21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1809)

Efnahagsbandalagsmálið

Menntmrh. (Gylfi D. Gíslason):

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að ræða málið almennt, enda hefur hæstv. forsrh. þegar svarað öllum almennum atriðum í þeim ræðum, sem fluttar voru s.l. miðvikudag af hálfu hv. stjórnarandstæðinga og get ég látið mér nægja að vísa til orða hans um það efni. En ég stend upp til þess að svara efnisathugasemdum, sem fram komu hjá hv. 4. þm. Austf. (LJÓs), við skýrslu mína s.l. miðvikudag. Ég tel, að þær efnisaths., sem hann flutti í ræðu sinni, séu að vísu nær allar á misskilningi byggðar, eins og ég mun koma að stuttlega hér á eftir, en ein aths. hans var þó réttmæt, og tel ég jafnsjálfsagt að viðurkenna það, sem rétt kemur fram af hálfu hv. stjórnarandstæðinga í þessu máli sem öðrum, eins og benda á hitt, sem ég tel á misskilningi byggt í ræðum þeirra.

Það atriði í ræðu hv. 4. þm. Austf., sem var réttmæt aths., var það, að í þeim tölum, sem ég skýrði frá um útflutning Íslendinga til Efnahagsbandalagssvæðisins, var meðtalinn útflutningur Íslands til Nígeríu. Hv. þm. sagði, að það væri rangt að telja allan okkar útflutning til Bretlands raunverulega fluttan til Bretlands, þar eð viss hluti þess, sem ú skýrslunum væri talið flutt til Bretlands, færi raunverulega til Nígeríu. Nú var mér auðvitað þessi staðreynd ljós, að hluti þess, sem fer til Bretlands, er endurútfluttur til Nígeríu. En ástæðan til þess að Nígeríuútflutningurinn var samt sem áður talinn útflutningur til Efnahagsbandalagssvæðisins, var hins vegar sú, að Bretar höfðu á sínum tíma sótt um aukaaðild fyrir Nígeríu að Efnahagsbandalaginu. En eins og greinilega kom fram í skýrslu minni, voru tölurnar um þetta efni þannig fundnar, að til væntanlegs Efnahagsbandalagssvæðis voru talin öll þau lönd, sem höfðu sótt um fulla aðild eða aukaaðild að Efnahagsbandalaginu. Og þegar Íslendingar eru að gera sér grein fyrir þýðingu hins stækkaða Efnahagsbandalags, vona ég, að menn geti verið sammála um, að önnur vinnubrögð er í sjálfu sér ekki hægt að viðhafa, enda má telja langlíklegast að þau lönd, sem haft sótt um fulla aðild og aukaaðild, tengist Efnahagsbandalaginu með svo sterkum hætti, tengist því svo náið, að óhætt sé að telja þau til hins stækkaða Efnahagsbandalagssvæðis. Útflutningur til Nígeríu var sem sagt talinn með í útflutningstölum Íslands til stækkaðs Efnahagsbandalagssvæðis. Mér var hins vegar fyrir hálfum mánuði, þegar ég flutti skýrslu mína, ekki kunnugt um, að Nígeríustjórn hefur nýlega afturkallað umsókn sína um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu. Þess vegna, eins og ástandið er nú, liggur ekki fyrir umsókn Nígeríu um aukaaðild að Efnahagsbandalaginu og því ekki rétt að telja útflutninginn til Nígeríu til útflutnings Íslands til væntanlegs Efnahagsbandalagssvæðis. Hefur þetta þau áhrif á niðurstöðu útreikninganna, að sú tala, sem ég nefndi um útflutning Íslands til væntanlegs Efnahagsbandalagssvæðis og taldi vera 61% af útflutningnum 1961, á að breytast í 56%, útflutningurinn til Nígeríu er það mikill.

