16.04.1963
Sameinað þing: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

Þjóðhags- og framkvæmdaáætlun

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Í yfirlýsingu þeirri um stefnu ríkisstj., sem ég flutti á Alþingi hinn 20. nóv. 1959, var skýrt frá því, að ríkisstj. mundi taka upp samningu þjóðhagsáætlunar, er verða skyldi leiðarvísir stjórnarvalda og banka um markvissa stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, beita sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnuveganna um land allt og undirbúa nýjar framkvæmdir til hagnýtingar á náttúruauðlindum landsins.

Fyrst í stað varð ríkisstj., eins og kunnugt er, að einbeita sér að lausn þeirra brýnu efnahagsvandamála, sem fyrir lágu, þegar hún tók við völdum. Það var ekki fyrr en seint á árinu 1960, að unnt var að snúa sér að athugun á gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlunar, sem í upphafi var ætlað að gilti fyrir tímabilið 1962–1966. Um algera nýjung var hér að ræða, og kom þá fljótlega í ljós, að á þessu starfi mundu verða miklir örðugleikar. Í fyrsta lagi var engin stofnun til í landinu, sem starfað gæti að slíku verkefni undir forustu ríkisstj. Í öðru lagi voru þeir íslenzku sérfræðingar, sem kunnáttu og reynslu höfðu á þessu sviði, önnum kafnir við önnur störf. Í þriðja lagi skorti margvíslegar upplýsingar um atvinnulífið, fullkomna þjóðhagsreikninga og áætlanir og athuganir í einstökum greinum, framkvæmda- og atvinnulífsins, sem nauðsynlegar eru við gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlana. Ríkisstj. taldi því ekki, að unnt væri að framkvæma þetta verk, nema til kæmi í upphafi tækniaðstoð erlendis frá. Sneri ríkisstj, þess vegna sér í þessu skyni til Efnahags- og framfarastofnunarinnar í París, sem m.a. hefur það verkefni að veita aðildarríkjum sínum aðstoð af þessu tagi. Jafnframt leitaðist ríkisstj. fyrir um það hjá norsku ríkisstj., hvort tök mundu á því að fá norska sérfræðinga til þessara starfa. En gera mátti ráð fyrir, að reynsla Norðmanna í þessum efnum mundi geta komið að meira gagni hér á landi en reynsla annarra Þjóða.

Efnahags- og framfarastofnunin og norska ríkisstj. tóku þessari málaleitun af miklum velvilja, og það varð úr, að 3 norskir hagfræðingar, sem þá höfðu nýlokið við undirbúning að norskri framkvæmdaáætlun, komu hingað til landsins á miðju ári 1961 og dvöldust hér um hálfs árs skeið. Höfðu þeir aðsetur í Framkvæmdabanka Íslands, en með þeim starfaði nefnd íslenzkra embættismanna. Því miður gat dvöl þeirra ekki orðið lengri en þetta sökum anna heima í Noregi. Norsku hagfræðingarnir unnu hér ágætt starf, ekki sízt þegar tillit er tekið til, að hér var um brautryðjendastarf að ræða. Vegna þeirra erfiðleika, sem ég áðan nefndi, reyndist tíminn hins vegar of skammur til þess, að unnt væri að ljúka áætlunargerðinni, áður en þeir færu. Íslenzkir sérfræðingar urðu að halda starfinu áfram. Til þess að þetta væri unnt, þurfti að setja á fót stofnun, er helgað gæti sig þessu starfi og stæði í nánum tengslum við ríkisstj. og þær opinberu stofnanir, sem eiga mestan hlut að stjórn efnahagsmála. Varð það úr, að ríkisstj., Framkvæmdabankinn og Seðlabankinn komu sér saman um að setja á fót slíka stofnun, Efnahagsstofnunina. Tók hún til starfa í ágústmánuði s.l. og hefur síðan unnið að því undir forustu ríkisstj. að fullgera þjóðhags- og framkvæmdaáætlun fyrir árin 1963–1966. Er grein gerð fyrir þessari áætlun í þeirri skýrslu ríkisstj., sem lögð var fyrir Alþingi hinn 10. apríl s.l.

