03.04.1963
Sameinað þing: 44. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

Efnahagsbandalagsmálið

Forseti (FS):

Út af tilmælum hv. 1. þm. Austf. um að taka fyrir á þessum fundi skýrslu ríkisstj. um Efnahagsbandalagið vil ég benda á það, að málið hefur verið rætt á sex fundum í Sþ. Á fimm þessara funda hefur svo að segja allur fundartíminn verið notaður til umr. um málið og á hinum sjötta röskur helmingur fundartímans. 16 ræður hafa verið fluttar um málið, flestar langar, þar af 8 ræður af hálfu ríkisstj. og 8 af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hv., 1. þm., Austf. hefur flutt tvær ræður alllangar um málið og þannig notað til fulls rétt sinn skv. þingsköpun til umr. um málið. og hefur hann því persónulega ekki undan neinu að kvarta í því efni.

Hins vegar er það rétt, að enn eru nokkrir á mælendaskrá, sem hafa ekki náð að flytja sitt mál. En í því sambandi vil ég einnig benda á það, að dagskrá sú, sem hv. þm. hafa nú fyrir framan sig, er æðilöng, og þar eru mörg mál, sem hafa ekki enn verið rædd, og flytjendur. þeirra hafa áhuga á að koma þeim að ekki síður en hv. 1. þm. Austf. hefur áhuga á framhaldsumr. um efnahagsbandalagsmálið. En ef hv. þm. væri einhver hugarléttir að því, þá vil ég geta þess, að það er ætlun mín að hafa fund í dag umfram hinn venjulega fundartíma, milli kl. 5 og 7, og ef ekki vinnst þá tími til þess að ræða skýrslu ríkisstj. um Efnahagsbandalagið, er að sjálfsögðu rétt að athuga um kvöldfund nú á næstunni, til þess að hægt sé að taka það til umr.