Aðrar upplýsingar hef ég og fengið, síðan ég flutti skýrslu mína, sem að vísu eru mjög smávægilegar, en ég tel þó rétt að komi hér fram. Ég hafði í henni. gert ráð fyrir því og var þar byggt á opinberum skýrslum, að sameiginlegur tollur Efnahagsbandalagsins á saltsíld yrði 12%. Nýlega hef ég hins vegar fengið upplýsingar um, að þetta gildi ekki um alla saltsíld, tollur á kryddsíld verði 23%. Þessi hækkun á væntanlegum saltsíldartolli veldur því, að útreikningarnir, sem ég gat um í skýrslu minni á tollgreiðslum Íslendinga af útflutningi sínum til væntanlegs Efnahagsbandalagssvæðis, eru réttir, talan lækkar að vísu vegna þess, að ekki er rétt að telja útflutninginn til Nígeríu með, en hækkar hins vegar vegna þess, að væntanlegur kryddsíldartollur verður 23%, en ekki 12%, og er hækkunin og lækkunin nokkurn veginn sama milljónatalan. Sú tala er því rétt, sem í skýrslunni greindi, að sameiginlegi tollurinn í Efnahagsbandalaginu mun jafngilda um 180 millj. kr. útgjöldum fyrir Íslendinga, miðað við, að þau ríki, sem sótt hafa um fulla aðild og aukaaðild, verði fullgildir eða aukaaðilar að Efnahagsbandalaginu, og miðað við það, að tollurinn sé kominn til fullra framkvæmda, en það verður í síðasta lagi árið 1970.

Þetta var um þá aths. hv. 4. þm. Austf., sem a.m.k. að verulegu leyti var réttmæt. Þá taldi hv. þm., að ekki hefði verið rétt hjá mér að nefna tölu um árið 1961, vegna þess að útflutningur það ár hafi verið óvenjulega mikill til Vestur-Evrópu. En sannleikurinn er sá, að miklar sveiflur hafa verið á útflutningi til Vestur-Evrópu undanfarin ár. Fyrir síðustu styrjöld, eða árin 1936–38, fluttu Íslendingar hvorki meira né minna en 85% af heildarútflutningi sínum til Vestur-Evrópulanda. Á árunum 1950–1952 var þessi tala 62%. Á næstu árum þar á eftir fór hún hins vegar mjög lækkandi vegna löndunarbannsins í Bretlandi, aukinna viðskipta við Austur-Evrópu og aukins skreiðarútflutnings. Hún hefur hins vegar aftur farið vaxandi á árunum 1960 og 1961.

En mergur málsins er þó, að það skiptir í raun og veru ekki máli, hver hlutdeild væntanlegs Efnahagsbandalagssvæðis hefur verið í útflutningi Íslands á einhverjum liðnum tíma. Það, sem máli skiptir, er, hver þessi útflutningur væntanlega hefði orðið í framtíðinni, ef Íslendingar sættu ekki sérstökum viðskiptatálmunum á þessu svæði. Eins og markaðshorfur eru nú í heiminum yfirleitt og þó alveg sérstaklega í Vestur-Evrópu, þá má gera ráð fyrir, að þessi hlutdeild hefði frekar farið vaxandi heldur en minnkandi, ef ekki hefði komið til stofnunar Efnahagsbandalagsins, ekki sízt með tilliti til mjög aukins markaðs fyrir freðfisk í Vestur-Evrópu og sömuleiðis aukins útflutnings síldar þangað. Það er af þessum ástæðum fyrst og fremst, sem hefur þótt réttara að miða fyrst og fremst við árið 1961, en ekki árin þar á undan, af því að búast má við, að sú aukning, sem fram kom í útflutningi til Vestur-Evrópu á árinu 1961, haldi áfram og meira að segja í vaxandi mæli. Á þessu ári, 1962, hefur útflutningur til Vestur-Evrópulanda að vísu lækkað hlutfallslega samanborið við árið 1961. En hins vegar hefur útflutningurinn í heild farið vaxandi.

