13.02.1963
Sameinað þing: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1816 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

Efnahagsbandalagsmálið

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Síðan skýrsla ríkisstj. um Efnahagsbandalagið var síðast til umr. í sameinuðu Alþingi, hefur það gerzt, að samningaviðræðum Breta við Efnahagsbandalagið um fulla aðild Breta að bandalaginu hefur verið slitið. Með því hefur algerlega nýtt viðhorf skapazt í viðskiptamálum Vestur-Evrópu. S.l. 15 mánuði hafa flestir talið, að þess yrði ekki langt að bíða, að flest lönd Vestur-Evrópu tengdust mjög nánum böndum í efnahags- og viðskiptamálum og yrðu í aðalatriðum einn markaður. Nú hefur svo farið, að á því verður a.m.k. talsverð bið. Vestur-Evrópa er klofin í tvær Viðskiptaheildir, Efnahagsbandalagið og Fríverzlunarbandalagið, og komið hefur í ljós djúptækur ágreiningur um stefnuna í viðskipta- og stjórnmálum álfunnar. Þessi klofningur hlýtur að leiða til þess, að Vestur-Evrópa muni ekki eflast jafnmikið efnahagslega og hefði getað orðið, ef til nánari samvinnu hefði komið. Vestrænn heimur mun ekki styrkjast jafnmikið og ella. Þessir atburðir eru vonbrigði öllum þeim, sem trúa því, að aukin efnahagssamvinna þjóða í milli, lækkun tolla og efling frjálsra viðskipta muni hafa í för með sér bætt lífskjör og aukinn mátt þeirra þjóða, sem á þennan hátt efla samtök sín.

Það, sem gerzt hefur, er svo alvarlegt áfall fyrir samvinnu vestrænna ríkja, að gera má fastlega ráð fyrir því, að leitað verði annarra leiða til þess að ná því marki, sem að er stefnt, ef flest ríki Vestur-Evrópu leituðu tengsla við Efnahagsbandalagið. Ógerningur er hins vegar að spá nokkru um, í hvaða farveg sú viðleitni fellur. Á það má þó minna, að Vestur-Evrópuríkin eru öll, að Íslandi undanteknu, aðilar að þeim alþjóðlegu samtökum um tolla- og viðskiptamál, GATT, og þau mynda ásamt Bandaríkjunum og Kanada Efnahags- og framfarastofnunina. í Vestur-Evrópubandalaginu svonefnda, sem stofnað var 1954, þegar tilraunir til hernaðarsamvinnu í Vestur-Evrópu fóru út um þúfur, eru og einmitt sexveldin og Bretland. Ekki virðist ósennilegt, að einhverjar þessara stofnana verði hagnýttar sem vettvangur tilraunar til lausnar á vandanum, þegar þar að kemur, auk þess, sem hin nýja viðskiptalöggjöf Bandaríkjanna gefur þeim aðstöðu- til frumkvæðis um tollasamninga. Þau 7 ríki Vestur-Evrópu, sem mynda Fríverzlunarbandalagið, geta einnig treyst samtök sín til að standa betur að vígi í samkeppni við Efnahagsbandalagið, enda þótt það geti auðvitað ekki falið í sér neina endanlega lausn vandans. Enginn veit, hvað gerast muni í þessum efnum á næstunni. Þeir, sem stærstan hlut eiga hér að máli, hugga vel ráð sitt. Meðan svo er, hljóta aðrir að bíða átekta.

Það var ljóst frá upphafi, að stofnun Efnahagsbandalagsins á árinu 1957 hlyti, er fram liðu stundir, að hafa víðtæk áhrif á viðskiptahagsmuni Íslendinga. Sérstakar aðgerðir Íslands af þessu tilefni voru þó ekki hugsanlegar, eins og þá horfði við. Hins vegar varð stofnun Efnahagsbandalagsins til þess, að innan Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu í París hófust umræður um stofnun fríverzlunarsvæðis allra aðildarríkjanna. Íslendingar tóku frá upphafi þátt í þeim viðræðum og fengu góðar undirtektir undir óskir sínar um það, að tekið yrði tillit til sérstöðu landsins, ef af stofnun fríverzlunarsvæðisins yrði. Til þess kom þó ekki, að Íslendingar þyrftu að taka afstöðu til þess, hvort þeir vildu gerast aðilar að slíku fríverzlunarsvæði, því að samningaviðræðurnar fóru út um þúfur í árslok 1958, af svipuðum ástæðum fyrst og fremst og urðu til þess, að nú slitnaði upp úr samningunum milli Efnahagsbandalagsins og Breta.