Gerð þjóðhags- og framkvæmdaáætlana hefur rutt sér til rúms víða um heim á undanförnum árum. Litið er á slíkar áætlanir sem þýðingarmikið tæki við stjórn efnahagsmála, og er slíkt gagnlegt bæði til þess að stuðla að örum vexti þjóðarframleiðslu og eðlilegu jafnvægi í efnahagslífinu. Í Vestur-Evrópu hafa Frakkland, Holland og Noregur stuðzt við áætlunargerðir í stjórn efnahagsmála sinna síðan skömmu eftir að styrjöldinni lauk. Og nú nýlega hefur áætlunargerð verið hafin í Bretlandi.

Áætlunargerð hér á landi hlýtur að mótast af sérkennum íslenzks atvinnulífs og því stigi, sem þekking okkar í efnahagsmálum hefur náð. Sú þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem nú hefur verið gerð, er frumsmíð, sem er um margt ófullkomin, en er jafnframt vísir að nákvæmari og víðtækari áætlunum, sem væntanlega verða gerðar síðar meir.

Áætlunin er í fyrsta lagi almenn þjóðhagsáætlun, sem gerir grein fyrir því, hver þróun þjóðarbúskaparins geti verið á árunum 1963–1966, hve mikið þjóðarframleiðslan geti vaxið, hve mikið neyzla geti aukizt og hve miklu fjárfestingin geti numið. Jafnframt sýnir áætlunin þau markmið í þróun þessara meginþátta þjóðarbúskaparins, sem æskilegt er að ná, og gerir í stórum dráttum grein fyrir þeim leiðum, sem hægt er að fara til þess að ná þeim markmiðum. Ríkisstj. telur, að áætlun af þessu tagi sé þýðingarmikið tæki í stjórn efnahagsmála, vegna þess að hún sýnir á skýran og einfaldan hátt það svigrúm til vaxtar og aukningar, sem um getur verið að ræða í hverri grein þjóðarbúskaparins, og það samhengi, sem er á milli þessara greina.

Í öðru lagi er áætlunin framkvæmdaáætlun, sem sýnir þau markmið, sem ríkisstj. vill stefna að í framkvæmdum hins opinbera og í stuðningi hins opinbera við framkvæmdir einkaaðila á áætlunartímabilinu. Í þessu efni hefur að svo komnu máli ekki reynzt kleift að leggja fram sundurliðaðar og nákvæmar áætlanir fyrir allt áætlunartímabilið né gera grein fyrir þeim sérstöku ráðstöfunum, sem nauðsynlegar kunna að vera, til þess að hinum settu markmiðum sé náð á tímabilinu í heild. Stafar þetta af því, að áætlunargerð hér á landi er enn á frumstigi og mikið vantar á, að nægilegar upplýsingar og séráætlanir liggi fyrir um einstakar framkvæmdir og einstakar greinar efnahagslífsins. Slík sundurliðuð áætlun um framkvæmdir og fjárhagslegar aðgerðir hefur hins vegar verið gerð fyrir fyrsta ár tímabilsins, árið 1963, og fylgir hún skýrslunni sem sérstakt fylgiskjal. Ætlunin er, að sams konar áætlanir verði síðar gerðar fyrir árið 1964–1966.

Ég kem þá að því að ræða áætlunina sjálfa og forsendur hennar. Eins og óhjákvæmilegt er um allar áætlanir varðandi þróun mála fram í tímann, byggist sú þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. hefur lagt fram, á náinni athugun á reynslu fortíðarinnar og þeim lærdóm, sem af henni megi draga um framtíðina. Á undanförnum tveimur árum hefur verið lokið við að semja þjóðhagsreikninga fyrir árin 1965–1960 og bráðabirgðareikninga fyrir árin 1961 og 1962. Mynda þessir þjóðhagsreikningar þann tölulega grundvöll, sem áætlun ríkisstj. er reist á.

