18.04.1963
Sameinað þing: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

Almennar stjórnmálaumræður

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Háttvirtu hlustendur. Í eldhúsumr. er það eðli málsins samkv. ríkisstjórnarinnar og stuðningsliðs hennar að svara fyrir sínar gerðir. Það hefur verið gert. En í lok þessara umr. er nú svo komið, að það er stjórnarandstöðunnar að svara til saka. Stjórnarandstaðan er að nafninu til tvíþætt. Það eru framsóknarmenn og hinir. Þessir hinir kalla sig Alþýðubandalagsmenn, en þetta lið er í svo mikilli upplausn, svo miklum sárum, að það er naumast drengilegt að skjóta harkalega að því.

Ég kenndi í brjósti um Karl Guðjónsson, þegar hann í gærkvöld var að lýsa breiðfylkingu Alþb.-manna, sem nú væri að leggja út í kosningarnar. Hann lýsti því, hvað stuðningsmenn hefðu þurft að bíða lengi og af miklum kvíða eftir framboðunum. En „aftur kemur vor í dal”, sagði Karl, því að daginn áður hafði náðst breiðari samstaða vinstri manna í komandi kosningum en nokkru sinni með skjalfestum samningi Alþb. og Þjóðvarnar, „mikið var, að beljan bar”. Svo var liðið ávarpað í ræðulokin: „Alþýðubandalagsmenn, þjóðvarnarmenn og aðrir vinstri menn.” En hverjir eru þessir aðrir vinstri menn? Ekki voru kommúnistar nefndir á nafn. Var kannske bara átt við einhverja framsóknarmenn? Nei, á þessa breiðfylkingu þarf ekki að eyða miklu púðri.

Ef menn reyna að gera sér grein fyrir inntakinu í ræðum framsóknarmanna í gær og í kvöld, viðlaginu, sem sungið er aftur og aftur, oft með alveg sömu orðunum, en stundum nokkrum tilbrigðum, þá er það tvíþætt: Annars vegar, hversu hroðalega erfitt sé nú að draga fram lífið, af því að vél, bátur eða íbúð kosti nú svo miklu meira en á sæludögum vinstri stjórnarinnar. Hins vegar er bara allt svart, sem stjórnarliðið hefur gert, en þó enn þá svartara en svart það, sem stjórnarliðið hefur ekki gert, en ætlar að gera. Útreikningana í fyrri flokknum annast minni spámennirnir, Sigurvin, Ásgeir og aðrir slíkir, en að sjálfsögðu er höfuðkempan í sortanum sjálfur formaður flokksins, Eysteinn Jónsson gengur þar fram fyrir skjöldu.

Fyrst ætla ég að víkja að minni spámönnunum. Það má taka dæmi Sigurvins, sem fleiri hafa vitnað í. Hann segir, að nú kosti íbúð 150 þús. kr. meira en fyrir 5 árum, í tíð vinstri sælu. Þetta er dauðadómurinn yfir viðreisninni. Hinir segja, að það sé dráttarvél, sem kostar meira, mjaltavél eða múgavél.

Það er rétt, að verðlag hefur hækkað um of, dýrtíð er meiri en skyldi. En hvað veldur? Hvernið leit hér út, þegar vinstri stjórnin gafst upp? Verðbólgualdan var skollin yfir, eins og Hermann Jónasson staðfesti í fráfararræðu sinni. Við það hafði hann svo því einu að bæta, eins og hann sagði, að í ríkisstj., þ.e. vinstri stjórninni, væri ekki samstaða um nein úrræði. Reiknað var út af sérfræðingum vinstri stjórnarinnar sjálfrar og af öðrum hagfræðingum og óvefengt, að með sama áframhaldi og verið hafði mundi vísitalan á næstu 10 mánuðum fara upp í 270 stig, þ.e. hækka um 70 stig. Það var sú óðaverðbólga, sem forsrh. vinstri stjórnarinnar spáði. En þá var líka öruggt, ef svo hefði haldið fram, að dýrtíðin væri búin að koma atvinnuvegunum í þrot og enginn erlendur gjaldeyrir fyrir hendi til nauðsynlegra þarfa eða til þess að standa við erlendar skuldbindingar þjóðarinnar. Þá hefði ekki þurft að reikna út dæmið hans Sigurvins, hvað íbúð hefði vaxið í verði, því að þá hefði engin íbúð einfaldlega verið byggð, heldur ekki hægt að flytja inn dráttarvélar eða aðrar vinnuvélar. Ef framsóknarmenn halda, að fólkið sé búið að gleyma þeim hörmungum, sem vinstri stjórnin leiddi yfir okkur og við blöstu, þá munu þeir finna, að þeim skjátlast. — Núv. stjórnarflokkum hefur giftusamlega tekizt að lyfta þjóðinni upp úr foraðinu og leggja grundvöll að traustari og betri framtíð.

