16.04.1963
Sameinað þing: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1900 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

Þjóðhags- og framkvæmdaáætlun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Sú ræða, sem hæstv. forsrh. var að enda við að flytja, gæfi í raun og veru tilefni til þess að gera hér einhvers konar úttekt á efnahagsmálastefnu ríkisstj, og hennar ferli í þeim efnum, sérstaklega niðurlag ræðunnar. En ég mun ekki gera mjög mikið að þessu í þeim orðum, sem ég segi hér, vegna þess að fram undan eru almennar umr., eins og kunnugt er, annað kvöld og þar næsta kvöld um þessi efni. Mun ég því ekki ræða þau nema að því leyti, sem mér sýnist brýna nauðsyn bera til í sambandi við þjóðhagsáætlun þá, sem hæstv. forsrh. sagði Alþingi frá í þessari ræðu, sem hann var að enda við að flytja.

Þegar þessi þjóðhagsáætlun er lögð á borð þm., mun láta nærri, að eftir séu fjórir vinnudagar af því tímabili, sem Alþingi hefur verið ætlað að starfa. Það er búið að rjúfa þingið, og munu vera u.þ.b. fjórir venjulegir vinnudagar eftir, þegar þessi áætlun er lögð hér á borðin hjá mönnum, miðað við það, að þinglausnir geti átt sér stað á laugardag, sem ég býst nú sannast að segja við að mönnum þyki nauðsynlegt, þar sem kosningar hafa nú verið ákveðnar þegar 9. júní.

Það er því ekki hægt að gera ráð fyrir, að menn séu sérstaklega kunnugir einstökum atriðum þjóðhagsáætlunarinnar, þeir sem ekki hafa neitt verið til kvaddir varðandi undirbúning hennar að neinu leyti, og því varla hægt að búast við því, að tök séu á að ræða hana hér á Alþingi á þá lund, enda í raun og veru ekki til þess ætlazt, eins og við sjáum á meðferð málsins, og raunar ekki heldur þegar þess er gætt, að þessari áætlun fylgir ekkert frv. og engin till. til Alþingis. Hér er um skjal að ræða, sem hæstv. ríkisstj. hefur samið á hné sér undanfarið og þm. er látið í té og hæstv. forsrh. segir mönnum frá hér í Sþ., en það fylgir þessu ekkert frv. og engin ályktunartill. eða neitt þvílíkt.

Nú er lengi búið að boða framkvæmdaáætlun á vegum ríkisstj. Hefur venjulega verið sagt, að það væri á leiðinni framkvæmdaáætlun til fimm ára. En nú kemur í ljós, að hæstv. ríkisstj. hefur samið framkvæmdaáætlun til eins árs og tæplega þó, þ.e.a.s. fyrir það, sem eftir er af þessu ári, hefur verið samin framkvæmdaáætlun, en á hinn bóginn hefur verið samin almenn þjóðhagsáætlun fyrir fjögur ár og sett í þetta skjal, sem hæstv. forsrh. var að lýsa.

Þetta skýtur nokkuð skökku við þær fyrirætlanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur látið uppi um þessi efni bæði fyrr og síðar, og strax 31. des. 1960 lýsti núv. hæstv. forsrh. yfir, að ákveðið hafi verið þá þegar að semja stórhuga framkvæmdaáætlun fyrir næstu árin, þ.e.a.s. fyrir verulegan hluta af því kjörtímabili, sem nú er að enda. Og fleiri ráðherrar hafa vikið að þessu sama og þm. úr liði hæstv. ríkisstj., og um haustið 1961 t.d. var því lýst yfir, að eftir framkvæmdaáætluninni nýju ætti að starfa frá ársbyrjun 1962. Var þá um haustið mikið rætt um, að framkvæmdaáætlunin væri alveg að koma og eftir henni ætti að fara síðari hluta kjörtímabilsins, sem nú er að enda.

Það kom greinilega fram 25. maí 1962 í ræðu, sem Bjarni Benediktsson flutti á aðalfundi Vinnuveitendasambandsins, að þá var til eitthvert plagg, sem kallað var framkvæmdaáætlun, en var þá sagt, að ekki þætti tímabært að leggja fram eða láta ganga í gildi. Á hinn bóginn fylgdu engar skýringar um, hvers vegna slíkt væri ekki tímabært. En það er sagt þar, að slík áætlun sé þá til. Ég veit ekki, hvort þar hefur verið átt við þessi drög, sem Norðmennirnir gerðu og nú er sagt að hafi þurft að umsteypa að mestu leyti, eða hvað við er átt.

