31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1928 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að gera hér fyrirspurn til hæstv. heilbrmrh. og vænti þess, að hann sjái sér fært að svara fyrirspurn minni, þó að hún sé flutt utan dagskrár.

Eins og kunnugt er, hafa fréttir borizt um það, að allmikið af fastráðnum læknum í þjónustu ríkisins og annarra sjúkrahúsa muni ganga frá störfum sínum í dag og að þýðingarmestu sjúkrahús landsins verði þar með svo að segja læknislaus eða mjög fáskipuð læknum og þau geti þá ekki þar á eftir annað þeirri þjónustu, sem þeim er ætlað. Mér sýnist, að í sambandi við þetta sé komið í mikið óefni, og hvað sem líður þeim deilum, sem upp hafa risið á milli ríkisstj. annars vegar, eða heilbrigðisyfirvaldanna, og þeirra lækna, sem hét eiga hlut að máli, þá er augljóst, að mikinn vanda getur af þessu leitt, og ég býst við því, að þessi vandi geti færzt út, það geti orðið hér fljótlega um fleiri sjúkrahús að ræða, sem standa uppi að miklu leyti læknislaus, heldur en landsspítalann og spítala hér í Reykjavík. Nú vildi ég spyrja hæstv. heilbrmrh. um það, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera í þessu vandamáli, hvort hún telur líkur vera á því, að samkomulag geti tekizt, a.m.k. til bráðabirgða, á milli ríkisins og læknanna, þannig að þeir haldi áfram störfum sínum við sjúkrahúsin, eða hvaða aðrar leiðir ríkisstj. sér til þess að leysa þennan vanda. En það þykir mér alveg auðsýnt, að það sé ekki hægt að víkja sér undan þessu máli eins og sumum öðrum þannig, að lítið eða ekkert sé gert, því að þetta mál er þannig vaxið, að það verður að leysa. — Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. sjái sér fært, þó að þessi fyrirspurn komi hér utan dagskrár, að svara henni.