Þá kem ég að hinum þættinum í viðlagi framsóknarmanna, að allt sé svart og svartara en svart. Eysteinn Jónsson segir, að stjórnarliðinu hafi með öllu mistekizt að ráða við verðbólguna. En hlaut ekki svo að fara, þegar sami maður segir í næstu setningu, að ríkisstj. hafi aldrei leitað annarra ráða en að magna dýrtíðina. Eysteinn segir, að það sé algerlega vonlaust að lifa mannsæmandi lífi í landinu af venjulegri vinnu, að stjórnin hafi ekki ráðið við neitt síðan eftir gengisfellinguna 1961, að upplausnareinkennin séu öllum ljós, óðadýrtíð, fossandi verðbólga. Ljótt er það! Nú bið ég hvern og einn að líta í eigin barm, hvort allt sé svona svart og rotið í þjóðfélaginu. Svo leggur Eysteinn Jónsson stjórnarliðinu skýringar í munn á því, af hverju viðreisnin hafi brugðizt. Við teljum að vísu, að hún hafi lánazt. En Eysteinn Jónsson segir, að við teljum, að viðreisnin hafi mistekizt vegna aflauppgripanna, að ríkisstj. telji, að vegna þess að alls staðar sé næg atvinna handa öllum, hafi viðreisnin brugðizt, viðreisnin farið út um þúfur, af því að eftirspurn eftir vinnuafli var of mikil. Þetta er formaður Framsfl., sem svona talar. Ég veit, að margir spyrja, hvort þessum gamla stjórnmálaforingja sé eitthvað alvarlega brugðið.

En það er meira blóð í kúnni. Og þá er komið að því, sem stjórnarliðið hefur ekki gert, en andstæðingarnir segja, að það ætli að gera. Eysteinn Jónsson segir, að það löðri allt í ráðagerðum í stjórnarherbúðunum að veita útlendingum aðstöðu til að verka fisk hér í landi, að hleypa þeim útlendu inn í íslenzka fiskiðnaðinn og þar næst inn í íslenzku landhelgina. Þarna hafa menn það. Það á að vera aðaláhugamál mitt og annarra þm., sem stutt hafa ríkisstj., og þá auðvitað fyrst og fremst ráðh. að hleypa útlendingum inn í íslenzka landhelgi! Ég vil aðeins hafa um svona málflutning eftirfarandi, og á hann einnig við um fyrrv. formann Framsfl., sem talaði í sama dúr hér í kvöld: Hann er til vanvirðu þeim, sem viðhafa hann. Svona glannaskapur er frekleg móðgun við hlustendur, því að hann ráðgerir fyllsta dómgreindarskort þess, sem til er talað. Svona háttalag í þingsölunum er niðrandi fyrir Alþingi.

Gísli Guðmundsson talaði hér áðan um okkur stjórnarsinna, sem þá lítið trúuðu á framtíð Íslands. Óvildina í garð bændastéttarinnar eigum við að hafa sýnt m.a. með því að ákveða kjördaginn þann 9. júní n.k. En þegar framsóknarmenn rufu þingið, sem frægt er orðið, 1931, þá ákváðu þeir kjördag, að vísu ekki 9. júní, en þann 12. júní. Lambær hafa sjálfsagt verið á Norðurlandi þá eins og nú. En vegir og samgönguskilyrði voru þá með nokkuð öðrum hætti en nú. Það er von, að öðrum stjórnarandstæðingum bregðist bogalistin, þegar jafngjörhugulum þm. fatast svo mjög.

Í Vafþrúðnismálum var það ein gáta Óðins, sem ekki varð ráðin, er hann spurði:

Hvat mælti óðinn,

áðr á bál stigi,

sjálfr í eyza syni?

