil Jónsson, sem sagði, að það væri forkastanlegt af stjórnarandstöðuflokkunum að vera að draga afstöðuna til Efnahagsbandalags Evrópu inn í dægurþrasið. Þvílíkt afbrot, að ræða slíkt mál við íslenzka kjósendur! Ég mun samt hiklaust leyfa mér að gera það.

Hæstv. félmrh. sagði, að það væri hart, að ráðizt væri á ríkisstj. ekki aðeins fyrir það, sem hún hefði gert, heldur einnig fyrir það, sem hún hefði ekki gert. Nú væri ráðizt á stjórnina fyrir það, að hún hefði í hyggju að innlima Ísland með einhverjum hætti í Efnahagsbandalag Evrópu. Ekki hefði hún gert það enn. Ráðh. staðhæfði, að af hálfu stjórnarinnar hefði ekkert verið gert í þessu máli annað en kanna málið. Þetta eru hin mestu ósannindi, sem hæstv. ráðh. hefði getað sagt um þessi mál. Ríkisstj. hefur gert miklu meira. Hún og flokkar hennar með öllum blaðakosti þeirra hafa frá því um miðjan ágúst í fyrra og fram að þessu rekið látlausan og linnulausan áróður fyrir því, að Ísland gengi með einhverjum hætti í Efnahagsbandalag Evrópu.

Um miðjan ágúst í fyrra stefndi ríkisstj. saman fulltrúafundi 14 helztu félagssambanda atvinnuveganna og krafðist tafarlausrar umsagnar þeirra, hvort ekki væri rétt, að Ísland sækti þá strax um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Þau skilaboð fylgdu með frá ríkisstj., að málið þyldi enga bið. Ríkisstj. knúði fram jákvætt svar frá öllum þessum fulltrúum nema frá fulltrúum Alþýðusambandsins, og Morgunblaðið skýrði frá því með stærsta fyrirsagnaletri sínu á fyrstu síðu, að nú væru fengin meðmæli frá öllum helztu atvinnuvegum þjóðarinnar með því, að ríkisstj. sækti um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Morgunblaðið sagði m.a. orðrétt:

„Með því að sækja um inngöngu geta Íslendingar haft áhrif á það, hvernig málum verður háttað. Ef við leggjum ekki fram inntökubeiðni nú, verðum við frá upphafi einangraðir. Þannig er það beinlínis þjóðhættulegt að draga það að gæta hagsmuna okkar.”

Og það fylgdi með, að enginn ærlegur Íslendingur gæti verið á móti svo sjálfsögðum hlut. Alþýðusambandið væri með andstöðu sinni að þjóna hagsmunum Rússa eins og ævinlega.

Í októbermánuði gerði landsfundur Sjálfstfl. samþykkt um, að Ísland ætti tafarlaust að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu. Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, hefur verið að burðast við það hér á Alþingi að skýra þetta svo, að ætlunin með umsókn um inngöngu hafi aðeins verið að kanna, með hvaða skilyrðum Ísland gæti orðið aðili að Efnahagsbandalaginu. Í því sambandi vil ég spyrja: Ætlar ráðh. að játa það, að hann og ríkisstj. öll hafi verið þeir glópar, að þeir hafi ekki vitað það í okt. 1962, að æðstu stofnanir Efnahagsbandalags Evrópu höfðu þá ákveðið, að hvert ríki, sem sækti um inngöngu í Efnahagsbandalagið, yrði með umsókninni sjálfri að játast skilyrðislaust undir alla skilmála Rómarsáttmálans, ella yrði umsóknin ekki tekin fyrir? Hver einasta umsókn um inngöngu í Efnahagsbandalagið, hvort sem er um fulla aðild eða aukaaðild, verður að fela í sér skuldbindingu viðkomandi ríkis um að leyfa frjálsan innflutning fjármagns og vinnuafls og atvinnurekstur útlendinga í landi sínu. Allar þær umsóknir, sem nú liggja fyrir um aðild eða aukaaðild að Efnahagsbandalaginu, fela í sér viðurkenningu á þessum grundvallaratriðum. Ég skora því á hv. talsmenn stjórnarflokkanna, sem hér eiga eftir að tala, að hrekja þetta með aðstoð sérfræðinga sinna, ef þeir geta það.