Síðustu tveir áratugir hafa verið mikið umbrotatímabil í þjóðarbúskap Íslendinga, og hefur þar mjög gætt áhrifa utan að, sem Íslendingar hafa sjálfir getað lítt við ráðið. Á styrjaldarárunum jókst þjóðarframleiðslan og þjóðartekjur mjög mikið, en sú aukning byggðist að mestu á sérstökum tímabundnum aðstæðum, en átti sér ekki eðlilega stoð í framleiðslukerfi landsmanna sjálfra. Áherzla var því á það lögð í lok styrjaldarinnar að búa landið nýjum framleiðslutækjum, svo að hægt væri að halda hinum háu tekjum styrjaldaráranna við nýjar og erfiðar aðstæður. Árangur þessarar miklu uppbyggingar var þó minni en vonir stóðu til, þar sem aflaleysi og verðfall útflutningsafurða lögðust á eitt um að þrengja hag þjóðarbúsins. Um skeið lækkuðu tekjur þjóðarinnar á mann ár frá ári, og það var ekki fyrr en um það bil 10 árum eftir lok styrjaldarinnar, eða á árinu 1954, sem þjóðartekjur á mann höfðu aftur náð sínu fyrra hámarki. Segja má, að um það leyti væri lokið hinni erfiðu aðlögun íslenzka efnahagskerfisins eftir umbrot styrjaldarinnar og fyrstu árin eftir stríðið.

Síðan á árinu 1954 hefur þjóðarframleiðslan vaxið að meðaltali um 4.1% á ári, en meðalvöxtur á mann hefur verið um 2%. Hins vegar hefur þjóðarframleiðslan vaxið mjög misjafnlega ört á þessu tímabili. Þegar aflabrögð og viðskiptakjör hafa verið hagstæðust, eins og á árunum 1955, 1958 og 1962, hefur vöxturinn verið allhraður, en mjög hægur þess á milli. Og eitt árið, 1957, minnkaði þjóðarframleiðslan lítið eitt. Það verður að telja, að vöxtur þjóðarframleiðslunnar á Íslandi á þessu árabili, þ.e.a.s. frá 1954–1962, hafi verið fremur hægur. Hann var t.d. hægari en í flestum iðnaðarlöndum Vestur-Evrópu, sérstaklega ef tillit er tekið til hinnar öru fólksfjölgunar.

Það er mikilvægt atriði, að reynt sé að gera sér grein fyrir því, hvað hafi valdið hinum tiltölulega hæga vexti þjóðarframleiðslunnar á þessu tímabili. Orsakanna virðist ekki vera að leita í lítilli fjárfestingu. Þvert á móti var fjárfestingin í atvinnumálum hér á landi heldur meiri að tiltölu en viðast hvar annars staðar, en fjárfesting í íbúðarhúsum og byggingum og mannvirkjum hins opinbera miklu meiri. Fámenni þjóðarinnar, víðátta landsins og óblíð náttúruöfl hafa áreiðanlega átt sinn þátt í því, að Íslendingar hafa ekki fengið sama ávöxt af erfiði sínu og aðrar þjóðir. Þetta er þó ekki meginskýringin á hinum tiltölulega hæga vexti þjóðartekna hér á landi.

Flest bendir til þess og þá ekki sízt samanburðurinn við reynslu annarra þjóða, að orsakanna til hins tiltölulega hæga vaxtar þjóðarframleiðslunnar hér á landi sé að leita í þeirri almennu stefnu, sem fylgt hefur verið í efnahagsmálum. Í nágrannalöndum okkar, þar sem tekizt hefur að viðhalda jafnvægi í efnahagsmálum samfara fullri atvinnu, en um leið hefur verið dregið úr tollvernd og hvers konar höftum og verðkerfið leiðrétt eftir aflögun styrjaldaráranna, hefur náðst tiltölulega ör vöxtur þjóðarframleiðslunnar. Hér á landi hefur hins vegar á sama tímabili ríkt jafnvægisleysi í efnahagsmálum, jafnframt því sem höftum og tollgjöldum og annarri aflögun verðkerfisins, sem til kom á kreppu- og styrjaldarárunum, hefur verið haldið að miklu leyti. Þetta ástand hefur ekki verið til þess fallið að hvetja atvinnurekendur eða starfsfólk til að vinna sem skyldi að umbótum í rekstri, og það hefur beint þróun atvinnulífsins að nokkru inn á aðrar brautir en æskilegt hefði verið og orðið til þess, að miður hagkvæmar framkvæmdir hafa oft og tíðum setið í fyrirrúmi fyrir þeim, sem mikilvægari voru. Lítill vafi er á, að það er einmitt þetta, sem því veldur, hversu hægfara hagvöxturinn hefur verið á Íslandi.

