18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

Almennar stjórnmálaumræður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Fyrir nokkrum dögum sat hópur ungra jafnaðarmanna og ræddi stjórnmálaþróun síðustu ára. Í þeim umræðum var varpað fram þessari spurningu: Hver eru spor Alþfl, í núv. stjórnarstefnu? Hvað hefur Alþfl. gert síðustu ár fyrir hugsjón sína? Þetta er góð spurning og þess virði, að henni sé svarað í áheyrn kjósenda. Svarið hlýtur að leiða í ljós, hvort Alþfl. hefur komið fram einhverjum hugsjónamálum sínum, sem skýra þátttöku hans í ríkisstj. með Sjálfstfl. Ekki er ástæða til að rekja sundur allt stjórnarsamstarfið, vegna þess að stjórnarflokkarnir hafa unnið saman af heiðarleik og ekki reynt í sífellu að troða skóinn hvor af öðrum, eins og áður hefur svo mjög tíðkazt í stjórnum hér á landi. Hins vegar vil ég draga fram nokkur umbótamál, sem við Alþýðuflokksmenn höfum lagt og leggjum megináherzlu á. Þar verður að greina á milli þess, sem er dægurmál og leysir vanda sugnabliksins, og hins, sem er varanlegt framtíðarmál.

Í verkalýðsmálum er háð stöðug dægurbarátta, til þess að kaup fylgi verðlagi og framleiðslan stöðvist ekki. Á þessu sviði gengur á ýmsu. Hins vegar hefur Alþfl. fengið framgengt ýmsum gömlum baráttumálum á þessu sviði, eins og launajafnrétti karla og kvenna, sem búið er að lögfesta og tekur nú gildi á fáum árum. Það hefði kostað mörg verkföll fyrir konurnar að vinna þetta mál, ef það hefði ekki verið knúið fram friðsamlega á vettvangi ríkisstj. Þarna er spor eftir Alþfl.

Í atvinnumálum hafa þau tíðindi gerzt, að stjórnin hefur lagt fram fyrstu þjóðhags- og framkvæmdaáætlun Íslendinga og þar með tekið upp vinnubrögð, sem Alþfl. hefur barizt fyrir í 40 ár. Það er athyglisvert, hvernig stjórnarandstæðingar bregðast við þessari merku áætlun. Eysteinn Jónsson segir, að hún sé ekkert nema kosningaplagg, en Lúðvík Jósefsson segir, að áætlunin geri ráð fyrir allt of litlum framkvæmdum og hægum vexti. Ekki geta báðir haft rétt fyrir sér. Ef stjórnin hefði litið á þetta sem kosningaplagg, hefði hún auðvitað haft það svo glæsilegt, að jafnvel Lúðvík hefði talið nóg. Sannleikurinn er sá, að þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin er samin af fyllstu ábyrgð og gætni, enda er hún byrjun á nýjum og skynsamlegum vinnubrögðum í efnahagslífi þjóðarinnar. Þarna er spor eftir Alþfl.

Húsnæðismál eru eitt mesta hagsmunamál almennings. Lífskjör fjölskyldunnar fara um langt árabil mjög eftir því, hvort hún þarf að greiða mikið eða lítið í húsaleigu eða af eigin íbúð. Þess vegna hefur hver ríkisstj. fram af annarri lagt mikla áherzlu á að auka útlán húsnæðismálastjórnar til þeirra, sem koma upp eigin íbúð. Hefur engin ríkisstj. komizt lengra í þeim efnum en núv. stjórn. En það hefur gerzt meira í húsnæðismálum, eftir að Alþfl. fékk megináhrif á þau. Verkamannabústaðakerfið hefur verið vakið upp frá dauðum og blásið í það nýju lífi til aðstoðar við þá, sem lægstar tekjur hafa. Sá, sem byggir verkamannabústað, fær allt að 300 þús. kr. lán með beztu kjörum, en hann má ekki hafa tekjur yfir tiltekið mark. Þessi aðstoð, sem er betri en nokkrir aðrir húsbyggjendur fá, er þannig takmörkuð við þau 10% af launþegum, sem hafa lægstar tekjur. Byggingarsjóður verkamanna veitti nýlega 42 millj. kr. í lán til verkamannabústaða fyrir 1962 og 1963 og ríkisstj. gerir sér vonir um, að veitt verði a.m.k. 30 millj. til þessara þarfa 1964. Þetta gerðist ekki, þegar Hannibal Valdimarsson var húsnæðismálaráðh. Það gerðist undir forustu Emils og Eggerts Þorsteinssonar. Þarna er spor eftir Alþfl.

