18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

Almennar stjórnmálaumræður

Hermann Jónasson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Stjórnarflokkarnir minntust talsvert á vinstri stjórnina, aldrei þessu vant, í ræðum sínum í gær, og mér skildist á umr., að Alþfl. hefði aldrei tekið þátt í henni. Mér finnst það sök sér, þótt forsrh. reyni að velta syndabyrðum sínum yfir á vinstri stjórnina, það er honum líkt. En er þetta stagl ekki orðið nokkuð broslegt?

Óvefengjanlegar staðreyndir sanna, að 1958 var afkoma ríkissjóðs góð. Þá safnaðist verulegur erlendur gjaldeyrir, lífskjör fólks voru betri að áliti erlendra sérfræðinga en nokkurs staðar í Evrópu. Þá var það, að Einar Olgeirsson, eins og hann sjálfur skýrði frá í þingræðu, tók höndum saman við íhaldsforkólfana, fékk þá til að beita sér fyrir því að bjóða enn meiri kauphækkanir. Þessar miklu kauphækkanir hlutu að valda nýrri dýrtíðaröldu, nema ráðstafanir væru gerðar. Þetta sagði ég þjóðinni, og þegar samstarfsflokkarnir neituðu að gera nauðsynlegar ráðstafanir gegn dýrtíð, baðst ég lausnar, eins og mér var siðferðilega skylt.

Fyrsta ganga stjórnarflokkanna var að taka aftur með lögum frá Alþingi kauphækkunina, sem þeir höfðu áður beitt sér fyrir, og eyða þannig dýrtíðaröldunni, sem þeir höfðu sjálfir reist. Látum svo þjóðina um það, hvors framkoma er drengilegri. En ef núv. stjórnarflokkar væru í raun og veru að glíma við afleiðingar dýrtíðar frá 1958, væru þeir sannarlega að fást við draug, sem þeir sjálfir vöktu upp.

En við skulum nú veita því fyrir okkur örlitla stund, hvað kosningar eru í raun og veru.

Kosningar eru samningur milli kjósenda og frambjóðenda. Frambjóðandi lýsir þeirri stefnu, sem hann ætlar að fylgja, og gefur stundum fyrirheit um framkvæmd í einu og öðru, ef hann fái valdaaðstöðu. Kjósandinn greiðir frambjóðandanum atkv. í þeirri von og vissu, að hann geri það, sem í hans valdi stendur, til þess að framkvæma það, sem hann hefur lofað, og lofi ekki öðru en því, sem hann hefur ætlað sér að framkvæma. Í trausti þess er frambjóðandi kosinn. Stjórn, sem getur ekki efnt orð sín, verður að taka afleiðingunum af því og segja af sér.

Það er því ekki úr vegi, heldur þvert á móti skylt nú, þegar kjörtímabilið er á enda og á að velja þm. að nýju, að gera sér grein fyrir, hver þau loforð voru, sem núv. stjórnarflokkar eða þm. þeirra voru kosnir til að framkvæma og hvernig þeir hafa haldið þau loforð. Eftir efndunum skulu þeir dæmdir, og nú er komið að því, að sá dómur verði upp kveðinn.

Flestum mun í fersku minni loforð stjórnarflokkanna um stöðvun verðbólgu og dýrtíðar, sem aldrei verður of oft minnt á. Kjósendur hafa fengið út á þetta loforð óðadýrtíð, Evrópumet í dýrtíð, alveg þveröfugt við það, sem lofað var. Þjóðin rekur sig á staðreyndir þess daglega, að dýrtíðin hefur aldrei verið meiri, og forsrh. sá þann kost vænstan að játa þetta í síðustu áramótaræðu. Segir hann orðrétt: „Hins vegar játa ég hispurslaust, að enn hefur ekki tekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar.” Og enn segir ráðh.: „En takist ekki að sigrast á verðbólgunni, gleypir hún fyrr eða síðar ávexti þess, sem bezt hefur tekizt. Er þá unnið fyrir gýg og beinn voði fyrir dyrum.” Það er satt, það er beinn voði fyrir dyrum, og því veldur svokölluð viðreisn, því að þótt verðbólgan hafi farið hratt, fer hún enn hraðar eftir kosningarnar. Þar er lögmál viðreisnarinnar að verki. Þessi hæstv. forsrh. er svo með derring og hótanir við þjóðina um það að halda stefnunni áfram lengra út í voðann, hvað sem niðurstöðu kosninga liði.

Stjórnarflokkarnir fengu sig kosna upp á það loforð að bæta lífskjör almennings. Fáir munu geta neitað því, að ríkisstj. hefur stefnt að því markvisst að skerða kaupgetuna, svo að samkv. útreikningum hagstofunnar getur meðal-verkamannafjölskylda ekki lengur dregið fram lífið nema með stórfelldri eftirvinnu árið um kring.

Í kaupgjaldsmálum lofaði ríkisstj. því, að þau yrðu látin afskiptalaus. Kaupgjald átti að leita jafnvægis með frjálsum samningum milli verkamanna og atvinnurekenda. Efndirnar eru þessar: Núv. ríkisstj. hefur hvað eftir annað tekið í sínar hendur ákvörðun kaupgjalds í landinu með brbl., gerðardómum, gengisfellingum og fleiri þvingunarráðstöfunum.

