14.11.1962
Sameinað þing: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1804)

Efnahagsbandalagsmálið

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Áður en umr. þessar halda áfram og þeim er drepið meir á dreif, tel ég rétt að víkja að fáeinum atriðum, sem fram komu í ræðum málsvara stjórnarandstöðuflokkanna, þeirra hv. 5. þm. Reykn. (FRV) og hv. 1. þm. Austf. (EystJ), sem töluðu að lokinni skýrslu minni í fyrradag. En áður en ég geri það, tel ég rétt að vekja athygli á því og undirstrika það, að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi virðast vera á einu máli um, að eins og nú standa sakir beri Íslendingum að bíða átekta í efnahagsbandalagsmálinu. Þeir virðast allir vera á einu máli um, að enn sé þróun mála í Vestur-Evrópu ekki komin á það stig, að unnt sé fyrir Íslendinga að gera upp hug sinn í þessu máli, og að enn skorti ýmsar þær upplýsingar, sem til þess séu nauðsynlegar. Þess vegna sé ekki kominn tími til ákvarðana. Það er út af fyrir sig mikilvægt, að þessi samstaða skuli vera fyrir hendi, og rétt að vekja sérstaka athygli á henni.

Ríkisstj. telur þegar nægilega vitneskju vera fyrir hendi um, hverjar skuldbindingar fylgja fullri aðild, til þess að unnt sé að lýsa því yfir, að hún komi ekki til greina fyrir Íslendinga. Um þetta virðast stjórnarandstöðuflokkarnir báðir vera ríkisstj. sammála. Hins vegar telur ríkisstj., að ekki liggi fyrir nægilegar upplýsingar um, hvað falizt geti í aukaaðild eða hvaða árangri kynni að vera hægt að ná með tollasamningi, til þess að unnt sé að velja á milli þessara leiða. Formælendur stjórnarandstöðuflokkanna tveggja hafa lýst sig sammála ríkisstj. um, að nauðsynlegt sé að bíða átekta, til þess að málið skýrist, en það sé enn þá margt á huldu í þessum efnum. Engu að síður hika þeir ekki við að taka afstöðu gegn annarri þessara leiða, aukaaðildarleiðinni, og lýsa því báðir yfir, að þeir og þá væntanlega flokkar þeirra séu andvígir henni, en fylgjandi tollasamningi við Efnahagsbandalagið.

Ég hlýt að benda á, að það er mikil mótsögn í þeirri staðhæfingu, að nauðsynlegt sé að bíða átekta, vegna þess að þróunin eigi eftir að skýra málin, og svo hins vegar að fullyrða, að ekkert komi til greina fyrir Íslendinga í þessu máli nema tollasamningar við Efnahagsbandalagið. Ég verð að segja, að mér kom mjög á óvart, hversu lík afstaða stjórnarandstöðuflokkanna tveggja, Framsfl. og Alþb., var að þessu leyti. Það kom að vísu greinilega fram í ræðu 5. þm. Reykn., að hann er á móti Efnahagsbandalaginu í sjálfu sér. Hann telur það skaðleg samtök. Ekkert slíkt kom fram í ræðu hv. 1. þm. Austf. Hann sagði að vísu ekki heldur, að hann teldi stofnun Efnahagsbandalagsins merkilegan atburð í viðskiptamálum og stjórnmálum Vestur-Evrópu.

