13.02.1963
Sameinað þing: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1839 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

Efnahagsbandalagsmálið

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það sé svipað um ýmsa fleiri þm. en mig, að þeir séu nokkuð undrandi yfir að kynnast því, í hvaða hugarheimi hæstv. dómsmrh. lifir um þessar mundir, en það kom greinilega fram í þeirri ræðu, sem hann var að ljúka hér. Hæstv. dómsmrh. eyddi löngum kafla í að tala um allt önnur mál en þau, sem hér eru til umr. Hann fór að tala um samvinnuslit Sjálfstfl. og Framsfl. 1955–56. Hann fór að tala um varnarmálin. Og hann fór að tala um það, hvernig viðreisnarstjórninni hefði verið tekið og þar fram eftir götunum. Það var bersýnilegt, að hæstv. dómsmrh. óskaði eftir umr. um öll mál miklu fremur en það mál, sem hér er til umr., og að svo miklu leyti sem hann kom að því að ræða þetta mál, sem hér liggur fyrir, þá er það til þess að gera það miklu óljósara og óskýrara en það er, til að flækja það og til þess að gera mönnum ekki ljós aðalatriðin í málinu. Þetta allt benti til þess, að hæstv. dómsmrh. óskar auðsjáanlega einskis frekar en að komast hjá beinum umr. um þetta mál. Og þess vegna slær hann út í allt aðra sálma og reynir að ræða um allt annað en það, sem hér liggur raunverulega fyrir, sem er skýrsla ríkisstj. um efnahagsbandalagsmálið.

Hvers vegna er það, sem hæstv. dómsmrh. hefur valið þessa starfsaðferð? Er það vegna þess, að hann telur sig hafa traustan og góðan málstað til að sækja og verja? Væri það líkt þessum hæstv. ráðh., ef hann teldi málstað sinn góðan, eins glöggur og skýr og hann getur verið í málflutningi, að hann sneri sér þá ekki að málinu sjálfu og ræddi það fyrst og fremst, drægi fram það, sem hann áliti mestu skipta í því sambandi, en færi ekki að ræða um allt önnur atriði og óviðkomandi mál, eins og hann reyndi svo mjög til í ræðu sinni hér áðan. Ég held einmitt, að þessi starfsaðferð hæstv. dómsmrh. sýni, að hann lifir nú í þeim hugarheimi, að hann álíti sína aðstöðu og síns flokks ekki trausta hvað þetta mál snertir, og þess vegna vilji hann komast hjá viðræðum um það.

Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út sem það væri lítill sem enginn ágreiningur í þessu máli, það væri ekki til neinn ágreiningur í málinu. Og því til sönnunar var hann að vitna í ummæli, sem hann hafði haft á landsfundi Sjálfstfl. haustið 1961. En. hæstv. ráðh. gleymdi að rifja það upp, sem hafði gerzt, áður en þessi landsfundur var haldinn. Hann gleymdi að rifja það upp, að í júlímánuði og ágústmánuði 1961 var rekinn mjög ákafur áróður í Morgunblaðinu fyrir því, að Ísland sækti sem allra fyrst um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Og þessum áróðri var haldið látlaust áfram þangað til í sept. 1961, er tveir ráðh. fóru til Bonn og ræddu við ríkisstj. þar og fengu þar þær upplýsingar, að það þýddi ekki fyrir Ísland að sækja um fulla aðild á þessu stigi. Það var eftir að það var upplýst, sem ráðh. hélt sína ræðu á landsfundi Sjálfstfl., í okt. 1961, og talaði eins og hann gerði þar. Það var vegna þess, að ríkisstj. var búin að fá hjá Efnahagsbandalaginu sjálfu hryggbrot við þeirri beiðni, sem hún ætlaði að leggja fram. Henni var sagt, að það væri ekki tímabært að leggja þessa beiðni strax fram, og þar af leiðandi talaði ráðh. á landsfundinum 1961 eins og raun ber vitni um. En ef hann vill segja alla söguna sanna í þessu máli, þá á hann að byrja á forsögunni, byrja á Morgunblaðsgreinunum sumarið 1961, sem sýna, að þá var það stefna Sjálfstfl. að komast í bandalagið sem fullgildur aðili. Ég hef lesið upp úr þessum greinum Morgunblaðsins áður á þingfundi og sé ekki ástæðu til þess að gera það aftur, en þær skera alveg ótvírætt úr um það, að á þessum tíma var það stefna Sjálfstfl., að Ísland gerðist fullgildur aðili að Efnahagsbandalaginu.

