06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

Efnahagsbandalagsmálið

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þá er loks tæmdur hinn langi ræðumannalisti, sem legið hefur hjá hæstv. forseta í þessu máli, að einum hv. þm. undanteknum, sem er veikur og þess vegna er ekki hægt að gefa orðið nú á þessum fundi. Undanfarnar vikur hefur ekki linnt látum hjá forsvarsmönnum hv. stjórnarandstöðu. Þeir hafa krafizt þess, að þetta mál yrði tekið á dagskrá, til þess að þeir gætu flutt skoðanir sínar, kynnt skoðanir sínar á málinu. Hv. þm. hafa nú fengið að heyra þann mikilvæga boðskap, sem þeim hefur legið á hjarta undanfarnar vikur, og er það að sjálfsögðu gott, að menn skuli hafa komizt að raun um, að það var þó ekki annað en þetta, sem þeir höfðu að segja, því að satt að segja held ég, að ekki hafi komið fram eitt einasta nýtt atriði í þeim ræðum, sem þeir hafa nú flutt, að undanteknu einu atriði í ræðu hv. 4. þm. Reykn. (JSk), sem er líka það atriði, sem gefur mér tilefni til að segja hér að lokum fáein orð. En það verð ég að segja, að allar þessar löngu ræður voru sannarlega þess virði, að þetta atriði kæmi fram og gæti gefið mér tilefni til þess að skýra það mál, sem þar er um að ræða.

Ég hefði satt að segja gjarnan viljað á mig leggja að sitja undir helmingi lengri umr. en þessum, ræðum um ekki neitt, til þess að fá þetta eina atriði fram, sem kom fram í ræðu hv. 4. þm. Reykn. En áður en ég vík að því, vil ég vekja athygli á, að það var eitt af aðalatriðum ræðu hv. 5. þm. Austf. (PÞ) að gagnrýna mig fyrir að hafa boðað þá kenningu, að það, sem hann kallaði gamla sjálfstæðishugtakið, væri nú úrelt, en með því á hv. þm. við það, að þjóðréttarfræðingar eru yfirleitt á þeirri skoðun, að þær þjóðréttarskuldbindingar, sem flestar menningarþjóðir hafa tekið á sig á síðari árum, einkum á árunum eftir styrjöldina, samrýmast ekki þeirri skilgreiningu á fullveldi, sem áður var almennt viðurkennd. Þess vegna segja nær allir málsmetandi þjóðréttarfræðingar, að hin gamla skilgreining á fullveldishugtakinu sé nú úrelt. Það er rétt, að ég hef tvisvar eða þrisvar sinnum opinberlega bent á þessa staðreynd. En ég var ekki fyrstur til þess hér á landi. Fyrstur til þess var sjálfur varaformaður Framsfl., Ólafur Jóhannesson prófessor, sem gerði þetta í mjög merkum háskólafyrirlestri á s.l. hausti, sem fjallaði einmitt um Efnahagsbandalagið, og Efnahagsbandalagið eða aukin alþjóðasamvinna varð honum tilefni til fræðilegrar útlistunar á þessum atriðum. Ég var og er enn algerlega sammála þeim fræðilegu skýringum, sem fram komu í þessum merka fyrirlestri varaformanns Framsfl. Svo undarlega hefur hins vegar viljað til, að þó að efni hans hafi verið birt í blaði flokksins, Tímanum, þá hefur ekki það blað og mér vitanlega enginn framsóknarmaður séð ástæðu til þess að ráðast á varaformann Framsfl. fyrir að vera að boða kenningar um úrelt fullveldishugtak eða úrelt sjálfstæðishugtak, og ekki undirstrikað það, að hann væri að boða þjóðhættulegar skoðanir. En þegar ég hins vegar í eitt eða tvö skipti og sérstaklega eitt skipti segi efnislega það sama, sem varaformaður Framsfl. hafði sagt mörgum mánuðum á undan mér og meira að segja í alveg sama ræðustólnum, þá er ég allt í einu farinn að boða þjóðhættulegar skoðanir, og þetta bergmálar svo í ræðum manna hér á hinu háa Alþingi, eins og í ræðu hv. 5. þm. Austf. hér áðan. Þessu þarf ég ekki að svara meir að öðru leyti en því að benda á, að í raun og veru hitti ádeila hans um þetta efni miklu frekar varaformann hans eigin flokks heldur en mig, því að hann er upphafsmaður þessara kenninga og fyrsti boðberi þeirra hér á Íslandi, en ekki ég. En þess vegna vek ég athygli á þessu atriði, að það snertir — óbeint þó — það atriði, sem ég vildi gera að umtalsefni og ræða hv. 4. þm. Reykn. gaf mér tilefni til, og nú skal ég snúa mér að því.