Ég skal endurtaka það, sem ég sagði í skýrslunni, að ég tel stofnun og væntanlega stækkun Efnahagsbandalagsins vera heimssögulegan atburð, sem allir þeir hljóti að fagna, er láta sér annt um velgengni Evrópu og alls hins vestræna heims. Það dregur ekkert úr þýðingu þessa atburðar fyrir þróun Evrópu, þótt stofnun Efnahagsbandalagsins hafi óhagstæð áhrif fyrir einhver ríki utan Efnahagsbandalagsins, svo sem eiga mundi sér stað varðandi Ísland. Í því sambandi er það aðalatriðið, hvort vilji er fyrir hendi hjá Efnahagsbandalaginu og aðildarríkjum þess að eyða þessum óhagstæðu áhrifum. Viðræður þær, sem áttu sér stað á s.l. sumri og ég greindi frá í skýrslu minni, benda einmitt eindregið til þess, að svo sé. En stofnun Efnahagsbandalagsins er heimssögulegur atburður, bæði vegna þess, að með honum er efnahagsþróun í Vestur-Evrópu beint inn á nýjar brautir, sem allt bendir til að eigi eftir að efla framfarir og bæta lífskjör í álfunni, og ekki síður vegna hins, að innan Efnahagsbandalagsins hefur tekizt náið samstarf og náin vinátta milli þeirra tveggja stórþjóða á meginlandi Evrópu, sem þrívegis hafa háð grimmilegar styrjaldir sín á milli á s.l. 100 árum. Hvernig er hægt annað en telja það gleðitíðindi, er fornir fjendur hefja nána samvinnu? Hvernig er annað hægt en telja það til framfara, þegar tollar eru lækkaðir og viðskiptahöft afnumin, þannig að verkaskipting milli þjóða vex, framleiðsla eykst og lífskjör batna?

Ég geri þó fastlega ráð fyrir, að á milli Alþb. og Framsfl. sé grundvallarskoðanamunur á Efnahagsbandalaginu sjálfu, tilgangi þess og þýðingu. Mér kemur ekki á óvart, þótt Alþb. telji Efnahagsbandalagið skaðleg samtök. Það er í samræmi við grundvallarsjónarmið þess í utanríkismálum. Það er því ekki við öðru að búast en Alþb. óski þess, að Ísland hafi sem allra minnst saman við Efnahagsbandalagið að sælda. Ég vil hins vegar mega gera ráð fyrir hinu, að Framsfl. sé markmið og þýðing Efnahagsbandalagsins fullljóst og þá ekki síður þýðing þess, að Ísland rofni ekki úr tengslum við þá mikilvægu þróun í efnahagsmálum og þá samvinnu vestrænna ríkja, sem þarna er á ferðinni. En einmitt þess vegna kemur mér mjög á óvart, að afstaða Framsfl. í málinu sé jafnneikvæð og afstaða Alþb. Ég kalla það neikvæða afstöðu, þegar formaður þingflokks Framsfl. lýsir því hér yfir á hinu háa Alþingi, að flokkur hans sé og hafi verið algerlega andvígur öllum könnunarviðræðum íslenzkra stjórnarvalda við aðildarríki Efnahagsbandalagsins og framkvæmdastjórn þess, og þó einkum, er hann lýsir því yfir, að það eitt komi til greina, að Íslendingar leysi vanda sinn með tollasamningi við Efnahagsbandalagið, þ.e. að aukaaðild að Efnahagsbandalaginu sé útilokuð, þótt enginn geti nú vitað, á hvers konar aukaaðildarsamningi Íslendingar gætu átt kost né heldur til hvers konar tollasamnings Efnahagsbandalagið kann að vera reiðubúið.

Ríkisstj. hefur sagt það eitt, að hún telji Íslendinga ekki geta tekið á sig þær kvaðir, sem hún hefur fengið upplýsingar um að hljóti að fylgja fullri aðild. Öðrum leiðum vill ríkisstj. halda opnum. Alþb. vill ekkert samband við Efnahagsbandalagið, af því að það er á móti því, eðli þess og tilgangi. Framsfl. vill ekki heldur aðild að Efnahagsbandalaginu, hvorki fulla aðild né aukaaðild, eflaust ekki vegna þess, að hann sé á móti Efnahagsbandalaginu eins og Alþb., heldur vegna hins, að Framsfl. slær því föstu, að aukaaðild muni fylgja skuldbindingar, sem enginn veit, hvort þurfa að fylgja slíkri aðild, og hann mælir með tollasamningi, án þess að geta vitað nokkuð um, hvort slíkur samningur gæti veitt Íslandi þau réttindi, sem því er brýn nauðsyn að öðlast. Ég harma það mjög, að Framsfl. skuli taka svo órökstudda afstöðu, — afstöðu, sem er í rauninni í algerri mótsögn við þá meginskoðun Framsfl. í málinu, að nauðsynlegt sé að bíða átekta vegna þess, hversu mörg atriði þess séu enn óljós.