Og þegar ráðh. er nú að tala um, að það hafi ekki verið neinn ágreiningur í þessu máli, þá veit maður, að hann fer þar með fullkomlega rangt mál, að hann er að reyna að flækja og gera þetta mál óskýrt, því að eins og kemur greinilega fram í skýrslu hæstv. ríkisstj., sem hér liggur fyrir til umr., þá er um tvær leiðir að velja í þessu máli, um tvær leiðir að velja til samninga við Efnahagsbandalagið. Önnur leiðin er tolla- og viðskiptasamningsleiðin, og hin leiðin er aukaaðildarleiðin, og eins og greinilega kemur fram í skýrslu hæstv. ríkisstj., þá er mjög mikill munur á þessum tveimur leiðum, stórkostlegur munur á þessum tveimur leiðum, og það er um það, sem ágreiningurinn stendur. En eitt það undarlegasta, sem gerzt hefur hér á þingi, er það, að eftir að ríkisstj. er búin að leggja fram skýrslu, þar sem tekið er skýrt fram, að það sé reginmunur á þessum tveimur leiðum, tolla- og viðskiptasamningsleiðinni og aukaaðildarleiðinni, og viðskmrh. er búinn að staðfesta það, bæði með því að lesa þessa skýrslu ríkisstj. upp hér í þinginu og láta prenta hana, þá kemur hæstv. dómsmrh. upp á eftir og segir eiginlega, að það sé allt saman tóm vitleysa, sem segir í þessari skýrslu ríkisstj., því að í raun og veru geti þessar leiðir kannske verið eitt og hið sama, alveg þvert ofan í það, sem segir í skýrslu ríkisstj. Ég held, að slík vinnubrögð eins og þessi hafi aldrei áður tíðkazt hér á þingi, að þegar ríkisstj. er búin að gefa skýrslu, sem virðist að mörgu leyti vera heiðarlega gerð, eins og skýrsla hæstv. viðskmrh., þá kemur hæstv. dómsmrh. upp á eftir og segir í raun og veru, að það sé fals eitt, sem standi í þessari skýrslu, þetta sé alls ekki rétt, sá greinarmunur, sem þar er gerður á tolla- og viðskiptasamningsleið og aukaaðildarleið. Þetta eru alveg fáheyrð vinnubrögð, og það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að hæstv. dómsmrh. lifi í eitthvað skrýtnum hugarheimi, þegar hann þarf að grípa til vinnubragða eins og þessara.

Hæstv. ráðh. talaði mikið um það, — og það gerði reyndar viðskmrh. einnig, að hér ætti ekki að vera að gefa ótímabærar yfirlýsingar. Hvað er það, sem þessir hæstv. ráðh. eiga við, þegar þeir eru að tala um ótímabærar yfirlýsingar, — um ótímabærar yfirlýsingar, sem framsóknarmenn séu alltaf að gefa. Þessar ótímabæru yfirlýsingar, sem framsóknarmenn eru að gefa, eru þær, að þeir hafna aukaaðildarleiðinni, vegna þess að í henni felst, að það þarf að semja um atvinnuréttindi útlendinga hér á landi, það þarf að semja um frjálsan flutning á erlendu fjármagni hingað til lands, það þarf að semja um vinnuréttindi útlendinga hér á landi. Það eru þessir samningar, sem framsóknarmenn vilja ekki, og það eru þessar yfirlýsingar, sem þeir eru að gefa. Og þetta eru yfirlýsingar, sem hæstv. ríkisstj:, bæði hæstv. dómsmrh. og hæstv. viðskmrh., er alltaf að tala um að séu ótímabærar. En þessar yfirlýsingar eru ekki ótímabærar. Þær eru sjálfsagðar og nauðsynlegar. Og þær eru alveg sjálfsagðar og nauðsynlegar vegna þeirrar afstöðu, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið í þessu máli og augljóslega hefur komið fram í þeim umr., sem hér hafa farið fram.