Höftin, tollböndin og önnur aflögun verðkerfisins hér á landi varð að mestu leyti til á kreppuárunum fyrir stríðið og á tímum efnahagserfiðleika eftir styrjöldina. Þá voru þessar ráðstafanir tilraun þjóðar, sem átti efnahagslega í vök að verjast, til þess að verjast áföllum og viðhalda sæmilegum lífskjörum. En eins og oft vill verða, hefur gengið seint að breyta þeim hugsunarhætti, sem mótaðist af hinni erfiðu reynslu þessara ára. Atvinnurekendur hafa haft tilhneigingu til þess að vantreysta getu sinni til þess að standast samkeppni á erlendum og innlendum mörkuðum, og almenningur hefur óttazt um of um lífskjör sín og atvinnuöryggi. Þjóðin hefur í efnahagsmálum verið of mikið í vörn í stað þess að vera í sókn, fylgt verndarstefnu, en ekki vaxtarstefnu. Hér þarf að verða breyting á, en það er einmitt einn megintilgangur þeirrar framkvæmdaáætlunar, sem ríkisstj. nú hefur lagt fram, að stuðla að því, að hún geti átt sér stað. Skilyrði eru nú á ýmsan hátt betri en áður til þess, að unnt sé að ná tiltölulega örum vexti þjóðarframleiðslunnar: Tekizt hefur á undanförnum þremur árum að koma á sæmilegu jafnvægi í efnahagsmálum og styrkja stöðu þjóðarbúskaparins út á við. Þekking og skilningur á vandamálum efnahagslífsins hefur aukizt og meiri reynsla fengizt á stjórn efnahagsmála. Svo mikil trygging á nú að hafa fengizt fyrir því, að full atvinna og almenn velmegun geti haldizt, að þau verndar- og öryggissjónarmið, sem eiga rætur sínar í reynslu kreppuáranna og erfiðleikaáranna eftir styrjöldina, þurfa ekki lengur að vera eins þung á metaskálunum og áður. Það á því að vera unnt að móta heilsteypta stefnu í efnahagsmálunum, er miði að örum vexti þjóðarframleiðslunnar, án þess að stefna öryggi og lífskjörum í tvísýnu, eins og menn hafa óttazt áður fyrr.

Það er þó engu að síður ekki hægt að búast við því, að breytt stefna í efnahagsmálum beri fullan ávöxt tafarlaust. Sama máli gegnir um aukna viðleitni atvinnurekenda, starfsfólks og samtaka þeirra til að örva þjóðarframleiðsluna. Þegar við þetta bætist, að horfur í viðskiptamálum erlendis eru að ýmsu leyti ískyggilegar fyrir aðalútflutningsframleiðslu okkar, hefur ekki verið talið rétt að gera ráð fyrir því, að vöxtur þjóðarframleiðslunnar verði meiri að meðaltali á áætlunartímabilinu en hann hefur verið á undanförnum árum, þ.e.a.s. 4% á ári.

Þessi áætlun um aukningu þjóðarframleiðslunnar um 1% á ári gefur til kynna, hve mikið búast megi við, að þjóðin hafi til ráðstöfunar til að mæta daglegum þörfum sinum, búa í haginn fyrir framtíðina og styrkja aðstöðu þjóðarbúsins út á við. Jafnframt því að meta, hve mikið ráðstöfunarfé þjóðarinnar verður, er það megintilgangur þjóðhags- og framkvæmdaáætlunarinnar að marka ákveðna stefnu varðandi það, hvernig hagstæðast sé að nota þau verðmæti, sem til ráðstöfunar verða, til að bæta hag þjóðarinnar í bráð og lengd. Það er þýðingarmikið atriði í framþróuninni, að eðlilegt samræmi sé á milli vaxtar einstakra þátta þjóðarbúskaparins. Þeir höfuðþættir, sem taka verður til athugunar, eru gjaldeyrisaðstaða þjóðarinnar, einkaneyzla, samneyzla og fjárfesting. Að hverju ber að stefna varðandi hvern þessara þátt á næstu árum? Ber að leggja mesta áherzlu á eflingu gjaldeyrisstöðunnar, aukningu einkaneyzlu, samneyzlu eða fjárfestingar? Ég mun nú gera grein fyrir niðurstöðum ríkisstj. varðandi það, hvernig þjóðinni beri að velja í þessu efni, og um leið skýra helztu þætti áætlunarinnar.