Í ræðu hv. 5. þm. Reykn. er eitt atriði, sem ég tel nauðsynlegt að svara þegar í stað. Hann spurði, hver þau atriði væru, sem komið hefðu fram í viðræðum okkar fulltrúa ríkisstj. við ráðh. og embættismenn sexveldanna og framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins og ég teldi hafa þýðingu fyrir mat okkar á þeim leiðum, sem til greina koma. Hann kvað mig ekki hafa skýrt frá þessum atriðum og spurði, hvort þau væru leyndarmál. Hann sagði og, að í skýrslunni hefði ég í raun og veru ekki sagt meira en ég hefði skýrt frá í fréttaauka ríkisútvarpsins í sumar. Hér er um mikinn misskilning af hálfu hv. þm. að ræða. Í fréttaauka ríkisútvarpsins í sumar gerði ég enga tilraun til þess að ræða þær þrjár leiðir, sem til greina koma fyrir Íslendinga eins og aðrar þjóðir varðandi tengsl við Efnahagsbandalagið. Í skýrslu ríkisstj., sem ég flutti í fyrradag, eru þessar leiðir hins vegar ræddar allýtarlega. Það, sem þar er sagt um leiðirnar, er að sjálfsögðu byggt á þeim upplýsingum, sem fengust í viðræðunum. Það, sem ég sagði í skýrslunni, að telja mætti víst, að fullnægjandi undanþágur fengjust ekki fyrir Íslendinga samfara fullri aðild, var að sjálfsögðu byggt á upplýsingum, sem fengust í viðræðunum. Án viðræðnanna hefði því ríkisstj. ekki getað lýst því yfir sem endanlegri skoðun sinni, að hún teldi fulla aðild ekki koma til greina. Þegar ég staðhæfði, að undanþágur, er tækju tillit til þeirrar sérstöðu Íslands, sem ég lýsti, kæmu til greina samfara aukaaðild, var það að sjálfsögðu einnig byggt á upplýsingum, sem fengust í viðræðunum. Um hitt gat ég að sjálfsögðu ekki og get ekki fullyrt, hvort full réttindi, þ.e. fullkomið tollfrelsi og alger undanþága frá viðskiptahöftum muni fást, ef skyldur okkar yrðu mjög takmarkaðar. En undanþágur, sem samrýmast ekki fullri aðild, geta samrýmzt aukaaðild, og þessar undanþágur geta verið varanlegar, en þurfa ekki að vera takmarkaðar við ákveðið tímabil. Þetta vitum við nú, en hefðum ekki vitað án viðræðnanna. Þá vitum við og, að aukaaðildarsamningur getur ýmist verið á grundvelli tollabandalags eða fríverzlunarsvæðis, a.m.k. að einhverju leyti. Um hitt vitum við hins vegar ekki, hvaða áhrif hvort um sig hefði á skyldur þær, sem ákveðnar yrðu í aukaaðildarsamningi. Viðræðurnar leiddu einnig í ljós ýmsa vitneskju um mögulega tilhögun tollasamnings. Á grundvelli þeirra má nú telja, að nokkru meiri árangur gæti hugsanlega náðst á grundvelli slíks samnings en áður var ástæða til að ætla. Yfirleitt má segja, að vegna viðræðnanna sé nú ljósara en áður, hvaða leiðir komi til greina til lausnar vandamálum Íslendinga og hvað þessar leiðir feli í sér í stórum dráttum. Um það er hins vegar ekki vitað, hversu mikil réttindi og hversu miklar skyldur hver leið felur í sér. Um þetta var ekki rætt, enda var tilgangur viðræðnanna alls ekki að hefja neins konar samninga, heldur aðeins að skýra málstað okkar og kynnast sjónarmiðum gagnaðilans.