Hæstv. ríkisstj. hefur verið að reyna að segja það, að hún sé ekki búin að ákveða, hvaða leið eigi að fara í þessu máli. Eins og bent var á af hv. 2. þm. Vestf., er ríkisstj. búin að velja leið, þó að hún segi að vísu að nafni til, að leiðirnar séu tvær. Allur blærinn á þessum umr, hefur sýnt það, svo að ekki er um að villast, að leiðin, sem hæstv. ríkisstj. vill fara og ætlar að fara, þegar þar að kemur, er aukaaðildarleiðin. Það er alveg tilgangslaust með einhverri ræðu, eins og hæstv. dómsmrh. hélt hér áðan, að ætla að reyna að breiða yfir þetta með því að fara að tala um allt önnur mál, reyna að flækja þetta mál. Umr. hafa leitt það eins glöggt í ljós og verða má, að ríkisstj. er búin að velja leiðina. Þó að hún telji tvær leiðir opnar, þá er hún búin að taka alveg ákveðna afstöðu um það, hvaða leið hún ætlar sér að velja, þegar þar að kemur, ef hún hefur þá aðstöðu til þess að fara þá leið.

Hæstv. dómsmrh. vildi gera mikið úr því, að það hefðu orðið stórfelldar breytingar á aðstöðunni í heiminum vegna þess, að samningunum í Brüssel hafi verið hætt að sinni um aðild Breta að Efnahagsbandalaginu, og hann vitnaði því til sönnunar í grein eftir einhvern danskan stjórnmálamann. Hann gæti miklu frekar vitnað í það, að danska ríkisstj. hefur lýst því yfir í danska þinginu með samþykki allra stjórnmálaflokkanna nema kannske Sósfl. þar, að hún ætlaði sér ekki að kalla aftur umsókn sína um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Hún ætlaði að láta hana standa óbreytta, vegna þess að það væri álit hennar, að þessir samningar um fulla aðild Breta og annarra ríkja yrðu teknir upp mjög bráðlega aftur. Þetta er sú afstaða, sem danska ríkisstj. hefur í þessu máli, að hún ætli sér ekki að taka aftur umsókn sína um fulla aðild að Efnahagsbandalaginu, vegna þess að hún álíti, að umr. um þessi mál verði teknar upp mjög fljótlega aftur. Og þetta er sú afstaða, sem allar þær ríkisstj. hafa, sem hafa sótt um aukaaðild eða fulla aðild að Efnahagsbandalaginu. Þær hafa ákveðið að draga þessar umsóknir ekki til baka, vegna þess að það er þeirra skoðun, að þessar umr. verði teknar upp mjög fljótlega aftur. Þeir menn, sem eiga sæti í stjórnarnefnd Efnahagsbandalagsins, eins og t.d. Hallstein og Mansholt og fleiri slíkir, hafa lýst því hiklaust yfir sem sinni skoðun, að sá tími muni að líkindum koma fyrr en varir, að aftur verði teknir upp samningar milli Efnahagsbandalagsins og Breta um aðild Breta að Efnahagsbandalaginu. Hið sama hafa stjórnir Vestur-Þýzkalands, Ítalíu og Benelúxlandanna gert, allar talið það eðlilegt og sjálfsagt, að innan nokkurs tíma mundu aftur hefjast viðræður um þessi mál. Og meira að segja franska stjórnin hefur gætt þess í öllum þeim yfirlýsingum, sem hún hefur gefið um þessi mál, að útiloka það ekki, að Bretar kynnu að geta orðið aðilar að Efnahagsbandalaginu síðar. Franska stjórnin hefur aldrei sagt meira en það, að á þessu stigi teldi hún, að Bretar vildu ekki ganga að þeim skilyrðum, sem nauðsynlegt væri, til þess að þeir gætu orðið fullgildir aðilar að Efnahagsbandalaginu. En hvað eftir annað hafa franskir ráðh. látið liggja orð að því, seinast fyrir nokkrum dögum sjálfur franski forsrh., að hann teldi það meira en líklegt, að innan einhvers tíma mundu Bretar gerast aðili að Efnahagsbandalaginu og ganga að þeim ákvæðum Rómarsamningsins, sem hefur verið deilt um.

