06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (1878)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Hv. 11. landsk. er ekki eini þm., sem las þær fregnir með nokkrum ugg í blöðum í morgun, að þessi verksmiðja hafi stöðvað starfsemi sína. Það hefur oft verið rætt um niðursuðu hér á þingi í vetur, og virðist augljóst, að almennur áhugi sé fyrir því að reyna að efla íslenzka niðursuðu á því ágæta hráefni, sem fiskur okkar er. Virðist vera skoðun manna, að það hljóti að skorta eitthvað í viðleitni okkar, úr því að við getum ekki notað þetta góða hráefni, sett niður í dósir og selt, eins og aðrar þjóðir gera.

Hv. 11. landsk. hefur í tveim ræðum talað um, að það skorti nægilegt rekstrarfé: Hæstv. sjútvmrh. hefur skýrt frá því, að ekki hafi verið til hans leitað í sambandi við þá ákvörðun, sem nú hefur verið tekin um að stöðva starfsemi verksmiðjunnar á Siglufirði, og hlýtur því að vera við stjórn síldarverksmiðja ríkisins að sakast í þeim efnum. Mér þykir það einkennilegt, að rekstrarfé skorti fyrir þessa nýju niðursuðuverksmiðju á sama tíma sem síldarverksmiðjurnar græddu yfir 31 millj. samkvæmt reikningum þeirra á árinu 1961.

Ég vorkenni stjórn síldarverksmiðja ríkisins ekkert að gera þessa verksmiðju úr garði eins og til þarf. En spurningin er: Hefur þessi verksmiðja verið undir það búin að selja sínar afurðir eins og þarf? Höfum við ekki ráðizt í enn eitt milljónafyrirtæki án þess að gera okkur nokkra grein, grein fyrir því, að við vanmetum stjórn og sölumennsku fyrirtækja? Við höldum, að ef við hróflum upp húsi og látum gera eitthvað við fisk í því húsi, þá hljóti það að verða veraldarinnar bezta fyrirtæki og sé öllum öðrum að kenna nema okkur sjálfum, ef framleiðslan er ekki tekin úr höndum okkar og borgað fyrir hæsta verð. Er ekki rassvasabókhaldið búið að leiða okkur í nógu miklar ógöngur, svo að við förum að skilja, að það er ekki nóg að hugsa um framleiðsluna eina? Það verður að hugsa líka um stjórn fyrirtækjanna, um sölu á afurðum þeirra. Við verðum að gera okkur ljóst, að það eru sterkar niðursuðuverksmiðjur í öllum nágrannalöndum, t.d. í Noregi og öðrum löndum umhverfis Atlantshaf, svo að ekki sé víðar leitað, og er ekki nóg að byggja hús og leggja niður síld til að vinna markaðinn frá þessum verksmiðjum, frá þessum hringum. Spurningin er: Hefur stjórn síldarverksmiðja ríkisins, sem reisti þessa verksmiðju á Siglufirði, verksmiðju, sem hefur þegar sent frá sér framleiðslu, sem ég geri ráð fyrir að flestir viðstaddir hafi sjálfir borðað og gengið úr skugga um að er mjög góð, gert sér grein fyrir því, að það er ekki hægt að hrófla upp svona fyrirtæki og halda, að það geti orðið aukageta hjá starfsmönnum á skrifstofunum á Siglufirði að stjórna fyrirtækinu? Hefur hún gert sér grein fyrir, að fyrirtæki eins og niðursuðuverksmiðja þarf að hafa sína eigin stjórn, menn, sem hugsa ekki um neitt annað? Hefur hún gert sér grein fyrir, að niðursuðuverksmiðja verður að finna markað fyrir vörur sínar, og að finna markaðinn er ef til vill ekki minna verkefni en að koma síldinni í dósirnar á réttan hátt?

Ég vil því benda á, að böndin berast að stjórnendum þessa fyrirtækis. Hvernig er til þess stofnað? Hefur það verið gert á réttan hátt? Hefur stjórn síldarverksmiðja ríkisins vanmetið þann þátt í niðursuðuiðnaði, sem lýtur að stjórn fyrirtækisins og sölu á afurðunum? Hvað hefur raunverulega verið gert til að selja þessa síld? Er hægt að telja nokkrum manni trú um það, sem hefur borðað Sigló-síld sjálfur, að þetta sé óseljanleg vara á erlendum markaði? Eru ekki hér inni í dag menn, sem hafa borðað niðursoðna síld eða niðurlagða síld í öðrum löndum og séð norsku, þýzku, skozku, frönsku, spænsku vörumerkin? Höfum við ekki allir sannfærzt um, að varan er engu betri en sú íslenzka? Hvað er það, sem skortir? Er ekki um að ræða skort á þeim skilningi, að íslenzkt ríkisfyrirtæki, sem hefur næg fjárráð, hefur stofnað til nýrrar framleiðslu án þess að sjá fyrir því, sem verður að fylgja, sérstakri og sterkri stjórn og sérstökum ráðstöfunum til að koma vörunni til neytenda?