En það er augljóst af öllum þessum vinnubrögðum við þessa áætlun, að eftir því sem ríkisstj. hefur íhugað þetta nánar, hefur hún komizt fastar og fastar að þeirri niðurstöðu að þessar áætlanir, hvað sem þær ættu að heita, væri ekki rétt að leggja fram fyrr en rétt fyrir kosningar. Og það er augljóst, að öll þessi vinnubrögð hafa verið og eru miðuð við það að gera áætlunina áróðurs- og kosningareipi fyrir stjórnarflokkana, leggja hana fram rétt fyrir kosningarnar og láta enga reynslu vera búna að fást af því, hvernig framkvæmdaáætlanir á vegum þessa stjórnarmeirihluta reynast í framkvæmd. Það hefur sýnilega verið lagt höfuðkapp á að þurfa ekki að standa við neitt, sem sett yrði í slíkar áætlanir, fyrir kosningarnar og þess vegna sí og æ verið látið dragast úr hömlu að leggja áætlunina fram, þangað til svo nærri var komið kosningunum, að slíkt hefur verið talið óhætt.

Enn fremur geri ég ráð fyrir því, að eftir því sem það kom gleggra í ljós, að efnahagsmálastefna ríkisstj. mundi algerlega mistakast og viðreisnin fara gersamlega út um þúfur, eftir því muni hafa þótt nauðsynlegra að geyma að leggja fram framkvæmdaáætlun eða þjóðhagsáætlun, til þess að hafa, ef unnt væri, í slíkri áætlun eitthvað nýtt, eitthvað nýstárlegt, sem væri nýkomið fram fyrir kosningarnar og gæti leitt huga manna frá því, hvernig stjórninni hefði tekizt í efnahagsmálunum. Og það dylst auðvitað engum, að það er á þessa lund, sem með þessi mál er farið, og þetta er vinnuáætlunin.

En vegna þess, að það er út af fyrir sig merkilegt mál að reyna að gera þjóðhagsáætlun, þá tel ég mjög illa farið, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa tekið þann kost að halda á málinu á þessa lund, fyrsta þjóðhagsáætlunin, sem kemur fram á Íslandi, skuli augsýnilega vera gerð og með hana farið á þá lund, sem ég hef verið að lýsa, sem áróðursskjal, sem hent er fram rétt fyrir kosningar og ekkert er hugsað um að gera þannig úr garði, að hún geti orðið framkvæmd, fremur en verkast vill, og skal ég koma að því síðar að sýna alla þá fyrirvara, sem í þessari áætlun eru hafðir í þessu skyni.

Ég tel mjög illa farið, að það skuli vera haldið þannig á málinu, vegna þess að þótt þjóðhagsáætlun hér á Íslandi hljóti alltaf að verða nokkuð á reiki vegna þess, hversu framleiðslan er hér misjöfn, það eru mismunandi aflabrögð og margt fleira, sem kemur til greina, þá er samt sem áður rétt að reyna að gera þjóðhagsáætlanir, og hefur verið unnið að því æðilengi að undirbúa grundvöllinn fyrir slíku. M.a. átti ég á árum áður nokkurn þátt í því, að Framkvæmdabankanum var falið að fara að semja þjóðhagsreikninga með það fyrir augum, að þeir gætu smátt og smátt, eftir því sem þeir kæmust í betra lag, orðið grundvöllur að tilraunum í þá átt að gera þjóðhagsáætlun, jafnvel þótt við marga erfiðleika sé að etja í því sambandi einmitt hér hjá okkur vegna þess, hve okkar framleiðsla er misjöfn og fer eftir árferðinu meir en hjá flestum öðrum þjóðum.