Stofnun Fríverzlunarbandalags 7 Evrópuríkja 1959 varð ekki heldur til þess, að Íslendingar stigju ný spor í viðskiptamálum sínum. Það var þó augljóst, að sú þróun, sem hafin var í viðskiptamálum Vestur-Evrópu, hlaut að verða Íslendingum óhagstæð, sem og öllum þeim þjóðum, sem eiga viðskiptahagsmuna að gæta í Vestur-Evrópu, en standa utan viðskiptabandalaganna tveggja. Um það bil 20% af utanríkisverzlun Íslendinga undanfarin ár hefur verið við Efnahagsbandalagsríkin, en um það bil 35% við Fríverzlunarbandalagsríkin. Hvorug viðskiptaheildin er svo mikilvægt viðskiptasvæði fyrir Íslendinga, að réttlætanlegt væri að leita eftir tengslum við hana, ef horfur væru á, að það hefði í för með sér versnandi viðskiptaaðstöðu annars staðar frá því, sem ella hefði getað verið. Hitt var hins vegar augljóst, &ð ef þessar viðskiptaheildir yrðu að einni, ef Vestur-Evrópa yfirleitt sameinaðist í eitt viðskiptasvæði, þá væri þar orðið um að ræða langstærsta viðskiptasvæði Íslendinga, svæði, sem Íslendingar ættu meira en helming utanríkisviðskipta sinna við. Undir þeim kringumstæðum hlaut að teljast augljóst, að Íslendingar gætu ekki setið hjá, og raunar ekki einungis út frá viðskiptasjónarmiðum, heldur einnig vegna þess, að í Vestur-Evrópu búa þær þjóðir, sem Íslendingar hafa öldum saman verið tengdir nánustum böndum í stjórnmálum og menningarmálum. Það hlutu þess vegna að teljast mikil tíðindi fyrir Íslendinga, er forustuþjóð Fríverzlunarbandalagsins, Bretar, sótti um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu vorið 1961, og þá ekki síður, þegar allar aðrar þjóðir Vestur-Evrópu, að Finnum einum frátöldum sóttu um tengsl við Efnahagsbandalagið. Sumar þjóðanna sóttu um fulla aðild, aðrar um aukaaðild og ein, Portúgalar, um tengsl án þess að greina, hvort æskt væri fullrar aðildar eða aukaaðildar. Eins og umsóknir þessara þjóða bera glöggt vitni, var um þetta leyti talið, að ekki væri unnt að ræða við Efnahagsbandalagið lausn þeirra viðskiptavandamála, sem tilkoma þess skapaði, nema á grundvelli umsóknar um fulla aðild eða aukaaðild samkv. 237 eða 238. gr. Rómarsáttmálans. Í þessum umsóknum fólst þó að sjálfsögðu engin skuldbinding um aðild eða aukaaðild. Þær voru einungis skoðaðar nauðsynleg forsenda viðræðna. Umsókn um fulla aðild hefði getað leitt til aukaaðildar, og umsókn um aukaaðild hefði getað leitt til fullrar aðildar. Umsókn, hvort heldur um aðild eða aukaaðild, hefði einnig hugsanlega getað leitt til einhvers konar tollasamnings. Engin Evrópuþjóð hefur þó óskað eftir tengslum við Efnahagsbandalagið á grundvelli tollasamnings. Slíkar umr. hafa hins vegar farið fram á milli Efnahagsbandalagsins og Ísraels, en lítinn sem engan árangur borið.