Þetta vissi hann einn eftir bálför Baldurs, og gat því ekki Vafþrúðnir ráðið gátuna. En það er hins vegar auðráðið, hverju Eysteinn hvíslaði í gærkvöld í eyra Sigurvini. Það var innskot Sigurvins í handrit sitt, að forsrh. hefði sagt ósatt. Um þetta talaði Ólafur Jóhannesson hér áðan með miklum fjálgleik, — og hafði verið hvíslað í eyra honum eitthvað líka, — og taldi málflutning forsrh. alveg óverjandi. Hér skakkar sáralitlu, sem gert er mikið veður út af. Þeir neita því með öllu, að það sé rétt, að Sambandið hafi leitað eftir verðhækkunum eftir kauphækkanirnar 1961. En það, sem um er að ræða, er það, að Sambandið mun hafa látið hinum einstöku kaupfélögum eftir að óska mjög eindregið eftir verðhækkunum. Í því sambandi mega menn ekki gleyma því, að skeggið er skylt hökunni. Að kaupfélögin leituðu fast eftir hækkun álagningar vegna kauphækkananna 1961 og jafnvel afnámi verðlagseftirlitsins á þessum tíma, liggur fyrir ótvíræð vitneskja um og skjalfest hjá verðlagsnefnd. Þetta eru öll ósannindin um þessa heiðursmenn, sem mega ekki vamm sitt vita, þótt stundum slettist á þá olíublettir eða annar óþverri.

Ráðh. og aðrir talsmenn ríkisstj. hafa gert mjög ýtarlega grein fyrir stjórnarframkvæmdum og löggjöf á síðasta kjörtímabili. Þarf ég engu þar við að bæta, enda almannarómur, að núv. ríkisstj. hafi verið með afbrigðum starfsöm og afkastamikil. Að marggefnu tilefni í þessum umr. vil ég þó árétta eftirfarandi: Það er sagt, að atvinnuvegirnir berjist í bökkum vegna lánsfjárskorts, og alveg sérstaklega, að bátafloti landsmanna hafi ekki verið endurnýjaður. Landbrh. og Magnús Jónsson hafa svarað fyrir landbúnaðinn. Iðnlánasjóði hefur verið aflað lánsfjár og framlög aukin úr ríkissjóði, ný löggjöf sett til stóreflingar sjóðnum á þessu þingi. Stofnlánadeild sjávarútvegsins var opnuð að nýju með löggjöf 1961. Breytt var lausaskuldum og hengingarvíxlum útvegsins í löng og hagstæð lán, að upphæð nærri 400 millj. kr. Þetta er hin allra þarfasta löggjöf útvegsins um margra ára bil, enda að fullu metin af þeim, sem hennar hafa notið og munu njóta á næstu árum. Fiskveiðasjóði hefur verið gert kleift að standa undir meiri aukningu bátaflotans en nokkru sinni áður með lánveitingum. Svo staðhæfa menn blákalt hér í umr. bæði í gærkvöld og í kvöld það gagnstæða. Lúðvík Jósefsson sagði hér áðan, að skipastóllinn hefði rýrnað undanfarið og allt, sem gerzt hefði, væri að þakka innflutningi skipa frá tíð vinstri stjórnarinnar. Á þessu ári, sem nú stendur yfir, 1963, er ráðgert samkv. samningum, að til landsins komi nýsmíðuð 45 fiskiskip erlendis frá. Aldrei hefur útgerðin eignazt jafnmarga nýja báta á einu ári, en innflutningur báta er nú frjáls. En það, sem meira er, þetta eru yfirleitt allt miklu stærri fiskiskip en áður, 11 eikarskip og 34 stálskip, en stálskip eru að jafnaði 200 tonn og miklu betur búin að tækjum en áður. Þetta er aukningin á þessum skipastóli á einu ári um hér um bil 8000 rúmlestir. Á síðasta ári vinstri stjórnarinnar komu til landsins 7 bátar, 586 rúmlestir. Ekki hefur verið brugðið snöggt við til stórræða. En hæsta rúmlestatalan fyrir utan 1963 er á árinu 1960, með 3972 rúml. Lögð voru drög að byggingu sumra þessara skipa í tíð vinstri stjórnarinnar, en hvergi nærri allra, og þetta er þó ekki nema tæpur helmingur þess, sem nú er að gerast. Og ef innlenda smíðin er talin með, verður samanburðurinn miklu óhagstæðari fyrir vinstri stjórnarmálsvarana. Verðmæti bátaflotans, sem nú er verið að smíða erlendis fyrir Íslendinga og kemur til hafnar á þessu ári, nemur rúmum 400 millj. kr.