Þess vegna er það rangt á þessu stigi að álykta þannig af þeim atburðum, sem nýlega gerðust í Brüssel, að þessi mál séu endanlega úr sögunni og ekki muni fleiri ríki gerast aðilar eða aukaaðilar að Efnahagsbandalaginu heldur en nú á sér stað. Það er líka staðreynd, að Efnahagsbandalagið er til og það verður til, a.m.k. í því formi, sem er núna, og að öllum líkindum í því formi, að það verði miklu stærra og þátttökuríkin miklu fleiri en þau eru nú. Þess vegna er það algerlega rangt, sem hæstv. dómsmrh. gerir, þegar hann kemur hér fram og fullyrðir, að staðan í þessum málum sé algerlega breytt, og viðhefur meira að segja orð eins og hann gerði hér í ræðu sinni áðan, að þessi atburður hefði vikið frá okkur vandanum að taka ákvörðun í þessu máli. Ég er alveg hissa, að jafngreindur maður og ábyrgur maður og ég álít að hæstv. dómsmrh. sé þó, skuli gefa slíka yfirlýsingu eins og þessa, að hann álíti, að það sé búið að víkja frá okkur þeim vanda að þurfa að taka ákvörðun í þessu máli. Hæstv. dómsmrh. veit áreiðanlega vel, að þetta er rangt. Þessi yfirlýsing hans er röng. Það er ekki búið að víkja þessum vanda frá okkur. Það getur verið, að hann frestist eitthvað, í nokkra mánuði eða nokkur missiri, en hann er ekki vikinn frá okkur, og við munum standa frammi fyrir honum og það sennilega fyrr en síðar. Þess vegna er það meira en furðulegt, að hæstv. ráðh. skuli vera að gefa slíka yfirlýsingu sem þessa. Og hvers vegna er hæstv. ráðh. að gefa svona yfirlýsingu? Það er eingöngu vegna þess, að hann álítur sína aðstöðu og síns flokks þannig í þessu máli, að hann vill víkja því frá íslenzkum kjósendum fram yfir næstu þingkosningar. Hann vill komast hjá því að þurfa að taka ákveðna afstöðu til málsins fyrir þann tíma, og hann vill komast hjá því, að kjósendur taki ákveðna afstöðu til þessa máls í næstu þingkosningum. Þess vegna er það, sem hæstv. ráðh. fer út á þá hálu braut að gefa aðra eins yfirlýsingu og þá, að það sé búið að víkja þeim vanda frá Íslendingum að þurfa að taka afstöðu til þessa máls. Það er líka af sömu ástæðu, sem hæstv. ráðh. var alltaf að tala um það í sinni ræðu, að við ættum að forðast þessar ótímabæru yfirlýsingar í þessu máli, við ættum að forðast yfirlýsingar um það, að við vildum ekki semja um aukin atvinnuréttindi útlendinga á Íslandi, að við vildum ekki frjálsa flutninga á erlendu fjármagni til Íslands og vildum ekki aukin atvinnuréttindi fyrir útlendinga á Íslandi. Það eru þessar yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. vill komast hjá að séu gefnar fyrir kosningar og hann þurfi að taka afstöðu til þeirra í kosningabaráttunni, — og líka til þess, að hann og hans flokkur eða flokkar geti haft óbundnar hendur eftir kosningar til þess að gera slíka samninga, vegna þess að hæstv. ráðh. veit, að það er ekki búið að taka þann vanda frá okkur að velja þarna á milli, þó að hann reyni nú að halda því fram og ætli sennilega að reyna að gera það fram yfir kosningar.