Þá lagði hv. 4. þm. Austf. áherzlu á það í ræðu sinni, að þeir útreikningar, sem ég skýrði frá á væntanlegri tollbyrði á útflutningi til Efnahagsbandalagssvæðisins, væru rangir eða villandi a.m.k., vegna þess að í þeim væri gert ráð fyrir því, að íslenzkir útflytjendur yrðu að bera hinn hækkaða toll. Ég tel þessa aths. hv. þm. vera á misskilningi byggða. Í fyrsta lagi er þess að geta, að í útreikningunum eða skýringum við þá hefur ekkert verið um það sagt, hver endanlega muni bera væntanlega tollahækkun. Þessir útreikningar sýna og eiga að sýna það eitt, hversu miklu verr íslenzkir útflytjendur mundu standa að vígi, ef þeir stæðu utan bandalagsins, heldur en keppinautar þeirra innan bandalagsins. Þetta eitt eiga þessir útreikningar að sýna, og tölurnar eru tvímælalaust réttar til að sýna slíkt. Íslendingar munu verða að greiða tollinn, ef þeir standa utan bandalagsins, framleiðendur innan bandalagsins munu ekki þurfa að greiða hann, fyrst þeir eru innan bandalagsins, og tollurinn nemur þeirri upphæð, sem ég gat um, um 180 millj. kr. Hins vegar má vel vera, að tollarnir leiði til þess, að fiskverð í Evrópu hækki. Þá munu innflytjendur inn á bandalagssvæðið ekki þurfa að greiða hina hækkuðu tolla, heldur verða það þá neitendur á bandalagssvæðinu, sem þá greiða. Ef Íslendingar á hinn bóginn væru innan bandalagsins, gætu þeir notið góðs af hinu hækkaða fiskverði, en það geta þeir auðvitað ekki, ef þeir standa utan bandalagsins. Á hinn bóginn verður að hafa í huga, að enda þótt svo færi, að tjón íslenzkra útflytjenda fyrst í stað yrði dulið af hækkandi fiskverði á Efnahagsbandalagssvæðinu eða úr því yrði dregið með svonefndum tollbótum, þá ber að leggja sérstaka áherzlu á, að það er ekki ástæða til að ætla, að þetta yrði svo til langframa. Hið hækkaða verð á fiski á Efnahagsbandalagssvæðinu mundi auðvitað leiða til aukinna fiskveiða bandalagsþjóðanna sjálfra og til aukins fiskiðnaðar í bandalaginu, en það mundi sennilega aftur leiða til þess, að bandalagið yrði meira og minna sjálfu sér nógt um framleiðslu sjávarafurða. Tollkvótar mundu þá eflaust verða afnumdir og fiskverð fara lækkandi á nýjan leik. Þá mundi allur þunginn af hinum hækkaða tolli smátt og smátt færast yfir á innflytjendur utan svæðisins. Það var einmitt þetta atriði, sem dr. Benjamín Eiríksson benti á í þeirri ræðu, sem hv. þm. vitnaði til og dr. Benjamín hélt á fundi Frjálsrar menningar, en þar segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Á hinn bóginn er þó að gá að því, að þegar vitað er, að fiskverðið hækkar í Evrópu, mundu auðvitað skapast betri skilyrði fyrir fiskveiðar Evrópuþjóðanna sjálfra.“ Tilvitnun, sem hv. þm. las í ræðu dr. Benjamíns, var því ekki öll, eins og hann las hana.

Það, sem hv. 4. þm. Austf. sagði um væntanleg tengsl Svíþjóðar við Efnahagsbandalagið, er byggt á algerum misskilningi. Svíar hafa sótt um aukaaðild að bandalaginu og tekið fram, að þeir muni taka á sig allar efnahagslegar skuldbindingar, sem aðild að bandalaginu fylgir, þ. á m. að samræma sína tolla hinum sameiginlega tolli bandalagsins. Þetta kom mjög skýrt fram í ræðu sænska viðskmrh., Gunnars Lange, í Brüssel 28. júlí s.l., er hann fylgdi umsókn Svíþjóðar um aukaaðild úr hlaði. Eina þýðingarmikla undantekningin, sem Svíar munu fara fram á og hafa tekið fram að þeir muni fara fram á í sambandi við aukaaðild sína, er rétturinn til þess að gera viðskiptasamninga við lönd utan bandalagsins. En þeir viðskiptasamningar, sem þeir fyrst og fremst hafa í huga, eru ekki samningar um tolla eða innflutningshöft, heldur eingöngu um kaup á vörum frá löndum, sem reka viðskipti á jafnkeypisgrundvelli. Það, sem Svíar fyrst og fremst hafa í huga, eru hin miklu olíukaup þeirra frá Sovétríkjunum. Það er því engum blöðum um það að fletta, að takist samningar Svía um aukaaðild, verða íslenzkir síldarútflytjendur að sæta sameiginlega tollinum á síld í Svíþjóð. (Forseti: Má ég víkja því að hæstv. ráðh., að venjulegur fundartími er liðinn.) Má ég ljúka ræðunni, hún tekur 5–10 mínútur?

