31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (1848)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Mér sýnist á því, sem hæstv. heilbrmrh. hefur upplýst hér, að mikil óvissa sé enn ríkjandi um það, hvernig fer í þessu máli. Hæstv. ráðh. segir, að ríkisstj. viti ekki um það enn með fullri vissu, hvort læknarnir hverfi frá störfum, og mun þó þetta vera síðasti dagurinn í dag skv. þeirra uppsagnarfresti. Eftir því sem birzt hefur frá hálfu sumra læknanna a.m.k., sem hér eiga hlut að máli, virðist ekki vera um það að villast, að læknarnir hafi sagt upp sínum störfum, fyrst með 3 mánaða fyrirvara og síðan skv. kröfu ríkisstj. hafi því verið breytt í 6 mánaða fyrirvara, svo að uppsögnin hefur þegar staðið sinn tíma. Og nú þegar við stöndum á síðasta degi í sambandi við jafnalvarlegt mál og þetta, þá veit ríkisstj. ekki um það, hvað muni verða á morgun. Hún veit aðeins, að hún óskar mjög eftir því, að felldur verði dómur í félagsdómi um málið. En það verð ég að segja fyrir mitt leyti, að mér sýnist ekki vænlegt til lausnar slíkri deilu sem þessari að ætla á síðustu stundu málsins að knýja fram málsókn og dóma, án þess að aðilar hafi komið sér saman um að fá þannig skorið úr málinu. Ég verð því að segja, að mér sýnist, að þetta mál stefni í hreint öngþveiti. Hitt hlýtur svo hæstv. ríkisstj. að vera fullkunnugt um, að hér er auðvitað á ferðinnt aðeins einn anginn af því stóra og mikla máli, sem snertir kaupgjaldsmálin í landinu almennt og þann óróa, sem er hjá launastéttunum, sem auðvitað kemur þarna fram hjá læknunum í landinu eins og öðrum. Og vegna þess að hér er eðli málsins samkvæmt að mörgu leyti um viðkvæmara og erfiðara mál að ræða, þar sem eru störf læknanna á sjúkrahúsunum í landinu, heldur en ýmis önnur störf, þú þurfti auðvitað að nota allan tímann til þess að reyna að leysa málið, en það sýnist mér að ekki hafi verið gert eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, og því, sem hæstv. ráðh. hefur hér látið koma fram í málinu.

Ég vil svo aðeins segja það sem mína skoðun, að ég legg á það áherzlu, að ríkisstj. noti alla möguleika til þess að fá málið leyst, þó að ekki verði nema til bráðabirgða til þess að firra vandræðum, því að það er augljóst, að mikil vandræði verða bæði hér og annars staðar, ef svo fer, að læknarnir, sem starfa á sjúkrahúsunum,taka upp það að segja upp störfum sínum og ganga út, eins og nú bendir allt til.