En það verður annað upp á teningnum, það munu menn fá að sjá eftir kosningarnar. Þá á ekki ósvipuð saga eftir að gerast og í landhelgismálinu forðum, þegar gefnar voru yfirlýsingar fyrir kosningarnar, að nú skyldu stjórnarflokkarnir standa eindregið að 12 mílunum og hvergi víkja að kosningum loknum í því máli. En hver var reyndin? Reyndin var sú, að fljótlega eftir kosningar var byrjað á leynisamningum við Breta um þessi mál og að lokum samið þannig, að þeim var ekki aðeins veitt undanþága til þriggja ára innan fiskveiðilandhelginnar, heldur var líka gengið þannig frá málum, að Bretar telja það öruggt, að Íslendingar geti ekki fært sína fiskveiðilandhelgi frekar út, a.m.k. ekki næstu 25 árin. Það var þrátt fyrir þessar miklu og hátíðlegu yfirlýsingar fyrir kosningarnar 1959 gerður á eftir eini undanhaldssamningurinn, sem Íslendingar hafa gert í sjálfstæðismálunum, síðan þeir endurheimtu frelsið 1918. Og sú saga er ekki heldur búin enn. Það sjá menn á því, sem nú er að gerast í samningum Dana og Færeyinga og Breta varðandi landhelgismálið færeyska. Sá samningur, sem Danir gerðu á sínum tíma við Færeyinga, ætti nú að falla úr gildi og Færeyingar þess vegna að hafa fullan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi á þessu vori. En danska stjórnin vill ekki leyfa þeim að færa landhelgina þannig út. Og hún segir við Færeyinga: Þið skuluð bíða til — ég má segja til 14. marz 1964, ég held, að það sé dagsetningin, ég man það ekki nákvæmlega, það er eitthvað um það leyti, — þið skuluð bíða til þessa tíma eða þangað til undanþágur Breta til veiða innan íslenzku fiskveiðilandhelginnar eiga að falla úr gildi á næsta ári: Hvers vegna er það, sem danska ríkisstj. vill láta Færeyinga bíða þangað til og láta undanþágurnar við Færeyjar haldast þangað til undanþágurnar við Ísland eiga að falla úr gildi? Getur það ekki stafað af því, að Bretar ætli sér að fara á flot um það við Íslendinga að fá undanþágurnar framlengdar og telji það skapa sér betri samningsaðstöðu, ef undanþágurnar verða ekki fallnar úr gildi við Færeyjar áður, og það sé með tilliti til þess, sem þeir vilji fá undanþágurnar við Færeyjar framlengdar frá því nú í vor og þangað til undanþágurnar eiga að falla úr gildi við Ísland? Það væri ekki óeðlileg ályktun af því, sem áður hefur gerzt í þessum málum, þó að það lægi hér á bak við, að Bretar vildu fá dönsku stjórnina til þess að framlengja undanþágurnar við Færeyjar með tilliti til þess, að það gerði þeim auðveldara að taka upp samninga við Íslendinga eftir næstu kosningar um það að fá undanþágurnar hér framlengdar. En að sjálfsögðu væri miklu verri aðstaða til þess fyrir Breta, ef það væri áður gengið í gildi, að undanþágurnar, sem þeir hefðu við Færeyjar, væru fallnar niður.

Þetta er vissulega mál, sem er full ástæða til þess að fylgjast vel með, það, sem gerist í samningum Færeyinga og Dana annars vegar og Breta hins vegar í þessu máli, og hvernig það verður samantvinnað við það, hvenær brezku undanþágurnar eiga að falla úr gildi hér við land: En þetta var innskot, sem að vísu snertir ekki beinlínis þetta mál, sem hér er til umr., en má þó segja að sé í nokkrum tengslum við það.

