16.04.1963
Sameinað þing: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1915 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

Þjóðhags- og framkvæmdaáætlun

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Í raun og veru gæti ég látið nægja að hlusta og ekki svara þessu, sem hér hefur verið sagt. Hins vegar gefur það líka tilefni til alllangs svars. Ég ætla að reyna að fara bil beggja, svo að þetta taki ekki of mikinn tíma þingsins, sem nú er orðinn tæpur, því að þetta er mál, sem nú eru að hefjast umr. um, en halda áfram vafalaust, þangað til yfir lýkur og kosningar eru búnar.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að mér finnst kannske ekki alveg sanngjarnt af okkur stjórnarliðum að ganga út frá því, að hv. stjórnarandstæðingar séu reiðubúnir til þess að ræða þetta mál og geti gert það af fullri þekkingu, eftir að hafa ekki haft það til athugunar lengri tíma en raun ber vitni um. En ég hefði þó viljað mega ætla hv. ræðumönnum, sem hér hafa komið fram fyrir hönd sinna flokka, að þeir hefðu gert annaðhvort að ræða það minna eða lesa það betur, því að það kom fram mjög greinilega af ræðum þeirra beggja, að aðalatriðin hafa í raun og veru farið fram hjá þeim Sumt var rétt, sem þeir sögðu, en í aðalatriðum fannst mér, að þeirra aths. bæru vitni um, að þeir hefðu ekki skilið, hvað fyrir stjórninni vakir með þeim fyrirætlunum, sem lýsa sér í þeirri skýrslu, sem hér hefur verið lögð fram.

Ég ætla að byrja aðeins á því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, hv. 4. þm. Austf. (LJós). Hann sagði, að það væru herfilegar blekkingar, sem við værum að flytja hér. Við værum að halda því fram, að hægari hagvöxtur á Íslandi en í nágrannalöndunum á undanförnum árum stafaði af því, að við hefðum haft aðrar og óheppilegri vinnuaðferðir, hefðum ekki stýrt málum okkar eftir þeim heppilegustu leiðum og farsælustu stefnum, sem aðrir hefðu hins vegar gert. Þetta væri alls ekki ástæðan til, að svo hefði farið, sem raun ber vitni um. Ástæðan væri sú, að allt hefði verið í niðurníðslu hjá þeim löndum, sem nú hefðu tekið örari vexti. Við hefðum algerlega farið fram hjá þessu efni og þess vegna væru okkar skýrslur rangar, þessar þjóðir hefðu verið, eins og hann sagði sjálfur, í dældinni, lágmarki í þeirra framleiðslu, og þess vegna gætu þær tekið hraðari vexti en við. En ég vildi nú spyrja þennan þm.: Heldur hann í alvöru, að þjóðartekjur okkar á mann, á Íslandi fyrir ófriðinn, séu eitthvað sambærilegar við það, sem þær voru í þessum löndum fyrir ófriðinn? Hann hlýtur að vita það, þessi hv. þm., að þar er ólíku saman að jafna. Það er ekki fyrr en við höfum tekið hinum öra hagvexti á ófriðarárunum, sem við erum sambærilegir um tekjur á mann við það, sem þessar þjóðir hafa um langan aldur getað veitt sínum þegnum. Þetta hlýtur hv. þm. að vita, og ég vil ekki hafa þau hörðu orð um hann, sem hann hafði um okkur, að þetta séu helberar blekkingar. Ég segi bara: hann hefur ekki gert sér grein fyrir þessu, annars mundi hann ekki halda þessu fram.