Hv. þm. sagði, að nokkur lönd, sem hann nefndi, hefðu gert tollasamninga við Efnahagsbandalagið, og hann sagði, eftir að ég hafði gripið fram í fyrir honum úr stóli mínum, þar sem mér satt að segja kom mjög undarlega fyrir sjónir, að hv. þm. væri að vitna til þessara samninga í sambandi við umr. um vandamál Íslands og tengsl þess við Efnahagsbandalagið, þá spurði ég hann, hvort hann teldi Íslendinga geta leyst vanda sinn með hliðstæðum hætti og þarna hefði verið um að ræða, og hann svaraði því játandi og endurtók meira að segja: því ekki það? Þannig eiga einmitt Íslendingar að leysa sinn vanda eftir tollasamningsleiðinni. Þarna er í fyrsta skipti komin nánari skýring á því, hvað framsóknarmenn virðast hugsa sér með tollasamningsleiðinni. Hingað til hafa þeir sagt: Við viljum ekki aukaaðild, við viljum tollasamning, án þess að segja nokkurn tíma, hvers konar tollasamning þeir vilja. En þarna kom yfirlýsingin, og það er enginn ómerkur þm., sem hana gefur, það er einn af efnilegustu yngri forustumönnum Framsfl., maður, sem ég held að allir telji að tali ekki af sér, hefur yfirleitt reynt að gera sér fyrir fram grein fyrir því, sem hann segir, og þess vegna full ástæða til þess að taka þetta alvarlega. Ég læt mér ekki detta í hug, að hv. þm. Jón Skaftason hafi ekki kynnt sér áður, um hvers konar samninga hér var að ræða, svo að ég geri ráð fyrir því, að hann viti, hvað hann var að segja með þessum ummælum sínum. Hvaða samningar eru þetta, sem hann vitnar til sem fyrirmyndar fyrir Íslendinga? Það eru samningar, sem gerðir voru í fyrra milli Efnahagsbandalagsins og nokkurra ríkja um gagnkvæma lækkun á nokkrum tollum á iðnaðarvörum á grundvelli alþjóðlega samkomulagsins um tolla og viðskipti, GATT. M.ö.o.: þessir samningar voru gerðir innan GATTs, á grundvelli GATT-reglnanna. Og þetta eru þeir samningar, sem nú er af hálfu Framsfl. bent til að eigi að vera okkur Íslendingum fyrirmynd.

Í fyrsta lagi er þess að geta, að Íslendingar eru ekki í GATT. Forsenda þess, að við gætum gert slíka samninga, hlyti því að vera sú, að við gengjum í GATT. Ég get því ekki skilið þessi ummæli hv. þm., málsvara Framsfl., öðruvísi en þannig, að Framsfl. mæli með því, að Íslendingar gangi í GATT, vegna þess að að öðru leyti er út í bláinn að tala um þessa samninga sem fyrirmyndarlausn á viðskiptavandamálum Íslendinga í sambandi við stofnun Efnahagsbandalagsins. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. tali ekki svona, nema hann viti, hvað það þýðir að vera aðili að GATT, en Íslendingar eru það ekki. Nú harma ég það, að klukkan skuli vera 19.30 að kvöldi, en ekki 13.30 á degi, því að um þetta vil ég gjarnan fá tækifæri til að tala nokkru nánar, en það verð ég því miður að neita mér um.