Af þessari ríkisstj. var fyrrv. ríkisstj. borið það á brýn, að þær hefðu tekið svo mikil lán erlendis, að landið væri að sökkva í skuldum. En hvað hefur gerzt síðustu 4 árin, síðan 1958. Ríkisskuldirnar hafa hækkað. Skuldir þjóðarinnar út á við hafa hækkað. Ný erlend lán hafa verið tekin, án þess að um nýjar stórframkvæmdir hafi verið að ræða.

Frambjóðendur stjórnarflokkanna kepptust við að lýsa því yfir fyrir síðustu kosningar, að þeir ætluðu að láta stækka landhelgina og standa fast á rétti Íslands. En hverjar eru efndirnar? Landhelgin var minnkuð. Bretum var leyft að fiska innan 12 mílna landhelginnar, a. m. k, um skeið. Með nauða- og smánarsamningi var landgrunnið, sem við höfðum með lögum frá 1948 lagt undir okkar lögsögu, viðurkennt sem opið haf utan 12 mílna, — viðurkennt, að á þessu svæði megum við engu ráða nema fá til þess samþykki Breta eða alþjóðadómstóls.

Landið helgar þjóðinni landgrunnið. Ef ekki væri landgrunnið, væri lítt lífvænlegt á Íslandi. Með hraðvaxandi fólksfjölgun er vaxandi nauðsyn á því, að við nýtum landgrunnið allt. Er auðsætt, að ríkisstj. hefur afsalað rétti niðja okkar til þess að lifa í landinu, þegar fólkinu fjölgar.

Hver þorir að treysta því, að stjórnarflokkarnir framlengi ekki undanþágurnar núna á næstunni?

Nokkur dæmi hafa verið rakin um loforð og kosningaefndir, og ég skal ekki nefna fleiri. Áhrif kjósendanna og vald verður ekki mikils virði, þegar svona er unnið.

Og nú koma frambjóðendur stjórnarflokkanna til ykkar, kjósendur góðir, á ný og tala sem minnst um gömlu loforðin, en bjóða ykkur þeim mun meira af nýjum loforðum. Þessi nýju loforð eigið þið að taka fyrir góða og gilda vöru. Nú vantar ekki blíðmælin í launa- og kaupgjaldsmálum eftir allan ofstopann í þeim málum allt kjörtímabilið. Svo glotta menn og hvísla bak við tjöldin: Vitanlega tökum við þetta allt saman af þeim aftur eftir kosningar með gengisbreytingu.

Ég ætla ekki að telja allar þær tegundir af kosningagóðgæti, sem nú er borið á borð fyrir kjósendur. En ef kjósendur gína við þessu góðgæti eftir reynsluna af því, sem borið var á borð fyrir þá eftir síðustu kosningar, þá er hætta á ferðum. Ef þm. geta breytt þveröfugt við það, sem þeir lofuðu kjósendum sínum fyrir kosningar, án þess að þeir bíði fylgistap, þá fer vald kjósendanna þverrandi og gildi kosninga þá orðið sáralítið. Kjósendur væru þá svo lítilþægir, — og það álíta stjórnarflokkarnir, að þeir séu, — að mjög takmarkað tillit þyrfti til þeirra að taka, gæta þess aðeins að mata þá með nýjum loforðum fyrir hverjar kosningar.

Ef kjósendur hins vegar refsa með fylgistapi þeim, sem vísvitandi brigða loforð gefin fyrir kosningar, verður það til þess, að virðing og vald kjósendanna vex og þm. gæta þess að standa við orð sín, því að þeir eiga þá pólitískt líf sitt undir því að gera það.

Kjósendur eru dómarar. Þess vegna mega kjósendur hvorki vera bundnir af flokksböndum né vana. Þeir eiga að hafa sjálfstæðiskennd og djörfung til þess að skipta um flokk, ef þeim líkar ekki við flokk sinn eða frambjóðendur. Slíkt tíðkast í stórum stíl meðal erlendra og þroskaðra lýðræðisþjóða. Slíkt er hverjum manni sæmd, en ekki vansæmd. Ef slík regla yrði almennari en hingað til, mundi það hreinsa andrúmsloftið í íslenzkum stjórnmálum meira en nokkur önnur aðgerð.

Framkoma stjórnarflokkanna íslenzku, sú sem ég hef rakið lítils háttar, er blátt áfram niðurlægjandi fyrir lýðræðið og kjósendur í þessu landi. Staðreyndir sanna, að stjórnarflokkarnir lita á kjósendur — ekki sem sjálfstæða dómara, heldur sem flokksbundna hjörð, sem auðvelt sé að ginna með loforðum, stjórna síðan gagnstætt þeim allt kjörtímabilið. En nokkra seinustu mánuðina er breytt um aðferðir: kosningalán tekin, framkvæmdaáætlun sett á svið, svokölluð tollalækkun samþykkt til bráðabirgða, úthlutað lánum til húsbygginga o.fl. sem of langt yrði upp að telja.