Ég var nú einnig að hugsa um það, hvernig á því stæði, þegar þessi mikli hagvöxtur hefði átt sér stað, sem hann var að tala um í tíð vinstri stjórnarinnar, að allt skyldi þá vera að fara á hausinn, þegar vinstri stjórnin fór.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) benti á og kvartaði yfir, að menn hefðu ekki haft nema fjóra vinnudaga, eftir að þeir fengu að sjá þessa skýrslu, til að athuga hana. Þetta er nú náttúrlega að því leyti rétt og ekki rétt, að við lögðum einmitt megináherzlu á að geta afhent þm. þessa skýrslu, þannig að þeir hefðu páskahelgina til þess að athuga hana. Menn verða að vinna stundum á hátíðisdögum, er það ekki? En hitt er alveg satt, að það hefði náttúrlega verið miklu æskilegra, að þessi skýrsla hefði fyrr komið. En þó að menn ræði hér mjög um það, að þetta sé kosningaplagg, lagt einmitt fram á seinustu stundu, til þess að menn geti síður áttað sig á þeim „blekkingum“, sem þar felist, þá vita þessir menn allar ástæðurnar fyrir því, að þetta var svona hægfara. Því er öllu lýst í grg. Ég lýsti því einnig í framsöguræðu minni. Efni málsins er, að þegar við færðumst þetta í fang, þá gerði enginn hv. þm. sér grein fyrir, hve mikið verk var að vinna, til þess að hægt væri að skila svona plaggi á þann hátt, sem menn telja frambærilegt. Þetta er í fyrsta skipti, sem slík tilraun er gerð á Íslandi. Og sjálf vinnan leiddi í ljós, að þar kom mjög margt til greina, sem enginn þm. hafði gert sér grein fyrir, m.a. af því, að við höfðum ekki fulla þekkingu á málinu. Þegar farið var að vinna að því, leiddi reynslan í ljós, að í fyrsta lagi voru okkar þjóðhagsreikningar ekki fullkomnir. Í öðru lagi var of lítil þekking fyrir hendi um gang atvinnulífsins og einkum skorti mjög á, að skýrslur okkar og gagnasöfnun væri í þessum efnum svo fullkomin sem er hjá öðrum þjóðum. Af þessu stafar drátturinn í þessu máli.

Ríkisstj. hefði auðvitað langhelzt viljað geta fengið tækifæri til þess að leggja sín skjöl fram og byrja eitthvað á framkvæmdum til þess að sanna, að hér væri á ferðinni mikil framkvæmda- og framfaraáætlun, en ekki bara skjallegar fullyrðingar. Það var okkar hagur að geta byrjað að framkvæma. Þá hefðu menn ekki haft tækifæri til þess að segja: Þetta er ekkert annað en kosningaplagg. — Við gerðum okkur vel grein fyrir því, hvaða vinnubrögð þessir hv. andstæðingar okkar eru vanir að hafa, og þau ræðuhöld, sem hér fara fram, koma okkur þess vegna ekki á óvart. Hitt veit ég, að þessir menn játa í sinn hóp, að þeir skilja, að það er ekki hægt og ekki rétt af stjórnarvöldunum að leggja svona mál fram, fyrr en um það er búið að fjalla á þann hátt, sem bæði sérfræðingar og ríkisstj. sjálf telja nauðsynlegt, svo að hægt sé að átta sig, svo sem bezt verður á kosið, á því, hvað það er, sem stjórnin ætlast fyrir.