Á undanförnum þremur árum hefur verið lögð á það mikil áherzla að styrkja stöðu landsins út á við. Sú aukning þjóðarframleiðslunnar, sem orðið hefur á þessu tímabili, hefur að verulegu leyti verið hagnýtt í þessu skyni. Stórkostlegur árangur hefur náðst í þessum efnum, og batnaði gjaldeyrisstaða bankanna um tæpar 1300 millj. kr. á árunum 1960–1962. Þótt enn sé mikilvægt, að gjaldeyrisforðinn haldi áfram að aukast, telur ríkisstj. ekki nauðsynlegt að leggja á þetta sömu áherzlu og gert hefur verið á undanförnum árum vegna þess mikla árangurs, sem þegar hefur náðst. Verður því á næstu árum meira svigrúm til aukningar neyzlu og fjárfestingar en verið hefur undanfarin ár.

Ríkisstj. telur þýðingarmikið, að aukning þjóðarframleiðslunnar leiði fljótlega til betri lífskjara og þar með aukinnar einkaneyzlu. Hins vegar telur hún, að einkaneyzla geti ekki til lengdar vaxið hraðar en þjóðarframleiðslan í heild, án þess að það leiði til skerðingar á stöðu landsins út á við og til minni fjárfestingar, er fljótlega mundi sýna sig í hægari hagvexti. Í áætluninni er því gert ráð fyrir, að einkaneyzla vaxi lítið eitt hægar en þjóðarframleiðslan, eða um 3.8% á ári: Jafngildir þetta því, að einkaneyzla á mann aukist um 2% á ári að meðaltali. Með þessu móti skapast grundvöllur fyrir tiltölulega örum vexti sparnaðar og fjárfestingar og þar með traustari og örari vexti þjóðarteknanna, þegar fram í sækir. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að samneyzla, þ.e.a.s. sú þjónusta, sem hið opinbera lætur almenningi í té, vaxi um 5.7% á ári, eða 3.8% á ári á mann.

Þær forsendur, sem ég hef nú lýst varðandi þróun neyzlu og gjaldeyrisstöðu, munu leyfa verulega aukningu á fjárfestingu á næstu árum. Stefnir ríkisstj. að því, að fjárfesting geti aukizt á ári um 6.1% að meðaltali, en þetta mundi ásamt aukningu samneyzlu stuðla að örari og traustari hagvexti, þegar fram í sækir, og hjálpa til að fullnægja hinum miklu sameiginlegu þörfum þjóðarinnar. Fjárfestingin verður þó ekki meiri en svo, að það samrýmist jafnvægi í efnahagslífinu út á við og inn á við, og er gert ráð fyrir því, að fjárfestingin nemi í mesta lagi 26% af þjóðarframleiðslu á tímabilinu öllu að meðaltali.

Í fjárfestingaráætluninni er sérstök áherzla lögð á aukningu fjárfestingar í rafvæðingu, vegum, höfnum og opinberum byggingum, svo sem skólum, og er gert ráð fyrir, að fjárfestingin í þessu og hliðstæðum greinum aukist um 60%. Þótt fjárfesting á þessum sviðum hafi verið tiltölulega mikil hér á landi, blasa hvarvetna við verkefni, sem eru þess eðlis, að þau verða ekki leyst nema með miklu átaki. Batnandi lífskjör og aukinn bílakostur krefst stórátaka í vegamálum. Sístækkandi floti stórra og glæsilegra fiskibáta ásamt uppgangi útgerðarinnar um allt land kallar á stærri og öruggari hafnir. Fjölgun þjóðarinnar og síaukin þörf fyrir þekkingu og tækni krefst stóraukinna framkvæmda í skólamálum. Og loks bíður í íslenzkum fallvötnum og iðrum jarðar orka, sem nýta þarf til þess að færa yl og birtu inn á öll íslenzk heimili, en getur um leið orðið grundvöllur nýrra atvinnuvega þjóðarinnar, þjóðinni til hagsældar í framtíðinni.