Ég skal aðeins segja það í örfáum setningum, að þeir, sem ganga í GATT, aðildarríkin í GATT, hafa skuldbundið sig til þess m.a. að hækka enga tolla frá því, sem er, þegar þau ganga í GATT. Það eru gerðir samningar um það, að flesta tolla verður yfirleitt að festa. Þau ríki, sem ganga í GATT, geta yfirleitt ekki hækkað tolla sína eftir inngönguna, það gildir að langflestu leyti. Undantekningar eru til frá því. Aðalreglan við inngöngu í GATT er einmitt sú, að þær þjóðir, sem í GATT ganga, festa sína tolla. Það er aðalreglan. Nú má náttúrlega hver sem vill leika sér að því að velta fyrir sér, og því skýt ég að hv. 5. þm. Austf., hvort það sé skerðing á fullveldi, skerðing á sjálfstæði að undirskrifa skuldbindingu um það að hækka yfirleitt ekki tolla, nema í alveg sérstökum tilvikum. Það er umhugsunarefni fyrir hv. þm. yfir helgina.

Í öðru lagi er það önnur meginskuldbinding, sem þjóðir, sem ganga í GATT, gangast undir, að gera ekki aðrar ráðstafanir, sem jafngildi tollahækkun. T. d. má ekki innleiða ný höft, og það má ekki lögtaka útflutningsbætur. Þeir, sem ganga í GATT, mega þannig ekki innleiða ný höft, þeir verða að afnema höft, ef þau hafa verið fyrir hendi áður, í öllum aðalatriðum og alls ekki greiða útflutningsbætur. Þetta eru m.ö.o. skuldbindingarnar, sem nú hefur verið lýst yfir af hálfu málsvara Framsfl., að flokkurinn vilji láta Íslendinga undirgangast. (JSk: Þetta er nú ekki að snúa út úr? ) Það er ekki hægt að gera hliðstæðan samning með öðru en að ganga í GATT, og þetta eru skilyrði fyrir inngöngu í GATT. (EystJ: Ég vorkenni ráðh.) Það er alveg óþarfi. Nú fer ég að vorkenna Eysteini Jónssyni eftir þetta. Það er áreiðanlegt. (EystJ: Var ráðh. sagt erlendis, að það væri skilyrði fyrir tollasamningi, að Ísland gengi í GATT? Vill hann ekki svara því?) Það er skilyrði fyrir þeim samningum, sem hv. þm. var að vitna í, það vona ég, að formaðurinn hafi heyrt. Eða er formaðurinn nú farinn að skammast sín fyrir þennan þm. líka, eins og hann hefur gert um fleiri? (Forseti: Ekki samtal. Hæstv. ráðh. heldur áfram ræðu sinni.)