Hæstv. dómsmrh., Bjarni Benediktsson, flutti hér í kvöld ýtarlega ræðu um Efnahagsbandalag Evrópu og afstöðu sjálfstæðismanna og ríkisstj. til þess. Með þessari ræðu var hlustendum gerð til hlítar efnisleg grein fyrir þessu vandamáli, sem stjórnarandstæðingar fleipra um í þessum umr. af fyllsta ábyrgðarleysi. Lúðvík Jósefsson sagði hér áðan, að Bjarni Benediktsson vildi beina þátttöku í bandalaginu. Allar upplýsingar ráðh. um yfirlýsingar hans í þessu máli sem forsrh. 1961 og fyrr og síðar vitna gegn þessu. Þessi staðhæfing Lúðvíks Jósefssonar verður því talin vísvitandi ósannindi, ekki heldur gerð tilraun til þess að finna henni stað.

Hannibal Valdimarsson var flaumósa og fullyrti, eins og honum er svo gjarnt, að umsókn um aðild að Efnahagsbandalaginu þýddi, að umsækjandi verði skilyrðislaust að játast undir allar skuldbindingar Rómarsamningsins. Ég er alveg viss um, að jafnvel Þórarni og Eysteini og Hermanni líka hefur liðið illa að hlusta á þessa fávizku. Hannibal þekkir ekki enn ákvæði 338. gr. Rómarsamningsins, sem kveður á um aukaaðild, að ríki eða bandalög ríkja geti tengzt Efnahagsbandalaginu með undanþágum frá Rómarsamningnum, sérstæðum, gagnkvæmum réttindum og skyldum. Þetta hafa Grikkir gert. Austurríki, Svíþjóð og Sviss sóttu um slíka sérstöðu með aukaaðild þann 15. des. 1961. Fleiri þjóðir hafa sent svipaðar umsóknir, eins og Portúgal. Þetta verður að nægja til umhugsunar fyrir Hannibal eftir hinar fávíslegu fullyrðingar.

Hannibal sagði, að nú mundu þeir Alþb.-menn spretta upp eins og stálfjöður eftir framboðsmókið. Mál var til komið! Vafalaust sprettur Hannibal upp eins og fjöður mörgum sinnum í kosningabaráttunni nú eins og áður. — Honum er það ekki of gott.

Í einu er ég sammála stjórnarandstöðunni. Þjóðfélagsbyggingin hefur breytzt gífurlega síðari árin. Í stytztu máli er munurinn þessi: Við bjuggum við innflutningshöft og leyfafargan, gjaldeyrisskort og svartamarkað, styrki og uppbætur til atvinnuveganna, sem afla þurfti fjár til með sköttum á sömu atvinnuvegi og einnig almenning. Látið var í einn vasann það, sem tekið var úr hinum. Sú mynd, sem blasir við okkur í dag, eftir að viðreisnarstefnan hefur verið að verki í tæpt kjörtímabil, er í örstuttu máli þessi: Innflutningur hefur verið gefinn frjáls nærri með öllu, innflutningsnefndin lögð niður, en bankarnir annast framkvæmd innflutnings- og gjaldeyrismála. Byggðir hafa verið upp gildir gjaldeyrissjóðir í stað gjaldeyrisskorts. Svartamarkaður á gjaldeyri þekkist ekki, og sérhver hefur greiðan aðgang að erlendum gjaldeyri hjá bönkunum, ef brýna nauðsyn ber til. Atvinnulíf landsmanna er í meiri blóma en lengi hefur þekkzt, stofnlánasjóðir atvinnuveganna í mikilvægri eflingu, sparifjársöfnun landsmanna meiri en nokkru sinni áður og með henni lagður grundvöllur að vaxandi velmegun og öryggi í framtíðinni í auknum íbúðalánum, lánum til raforkuframkvæmda og hitaveituframkvæmda og annarrar uppbyggingar. Endurvakið er fjármálatraust þjóðarinnar út á við, og tekizt hefur í fyrsta sinn frá stríðslokum að ná greiðslujöfnuði við útlönd. Eitt af því, sem menn í dag komast þó ekki hjá að hafa áhyggjur af, er það, hvort við höfum nógu margar hendur til þess að vinna þau mörgu verk og framkvæmdir, sem alls staðar eru á prjónunum. Okkar fámennu þjóð skortir vinnuafl. Kjósendur eiga valið og valdið á kjördegi. Við sjálfstæðismenn leggjum aðgerðirnar öruggir undir dóm þjóðarinnar. –Góða nótt.