Hv. 1. þm. Austf. var hér með fsp. um það, hvað þjóðhagsáætlun væri. Ég skýrði það í frumræðu minni, en vísa að öðru leyti til grg. Hirði ég ekki að lesa aftur þá kafla úr ræðu minni, sem sérstaklega fjalla um þetta og svara því alveg, hvers konar þjóðhagsáætlanir er um að ræða almennt talað og hvers konar þjóðhagsáætlun þetta er, sem hér liggur frammi. Það er beinlínis tekið fram, að fyrir utan þá gagnasöfnun og þær ályktanir, sem hægt er að draga af fortíðinni um líkur fyrir, hvernig framtíðin verði, þá vannst ekki tími til að bæta þar við sundurliðaðri áætlun nema varðandi eitt og að nokkru leyti annað ár, 1963 og 1964 að nokkru leyti. Svona áætlanir eiga að lýsa því, hvernig líkur benda til að efnahagsmálaþróunin verði, svo að menn geti reynt að gera sér grein fyrir, hvað þeir hafa mikið fé milli handa, hverju má verja til fjárfestingar, hverju til einkaneyslu, hverju til almennrar neyzlu og loksins hverju beri að verja til þess að reyna að auka gjaldeyrisforðann, til þess með því að sýna, að efnahagur okkar stendur traustum fótum. Þetta er almenni tilgangurinn. Í öðru lagi er, eins og ég sagði, ætlunin sú, að geta gert fjögurra ára áætlun, sem skýri frá því, hverju stjórnarvöldin búast við að þjóðarbúskapurinn muni skila á þessum árum. Auðvitað getur svona áætlun aldrei verið nema áætlun. Það er alveg rétt, sem annar hvor af hv. ræðumönnum sagði, það er ekki hægt að segja fyrir fram: Síldin skal verða svona mikil og þorskurinn svona mikill. — Það getum við ekki. Við reynum að miða við reynslu undanfarinna ár og draga af því þær ályktanir, sem verða taldar skynsamlegar í þessum efnum.

Það kom mjög ákveðið fram hjá hv. 4. þm. Austf. um þessar skýrslur okkar, að það væri svo sem ekki hátt á þeim risið, það var nú eitthvað annað, það var jafnvel verra en í hans stjórnartíð. En hann lék sér að því að taka meðaltal áranna 1955–1959, og það átti að sýna, hver hagvöxturinn hefði verið á Íslandi almennt og sérstaklega meðan hann var í stjórn. En það vita allir, sem lesið hafa skýrsluna, sem hann var alltaf að vitna í, að á eftirstríðsárunum eru það þrjú ár, sem skera sig úr og eru miklu betri en hin, sem sé 1955, 1958 og 1962. Tvö þessara ára, 1955 og 1958, faldi hann í sínum fáu árum og fékk með því hærra meðaltal. Þetta eru ekki góð rök og ekki ærlegur málflutningur, en hann er ekkert öðruvísi en ég hafði búizt við, ég játa það.

Ég var dálítið hissa á, að hv. 1. þm. Austf. lét sér sæma að staðhæfa, að þetta, sem hér lægi fyrir, væri ekkert annað en þingið hefði ákveðið. Hann margstaðhæfði það, að áætlunin 1963 bæri ekkert með sér af neinu tagi annað en hann sjálfur væri búinn að ákveða hér á Alþingi. En má ég þá spyrja: Hvar stendur það í hans ræðum eða í fjárl. eða í öðrum plöggum hér, að það eigi að ráðast í Ennisveg og ljúka honum? Hvar stendur, að það eigi að ráðast í Strákaveg og ljúka honum? Hvar stendur, að það eigi að klára þessar hafnir, sem við vorum að geta um? Hvar stendur um þessa miklu fjáreyðslu til skólanna, sem er verið að tala um? Hvar stendur um Reykjanesbrautina, að hún geti haldið áfram fullum fetum? Ekkert af þessu hefur þingið ákveðið. Og þegar hv. þm. segir, að það sé lítið á þessari skýrslu að græða, að henni fylgi ekki svo mikið sem eitt einasta frv., ekki nein fsp. eða tillaga til Alþingis um, hvað gera eigi og gera megi, þá leyfi ég mér að segja, að þessi skýrsla, þessi þjóðhagsáætlun okkar er till. til þjóðarinnar, það er till., sem við munum ræða við þjóðina um og athuga, hvort hún vill fylgja okkur að málum, svo að við getum framkvæmt þetta. Það er aðalatriðið.