Ríkisstj. þýðir ekki að halda því fram nú, að af hennar hálfu hafi ekkert verið gert nema að kanna málið. Hún hefur mánuðum saman látið svokallaða sérfræðinga sína reka áróður fyrir stefnu sinni í málinu. Ég skal nefna nokkra þeirra:

Már Elísson, sérfræðingur Sjálfstfl. í efnahagsmálum og sjávarútvegsmálum, sagði, að áhrif þess að standa fyrir utan Efnahagsbandalagið yrðu hörmuleg. Niðurstaða hans var orðrétt svo: „að nauðsynlegt sé að sækja um aðild að Efnahagsbandalaginu innan skamms. Ég mundi telja heppilegast samningsaðstöðunnar vegna að byrja sem fyrst,” þ.e. að sækja um fulla aðild.

Annar sérfræðingur og þm. Sjálfstfl., Davíð Ólafsson fiskimálastjóri, sagði orðrétt: „Við þurfum að sækja um aðild að bandalaginu heldur fyrr en seinna. Það, sem ég óttast,” sagði hann, „ef við bíðum lengur, er að við komum að fullbyggðu húsi, sem við getum ekki fengið neina breytingu á, eins og okkur mundi henta.”

Engir hafa þó gengið lengra í áróðrinum en aðalsérfræðingar ríkisstj. í efnahagsmálum, þeir Jónas Haralz og dr. Jóhannes Nordal bankastjóri. Hinn síðarnefndi hefur lagt megináherzlu á það í sínum málflutningi, að ekkert komi til greina fyrir Íslendinga nema full aðild eða aukaaðild.

Hér á Alþingi hefur hæstv. forsrh. útmálað það fyrir þingheimi, hvílíkt hörmungarástand biði íslendinga, ef þeir yrðu útilokaðir frá Efnahagsbandalagi Evrópu. Hæstv. viðskmrh., Gylfi Þ. Gíslason, hefur og sagt frómt frá því eftir heimildum frá æðstu mönnum Efnahagsbandalagsins, að aukaaðild kosti samninga um viðkvæm mál, þ. á m. um atvinnurekstur útlendinga hér á landi, þ. á m. rétt þeirra til fiskiðnaðar þeirra hér, sem auðvitað mundi opna þeim íslenzka landhelgi. Og bæði hann og hæstv. dómsmrh, hafa lagt megináherzlu á það í ræðum sínum hér á Alþingi, að við verðum með einhverjum hætti að tryggja okkur, að við getum tekið þátt í störfum og stofnunum Efnahagsbandalagsins og haft þar með áhrif á stefnu þess. „Rödd Íslendinga verður að heyrast í Brüssel,” sagði Bjarni Benediktsson. Nú hefur verið upplýst hér á Alþingi alveg ómótmælt af öllum og einnig af þessum ráðherrum, að aldrei hafi verið gert ráð fyrir því, að aukaaðildarríki gæti tekið nokkurn þátt í störfum eða stofnunum Efnahagsbandalagsins eða geti haft áhrif á stefnu þess.