Ég skal víkja nokkru nánar að tollasamningsleiðinni, einkum vegna þess, sem fram kom af hálfu hv. 5. þm. Reykn., að ég hafi áður talið þessa leið alls ófæra. Hér er um mikinn misskilning að ræða. Ég hef áður, t.d. á fundi Frjálsrar menningar um efnahagsbandalagsmálið, sem vitnað var til, lagt áherzlu á að leiðrétta þann mikla misskilning, sem komið hefur fram opinberlega hér á landi, að Íslendingar gætu átt kost á sérstökum tollasamningi við Efnahagsbandalagið, sem aðrar þjóðir en þær, sem í því eru, nytu ekki góðs af. Slíkur samningur er útilokaður, eins og ég, veit að öllum hv. þm. muni nú vera ljóst. Allir samningar við Efnahagsbandalagið um tollalækkanir verða að vera á grundvelli alþjóðasamkomulagsins um tolla og viðskipti, og allar þjóðir, sem að því samkomulagi standa eða hafa beztu kjaraákvæði í viðskiptasamningum sínum við aðildarríki Efnahagsbandalagsins, hljóta að verða sömu lækkana aðnjótandi. Það hefur hins vegar alltaf verið ljóst, að tollasamninga á grundvelli alþjóðatollamálasamkomulagsins var hægt að gera. Um það hefur aftur á móti verið ríkjandi mikil óvissa og er að sjálfsögðu enn, hversu miklu væri hægt að fá framgengt með slíkum samningi. Eins og tekið var fram í skýrslunni, eiga vonir þær, sem bundnar geta verið við hugsanlegan árangur af slíkum samningi, fyrst og fremst rót sína að rekja til þess, að verði aðrar fiskveiðiþjóðir Evrópu gengnar í bandalagið, þá muni ekki aðrar þjóðir í reynd njóta góðs af samningnum fyrst um sinn. En ástæða er til þess að leggja áherzlu á orðin „fyrst um sinn”. Þær skoðanir eru nefnilega uppi í Vestur-Evrópu, að áður en langt um líður geti fiskveiðum Evrópu stafað mikil hætta af sjávarútvegi landa í Afríku og Suður-Ameríku, sem undanfarið hafa aukið fiskveiðar sínar gífurlega, auk þess sem hætta sé á samkeppni frá Japan og Kanada. Búast má við, að það hafi veruleg áhrif á skilyrði okkar til árangurs í tollasamningum, hvernig þessi atriði verða metin. Og það stendur óhaggað, sem ég sagði í skýrslunni, að sameiginlegur tollur Efnahagsbandalagsins verði mjög hár og jafnvel mikil lækkun hans mun skilja eftir allháan verndartollamúr fyrir fiskveiðar og fiskiðnað Efnahagsbandalagslandanna. Auk þess eru svo möguleikar okkar á að koma fram lækkun á sameiginlega tollinum eingöngu bundnir við sjávarafurðir.

Í tilefni af ummælum, sem féllu í fyrradag um störf ráðunauta ríkisstj. í þessu máli, tel ég rétt að taka eftirfarandi fram: Ríkisstj. hefur frá upphafi verið mjög annt um, að engin tækifæri gengu Íslendingum úr greipum í sambandi við þróun þessa máls, en á því gat verið hætta vegna þess, hve þróunin var ör og tók snöggum breytingum. Þeir ráðunautar ríkisstj., sem höfðu það hlutverk með höndum að fylgjast með gangi málsins, hafa í þessu sambandi alltaf lagt mikla áherzlu á þýðingu viðræðna við Efnahagsbandalagsríkin og framkvæmdastjórn þess. Á hinn bóginn hafa þeir aldrei lagt til, að Ísland sækti um aðild eða aukaaðild að bandalaginu né yfirleitt mælt með nokkurri sérstakri lausn málsins.

Ég endurtek að síðustu, að ég tel mikilvægt, að það skuli þegar hafa komið fram í þessum umr., að allir flokkar Alþingis séu sammála um, að Íslendingum sé rétt að bíða átekta í máli þessu og að ekki sé enn tímabært að taka í því ákvarðanir. Ríkisstj. mun halda áfram að fylgjast sem bezt með öllu, sem gerist í þessum efnum. Hún mun skýra Alþingi frá því, sem hún telur vera sérlega mikilvægt. Það verður síðan að sjálfsögðu Alþingis að taka endanlega ákvörðun og marka stefnu Íslendinga í þessu stórmáli.