Þetta er bara byrjunin, nú kemur framhaldið. Þá er það að segja um þessa samninga í fyrra innan GATT, sem hv. þm. vitnaði til sem fyrirmyndar fyrir væntanlega samninga Íslendinga, að þeir fjölluðu ekki um neinar matvörur, þeir fjölluðu eingöngu um iðnaðarvörur, og það er yfirlýst stefna Efnahagsbandalagsins í þessum samningum að ræða ekki tollalækkanir á matvörum, og hin sama er stefna Efnahagsbandalagsins í hinum væntanlegu tollasamningum, að þar er Efnahagsbandalagið ekki reiðubúið til þess að ræða tollalækkanir á matvörum og þ. á m. ekki á sjávarafurðum. (Gripið fram í.) Þeir gerast órólegir, stjórnarandstæðingar, það er nauðsynlegt að þagga niður í þeim. Þegar af þessari ástæðu er líka alveg augljóst mál, að þessir samningar, sem þarna voru gerðir, geta — ég segi: því miður ekki verið neins konar fyrirmynd fyrir Íslendinga að samningum til þess að leysa þeirra vandamál. Það væri alveg sérstakt vandamál, sem alls ekki hefur verið tekið á dagskrá, hvort Efnahagsbandalagið yfir höfuð að tala vill ræða lækkun á landbúnaðarvörum og sjávarafurðum. Það er það, sem ríkisstj. hefur talið vera eitt mesta vandkvæðið í sambandi við tollasamningsleiðina, að enn hefur Efnahagsbandalagið ekki viljað viðurkenna, það hefur engin yfirlýsing verið gefin af þess hálfu, að það sé reiðubúið til þess að ræða um lækkun tolla á landbúnaðarvörum, að sjávarafurðum meðtöldum. Það er þetta fyrst og fremst, sem hefur gert ríkisstj. uggandi um, að eðlilegt mundi vera að leysa viðskiptavandamál Íslendinga eftir tollasamningsleiðinni, þó að við höfum a.m.k. talið sjálfsagt og réttmætt að útiloka þá leið ekki, í von um, að það verði stefnubreyting hjá Efnahagsbandalaginu að því leyti, að það sé einnig reiðubúið til þess í framtíðinni að ræða tollalækkun á landbúnaðarvörum og sjávarafurðum.

Þetta tvennt finnst mér taka af öll tvímæli um það, að eins og nú stendur geta þeir samningar, sem hv. þm. vitnaði til sem fyrirmyndar fyrir Íslendinga, ekki skoðazt sem fyrirmynd að lausn á vanda Íslendinga í dag, annars vegar af því, að við erum alls ekki í þeim samtökum, sem voru grundvöllur tollasamninganna, við erum fyrir utan þau, og í öðru lagi, að samningarnir voru ekki og gátu ekki verið um landbúnaðarvörur né sjávarafurðir. Engu að síður þykir mér vænt um, að þessi yfirlýsing kom, þó að hún sé byggð á misskilningi, — ég vil kalla þetta misskilning og ekki annað, — en engu að síður er yfirlýsingin merkileg, vegna þess að ég get ekki skilið hana öðruvísi en hún sé meðmæli af hálfu hv. 4. þm. Reykn, með því, að við öflum okkur aðstöðu til þess að gera slíka samninga við Efna. hagsbandalagið. En þá verðum við að ganga í GATT með þeim kvöðum, sem því fylgja.

Að síðustu skal ég svo segja það, að ástæðan til þess, að við höfum ekki gengið í GATT, er að sjálfsögðu sú, að því fylgja svo þungar kvaðir, — kvaðir, sem við hingað til höfum ekki viljað taka á okkur. Ég skal geta þess, að sú stefna í efnahagsmálum, sem fylgt var á stjórnartíma stjórnar Hermanns Jónassonar, var algerlega ósamrýmanleg grundvallarreglum GATTs. Ísland hefði ekki fengið inngöngu í GATT á stjórnartíma Hermanns Jónassonar. M.ö.o.: ef við eigum að verða aðilar að GATT, eins og hv. 4. þm. Reykn. nú virðist mæla með, þá verður að skuldbinda okkur til þess að fylgja aldrei framar stefnu stjórnar Hermanns Jónassonar í efnahagsmálum. Og taki hv. þm. nú vel eftir: Ef við göngum í GATT, eins og hv. þm. virðist nú mæla með, þýðir það yfirlýsingu um, að Íslendingar megi aldrei framar taka upp þá stefnu, sem stjórn Hermanns Jónassonar fylgdi, því að útflutningsbætur eru óheimilar, og innheimta innflutningsgjalda í því skyni, sem hún þá var gerð, er líka óheimil. Nú getur hv. þm. Páll Þorsteinsson velt því líka fyrir sér yfir helgina, hvort kenning Jóns Skaftasonar, sem ég hlýt að skilja svo, að Íslendingar eigi að ganga í GATT, sé samrýmanleg fullveldishugtakinu.