Síðan ég flutti skýrslu mína, hefur nú samstarfsnefnd hagsmunasamtaka sjávarútvegsins og embættismanna, sem ég gat um í skýrslu minni og fjallar um sjávarútvegsmál, skilað áliti sínu um aðstöðu sjávarútvegsins, ef Ísland standi utan bandalagsins. Ég tel rétt að lesa hér — með leyfi hæstv. forseta — nokkrar setningar úr þessari skýrslu um þessar niðurstöður n., því að þær leiða í ljós nákvæmlega sams konar niðurstöður og komizt var að í skýrslunni varðandi aðstöðu sjávarútvegsins, ef Íslendingar standa utan bandalagsins. Um aðstöðu saltfisksframleiðenda er niðurstaða n. þessi:

„Í heild yrði að gera ráð fyrir stórminnkuðum útflutningi saltfisks til markaðslandanna í Evrópu, ef þau ganga í Efnahagsbandalagið, og setja að fullu hinn sameiginlega toll á saltfisk gagnvart Íslandi. Auknar sölur saltfisks til landanna í Suður- og Mið-Ameríku munu engan veginn geta vegið á móti því markaðstapi. Um markaði í öðrum hlutum heims fyrir þessa framleiðslu er ekki að ræða, svo að nokkru nemi.“

Um ísfiskinn segja nm. eftirfarandi: „Útflutningur okkar, sem verið hefur íslenzkri útgerð hagstæður, þegar á heildina er litið, biði alvarlegan hnekki, stæði Ísland utan Efnahagsbandalagsins og nyti engra viðskiptalegra tilhliðrana, þegar hinn sameiginlegi tollur hefur verið settur. Útflutningur íslenzks bátafisks mundi sennilega detta úr sögunni.“

Um freðfiskinn segir n. svo:

„Þegar litið er á hið væntanlega Efnahagsbandalagssvæði sem heild, verður niðurstaðan sú, að freðfisksútflutningur þangað mætir miklum erfiðleikum, ef við þurfum að klífa 18% tollmúr í þessum löndum öllum. Ósennilegt er, að hægt verði að velta stórum hluta tollsins á neytendur. En tollurinn yrði raunar það tap, sem íslenzka framleiðslan biði miðað við keppinauta innan bandalagsins. Íslendingar yrðu sennilega að lækka verð sitt sem næmi mestum hluta tollsins til að halda þessum viðskiptum.“

Um saltsíldina segir svo:

„Svo virðist sem Svíþjóð, sem er elzti og tryggasti markaður íslenzkrar saltsíldar, muni að óbreyttum viðskiptaháttum halda áfram að vera kaupandi mikils magns þessarar framleiðslu. Ef Svíþjóð verður innan Efnahagsbandalagsins, en Ísland utan þess, hlýtur samkeppnisaðstaða Íslands að þessum markaði að stórversna og markaðurinn því að vera í hættu.“

Enn fremur segir síðar um saltsíldina í skýrslunni:

„Það er markaðurinn í Svíþjóð og væntanlegur markaður í Vestur-Þýzkalandi, sem fyrst og fremst komast í hættu, standi Ísland utan Efnahagsbandalagsins. Í Svíþjóð eru engir tollar á saltsíld nú, en verða 12 og 23% innan bandalagsins: Gera má ráð fyrir, að það verði til þess, að Norðmenn, Færeyingar og Svíar sjálfir taki að nýta markaðinn í vaxandi mæli, stöndum við utan bandalagsins. Vænta má, að ekki verði þá heldur unnt að byggja upp þann markað saltsíldar í Vestur-Þýzkalandi, sem íslenzkir útflytjendur tengja nú vonir við, ekki sízt í sambandi við nýjar verkunaraðferðir. Annars staðar í Vestur- og Suður-Evrópu er nú ekki um að ræða teljandi markaði fyrir íslenzka saltsíld, en þeir möguleikar til aukningar sölu, sem eru til í þessum löndum, mundu vera úr sögunni, stæði Ísland utan bandalagsins. Ólíklegt er, að hægt sé að auka sölu saltsíldar á öðrum mörkuðum um það magn, sem nú fer til Vestur-Evrópu eða væntanlega gæti farið þangað.“