Þegar ljóst var, að öll ríki Vestur-Evrópu að Finnlandi undanteknu mundu sækja um tengsl við Efnahagsbandalagið, hlutu Íslendingar að taka til athugunar, hvort þeir ættu að skapa sér sams konar aðstöðu til viðræðna við Efnahagsbandalagið og umsóknir annarra Vestur-Evrópuríkja mundu búa þeim. Sumarið 1961 beindi ég þeirri fsp. til fulltrúa helztu atvinnu- og félagssamtaka landsmanna, hvort þeir teldu rétt, að Íslendingar sköpuðu sér aðstöðu til viðræðna við Efnahagsbandalagið með því að leggja fram umsókn um einhvers konar aðild að því, en stærsta útflutningsfyrirtæki Íslendinga, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, hafði áður skorað á ríkisstj. að sækja um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Fulltrúar allra samtakanna svöruðu þessu játandi, að fulltrúa A.S.Í. frátöldum. Að mjög vandlega athuguðu máli tók ríkisstj. þó þá ákvörðun að leggja enga slíka umsókn fram, heldur afla frekari upplýsinga um málið hjá ríkisstj. þess ríkis Efnahagsbandalagsins, sem Íslendingar hafa löngum haft náin samskipti við, þ.e.a.s. Þýzkalands. Fóru þær viðræður fram haustið 1961. Niðurstaða þeirra styrkti þá skoðun ríkisstj., að ekki væri tímabært að leggja fram neins konar umsókn um aðild að Efnahagsbandalaginu, Íslendingum bæri enn að bíða átekta, en þýðingarmikið væri jafnframt að kynna ríkisstjórnum hinna landa Efnahagsbandalagsins sem og framkvæmdastjórn þess í Brüssel áhuga Íslendinga á því að varðveita viðskiptahagsmuni sína í Vestur-Evrópu og gera þeim grein fyrir sérstöðu Íslendinga í því sambandi. Var þetta gert vorið og sumarið 1962. Þær viðræður leiddu í ljós tvennt, sem mikilvægt var fyrir Íslendinga. Annars vegar leiddu viðræðurnar við framkvæmdastjórn Efnahagsbandalagsins í ljós, að Íslendingar gætu átt kost á að fylgjast með mótun stefnu Efnahagsbandalagsins í sjávarútvegsmálum með sama hætti og þær þjóðir, sem þegar hefðu sótt um fulla aðild eða aukaaðild, án þess að Íslendingar hefðu áður lagt fram umsókn um aðild eða aukaaðild. Hins vegar kom í ljós, að hvorki ríkisstjórnir sexveldanna né framkvæmdastjórn bandalagsins hefðu um það fastmótaðar skoðanir, hvað falizt gæti í aukaaðildarsamningi við bandalagið, né heldur, hvaða árangri hugsanlegt væri að ná með tollasamningi. Jafnframt kom í ljós, að þetta hlyti að skýrast mikið, þegar niðurstaða væri fengin í viðræðunum við Breta og viðræður við aðra umsækjendur væru komnar lengra áleiðis.

Af þessu dró ríkisstj. þá ályktun, að engan veginn væri tímabært fyrir Íslendinga að taka afstöðu til þess, hvort samrýmdist betur hagsmunum þeirra að leita eftir aukaaðildarsamningi eða tollasamningi. Hins vegar var það nú að fullu ljóst, sem ríkisstj. hafði þótt allt benda til frá upphafi, að full aðild að Efnahagsbandalaginu kæmi ekki til greina fyrir Íslendinga. Allar götur frá því, að Bretar lögðu fram umsókn sína um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu, og þó einkum eftir að viðræður höfðu farið fram við Þjóðverja, hafði flest bent til þess, að líklegustu leiðanna til lausnar á vandamálum Íslands væri að leita á grundvelli aukaaðildar, enda höfðu þær Evrópuþjóðir, sem ekki treystu sér til að gerast fullgildir aðilar, allar sótt um aukaaðild. Í viðræðunum í fyrrasumar kom það hins vegar fram, að sum aðildarríki Efnahagsbandalagsins töldu tollasamning einnig hugsanlega leið til lausnar á vandamálum Íslendinga. Ég tel, úr því sem nú er komið, að hægt sé að skýra frá því, að þessar skoðanir komu fram hjá Frökkum fyrst og fremst. Enginn vafi er á því, að að baki þeirra lágu þær sömu óskir um að takmarka stækkun Efnahagsbandalagsins sem mest, sem nú hafa leitt til viðræðuslita við Breta. Aðrar bandalagsþjóðir og framkvæmdastjórnin í Brüssel töldu hins vegar litla eða enga möguleika til lausnar á vandamálum Íslands á slíkum grundvelli.