Ég harma það þess vegna, að hæstv. ríkisstj. skuli halda svona á þessu máli. En það er enginn vafi á því, að hún ætlar að gera það. Það var líka auðheyrt á þeirri ræðu, sem hæstv. forsrh. flutti hér áðan, að það er meiningin, því að þegar leið á ræðuna, þá tók hann mjög að gylla fyrir mönnum þá glæsilegu framtíð, sem hér ætti að verða á grundvelli einmitt þessarar þjóðhagsáætlunar, sem samin hefði verið og væri í raun og veru stefna ríkisstj., og auðheyrt, að allur seinni hluti ræðunnar var beinlínis miðaður við það hjá hæstv. forsrh. að koma því inn hjá mönnum, að ef menn styddu núv. hæstv. ríkisstj., þá gætu þeir einmitt átt von á þeim framkvæmdum, sem í þjóðhagsáætluninni væru. Og það er þetta, sem er alveg sérstök ástæða til að deila á hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj. fyrir, eins og ég mun koma nokkru nánar að. Það er nefnilega verið að reyna og verður á næstu vikum reynt að koma því inn hjá þjóðinni, að þessi þjóðhagsáætlun sé annað og miklu meira en hún nokkurn tíma getur orðið eða getur veríð. Það verður reynt að koma því inn hjá þjóðinni. En jafnframt eru hafðir í áætluninni fyrirvarar, sem á að grípa til á eftir, þegar þeir, sem að henni standa, þ.e.a.s. hæstv. forsrh. og hæstv. ríkisstj., þurfa að afsaka sig á eftir.

Ég sagði áðan, að það, sem hér væri lagt fram, væri almenn þjóðhagsáætlun til 4 ára fyrst og fremst og framkvæmdaáætlun til 1 árs og tæplega þó. Og þá kemur spurningin: Hvað er almenn þjóðhagsáætlun? Eftir því sem hæstv. forsrh. talaði hér áðan, bæri sjálfsagt helzt að líta þannig á, að þjóðhagsáætlunin væri þær ákvarðanir, sem ríkisstj. hefur tekið um það, hvað gera skyldi á næstunni, ef hún og hennar flokkar fengju meiri hl. á Alþingi. Eftir málflutningi hæstv. forsrh. var eiginlega ekki hægt að skilja þjóðhagsáætlunina á aðra lund, og það er ætlun þeirra, að þjóðin skilji áætlunina þannig.

En nú skulum við athuga, hvað hæstv. ríkisstj. segir sjálf í formála fyrir áætluninni um það, hvað hún raunverulega er. Og þá er þar, með leyfi hæstv. forseta, fyrst þessi fyrirvari: „Þessar áætlanir,“ þ.e.a.s. almennar þjóðhagsáætlanir eins og sú, sem hér er gerð til fjögurra ára, „eru almenns eðlis. Þær fjalla ekki um þróunina í einstökum atriðum og fela ekki í sér ákvarðanir um framkvæmdir.“ á hinn bóginn hugsa ég, að flestir þeir, sem heyrðu ræðu hæstv. forsrh. hér áðan, mundu draga þá ályktun, að þessi áætlun fæli einmitt í sér þær framkvæmdir, sem stjórnarfl. hefðu ákveðið að gera, ef þeir fengju meiri hl., t.d. 50–60% aukning á framlögum til samgöngumála o.fl., o.fl., sem hæstv. forsrh. las. Vinnuaðferðin á sem sagt að vera þessi, að lesa upp úr áætluninni öll þessi fögru fyrirheit, en á hinn bóginn verður því minna haldið á loft, að í sjálfri áætluninni er það greinilega tekið fram, að í henni felist ekki ákvarðanir um framkvæmdir.

Síðan segir um þessa almennu þjóðhagsáætlun: „Það getur haft mikla þýðingu fyrir ákvarðanir einkafyrirtækja um starfsemi sína að vita, hvaða þróun framleiðslu, neyzlu og fjárfestingar stjórnarvöldin gera ráð fyrir á næstu árum.“ Ég vil ekki gera litið úr því, að reynt sé að semja þjóðhagsáætlanir, vegna þess að þær ættu að geta hjálpað mönnum til þess að átta sig á samhenginu í efnahagsmálunum. Það finnst mér vera aðalþýðing þeirra. Á hinn bóginn verð ég að segja, að mér finnst íslenzkir atvinnurekendur muni ekki geta mikið byggt á því, hvað hæstv. ríkisstj. áætlar að síldaraflinn verði mikill árið 1966, sem er auðvitað eitt undirstöðuatriðið í þessari þjóðhagsáætlun. Og menn geta svo dálítið séð, hvað þessi þjóðhagsáætlun er, á því, að grundvöllurinn í henni er auðvitað áætlun hæstv. ríkisstj. um það, hversu mikið muni aflast á þessum árum, hverju ári fyrir sig.

