29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1954 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð í sambandi við þessar umr. Mér sýnist alveg ljóst, að aðalatriði þessa máls, sem hér hefur verið rætt, sé, að það liggur fyrir, að hæstv. ríkisstj. hefur skipað sérstaka mþn. til þess að vinna að undirbúningi að nýjum vegalögum. Þessi mþn. hefur starfað, hún hefur skilað áliti, og þeir menn, sem að henni stóðu, töldu sig hafa lokið sínu verki. Enn fremur liggur það fyrir, að einstakir nefndarmenn eru farnir að gefa veigamiklar upplýsingar um, hvað hafi verið unnið í n. Þegar svona er komið, eiga alþm. skýlausan rétt á því að fá það nál., sem skilað hefur verið til ríkisstj. af mþn. Það er ekki hægt að leggjast á slíkt gagn sem þetta og ætla að fela það fyrir alþm. Ég tek undir þá kröfu, að ríkisstj. birti þessar till., sem fram hafa komið, a.m.k. þannig, að allir alþm. hafi þar aðgang að. Ríkisstj. verður auðvitað ekki ásökuð fyrir að vilja ekki flytja frv. um málið. Það er allt annað mál. Það tekur hún ákvörðun um sjálf. Auk þessa liggur svo það fyrir, að í mörgum málum hér á Alþingi fæst ekki fram eðlileg afgreiðsla, vegna þess að það er vitnað til þeirra gagna, sem þarna liggja. Einni n., sem ég er í hér í hv. d., fjhn., hefur borizt bréf frá vegamálastjóra um frv. til l., sem við Alþb.-menn höfum flutt varðandi vegamál, og þar segir vegamálastjóri:

„Mér var sent þetta frv. til umsagnar á síðasta þingi, og þá var til þess vitnað, að það væri verið að endurskoða vegalögin. Nú er þessari endurskoðun lokið,“ segir vegamálastjóri, „till. hafa verið sendar ríkisstj., og þar sem þær till. fjalla að verulegu leyti um efni þess máls, sem ég er nú spurður um álit á, þá treysti ég mér ekki til þess að svara nefndinni, nema þá með því, að það komi fram, sem í till. mþn. er.“

Þannig er nefndum Alþingis haldið í skáp, og þær geta ekki unnið sín verk, vegna þess að það er legið á þeim till., sem búið er að skila til ríkisstj. Ég geri því alveg hiklaust þá kröfu til ríkisstj., að því verki, sem liggur í hennar höndum frá mþn., verði skilað. Störf mþn. eru þess eðlis, að það verk á að birtast Alþingi, hvort sem um þau er flutt frv. eða ekki, það skiptir engu máli. Auk þess veit ég, að hæstv. samgmrh. sér, að þetta mál er þess eðlis, ekki sízt eftir það, sem gerzt hefur frá hálfu eins nefndarmanna, þar sem hann er farinn að leggja þetta inn í kosningabaráttuna og gefa upplýsingar um málið, að auðvitað verður þetta mál meira eða minna rætt í kosningunum. Og á það svo að vera, að þá séu það eingöngu fulltrúar stjórnarflokkanna, sem séu einir til frásagnar um það, hvað í þessu plaggi stendur, sem þó er opinbert verk? Störf mþn. tilheyra Alþingi, en ekki einstökum flokkum.

Ég vil því undirstrika þá kröfu, að ríkisstj. sjái sér það fært að leggja nú fyrir alþm. þetta nál., sem ríkisstj. hefur borizt, en ég geri engar kröfur um, að ríkisstj. leggi fram frv. um málið. Það er allt annað atriði.