Um frysta síld segir eftirfarandi:

,Að núverandi aðstæðum óbreyttum, telur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna mikinn markað vera fyrir freðfisk í Vestur-Þýzkalandi. Ef hins vegar viðskiptaaðstaða Íslendinga breyttist frá því að greiða engan toll og þeir yrðu að greiða að fullu hinn fyrirhugaða sameiginlega toll á síld, 20%, en keppinautarnir, svo sem Svíar, ekki, verður að telja ósennilegt, að þessi viðskipti gætu haldið áfram.“

Um ísaða síld segir svo:

„Að óbreyttum tollinum gætu einungis tollkvótar eða veruleg lækkun hráefnis til bátanna- tryggt áframhaldandi útflutning ísaðrar síldar til Þýzkalands.“

Um fiski- og síldarmjöl segir svo:

„Ekki er ósennilegt, að verulegur hluti tollunarinnar yrði okkur beint tap.“

Um niðursoðnar sjávarafurðir segir skýrslan að lokum:

„Á niðursoðnum sjávarafurðum eru tollar Efnahagsbandalagsins frá 20-30%. Verður ekki séð, að Ísland mundi geta komið á fót slíkri útflutningsframleiðslu fyrir Vestur-Evrópumarkað, ef það stæði utan stækkaðs Efnahagsbandalags.“

Þetta er niðurstaða fulltrúa hagsmunasamtaka sjávarútvegsins og íslenzkra embættismanna, — sameiginleg niðurstaða þeirra, — og er ljóst af því, sem ég hef vitnað til, að það er ekki kveðið lausara að orði en gert var í skýrslu ríkisstj., sem ég flutti fyrir hálfum mánuði.

Þá hélt hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, því fram í ræðu sinni, að Íslandi sé mjög mikil nauðsyn á að halda viðskiptum sínum við Austur-Evrópu vegna þess, að þangað séu seldar vörur, sem erfitt sé að selja annars staðar, þar sem aftur á móti auðseljanlegri vörur séu seldar til Vestur-Evrópu. Hér er enn um mikinn misskilning hjá hv. þm. að ræða. Í fyrsta lagi má á það benda, að það er ekki rétt, þegar hv. þm. telur, að augu ríkisstj. og sérfræðinga hennar hafi ekki verið opin fyrir nauðsyn þess að viðhalda mörkuðum Íslendinga í Austur-Evrópu. Þvert á móti, í öllu, sem hefur verið skrifað og sagt um þetta mál af hálfu ríkisstj. og embættismanna hennar og nú síðast margendurtekið í skýrslu minni, hefur það komið glögglega fram, hve mikil nauðsyn er á því talin, að Ísland fái undanþágur til þess að geta haldið áfram viðskiptum sínum við Austur-Evrópu. Hefur þá fyrst og fremst verið gert ráð fyrir því, að undanþágur fáist til þess að halda innflutningshöftum á þeim vörum, sem miklu máli skipta í viðskiptum við Austur-Evrópulöndin, og enn fremur, að leyfi fengist til þess að hafa tollkvóta á sumum þessara vara eða jafnvel hugsanlega, að ef Ísland gerðist aukaaðili, að aukaaðildin yrði á grundvelli fríverzlunarsvæðis, svo sem ég gat um í skýrslunni.