Hæstv. ráðh. var að tala um það, að ég hefði verið að gefa yfirlýsingu um, að það væri óhjákvæmilegt að tengjast Efnahagsbandalaginu með tolla- og viðskiptasamningi. Ég mun ekki hafa notað það orð að tengjast, en hins vegar get ég endurtekið þá skoðun mína, að ég álít, að það sé alveg nauðsynlegt af Íslendingum á sínum tíma eða þegar þar að kemur að sækja eftir tolla- og viðskiptasamningi við þetta bandalag, alveg eins og við sækjumst eftir slíkum viðskiptasamningum við fjöldamörg lönd nú þegar. Við semjum við öll Austur-Evrópulöndin svo að segja árlega og mörg fleiri lönd. Og hvers vegna ættum við þá að vera neitt á móti því að gera slíkan samning við Efnahagsbandalagið? Hver sem framvindan verður í þessum efnum, þá er nauðsynlegt fyrir okkur að vinna að því að hafa góð samskipti við þessi lönd, eftir því sem við getum, þó að við veitum þeim ekki nein óeðlileg réttindi hér á landi. Við höfum þar nú þegar mikil viðskipti, og við verðum að vinna að því að geta haldið þeim áfram með eðlilegum hætti, og til þess gerum við viðskipta- og tollasamning, og ég er alveg sannfærður um, að það verða ekki neinir sérstakir erfiðleikar fyrir okkur Íslendinga að fá slíka samninga.

Hæstv. viðskmrh. upplýsti einmitt í þeirri ræðu, sem hann hélt hér áðan, að sú aðildarþjóð Efnahagsbandalagsins, sem er talin einna erfiðust í þessum samningum, Frakkar, hefði talið það eðlilega lausn á viðskiptum Efnahagsbandalagsins og Íslands, að gerður yrði tollasamningur á milli Íslands og bandalagsins, en ekki farin aukaaðildarleið. Og ef Frakkar eru nú tilbúnir að fallast á þetta, þá held ég, að við ættum ekki síður að vænta þess, að hin aðildarríkin mundu gera það, sem yfirleitt hafa verið talin okkur vinsamlegri en Frakkar.

Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs í umr. nú í dag til þess að svara ummælum, er hæstv. forsrh. hafði vikið að mér sérstaklega í ræðu, sem hann hélt hér, þegar rætt var um þetta mál á fyrri hluta þingsins. Og ég held, að ég komist ekki hjá því að rifja upp þessi ummæli hæstv. forsrh., þó að hann sé fjarverandi, enda eru þau vafalaust ekki fyrst og fremst töluð í hans nafni, heldur í nafni Sjálfstfl. og hæstv. dómsmrh. Og aðrir þeir, sem hér eru staddir, geta þá svarað fyrir hönd hæstv. forsrh., ef þeir telja það nauðsynlegt. En það, sem hæstv. forsrh. hafði sérstaklega að athuga við þau ummæli, sem ég hafði viðhaft í fyrri ræðu minni hér, var það, sem ég sagði um, að við ættum að stefna að því að gera tolla- og viðskiptasamning við Efnahagsbandalagið. Hæstv. forsrh. fannst þetta hin mesta fjarstæða, sem kom þó mjög undarlega fyrir sjónir, þar sem hann var áður búinn að lýsa því yfir eða ríkisstj., að þetta væri þó önnur af þeim leiðum, sem til greina kæmu til samninga við Efnahagsbandalagið. En þrátt fyrir það, þegar hæstv. forsrh. fór að tala um tolla- og viðskiptasamningsleiðina, þá fann hann henni flest til foráttu, eins og marka má af þeim ummælum hans, sem ég kem nú til með að hafa hér á eftir, með leyfi hæstv. forseta. Forsrh. sagðist hafa kvatt sér hljóðs aftur til þess að svara ræðu minni, svo að notuð séu hans eigin orð, af þeim ástæðum, að sá hugsunarháttur, sem þar er á ferð, geti verið þjóðinni hættulegur. Síðan sagði hæstv. forsrh. orðrétt:

„Það, sem hv. þm. Þórarinn Þórarinsson krefst, er, að Íslendingar verði aðnjótandi allra fríðinda Efnahagsbandalagsins, sem þeir þurfa á að halda, án annars endurgjalds en nokkurra tollalækkana á þeim vörum, sem Íslendingar kaupa frá þjóðum Efnahagsbandalagsins.“