Eftir að þessi afstaða hafði komið í ljós innan bandalagsins, taldi ríkisstj. sjálfsagt að hafa báðar þessar leiðir í huga, þegar að því kæmi, að leitað yrði lausnar á vandamálum Íslands. Ógerningur væri hins vegar að skera úr því, hvor leiðin væri líklegri til þess að efla hagsmuni Íslendinga, meðan ekki lægi fyrir ljósari vitneskja. Ríkisstj. hefur aldrei látið í ljós neina skoðun á því, hvorri leiðinni líklegt væri að fylgdu meiri réttindi eða meiri skyldur. Það er að sjálfsögðu ekki form samninganna, sem kveður á um réttindi þau og skyldur, sem í þeim felast. Hætt er við, að eftir því sem réttindin verða meiri, verði skyldurnar meiri, og á það að sjálfsögðu jafnt við um tollasamning og aukaaðildarsamning. Ef við Íslendingar væntum þess að hljóta í samningum meiri réttindi en svarar til skyldunnar, sem við tökum á okkur, ætti það rót sína að rekja til þess, að við nytum sérstakrar góðvildar hjá gagnaðilanum. Í því sambandi þarf ekki að skipta máli, hvort samningurinn er aukaaðildarsamningur eða tollasamningur. Meginspurningin er, hvort auðveldara hefði verið að komast inn fyrir tollmúrinn án þess að fórna réttindum, sem við hvorki viljum fórna né getum fórnað, með því að gera aukaaðildarsamning eða með því að gera tollasamning. Um það hefur enginn getað vitað og þess vegna algerlega ótímabært að telja aðra hvora leiðina hina einu, er til greina hafi komið. Þess vegna taldi ríkisstj. rétt að halda báðum leiðum opnum.

Þannig stóðu málin, þegar þeir atburðir gerðust, að viðræðunum við Breta var hætt. Af því leiðir eflaust, að á næstunni munu heldur engar viðræður fara fram við nokkurt annarra ríkja, er sótt hafa um aðild að bandalaginu. Fyrir okkur Íslendinga hefur því nú skapazt nýtt viðhorf í málinu. Það eru ekki horfur á því, að Vestur-Evrópa verði á næstunni ein viðskiptaheild. Sú staðreynd, að nær allar þjóðir Vestur-Evrópu höfðu sótt um aðild að Efnahagsbandalaginu, ber hins vegar vitni um, að hér er um svo mikilvæga hagsmuni að tefla, að áfram mun verða leitazt við að efla samvinnu þjóðanna, sem hér eiga hlut að máli. Með hverjum hætti það kann að verða, veit enginn. En meðan svo er, getur það eitt verið rétt fyrir Íslendinga að bíða átekta og fylgjast með því, sem gerist.

Ef litið er hleypidómalaust á málið, hygg ég, að sanngjarnir menn muni viðurkenna, að ríkisstj. hafi í þessu máli gert þá skyldu sína að fylgjast rækilega með öllu, sem máli skiptir, og vera vel á verði, og að það hafi verið rétt að leggja ekki til við Alþingi, að neins konar aðildar verði leitað að Efnahagsbandalaginu. En hafi það verið rétt fram til þessa að bíða átekta og velja ekki ákveðna leið til lausnar á vandamálum Íslendinga, hversu miklu réttara er það þá ekki nú að sjá hvað setur og forðast að binda sig við ákveðnar hugmyndir, svo miklu meiri sem óvissan er nú um framtíðina en var, meðan samningaviðræður Breta og Efnahagsbandalagsins stóðu yfir.

Í raun og veru má segja, að spurningin um tengsl Íslands við Efnahagsbandalagið sé nú ekki lengur á dagskrá hér á landi fremur en í öðrum smáríkjum Vestur-Evrópu. Meðan svo er, hlýtur það að teljast vera í fyllsta samræmi við hagsmuni Íslendinga, að sem fæst stór orð séu höfðum málið og menn og flokkar forðist staðhæfingar og stefnuyfirlýsingar, sem reynslan og framtíðin kann að leiða í ljós, að betur hefðu verið ósagðar.