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta: „Mesta þýðingu hafa slíkar áætlanir þó fyrir sjálf stjórnarvöld landsins, þegar taka á ákvarðanir í peninga- og fjármálum, ákvarðanir um opinberar framkvæmdir og fjöldamargt annað. Séu áætlanir af þessu tagi fyrir hendi, er miklu frekar en ella hægt að taka slíkar ákvarðanir með tilliti til þeirra viðhorfa, sem búast má við að skapist á næstu árum.“

Síðan segir hæstv. ríkisstj., að ríkisstj. telji tímabært að hagnýta hér á landi þá tegund áætlunargerðar, sem fyrst var nefnd, þ.e.a.s. þjóðhagsáætlunargerðina, sem ég var að lýsa, þ.e.a.s. almennar þjóðhagsáætlanir. Hér á eftir sé slík áætlun birt fyrir árin 1963–1966. Síðan segir um þessa sömu þjóðhagsáætlun fyrir þessi ár, til þess að taka enn af allan vafa um, að ríkisstj. sé ekki bundin við neitt af því, sem í þessari áætlun er, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þjóðhags- og framkvæmdaáætlun áranna 1963–1966, sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan, hefur ekki að geyma sundurliðaðar áætlanir um framkvæmdir hins opinbera á þessu tímabili né um fjárhagslega aðstoð þess við framkvæmdir einkaaðila. Er grein gerð fyrir því í skýrslunni, hvers vegna ekki hafa að svo komnu máli verið tök á því að gera slíkar séráætlanir fyrir allt áætlunartímabilið. Slíkar áætlanir hafa hins vegar verið gerðar fyrir árið 1963, og er ráð fyrir því gert, að sams konar áætlanir verði gerðar fyrir síðari ár tímabilsins“ — og þá auðvitað síðar meir.

Hér eru fyrirvarar eins rækilegir og hugsazt getur, en samt sem áður eru mýmargir aðrir fyrirvarar um þjóðhagsáætlunina, eins og t.d. um árferði og jafnvægi í efnahagsmálum og ótal slík atriði, og er víst alveg óhætt að segja, að það er ekki mikil áhætta, sem í því felst fyrir hæstv. forsrh. að lýsa yfir með þessum fyrirvörum, að framkvæmdir í samgöngumálum muni væntanlega vaxa um 50–60% á næstu árum, og öðru eftir því, ef stjórnin komi fram stefnu sinni, það sé í raun og veru fólgið í þessari áætlun. Það er ekki mikil áhætta í því fyrir hæstv. forsrh., með þessum öflugu fyrirvörum, sem ég hef nú aðeins lauslega gert grein fyrir, en þeir eru svo að segja á hverri einustu blaðsíðu í allri áætluninni. En sterkastur er þó þessi, sem ég las fyrst, og hann er sá, að menn verði að gera sér grein fyrir því, að í þjóðhagsáætluninni séu engar ákvarðanir um þessi mál varðandi framkvæmdir.

Þetta er fyrsta áætlunin eða fyrsti hluti áætlunarinnar, sem hæstv, ríkisstj. gerir grein fyrir á þá lund, sem ég hef nú nokkuð rakið, og það er sem sagt almenn þjóðhagsáætlun til 4 ára. En þá kemur að sjálfri framkvæmdaáætluninni, og um hana segir hæstv. ríkisstj.: „Þegar almennar þjóðhagsáætlanir liggja fyrir, er gerð sérstakra sundurliðaðra áætlana um framkvæmdir opinberra aðila eðlilegt viðbótarskref.“ Og síðan er lýst með nokkuð almennum orðum, hvað í slíkum áætlunum skuli vera. Það er nánari skilgreining á því, hvaða framkvæmdir raunverulega skuli ráðast í, og síðan segir hæstv. ríkisstj.: „Það var frá upphafi skoðun ríkisstj., að það væru einmitt áætlanir af þessu tagi, sem mest þörf væri fyrir hér á landi,“ — sem sagt raunverulegar framkvæmdaáætlanir, sem væru til viðbótar þjóðhagsáætluninni, — „og beindist starf norsku hagfræðinganna að þessu, jafnhliða almennri áætlunargerð. Hins vegar krefst gerð slíkra áætlana langvarandi undirbúnings af hálfu þeirra stofnana, sem um opinberar framkvæmdir sjá, og mikilla breytinga á starfsaðferðum þeirra frá því, sem áður hefur tíðkazt hér á landi.“

