15.10.1962
Neðri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1923 í B-deild Alþingistíðinda. (1842)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans svar, svo langt sem það nær. Nú vil ég í fyrsta lagi segja það viðvíkjandi svona málum, að betur kynni ég nú við það, að sá háttur væri hafður af hálfu hæstv. ríkisstj., að það væri byrjað með því, þegar um svona mál er að ræða, að hæstv. utanrrh. eða einhver annar skýrði Alþingi frá, hvað væri að gerast, en það kæmi ekki einhver og einhver maður, sem maður veit engin deili á, sem skrifar í Morgunblaðið, og segi, að þessar vélar séu komnar, og síðan taki Morgunblaðið undir og hrósi því, hve mikið framtak þetta sé og hve mikið aukið öryggi.

Nú hefur hæstv. utanrrh. gefið okkur skýringuna á þessu. Ég skil það svo: Til Keflavíkurflugvallar eru nú þegar komnar vélar, sem geta borið og geta hagnýtt kjarnorkuvopn, þannig að frá Keflavíkurflugvelli er þegar allt til reiðu til að geta háð hernað með kjarnorkuvopnum. Síðan segir hæstv. ráðh., að kjarnorkuvopnin verði ekki sett á land, nema ríkisstj, samþykki. Jú, það er að vísu nokkurt öryggi og nokkur trygging í því, ef um ríkisstj. væri að ræða, sem ætla mætti að stæði mjög vel á verði í slíkum efnum. Nú höfum við hins vegar rekið okkur á það, a.m.k. þann tíma, sem ég hef átt sæti hér á Alþingi, að hvað eftir annað hefur það komið fyrir, að t.d. ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur einfaldlega sagt við íslenzkar ríkisstjórnir: Nú þurfum við þetta hérna, og það verður að gera strax, innan 24 tíma. — Og íslenzk ríkisstj., jafnvel sem hefur verið ófús á það, hefur síðan beygt sig. Þannig er frá okkar sjónarmiði, sem höfum einhverja reynslu frá undanförnum 25 árum í þessum efnum, ekki mjög mikið öryggi í því, þó að ein ríkisstjórn íslenzk þurfi að samþykkja þetta. Það er sem sé orðið þannig ástandið, að Bandaríkjastjórn getur svo að segja fyrirvaralaust fyrirskipað vopnun með kjarnorkuvopnum á þeim flugvélum, sem þegar liggja fyrir á Keflavíkurflugvelli. Og ég verð nú að segja, að ég veit ekki, hvort hæstv. utanrrh. fylgist svo vel með því, sem gerist á Keflavíkurflugvelli, að hann geti verið viss um, að í þeim birgðum, sem þegar eru þar, sé ekkert af slíkum vopnum. Ég veit, að við erum allir Íslendingar fákunnandi í þessum efnum, og það eftirlit, sem við getum haft með þessu, er þess vegna alveg hverfandi lítið.

Þá sagði hæstv. utanrrh., að það hefði ekki verið farið fram á enn sem komið er að staðsetja þessi vopn hér. Í því sambandi þætti mér mjög vænt um að fá að heyra frá hæstv. ríkisstj., ef Bandaríkjastjórn fer fram á að fá að staðsetja kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli, hvort það mál verður borið undir Alþingi áður, þannig að Alþingi gefist tækifæri til, áður en íslenzk ríkisstj. segir sitt orð um þetta, að ræða það mál. Og ég vil satt að segja eindregið vona, að við megum treysta því, að ekkert slíkt samþykki yrði veitt, án þess að það yrði borið undir Alþingi áður. Ég vil minna á, að við höfum yfirlýsingu hæstv. fyrrv. forsrh. um, að það verði ekki staðsett hér nein kjarnorkuvopn, og við ættum þess vegna að mega treysta því, að það kæmi ekki til greina, að svo mikilvægri yfirlýsingu yrði breytt, öðruvísi en það yrði borið undir Alþingi áður. — Þetta vildi ég aðeins segja út frá því, sem hæstv. utanrrh. gaf okkur nú upplýsingar um.

En þá vil ég spyrja: Hvernig stendur þá á því, — ekki býst ég við, að hæstv. ríkisstj. líti svo á, að það sé neitt fagnaðarefni, né hún almennt fylgjandi því að fá kjarnorkuvopn til Keflavíkurflugvallar, — en hvernig stendur þá á því, þegar grein er skrifuð eins og sú, sem ég las upp úr Morgunblaðinu eftir þennan Hjálmar Sveinsson, að þá skuli vera tekið þannig undir hana í ábyrgum leiðara Morgunblaðsins, að þessu sé sérstaklega fagnað og enginn varnagli sleginn? Þýðir þetta það, að Morgunblaðið, sem vissulega er eitt áhrifaríkasta blað til skoðanamyndunar hér innanlands, eða þess ritstjórar, alveg án tillits til þess, hvað ríkisstj. annars kann að meina, séu að byrja að undirbúa almenningsálitið undir, að það sé sjálfsagður hlutur, að hér á Íslandi séu kjarnorkuvopn geymd, og það geti engir aðrir menn verið á móti slíku en vondir kommúnistar? Ég vil vekja eftirtekt á þeim hættulega áróðri, sem þegar er farinn að verða áberandi í því blaði. Og nú, þegar hæstv. ríkisstj. mjög skilmerkilega segir okkur frá og styðst þar við yfirlýsingar fyrrv. hæstv. forsrh., að hér eigi ekki að vera nein kjarnorkuvopn, þá er það ekki aðeins grunsamlegt, heldur beinlínis hættulegt, ef áhrifamesta blað ríkisstj. byrjar nú þegar að vinna fyrir því, skapa þeirri skoðun fylgi, að það sé sjálfsagður hlutur, að hér séu kjarnorkuvopn.

Ég ætlast ekki til svars endilega um það, sem ég spurði nú um, frá hæstv. utanrrh., hvort Alþingi megi treysta því, að slíkt samþykki yrði ekki gefið öðruvísi en ráðfæra sig við Alþingi fyrst, en ég álít, að það væri mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. segði okkur það við tækifæri.