Ég var líka dálítið hissa á þessum miklu málalengingum þessa hv. þm., þar sem hann var að lýsa því, að þessi áætlun okkar væri full af fyrirvörum. Það þyrfti svo sem ekkert að standa við af neinu tagi og raunar þar af leiðandi ekkert að svíkja. Þetta væru allt tómir fyrirvarar. En er nokkuð við því að segja? Getur nokkur leyft sér að segja: Svona skal árferðið vera? Það, sem við segjum, er: Ef árferðið verður svona, þá ættum við að geta þetta, ef peningar verða til þess, þá ætlum við að láta þetta vera númer eitt, þetta númer tvö, þetta númer þrjú. — Það er það, sem við segjum, svo langt sem þær sundurliðuðu áætlanir ná. Það er það, sem verið er að segja. En hvernig getur svo þessi maður sagt: Stjórninni bæri að vera heiðarleg og segja frá því, að það er ekki víst, að hún geti staðið við þetta allt saman? — Þessi hv. þm. gerir tvennt í senn: Hann ávítar okkur fyrir að nefna fyrirvarana, að hafa fyrirvara yfirleitt, en telur samt, að við séum óheiðarlegir í málflutningi, því að við séum að gefa þjóðinni í skyn, að þetta ætlum við að framkvæma, þetta vaki fyrir okkur, sem engin vissa sé fyrir að hægt sé að framkvæma. Ég held við höfum lifað eftir þeim heiðarleika, sem þessi hv. þm. gerir til þm., þ.e.a.s. til andstæðinga sinna.

Ég skal svo að lokum um þennan þm. segja það, um leið og ég endurtek, að mér þykir ekki ástæða til að fara hér að lesa upp að nýju þá kafla úr minni ræðu, sem sérstaklega mundu sýna, að meginpartur af ræðu hv. þm. var ekki miðaður við það, sem ég hafði lýst að vekti fyrir okkur í ríkisstj. og honum bar að vita, ef hann hefur lesið skýrsluna. Og ég held, að það sé ekki fjarri sanni, þegar ég segi, að ég dreg mjög í efa, að hv. þm. telji vítavert, hvernig með þetta mál hefur verið farið, og það sé það. sem þyngi skap hans.. Mér er nær að halda, að það sé heldur hitt, að honum þyki að athuguðu máli þær till., sem við berum fram, skynsamlegar og hann hefði ekki haft á móti því sjálfur að standa að þessu máli öðruvísi en hann hefur haft tækifæri til að gera að þessu sinni. Ég á þar alveg beinlínis við það, að ég efast ekkert um, að ef við, þessir gömlu samstarfsmenn, hefðum unnið saman í stjórn núna, þá hefði ekki orðið ágreiningur út af þessu máli. Svo vel þekki ég hann.

Út af því, sem hv. 4. þm. Austf. sagði, er rétt að geta þess, að Norðmenn hafa ekki samið fyrir okkur áætlun. Þeir sömdu drög að áætlun, og ég lýsti því í ræðu minni áðan, hvernig stóð á því, að okkur gat ekki notazt betur að þeirra miklu þekkingu á slíkum málum, auk þess, að þeir gátu ekki lokið sínu starfi, sem ég áður gat um, vegna þess að þeirra biðu annir og áríðandi störf heima fyrir.