Þessi ummæli ráðh. hér á Alþingi sýna ómótmælanlega, að það er jafnvel eitthvað meira en venjuleg aukaaðild Íslands, sem fyrir þeim vakir. Aukaaðild er það allra minnsta, sem þeir geta sætt sig við. Það er alveg uppvíst og óumdeilanlegt, að aukaaðild þýðir, að Íslendingar verða að endurskoða stefnu sína varðandi fisklandanir útlendinga hér á landi, eins og Gylfi Þ. Gíslason hefur komizt að orði, hleypa útlendingum eða útlendum auðhringum inn í íslenzkan fiskiðnað og þar með inn í íslenzka landhelgi. Ræður hæstv. ráðh. eru geymdar í þingtíðindunum og sýna það og sanna, að þeir vilja a.m.k. aukaaðild Íslands að Efnahagsbandalaginu. Þeir vilja koma Íslandi í þetta nýja ríki auðhringanna í Evrópu, ef þeir geta það, og nú segja þeir. Málið er úr sögunni, af því að Bretar gengu ekki í Efnahagsbandalagið í vetur. — Æðstu menn Efnahagsbandalagsins í Vestur-Þýzkalandi og fleiri ríkjum hafa margsagt opinberlega, að þess verði ekki langt að bíða, að Bretar verði teknir í Efnahagsbandalagið. Það strandaði ekki á neinum efnahagslegum skilyrðum, Bretar voru búnir að ganga að þeim öllum. Það strandaði á samningum um kjarnorkuvopn Atlantshafsbandalagsins, og það mál verður að leysa, ef það bandalag á ekki að verða úr sögunni. Það mál eru Bandaríkin nú að leysa, því að þeim er vel ljóst, að verði það ekki leyst, verða þau að flytja allan sinn her, 450 þús. manns, burt úr Evrópu. Það mál verður leyst og þá geta Bretar gengið í Efnahagsbandalagið og munu gera það. Íslendingum er því óhætt að trúa því, að Adenauer kanslari og aðrir æðstu menn Efnahagsbandalagsins, sem fullyrða, að Bretar verði komnir í Efnahagsbandalagið innan tíðar, vita meira um það mál heldur en Gylfi Þ. Gíslason og Bjarni Benediktsson báðir til saman, sem vilja nú segja íslenzku þjóðinni það, að allt þetta mál sé úr sögunni.

Við þekkjum stefnu ríkisstj. í málinu og getum sannað þjóðinni hana með óteljandi tilvitnunum í ræður ráðh. og ræður sérfræðinga ríkisstj. Öll meðferð ríkisstj. á þessu máli einkennist bæði af blindni og sviksemi. Íslenzka þjóðin verður því að vera á verði, halda vöku sinni og vera sjálfri sér trú. Þá mun núv. stjórnarherrum ekki gefast neitt tækifæri til þess að leiða þjóðina inn í Efnahagsbandalagið og tortíma þar með sjálfstæði hennar og sjálfsforræði.

Herra forseti, að lokum þetta: Tilkynning sú um sameiginleg framboð og samstöðu Alþb. og þjóðvarnarmanna í kosningunum 9. júní n.k., sem Karl Guðjónsson birti í ræðu sinni í gærkvöld fyrir hönd Alþb., hefur vakið mikla athygli um allt land. Hún hefur glatt allt vinstri sinnað fólk í landinu. Hún hefur vakið ergi og ugg í röðum stjórnarflokkanna. Það er ekki sízt afstaðan til Efnahagsbandalags Evrópu, sem veldur því, að miklu fleiri en nokkru sinni áður eru nú staðráðnir í því, þrátt fyrir margvíslegan skoðanamun um önnur mál, að berjast saman undir merki Alþb. í kosningunum í vor. Þar er baráttan gegn innlimun Íslands í Evrópustórveldið, baráttan fyrir sjálfstæði Íslands í framtíðinni, sem öllu öðru fremur sameinar áður sundruð öfl og dreifða krafta. Undir slíkum kringumstæðum mega engin atkv. vinstrisinnaðra manna falla dauð niður. Sameinum því kraftana, sósíalistar, jafnaðarmenn, þjóðvarnarmenn og vinstrisinnaðir framsóknarmenn. Alþb. eitt getur afdráttarlaust lýst yfir ákveðinni stefnu í Efnahagsbandalagsmálinu. Leggjum nú öxl við öxl í baráttunni fyrir því, að völdum stjórnarflokkanna verði endanlega hnekkt hinn 9. júní.

Við höfum orðið síðbúnari en hinir flokkarnir með framboðslista okkar. Satt er það. En það var vegna nauðsynlegra viðræðna um grundvöll vinstra samstarfs á breiðara grundvelli en áður. En nú er okkur ekkert að vanbúnaði. Nú sprettum við upp eins og stálfjöður og krefjum alla andstæðinga innlimunar og afturhalds í landinu heila hildar til undir merki Alþb. Drögum ekki af okkur! Sækjum fram og sigrum þann 9. júní! — Góða nótt.