Og síðan segir enn fremur, að fyrsta skrefið í þá átt að gera raunverulega framkvæmdaáætlun er áætlun sú, sem unnin hefur verið fyrir árið 1.965 og að nokkru leyti 1964 um helztu tegundir opinberra framkvæmda og starfsemi opinberra fjárfestingarsjóða og fjáröflun vegna þeirra. M.ö.o.: framkvæmdaáætlunin sjálf nær aðeins til þess, sem eftir er af árinu 1963, eins og ég gat um í upphafi, og um það er ekkert að villast. En það er þó einmitt þessi tegund af áætlanagerð, sem hæstv. ríkisstj. segist frá upphafi hafa talið að væri þýðingarmest, og vafalaust hefur hæstv. ríkisstj. haft slíka framkvæmdaáætlun í huga, þegar hún og hennar menn hafa sí og æ verið að lofa framkvæmdaáætlun, æðimörg ár fram í tímann.

Það hefur ekki verið lofað almennri þjóðhagsáætlun, heldur framkvæmdaáætlun. En nú er niðurstaðan þessi, að það hafi ekki verið hægt að gera annað en almenna þjóðhagsáætlun með öllum þessum fyrirvörum, sem ég var að lýsa, og framkvæmdaáætlun raunverulega tæplega til eins árs. Þó finnst manni, að hæstv. ríkisstj. hljóti æðilengi að hafa átt að vera það ljóst, að hún mundi ekki geta staðið við þessar yfirlýsingar um framkvæmdaáætlunina og mundi þurfa að hafa framkvæmdaáætlunina sjálfa fyrir svona stuttan tíma. Eigi að síður hefur ekki linnt þessum yfirlýsingum.

Það er sannast að segja um framkvæmdaáætlunina sjálfa fyrir það, sem eftir er af þessu ári, að í hana eru settar þær framkvæmdir, sem gert er ráð fyrir á fjárl. og samþ. voru hér á hv. Alþingi í vetur, enn fremur þær framkvæmdir, sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að ráðast í samkv. þeim öðrum ákvörðunum og samþykktum, sem hér hafa verið gerðar á Alþingi í vetur. Sannleikurinn er því sá, að í þessari framkvæmdaáætlun er ekkert nýtt, og kemur auðvitað ekkert á óvart, því að það er sett inn í hana það, sem ríkisstj. og Alþingi hafa verið að ákveða í vetur að skuli gert á þessu ári, sem nú er að líða.

Þessi framkvæmdaáætlun er því hliðstæð við áætlanir og þau verk, sem ætíð eru unnin í stjórnarráðunum og á vegum fjmrn. á hverjum vetri, þegar verið er að ganga frá fjárl. og ákveða, hvaða framkvæmdir skuli ráðast í samkv. þeim og enn fremur draga saman og gera sér grein fyrir því, hvernig fjárfestingarsjóðirnir eru staddir og hversu mikið fjármagn ríkisstj. ætlar að beita sér fyrir að útvega til framkvæmda á árinu. Þessi vinna hefur auðvitað verið unnin á hverjum einasta vetri undanfarið og hliðstæðar áætlanir gerðar í ráðuneytunum eins og hér eru settar á prent varðandi framkvæmdir ársins 1963. Á hverjum einasta vetri hafa fjárfestingarsjóðirnir verið gerðir upp og reynt að gera sér grein fyrir, hversu mikið þyrfti að styðja þá og aðra aðila umfram það, sem fjárl. sjálf hafa gert ráð fyrir, Í þessu felst því engin nýjung önnur en sú, að þetta er sett á prent og skrifuð með þessu mikil grg., sem hæstv. forsrh. las hér áðan verulega kafla úr. Þetta er þá sjálf framkvæmdaáætlunin.