Á hinn bóginn er það á misskilningi byggt hjá hv. þm., að þær vörur, sem erfitt sé að selja, fari yfirleitt til Austur-Evrópu frekar. en til annarra hluta heims. Telja má, að þær vörur, sem Íslendingar eiga sérstaklega erfitt með að selja og miklu máli skipta í utanríkisviðskiptum þeirra, séu nú orðið fyrst og fremst tvenns konar: söltuð síld og fryst síld. Aftur á móti er ekki hægt að telja, að erfitt sé að selja freðfisk, a.m.k. ekki nema framleiðsla karfa aukist mikið á nýjan leik. Saltsíldin og freðsíldin er aftur á móti ekki fyrst og fremst seld til Austur-Evrópu, enda þótt þar séu þýðingarmiklir markaðir fyrir þessar vörur. Á árinu 1961, í fyrra, voru 37% af saltsíldinni seld til Austur-Evrópu, en 64% af freðsíldinni og 42% af verðmæti beggja afurðanna samanlögðu. Hinn hlutinn, 58%, var að mestu leyti seldur til Vestur-Evrópu eða til landa, sem væntanleg tengsl okkar við Efnahagsbandalagið mundu engin áhrif hafa á, eins og t.d. Finnlands. Varðandi freðsíldina sérstaklega má nefna það, að nú á þessu ári hafa verið gerðir samningar um sölu freðsíldar á haust- og vetrarvertíð, sem nemur samtals 132 millj. kr. Af þessari upphæð eru 72 millj. eða meir en helmingurinn sölur til Vestur-Evrópu, en afgangurinn til Austur-Evrópu. Sannleikurinn er sá, að sala á þessum erfiðu afurðum okkar, saltsíld og freðsíld, mundi verða mjög erfið, ef við stæðum utan Efnahagsbandalagsins og yrðum að greiða hinn háa sameiginlega toll af síldarafurðum. Hitt er aftur á móti öldungis rétt hjá hv. þm., að síldarmarkaðir okkar í Austur-Evrópu eru okkur mjög þýðingarmiklir. Einmitt þess vegna verðum við að leggja áherzlu á að tengjast Efnahagsbandalaginu á þann hátt, að við getum verndað markaðina í Austur-Evrópu.

Markaðurinn fyrir síldarafurðir í Vestur-Evrópu er þó raunar enn þýðingarmeiri en þær tölur benda til, sem ég nefndi áðan, vegna þess að það er einmitt í Vestur-Evrópu, sem búast má við vaxandi sölu síldarafurða. Miklar tilraunir er nú verið að gera til þess að selja síld á þessa markaði, að nokkru leyti verkaða með nýjum hætti. Verulegur árangur hefur þegar orðið af þessum tilraunum, og má vænta frekari árangurs, þegar fram í sækir. Aftur á móti virðast ekki vera miklir möguleikar til aukningar á síldarsölu til Austur-Evrópu, því miður. Kemur þar hvort tveggja til, að neyzla saltsíldar virðist ekki fara vaxandi í þessum löndum og að þau sjálf auka sí og æ síldveiðar sínar, einkum Sovétríkin og Pólland. Við þetta bætast svo þeir erfiðleikar, sem eru á því að finna vörur, sem okkur henta til innflutnings frá Austur-Evrópu, svo sem áður hefur verið margrætt.

Þá er og rétt að undirstrika, að alls ekki virðist ósennilegt, að stofnun og væntanleg stækkun Efnahagsbandalags Evrópu muni, þegar fram líða stundir, verða til þess að auka viðskipti milli Vestur- og Austur-Evrópu. Það er markmið Efnahagsbandalagsins, þegar fram í sækir, að stuðla að sem mestum og sem frjálsustum alþjóðaviðskiptum. Miklir erfiðleikar hafa verið á viðskiptum milli Vestur- og Austur-Evrópu, og hefur þeim vandamálum, sem þar eru á ferðinni, verið lítið sinnt fram að þessu, ekki sízt vegna þeirra miklu breytinga á viðskiptaháttum, sem átt hafa sér stað í Vestur-Evrópu. En ekki virðist ósennilegt, að þegar þessar breytingar eru um garð gengnar og Efnahagsbandalagið stendur traustum fótum og nær til allrar Vestur-Evrópu eða langmests hluta hennar, þá verði gert átak til þess að efla á ný viðskipti á milli Austur- og Vestur-Evrópu. Ætti það að vera báðum hlutum álfunnar til mikilla hagsbóta og unnt að finna leiðir til þess að auka þessi viðskipti, ef stjórnmálaástandið í heiminum leyfir. Fáar þjóðir Vestur-Evrópu hafa eins mikilla hagsmuna að gæta í viðskiptum við Austur-Evrópu og einmitt við Íslendingar. Gæti vel svo farið, að við hefðum mikið gagn af slíkum samningum um viðskipti milli Vestur- og Austur-Evrópu, þegar fram í sækti, ef þeir samningar gætu skapað grundvöll fyrir viðskiptum á öðrum grundvelli en jafnkeypisgrundvelli. En jafnkeypisviðskipti eru Íslendingum af margvíslegum ástæðum sérstaklega óhagkvæm.

