06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, þó að hann, eins og hann tók fram í sinni ræðu, hafi ekki getað gefið neinar endanlegar upplýsingar um málið. Þess er þó að vænta, að hæstv. ráðh. rannsaki eða láti rannsaka orsakir fyrir því, að svo er komið fyrir því fyrirtæki, sem alþjóð veit, og það þarf sjálfsagt ekki að endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að hér er mjög mikið hagsmunamál fyrir íbúa Siglufjarðar og þeir mundu ekki líta það sérstaklega hýru auga, ef þetta fyrirtæki, sem miklar vonir voru bundnar við, verður lagt niður, auk þess sem ríkissjóður hefur þegar lagt allmikið fé í uppbyggingu verksmiðjunnar.

Ég verð að segja það, að mér kemur það ákaflega einkennilega fyrir sjónir, að ríkið skuli ráðast í byggingu á stóru fyrirtæki án þess að tryggja því viðunandi rekstrargrundvöll, m.a. með því að tryggja því nægilegt rekstrarfé. Þetta virðist ekki hafa verið gert, og því er nú komið sem komið er. Hinu vil ég halda fram eftir þeim upplýsingum, sem ég hef beztar getað fengið, að ef vel væri unnið að því að útvega markaði fyrir framleiðslu verksmiðjunnar, þá mundi vera hægt að selja slíka framleiðslu bæði í Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum. Í þessu sambandi má benda á það, að Svíar t.d. framleiða mikið af gaffalbitum úr Íslandssíld, og þeir láta sig hafa það að auglýsa þessa gaffalbita sem unna úr íslenzkri síld. Því ættum við þá ekki að gera það, sem höfum þetta ágæta hráefni svo að segja alveg við bæjardyrnar, sem vitanlega er betra en þegar búið er að flytja það út og flækja því þar hafna á milli? Okkar hráefni, kryddsíldin, hlýtur því að vera mun betra en það hráefni, sem Svíarnir leggja niður og selja út um allan heim með góðum árangri, þó að hvort tveggja sé Íslandssíld.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan: Ég vonast til, að hæstv. sjútvmrh. kynni sér þetta mál og gefi hv. Alþ. þær upplýsingar, sem fyrir kynnu að liggja.