Síðan er gerð grein fyrir því af hendi hæstv. ríkisstj., að þriðja tegund áætlana, sem þyrfti að gera, fjalli um framleiðslu og framkvæmdir í einstökum atvinnugreinum og hana megi telja einnig viðbótarskref við hina almennu þjóðhagsáætlun.

Hugsunin er þessi: Fyrst er almenn þjóðhagsáætlun í stórum dráttum, en menn mega ekki líta svo á, að það, sem í hana er sett, séu ákvarðanir. Það eru bollaleggingar, sem geta breytzt á alla lund, og voldugir fyrirvarar um, að þar sé ekki skuldbinding um eitt né neitt. Síðan eigi að réttu lagi að koma tvær áætlanir, viðbótaráætlanir: Önnur um framkvæmdir hins opinbera, framkvæmdaáætlunin sjálf, sem menn gáfust upp við að gera nema fyrir þann tíma, sem eftir er af þessu ári og því alveg hliðstætt því, sem ævinlega hlýtur að vera gert, þegar útvegað er fjármagnið. Loks eigi að vera önnur viðbótaráætlun, sem fjallar um framleiðslu og framkvæmdir í einstökum atvinnugreinum, og ríkisstj. kemst að þeirri niðurstöðu, að hér á landi séu enn sem komið er lítil skilyrði til þess að gera áætlanir af því tagi, enda er engin tilraun gerð til þess í því plaggi, sem fyrir liggur.

Ég gat áðan um hina ýmsu fyrirvara, sem hæstv. ríkisstj. hefur í sambandi við þjóðhagsáætlunina, og það er ekkert einkennilegt, þó að það séu talsvert sterkir fyrirvarar, þegar þannig er lögð áætlun fram í tímann. En þá eiga menn ekki heldur að misnota áætlunina. Þá eiga menn að vera heiðarlegir og segja eins og er, að í henni sé ekkert bindandi á nokkra lund, í henni felist engar ákvarðanir og hún hafi þess vegna ekkert gildi þannig séð. Það séu aðeins hinar stóru línur, sem þar er reynt að slá upp, sem oft geti breytzt.

En það eru líka enn ónefndir fyrirvarar, sem hæstv. forsrh, aðeins drap á, og þeir fyrirvarar lúta að ástandinu í efnahagsmálunum. Og sannleikurinn er náttúrlega sá, að ástandið er núna þannig í efnahagsmálunum, að það er ekki hægt að gera áætlanir um neitt nema örstutt fram í tímann, svo að hugsanlegt sé, að geti staðizt. Þetta veit hæstv. ríkisstj. náttúrlega mætavel.

Það er dálítið broslegt að heyra hæstv. forsrh. koma hér fram og tala um, að skilyrðið sé, að jafnvægi í efnahagsmálum haldist, sama hæstv. ráðh., sem lýsti því yfir á gamlárskvöld nú síðast, að það hefði algerlega mistekizt að ráða niðurlögum verðbólgunnar, sem allir vita að er rétt.

Það er óðaverðbólga ríkjandi í landinu, og vantar þar af leiðandi öll skilyrði þegar af þeirri ástæðu til þess að gera ábyggilegar áætlanir fram í tímann. Þetta veit hæstv. forsrh. náttúrlega og hans menn mætavel. En við vitum, af hverju áætlunin er samt sem áður fram komin, og fer ég ekki að endurtaka neitt af því, sem ég sagði um það. En þetta skilyrði vantar algerlega til að gera áreiðanlega áætlun, vegna þess að það er ríkjandi upplausnarástand í efnahagsmálum landsins, en ekki jafnvægisástand. Um þetta þarf ekkert að deila. Það vita allir, hvernig dýrtíðin þýtur upp svo að segja dag frá degi og upplausn í launamálum og efnahagskerfinu öllu yfir höfuð. Þegar af þeirri ástæðu hefur auðvitað þessi áætlun óvenjulega lítið gildi.

Ég skal svo að lokum aðeins endurtaka, að ég læt í ljós sérstaka óánægju yfir því, hvernig haldið hefur verið á þessu máli, að í fyrsta skipti, sem reynt er að gera hér þjóðhagsáætlun, skuli sú áætlun vera gerð að áróðurs- og kosningaplaggi á þá lund, sem hæstv. ríkisstj. gerir nú tilraun til.