Almannatryggingar hafa aukizt meir í tíð núv. ríkisstj. en nokkru sinni fyrr, og er það eitt stórbrotinn árangur fyrir hugsjónir jafnaðarmanna. Er nú svo komið, að tryggingakerfið mun á næsta ári flytja yfir 800 millj. kr. til í þjóðfélagi okkar frá hinum efnameiri til hinna efnaminni. Þessa daga er Alþingi að afgreiða enn eitt tryggingafrv., sem gerir ráð fyrir veigamiklum endurbótum m.a. á lífeyrissjóði. Í gærdag var frv. afgreitt við 3. umr. í Nd. Flestir þm. Framsfl. réttu ekki upp höndina til að samþ. það endanlega við 3. umr. Þetta var í fullu samræmi við tregðu eða beina andstöðu framsóknarmanna við almannatryggingar, sem staðið hefur um langt skeið. Það hafa ekki orðið meiri háttar umbætur á tryggingunum, þegar Framsókn hefur verið í ríkisstj. síðustu 25 árin. Og þegar síðasta stórbreyting var gerð á tryggingunum árið 1946, fluttu Hermann Jónasson og Eysteinn Jónsson frávísunartill. í báðum deildum til þess að reyna að hindra framgang málsins.

Hannibal Valdimarsson taldi í ræðu sinni í kvöld, að endurbætur almannatrygginganna væru kommúnistum og kommúnistum einum að þakka. Í því sambandi vil ég spyrja Hannibal: Af hverju var ekki hægt að fá vinstri stjórnina til að gera umbætur á tryggingunum? Hvar var þá áhugi kommúnista á almannatryggingunum? Þegar við afgreiddum síðasta tryggingafrv. hér í Nd. í gær við 3. umr., greiddi Hannibal ekki atkvæði með því. Hann hafði við þessar umr. barizt fyrir því, að málið yrði ekki afgreitt á þessu þingi. Í tryggingamálum notar Hannibal Valdimarsson stór orð, en hann gerði ekkert, þegar hann var ráðh. Emil Jónsson notar ekki stóryrði á borð við Hannibal, en undir hans stjórn hafa verið gerðar mestu umbætur í sögu almannatrygginganna.

Fyrir nokkrum dögum kom út á Vesturlandi framsóknarblað, þar sem rætt var um almannatryggingarnar og beinlínis gefið í skyn, að fjölskyldubætur með 1. og 2. barni væru óþarfar. Varð greinin ekki öðruvísi skilin en svo, að höfundur hennar vildi jafnvel minnka tryggingarnar sem þessu nemur, en það er sama og að taka 6150 kr. af hverri einustu barnafjölskyldu í landinu. Unga fólkið mætti gjarnan taka eftir þessum framsóknarhug, því að fjölskyldubætur með 1. og 2. barni eru fyrst og fremst viðurkenning á vandamálum ungra hjóna, sem eru að stofna bú, því að fjárhagurinn er oft hvað þrengstur á fyrstu árunum.

Það er svo enn til viðbótar, að framsóknarmenn kalla greiðslur almannatrygginganna styrk frá ríkinu og reyna þannig að setja hinn gamla styrkþegastimpil á alla þá, sem trygginganna njóta. Í þessum efnum eru framsóknarmenn eins og svartasta íhald, sem skilur alls ekki eðli almannatrygginganna. Þær eru ekki styrkir, ölmusur eða náðargjafir. Þær eru skipulögð tekjuskipting milli þegnanna, sem hver og einn á fullkominn rétt á. Þetta er jafnsjálfsagður hlutur og rétturinn til að fá fræðslu fyrir börn sín.

Framsóknarmenn væru vafalaust ánægðari með tryggingarnar, ef þeir fengju að úthluta þeim eins og gaffalbitum. En svo er ekki. Tryggingarnar eru ófrávíkjanlegur hluti af réttindum hvers Íslendings. Hann leggur þjóðfélaginu það, sem hann getur, greiðir, meðan hann hefur góðar tekjur, en á þennan rétt, ef hann verður örkumla, sjúkur, aldraður eða hefur fyrir stórri fjölskyldu að sjá.

Til að skilja, hvers vegna Alþfl. hefur barizt fyrir svo miklum almannatryggingum, verða menn einnig að skilja, hvað tryggingarnar eru. Þær eru ekki ölmusa. Þær eru ekki styrkur í hinni gömlu merkingu þess orðs. Tryggingar eru viðleitni þjóðfélagsins til þess að sjá um, að enginn þurfi að líða skort, hvorki gamlir, sjúkir, barnmargar fjölskyldur né aðrir. Tryggingarnar eru kerfi til þess að hjálpa þeim, sem stendur höllum fæti í þjóðfélaginu, til þess að njóta menningarlífs án þess að kveljast undir áhyggjum og kvíða fyrir morgundeginum. Tryggingarnar eiga að losa Íslendinga við óttann við skort, óttann við slys og sjúkdóma, óttann við barnafjölda, óttann við elli.

Til viðbótar öllu þessu eru almannatryggingar tæki til að jafna auði þjóðarinnar milli þegnanna, til að gera þá ríku örlítið fátækari, til að gera þá fátæku örlítið ríkari. Það er þessi tekjujöfnun, sem kemur hvað bezt fram í fjölskyldubótunum, og við verðum að dæma þær í heild til þess að skilja þjóðfélagslega þýðingu þeirra.