Enn fremur fórust hæstv. forsrh. orð um tolla- og viðskiptasamningsleiðina á þennan hátt, með leyfi hæstv. forseta:

„En annars óttast ég, að Íslendingar verði ekki lengi fullgildir í tölu siðaðra menningarþjóða, ef þeir í öllum viðskiptum sínum við þær temja sér það, sem kallað er stundum hér í þingsölunum Framsóknarhugsunarháttur, en hann er sá að krefjast alls af öðrum, en láta helzt ekkert af sínu í staðinn.“

Enn fremur sagði hæstv. forsrh. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þessu stafar m.a. sú hætta, að Íslendingar slíti vináttuböndin vegna blindrar kröfuhörku.“

Það, sem ég hafði gert að till. minni, var ekki annað en það, sem ríkisstj. gerði líka ráð fyrir sem annarri leiðinni til samninga við Efnahagsbandalagið, að það væru gerðir gagnkvæmir tolla- og viðskiptasamningar við Efnahagsbandalagið, sem að sjálfsögðu þýða það, að ef við fáum tollalækkun hjá Efnahagsbandalaginu, þá verðum við að láta móti einhverja tollalækkun á vörum frá Efnahagsbandalaginu hér á landi, þannig að hér er um gagnkvæm skipti að ræða. En hæstv. forsrh. finnst ekki nóg, að við látum það gegn tollahlunnindum í Efnahagsbandalagslöndunum að veita þeim tollahlunnindi hér á landi. Nei, nei, honum finnst vera mjög furðulegt, að það skuli vera farið fram á þetta, að við fáum þessi hlunnindi í Efnahagsbandalagslöndunum án annars endurgjalds en einhverra tollalækkana á þeim vörum, sem Íslendingar kaupa frá þjóðum Efnahagsbandalagsins. Hæstv. forsrh. virðist líta svo á, að það sé ekki nóg fyrir okkur að láta gagnkvæmar tollalækkanir á móti, heldur verðum við að láta eitthvað meira í endurgjald. Og hann herðir sig, þegar kemur fram í ræðuna, og segir, að í þessu felist þessi leiði Framsóknarhugsunarháttur, að krefjast alls af öðrum, en láta helzt ekkert af sínu í staðinn, og af þessu stafi sú hætta, að Íslendingar slíti vináttuböndin vegna blindrar kröfuhörku eins og þeirrar, sem ég minntist þarna á, að láta tollaívilnun koma gegn tollaívilnun.

Öll þessi ummæli hæstv. forsrh. eru eiginlega túlkun fyrir Efnahagsbandalagið á þá leið, að það sé alls ekki fullnægjandi fyrir það að fá tollahlunnindi hér á landi á móti þeim tollahlunnindum, sem það kynni að veita, heldur verði það að fá einhver meiri réttindi en tollahlunnindi á Íslandi. Og hæstv. forsrh. finnst það alveg blind kröfuharka, að við skulum ekki láta okkur detta það í hug, að gegn þeim tollahlunnindum, sem við fengjum í Efnahagsbandalagslöndunum, létum við af hendi ekki aðeins tollahlunnindi hér, heldur líka eitthvað meira. Það kemur alveg greinilega fram í þessum ummælum hæstv. forsrh. Og það er líka víst, hvað hæstv. forsrh. er að fara með þessum ummælum sínum. Hann meinar það, að við eigum ekki að fara tolla- og viðskiptasamningsleiðina, við eigum heldur að fara hina leiðina, aukaaðildarleiðina, þ.e. að semja ekki aðeins um gagnkvæm tolla- og viðskiptahlunnindi, heldur líka um gagnkvæm réttindi til atvinnurekstrar, til fjármagnsflutninga og til atvinnustarfsemi. Það eru þessi réttindi, sem hann er fús til að láta af hendi gegn þeim hlunnindum, sem við fáum gagnvart sölu á vörum í Efnahagsbandalagslöndunum, og honum finnst það bara blind kröfuharka að vera nokkuð að amast við því, að þannig sé samið við Efnahagsbandalagið.