Ég skal engu spá um úrslit næstu kosninga. En eitt er víst: í næstu kosningum verður úr því skorið, hvort hægt er að stjórna íslenzku þjóðinni með þessum hætti.

Einn furðulegasti loddaraleikurinn er þó ótalinn og það í langstærsta máli þjóðarinnar í dag, — viðhorfið til Efnahagsbandalagsins.

Þegar þjóðinni varð ljóst, m.a. af skrifum stjórnarblaðanna og yfirlýsingum ráðh., að ríkisstj, ætlaði sér að gera Ísland að aðila að Efnahagsbandalaginu, reis andúðaralda með þjóðinni. Stjórnin varð hrædd. Hún lýsti yfir því, að hún hefði aldrei ætlað sér aðild. Þá skeði það, að hinn aldraði kanslari Þýzkalands skýrði frá því tvívegis, að Ísland væri meðal þeirra ríkja, sem vildu gerast aðili. Ríkisstj. mótmælti hér heima og taldi þennan misskilning gamla mannsins stafa af ellihrörnun. En þá tók ekki betra við. Í skýrslu Evrópuráðsins er því ljóstrað upp, að Ísland sé meðal þeirra ríkja, sem vilji gerast aðili. Viðskmrh. rís upp hér á Alþingi og segir, að þetta sé á misskilningi byggt hjá embættismönnum Evrópuráðsins. Hvoru skyldi nú vera öruggara að trúa, kanslaranum og opinberum skýrslum embættismanna Evrópuráðsins eða yfirlýsingum íslenzku ríkisstj. í pólitískri lífshættu?

Ríkisstj. gaf Alþingi svokallaða skýrslu um málið. Segir þar, að nú komi aðeins tvær leiðir til greina: aukaaðild eða viðskipta- og tollasamningur, sem viðskmrh. hafði áður lýst alveg ófæra leið. Þegar Framsfl. sýndi fram á hætturnar, sem þjóðinni stöfuðu af aukaaðild, taldi ríkisstj. það neikvætt ábyrgðarleysi og sannaði þar með, að hún hafði valið aukaaðildarleiðina, þótt viðskmrh. hefði opinberlega upplýst, að aukaaðildin kostaði þær fórnir, að við yrðum að gera það, sem jafngildir því að hleypa útlendingum inn í landhelgina bakdyramegin, ásamt mörgu öðru.

Þegar ríkisstj. fann andúðina gegn slíkri aukaaðild, reyndu stjórnarflokkarnir að slíta úr samhengi ýmis ummæli framsóknarmanna, sem áttu að sanna, að þeir hefðu líka verið með aukaaðild.

Fullkomna og endanlega uppgjöf á þessari blekkingartilraun má telja vitnisburð Gylfa Þ. Gíslasonar á Alþ. 2. þ. m. Hann sagði orðrétt:

„Það er alveg rétt, sem hv. formaður Framsfl. heldur fram hér, og skal ég með ánægju staðfesta það, að hann hefur frá upphafi talið, að tolla- og viðskiptasamningsleiðin væri eina leiðin, sem hentaði Íslendingum í þessu máli. Það kom fram í fyrsta samtalinu, sem við áttum um málið. Á því hefur aldrei verið nokkur vafi í mínum huga, að hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hefur haft þessa skoðun, þó að ég hafi hins vegar talið á sínum tíma, að í upphafi hafi hún ekki verið nægilega vel rökstudd, en það er annað mál.”

Þetta held ég að taki af öll tvímæli.

En loks þegar ríkisstj. var uppgefin á þessum eltingaleik, var útilokun Breta í bráð gripin eins og hálmstrá og sagt, að málið væri úr sögunni, þótt allir viti, að við verðum fyrr en síðar að taka afstöðu til bandalagsins eftir kosningar og þá hvort við gerum tolla- og viðskiptasamning eða gerumst aukaaðilar.

Maður hefði nú haldið, að nóg væri komið. En það er meira blóð í kúnni. Viðskmrh. talaði á hátíðlegri stund á 100 ára afmæli þjóðminjasafnsins — og var mikið niðri fyrir. En í stað þess að tala um safnið, byrjaði hann að tala annarlegum tungum um ríkjasamsteypur, dýrð þeirra, úrelt sjálfstæði, sem þyrfti að afsala sér til þess að öðlast nýmóðins sjálfstæði, því að kæna smáríkis væri lítilmótlegur farkostur, samanborið við hin stóru hafskip bandalaganna.

Mér er óhætt að fullyrða, að hlustendur urðu margir höggdofa. En þessi ræða hefur einn kost. Eftir þessa dæmalausu ræðu veit sérhver hugsandi kjósandi og gengur að því með opnum augum, að greiði hann atkv. með stjórnarflokkunum, er hann að greiða atkv. með því, að Ísland verði innlimað, a.m.k. sem aukaaðili, í Efnahagsbandalagið. Slíkt gæti orðið ein dekksta blaðsíða Íslandssögunnar. En það er enn á valdi kjósenda að afstýra því við næstu kosningar. — Góða nótt.