Stjórnarandstaðan talar aðeins um almannatryggingarnar sem mótvægi viðreisnarinnar gegn dýrtíð. Þetta er þó aðeins ein hlið málsins. Rétt er að athuga. hvernig þeim hefur vegnað, sem áður nutu trygginganna, hvort hugsað hefur verið nægilega vel fyrir þeim. Við skulum taka sem dæmi elli- og örorkulífeyri. Nú munu um 12000 manns fá ellilífeyri og á tólfta hundrað örorkulífeyri. Fyrir viðreisn, þegar Framsókn og kommúnistar voru við stjórn, fengu hjón á 1. verðlagssvæði 15900 kr. á ári og á öðru verðlagssvæði aðeins 11900 kr. Óréttlæti verðlagssvæðanna hefur nú loks verið leiðrétt, og fá nú allir jafnt, hvar sem þeir búa á landinu, 32800 kr. Vísitalan hefur hækkað um 30%, en elli- og örorkulífeyririnn hefur hækkað á milli 100 og 200%, eftir því hvar á landinu er. Og þó vita engir betur en við jafnaðarmenn, að þessi lífeyrir er sannarlega ekki of mikill, heldur þarf að hækka hann, strax og unnt er.

Það er til annar mælikvarði til þess að sýna hug ríkisstj. til almannatrygginganna. Hann er þau fjárlög, sem hver ríkisstj. lætur samþykkja. Síðast þegar framsóknarmenn og kommúnistar voru í stjórn á Íslandi, fóru 13 aurar af hverri krónu, sem við greiddum í ríkissjóð, til almannatrygginganna. Skv. fjárlögum ársins 1963, sem núv. ríkisstj. fékk samþykkt skömmu fyrir jól, fara 23 aurar af hverri krónu, sem rennur í ríkissjóð, beint aftur út úr honum til trygginganna. Hækkunin er úr 13 aurum af krónunni í 23. Þannig skilar ríkið aftur tæplega fjórðungi þess fjár, sem inn kemur í ríkissjóðinn. Svo mikil er tekjuskipting trygginganna orðin. Í þessum málum má sjá spor Alþfl.

Í tíð vinstri stjórnarinnar gerðust þau undur, — annað er ekki hægt að kalla það, — að framsóknarmenn og kommúnistar fengust ekki til að fylgja hinum félagslegu umbótum jafnaðarmanna, og er það ein höfuðorsök þess, að sú stjórn varð okkur til jafnmikilla vonbrigða og raun ber vitni. Hins vegar blasir sú pólitíska staðreynd við augum, hvað sem menn kunna að segja um hægri og vinstri og allt það, að Sjálfstfl. hefur viljað liðsinna þessum málum og gert það á svo myndarlegan hátt sem framkvæmd núv. ríkisstj. hefur leitt í ljós. Í þessu felst skýringin á stjórnarsamstarfinu, sem hefur staðið lengur og verið heiðarlegra en Íslendingar hafa átt að venjast.

Alþfl. hefur gegnt miklu hlutverki í íslenzkum stjórnmálum, eins og hann hefur gert í núv. stjórn. Flokkurinn hefur boðað og barizt fyrir félagsmálapólitík, sem stefnir til réttlátara og betra þjóðfélags, og þokað þeirri stefnu fram, hvenær sem tækifæri hefur gefizt til. Alþfl. hefur horfið frá allsherjarþjóðnýtingu, en telur, að við nútímaaðstæður í lýðræðisríki geti áætlunarbúskapur betur náð því takmarki flokksins í efnahagsmálum, að atvinnutækjum sé stjórnað með hag fjöldans fyrir augum, en ekki hag einstaklinga eða hópa manna. Á þessu sviði er þjóðhags- og framkvæmdaáætlunin, sem fram hefur verið lögð, mikilvægt skref, enda þótt hún sé aðeins byrjun.

Við skulum greina á milli dægurmálabaráttu við erfiðleika liðandi stundar og hinna varanlegu breytinga á þjóðfélagi okkar. í dægurmálunum gengur á ýmsu og verður oftast að ráða einhvers konar málamiðlun. Jafnvel Hannibal gaf út brbl. um stöðvun kaupgjalds, þegar hann var ráðh. og bar ábyrgð. Alþfl. leggur hins vegar megináherzlu á framfarir, sem eru varanlegar breytingar, eins og réttlátari kjördæmaskipun, stórauknar tryggingar og áætlanagerð. Í þeim efnum hefur flokkurinn markað djúp spor og komið fram miklu í samstarfi við aðra flokka.

Í þeim kosningum, sem eru fram undan, verður sérstaklega veitzt að Alþfl., enda fer það fyrst og fremst eftir kjósenda- og þingmannatölu Alþfl., hvort Framsókn og kommúnistum takast áform þeirra að ná völdum. Má því segja með sanni, að kosningarnar snúist fyrst og fremst um Alþfl. og hlutverk hans í íslenzkum stjórnmálum. Góðir Íslendingar, eigum við ekki að gera gott þjóðfélag betra með því að kjósa Alþfl.? — Góða nótt.