En hæstv. forsrh. var ekki einn um þennan hugsunarhátt. Þetta kom líka fram í ræðu hæstv. viðskmrh., og þetta kom mjög glögglega fram í ræðu hæstv, dómsmrh. Það hefur sem sagt komið mjög ljóslega fram í þessum umr. af hálfu talsmanna stjórnarflokkanna, að þeir eru á móti tolla- og viðskiptasamningsleiðinni, þó að þeir segist vilja halda henni opinni, og að þeirra hugur er allur inni á því, að það verði samið á aukaaðildargrundvelli. Þrátt fyrir það, þó að ríkisstj. sé hér í blekkingarskyni hvað eftir annað að gefa yfirlýsingar um, að hún sé ekki búin að velja á milli þessara tveggja leiða, þá sést það skýrt á þessum ummælum hæstv. forsrh., sem ég hef nú vitnað til, og mörgum öðrum ummælum hæstv. ráðh., að ríkisstj. er búin að velja í þessu máli, hún er búin að velja aukaaðildarleiðina og hún er búin að hafna hinni leiðinni. Og það er alveg víst, hvað sem þessir hæstv. ráðh. segja, að þá koma þessi mál fyrr en síðar til með að standa þannig, að þjóðin hefur um þessar tvær leiðir að velja. Hún hefur að velja um það, hvort hún hneigist heldur að tolla- og viðskiptasamningsleiðinni eða aukaaðildarleiðinni, með þeim búsifjum, sem henni fylgja, þ.e. að semja um atvinnuréttindi útlendinga hér á landi og réttindi erlends fjármagns hér á landi. Það er sú leið, sem hæstv. ríkisstj. vill fara. Og skýringin á þeim skrýtna hugsunargangi hæstv. dómsmrh., sem birtist í ræðu hans hér áðan, fólst einmitt í því, að ríkisstj. vill reyna að leyna þessu fram yfir kosningar, að hún er búin að velja þessa leið. Þess vegna vill hún helzt tala um allt annað, þegar þetta mál ber á góma, eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh., eða hún reynir að flækja málið og blekkja sem mest, svo að menn sjái ekki aðalatriði þess, til að koma í veg fyrir það, að menn geri sér hreina mynd af málinu fyrir næstu kosningar og taki ákveðna afstöðu til þess þá. En hæstv. ríkisstj. mun ekki takast þetta. Þrátt fyrir það, þó að talsmenn hennar haldi margar slíkar ræður eins og hæstv. dómsmrh. flutti hér áðan, og þrátt fyrir það, þó að slíkum áróðri verði haldið uppi í blöðum stjórnarflokkanna, þá er hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh. búnir að segja svo mikið í þessu máli, að þjóðinni getur ekki dulizt, hver þeirra stefna raunverulega er, að hverju þeir munu stefna eftir næstu kosningar, ef þeir koma til með að hafa þá meiri hl. hér á Alþingi og fara með ríkisstj. Hafa þessar umr. verið hinar gagnlegustu, vegna þess að þær hafa leitt í ljós svo skýrt, að um það verður ekki lengur villzt, að það eru tvær stefnur í þessu máli. Önnur er sú stefna, sem Framsfl, beitir sér fyrir, lausn á grundvelli tolla- og viðskiptasamnings, og hin er leiðin, sem ríkisstj. hefur valið, þó að hún sé að reyna að neita því í öðru orðinu. Það er aukaaðildarleiðin ásamt samningum um atvinnuréttindi og fjárhagsleg réttindi útlendingum til handa hér á landi. Þess vegna álít ég það, þó að þessar umr. verði ekki miklu lengri nú að sinni, að þá hafi þær orðið mjög til bóta, vegna þess að þjóðinni á að vera það ljóst eftir þær, hvar stjórnmálaflokkarnir standa í þessu máli og um hvaða leiðir er að velja, og þess vegna, hvaða ákvörðun þeir eiga að taka, þegar þeir fella sinn dóm um þetta mál í næstu kosningum.