Í atvinnuvegunum er stefnt að því, að fjárfesting aukist um 13%, miðað við árin 1957–1961, en jafnframt verði unnið að bættum rekstri og bættum vinnubrögðum. Er þannig stefnt að heldur minni aukningu fjárfestingar í atvinnuvegunum en nemur heildaraukningu fjárfestingarinnar, enda hefur fjárfesting á því sviði verið mjög mikil að undanförnu, ekki sízt vegna hinna miklu skipakaupa. Varðandi byggingu íbúðarhúsa stefnir ríkisstj. að því, að byggðar verði á árinu 1963 1300 íbúðir, en 1500 íbúðir að meðaltali á árunum 1964–1966. Þetta samsvarar því, að fjárfesting í íbúðarhúsum verði svipuð á áætlunartímabilinu og hún var á árunum 1957–1961 að meðaltali. En með þessari áætlun er stefnt að því að fullnægja þeim þörfum, sem aukin fjölskyldumyndun skapar, jafnframt því sem haldið er áfram að útrýma lélegu húsnæði og bæta húsnæðisástandið með líkum hætti og gert hefur verið undanfarinn áratug.

Ríkisstj. telur, að þau markmið þjóðhags- og framkvæmdaáætlunarinnar, sem ég hef nú lýst í aðalatriðum, séu þau, sem æskilegast sé fyrir þjóðina að keppa að á næstu árum. Telur ríkisstj. því rétt, að stefnan í efnahagsmálum miðist við það í aðalatriðum að ná þessum markmiðum. Á hitt er rétt að leggja áherzlu, að í áætluninni felst ekki nein fullyrðing um það, að þróunin verði sú, sem þar er gert ráð fyrir. Breyttar aðstæður geta gert aðra þróun óhjákvæmilega eða æskilega, auk þess sem frávik frá áætluninni geta átt sér sta.ð á einstökum árum tímabilsins.

Til þess að þróunin geti í aðalatriðum orðið sú, sem ríkisstj. gerir ráð fyrir í áætluninni, þarf nokkrum meginatriðum að vera fullnægt. Í fyrsta lagi þarf árferði innanlands að haldast tiltölulega gott, svo að atvinnuvegirnir geti þróazt með eðlilegu móti. Sömuleiðis þurfa markaðsaðstæður erlendis að haldast sæmilega góðar, enda er í áætluninni gert ráð fyrir því, að tekjur af útflutningi þurfi að aukast um 5% á ári, ef tryggja á 4% vöxt þjóðarframleiðslunnar. Í öðru lagi þarf jafnvægi að haldast í efnahagsmálum, svo að nægur sparnaður geti myndazt innanlands til þess að standa undir þeim framkvæmdum, sem ráðgerðar eru, og svo að hægt sé að beina þeim sparnaði þangað, sem áætlunin gerir ráð fyrir. Í þriðja lagi þurfa skilyrði að vera fyrir hendi til þess að afla nægilegs lánsfjár erlendis með hagstæðum kjörum, en áætlunin gerir ráð fyrir, að teknar verði um 600 milljón kr. að láni erlendis til langs tíma á hverju ári, en lántökur að þessu marki eiga ekki að hafa í för með sér aukna greiðslubyrði frá því, sem nú er. Á hinn bóginn er augljóst, að ekki verður unnt að afla svo mikils lánsfjár með eðlilegum hætti og sæmilegum kjörum, nema fylgt sé jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og gjaldeyrisforðinn haldi áfram að aukast og þar með traust þjóðarinnar út á við. Í fjórða og síðasta lagi er nauðsynlegt, að þau ráðuneyti og stofnanir, sem standa fyrir opinberum framkvæmdum, taki undir forustu ríkisstj. smátt og smátt upp þau vinnubrögð, sem framkvæmd áætlunarinnar krefst.