Það er þess vegna misskilningur að telja tengsl við Efnahagsbandalagið þurfa að þýða það, að Ísland velji á milli viðskipta við Vestur- eða Austur-Evrópu, eins og oft sést í blöðum og hefur raunar verið haldið fram hér af tveimur hv. þm. Það gæti vel svo farið, að tengsl við bandalagið yrðu upphafið að auknum viðskiptum við Austur-Evrópu á heilbrigðari grundvelli en við höfum haft fram að þessu.

Þá sagði hv. 4. þm. Austf., að freðfisksmarkaðir Íslendinga á væntanlegu Efnahagsbandalagssvæði skiptu tiltölulega litlu máli. Freðfisksútflutningur þangað hefur þó verið í meiri vexti en til nokkurs annars markaðssvæðis Íslendinga undanfarin ár. Hlutdeild Vestur-Evrópu í heildarútflutningi freðfisks óx úr 5% árið 1959 í 13% 1960 og náði 27% á árinu 1961. Auðvitað kann að vera, að einhverjar sveiflur verði í þessari þróun. En kæmu engar tollabreytingar eða annar aðstöðumunur gagnvart Íslendingum til greina, er ótvírætt, að þessi þróun mundi halda áfram. Skilyrði til dreifingarkerfis eru nú óðum að skapast í Vestur-Evrópu, og með söluátaki gætu Íslendingar án efa tryggt neytendaeftirspurn, sem tryggði sölu, sem væri ekki háð duttlungum stjórnarvalda. Meðan þessi þróun er að eiga sér stað a.m.k., er okkur auðvitað hagkvæmt að eiga víða markaði í Vestur-Þýzkalandi og Bretlandi fyrir ísvarinn fisk. Það er samhljóða dómur útflytjenda, að bæði markaðirnir fyrir freðfisk og ísfisk séu í stórhættu, ef við verðum að bera hinn sameiginlega toll bandalagsins. En sameiginlegi tollurinn á sjávarafurðir segir og alls ekki alla söguna. Bandalagið mun nú senn hefjast handa um mótun sameiginlegrar stefnu á sviði sjávarútvegsmála. Þessi stefna getur og mun sjálfsagt, líkt og er á sviði landbúnaðar, fela í sér ýmsar takmarkanir á viðskiptum fyrir lönd, sem standa utan bandalagsins. Hugsanleg eru einhvers konar eða ýmiss konar verðjöfnunargjöld í viðbót við tolla, líkt og á sér stað um landbúnaðarafurðir, og enn fremur gæti komið til sérstakra takmarkana á löndun ísfisks. Niðurstaðan varðandi sjávarafurðir getur því ekki orðið önnur en sú, að Íslendingum sé mikil nauðsyn að eiga jafnréttisaðgang að markaðinum á hinu stækkaða Efnahagsbandalagssvæði.

Að síðustu er svo þess að geta, að þótt gert sé ráð fyrir nauðsyn þess að byggja upp nýjar útflutningsgreinar á komandi árum, er með því auðvitað á engan hátt gert lítið út mikilvægi sjávarútvegsins fyrir íslenzkan þjóðarbúskap. En hv. 4. þm. Austf. virtist vilja túlka ummæli mín um nauðsyn þess að koma á fót nýjum útflutningsgreinum sem einhvers konar vanmat á gildi sjávarútvegsins fyrir íslenzkan þjóðarbúskap. Sjávarútvegurinn verður að sjálfsögðu enn sem fyrr undirstöðuatvinnuvegur Íslendinga. En aðrar framleiðslugreinar þurfa að koma til, ef tryggja á æskilegan og nauðsynlegan ávöxt. Og þeim grundvallarrökum hefur ekki verið hnekkt, að Íslendingum sé nauðsynlegt að komast hjá greiðslu sameiginlega tollsins á t.d. alúminíum og öðrum slíkum vörum, sem hér væri hugsanlegt að hefja framleiðslu á, ef unnt ætti að vera að koma slíkum iðnaði á fót.