Það var mér mikið undrunarefni, þegar þessi þm. deildi fast á stjórnina fyrir það, að samkvæmt okkar áætlunum yrði almenningur enn að spara við sig neyzluna. Það var það, sem hann sagði, og það þótti honum mjög hart. En hann var ekki fyrr búinn að sleppa orðinu en hann sagði í ásökunartón: Fjárfestingin er ekki meiri, hún er minni en hún hefur verið. — Þetta er allt meira og minna misskilningur. En þessi hv. þm. veit það, þó að ekki sé af öðru en því, sem hann hefur lært í skýrslunni, að þegar við vitum, hvaða fé við höfum til umráða, þá skiptum við því, eins og ég áðan sagði, í fjárfestingu, einkaneyzlu, almenna neyzlu og í að efla gjaldeyrissjóðina. Nú er það upplýst í skýrslunni mjög greinilega, að það er ekki ætlun stjórnarinnar að leggja neina sérstaka áherzlu á, að þessi aukning sjóðanna verði sérstaklega mikil. Á árunum 1961–1962 höfum við bætt aðstöðuna um 1300 millj., og ef við viljum miða við febrúarlok 1960, þegar viðreisnin hefst, og febrúarlok nú, 1963, þá hafa sjóðirnir vaxið um 1408 millj. kr. Það er þess vegna ekki tilgangurinn að reyna að leggja megináherzlu á verulegan vöxt þeirra, þó að mönnum þyki rétt að stefna að því, að um 100 millj. kr. aukning gæti orðið árlega. En ef deilt er um það, að einkaneyzlan sé of lítil annars vegar og hins vegar fjárfestingin sé líka of lítil, hver á þá að fá það, sem eftir verður? Hv. þm. vill láta eins og þar sé einhver stórfengur, sem liggi milli hluta. En það er ekki hægt að bera fram kröfuna um það, að einkaneyzlan skuli verða meiri og að fjárfestingin skuli líka verða meiri, því að sameiginlega neyzlan, þótt nokkur sé, skiptir þar ekki nærri eins miklu máli og einkaneyzlan, það sér hv. þm., ef hann hefur kynnt sér plöggin. Þetta er því undarlegur málflutningur, og ég segi eins og er og ég endurtek það, að mér finnst, að þessi hv. þm. og ekkert síður hv. 1. þm. Austf. hafi talað meira en efni stóðu til, miðað við þá þekkingu á málinu, sem hann er búinn að afla sér.

Það hneykslaði hv. 4. þm. Austf., að Jónas Haralz, formaður Efnahagsstofnunarinnar, hefði vantreyst því, að eldri atvinnuvegir gætu staðið undir örum hagvexti. Þessi mikilhæfi maður, Jónas Haralz, hefur náttúrlega með sinni grundvölluðu þekkingu gert sér grein fyrir, að það er hæpið að reiða sig á það að byggja á því, að gömlu atvinnuvegirnir okkar geti tekið á móti hinni öru fjölgun þjóðarinnar og bætt um leið lífskjör allra, en það er auðvitað það, sem allir stefna að, a.m.k. við, sem höfum unnið að þessari skýrslu. Það hefur þess vegna verið mikið rætt og mikið hugsað um möguleika fyrir stóriðju. En það er ekki ástæða til að tjalda því, að leggja það fyrir um of við þjóðina, að kjör hennar eigi að batna á grundvelli þeirrar stóriðju, sem við erum ekki búnir að undirbyggja svo, að það sé hægt að reiða sig á hana. Það er ekkert vit í því. Það er fyrst þegar liggja fyrir skýrslur um það, þannig að það sé hægt að byggja á því, og samningar og annað þar að lútandi. Þá er það tímabært. Það er einmitt það, sem við höfum viljað forðast í þessu öllu, að vera með gyllingar. Við höfum viljað segja það eitt, sem við höfum talið að væri nokkurn veginn öruggt, og um það, sem við ráðum ekki yfir, höfum við einmitt gert þessa fyrirvara, sem ýmist er kvartað undan, að séu ekki, eða ráðizt á okkur fyrir, að séu. Ef við svo getum lagt út í þessa stóriðju á kjörtímabilinu, þá verður það gert, og þá verður hagur þjóðarinnar væntanlega þeim mun betri en hér er gert ráð fyrir. Og auðvitað er það líka rétt, að ef við berum meira úr býtum, ef þjóðarhagurinn, af hvaða ástæðu sem það er, verður betri, þá höfum við meira að skipta á milli okkar, og er þá að vænta, að hagur almennings geti orðið að sama skapi betri.

Ég get að sjálfsögðu sagt eins og hv. andstæðingar sögðu, að þetta mál gæti gefið tilefni til margvíslegra aths. ekki bara út frá þessari skýrslu, heldur út frá öllum ferli þessarar stjórnar, sem þeir aldrei geta litið réttu auga. Andstæðingarnir hafa talað miklu lengur en ég. Ég læt þó staðar numið, minnugur þess, að þinglok nálgast hraðfluga, en margt enn ógert.