Líta ber á þjóðhags- og framkvæmdaáætlunina á árunum 1963–1966 fyrst og fremst sem yfirlitsáætlun, er hafi þann tilgang að marka höfuðlínur í þróun þjóðarbúskaparins. Hún hefur hins vegar ekki að geyma sundurliðaðar áætlanir um framkvæmd hins opinbera á þessu tímabili né um fjárhagslega aðstoð þess við framkvæmdir einstaklinga eða einstakra aðila. Á grundvelli þeirrar heildarstefnu, sem mörkuð er í áætluninni, þarf síðan að gera séráætlanir, bæði um þróun og framkvæmdir á einstökum árum áætlunartímabilsins og um þróunina í atvinnuvegum og mikilvægum þáttum þjóðarbúskaparins. Fyrsta skrefið hefur verið stigið í þessa átt með áætlun þeirri, sem samin hefur verið fyrir árið 1963, og að nokkru leyti árið 1964, um helztu tegundir opinberra framkvæmda og starfsemi opinberra fjárfestingarsjóða og fjáröflun vegna þeirra. Jafnframt hefur verið hafinn undirbúningur að slíkum séráætlunum fyrir lengri tíma.

Áætlun ríkisstj. um fjárfestingu og fjáröflun á árinu 1963 er birt í sérstöku fylgiskjali með heildaráætluninni. Þar er gert ráð fyrir, að fjárfesting á árinu 1963 verði 3220 millj. kr., en það er um 19% hækkun frá árinu 1962. Hækkun verður á öllum aðalgreinum fjárfestingar í atvinnuvegum, íbúðarhúsum, mannvirkjum og byggingum hins opinbera, en rúmur helmingur hækkunarinnar stafar þó eingöngu af aukningu á innflutningi fiskiskipa. Til þess að þessi fjárfesting verði framkvæmd á skipulegan hátt og samfara jafnvægi í efnahagsmálunum, hefur ríkisstj. gert margvíslegar ráðstafanir varðandi öflun fjármagns á heilbrigðan hátt og skiptingu þess milli einstakra þarfa. Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til fjáröflunar vegna framkvæmda á árinu 1963, eru fyrst og fremst fólgnar í tvennu: Annars vegar hefur verið tekið stórt framkvæmdalán með lánsútboði á fjármagnsmarkaðinum í London í des. s.l., en hins vegar hefur verið samið við innlendar peningastofnanir um, að þær legðu hluta af þeirri sparifjármyndun ársins, sem þær ráða yfir, til þeirra þarfa, sem áætlun ríkisstj. gerir ráð fyrir að leysa. Hefur þegar verið samið við banka og helztu sparisjóði um, að þeir láni 15% af aukningu innstæðna á árinu til þessara þarfa. Enn fremur hefur verið lokið samningum við atvinnuleysistryggingasjóð, rn viðræður við tryggingafélög og lífeyrissjóði eru um það bil að hefjast.

Þessi fjáröflun ásamt framlögum á fjárl., eigin tekjum fjárfestingarlánastofnana og lánsfé, sem fyrir var, hefur gert ríkisstj. kleift að leysa á heilbrigðan, en stórhuga hátt úr fjárþörf til fjárfestingarlánasjóða og framkvæmda hins opinbera. Tryggt hefur verið nægilegt fjármagn til starfsemi fiskveiðasjóðs, en auk þess hefur ríkisstj. aflað 55 millj. kr. til áframhaldandi uppbyggingar í fiskvinnslu og fiskiðnaði. Iðnlánasjóður hefur nú verið efldur, bæði með nýrri löggjöf og fjáröflun innan áætlunarinnar, svo að hann mun nú í fyrsta sinni verða sambærileg lyftistöng fyrir iðnaðinn og aðrir fjárfestingarsjóðir hafa reynzt fyrir þá atvinnuvegi, sem þeir hafa þjónað. Stofnlánadeild landbúnaðarins hefur verið tryggt meira lánsfé en nokkru sinni fyrr, og hagur hennar stendur nú á traustum grundvelli eftir þá fjárhagslegu endurskipulagningu, sem ríkisstj. beitti sér fyrir á s.l. ári. Á vegum ríkisins verður um margar mikilsverðar framkvæmdir að ræða á árinu. Hafnar verða framkvæmdir við landshafnirnar í Keflavík-Njarðvík og á Rifi, en jafnframt verður haldið áfram miklum hafnarframkvæmdum í Þorlákshöfn og víðs vegar um landið. Auk þeirra framkvæmda, sem ákveðnar eru á fjárl., verður í vegamálum unnið að byggingu Reykjanesbrautar, Ennisvegar á Snæfellsnesi og Strákavegar við Siglufjörð. Haldið verður áfram framkvæmdum í raforkumálum samkvæmt tíu ára áætluninni, lokið verður stækkun Írafossstöðvar og hafizt handa um nýja virkjun fyrir Suðvesturland, en tæknilegum athugunum í því máli er enn ólokið. Loks hefur verið tryggt miklu meira lánsfé til íbúðalána en nokkru sinni fyrr, og er gert ráð fyrir, að hið almenna veðlánakerfi hafi til útlána á árinu 110 millj. kr. auk stóraukinnar fjáröflunar til byggingarsjóðs verkamanna.

Ég mun ekki rekja fjárhagsáætlun ársins 1963 frekar, en ég vil fullyrða, að með henni, eins og þjóðhags- og framkvæmdaáætluninni í heild, sé brotið blað í stjórn efnahagsmála hér á landi og tekin upp betri og skipulegri vinnubrögð en áður hafa þekkzt.

Ríkisstj. leggur þá þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem ég hef hér lýst í meginatriðum, ótrauð undir dóm þjóðarinnar. í henni eru engar gyllingar um framtíðina eða tylliboð. Þvert á móti felur hún í sér raunhæft mat, ég mundi jafnvel segja varlegt mat á því, hver framleiðslugeta íslenzku þjóðarinnar verði á komandi árum og hvað hún geti veitt sér til daglegrar neyzlu og ráðizt í að framkvæma. Áætluninni er hins vegar ekki ætlað að verða þröngt sniðinn stakkur, er hefti frjálsar athafnir manna eða þrengi þeim í eitt mót. Hana ber öllu fremur að skoða sem leiðarvísi og stefnumið fyrir alla þá, sem framkvæmdum ráða, hvort sem það eru stjórnarvöld, atvinnurekendur eða einstaklingar. Hún á m. ö. o. að sýna þjóðinni, hvaða markmiðum hún getur náð, ef hún sameinar krafta sína að einu marki, og hún mun þannig ekki hindra menn eða hefta, heldur leysa öfl framtaks og dugnaðar úr læðingi með því að gefa þeir raunhæft markmið að stefna að.

Framkvæmdaáætlunin er þannig eðlilegt framhald þeirrar stefnu, sem ríkisstj. hefur fylgt, síðan hún tók við völdum haustið 1959. Ríkisstj. hefur tekizt að sigrast á hinum stórkostlegu efnahagsörðugleikum, sem þá steðjuðu að þjóðinni. Vofu gjaldeyrisskorts og greiðsluþrots erlendis hefur verið bægt frá dyrum. Margvísleg höft og hömlur á athafnafrelsi manna hafa verið afnumin. Komizt hefur á betra jafnvægi í efnahagsmálum en þekkzt hefur um margra ára skeið. Og traust þjóðarinnar út á við hefur verið endurreist að fullu.

Með þessum mikla árangri hefur tekizt að leysa að miklu leyti vandamál, sem legið hafa eins og mara á stjórn efnahagsmálanna og á athafnaþrá þjóðarinnar um langt skeið. En jafnframt hefur með honum verið lagður raunhæfur grundvöllur að þeim miklu framförum, sem áætlunin gerir ráð fyrir. Eftir lausn þeirra þrálátu efnahagsörðugleika, sem íslenzka þjóðin hefur átt við að etja, er nú hægt að beina huganum fram á við að þeim stóru og miklu verkefnum, sem óleyst eru í íslenzku atvinnulífi. Of lengi hefur kröftum þjóðarinnar verið eytt til ónýtis í þras og deilur um vandamál líðandi stundar í stað þess að horfa til framtíðarinnar og sameinast um heilbrigða uppbyggingarstefnu, er miðaði að aukningu þjóðarframleiðslunnar og bættum lífskjörum. Þannig er heilbrigð stefna í efnahagsmálum og skipuleg og traust uppbygging atvinnulífsins tengd órofa böndum. Það er því ætlun þeirra flokka, sem að ríkisstj. standa, að fylgja á næsta kjörtímabili þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið af athöfnum ríkisstj. á undanförnum árum og þeirri þjóðhags- og framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. hefur nú lagt fram.