06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1962 í B-deild Alþingistíðinda. (1880)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sigurður Ágústsson:

Herra forseti. Sem stjórnarmeðlimur síldarverksmiðja ríkisins vil ég leyfa mér að gefa hér nokkrar upplýsingar varðandi það fyrirtæki, sem hér hefur verið rætt um utan dagskrár og nefnt er almennt af þeim þingmönnum, sem hér hafa tekið til máls, niðursuðuverksmiðja. Það er hreinn misskilningur, hér er um að ræða niðurlagningarverksmiðju, og þá er rétt að hafa í huga, að það er mjög miklum erfiðleikum háð að framleiða mikið af niðurlagðri síld án þess að hafa tryggan markað fyrir sölu hennar áður.

Ástæðan fyrir því, geri ég ráð fyrir, að nú hefur um stund stöðvazt vinna við verksmiðjuna, er sú, að framkvæmdastjórnin nyrðra hafði ekki talið sér fært að halda þessari niðurlagningu áfram, án þess að sala væri fyrir hendi. Framkvæmdastjóri síldarverksmiðja ríkisins hafði ráðið þrjú fyrirtækt hér í Reykjavík til að annast sölu á síld, bæði hérlendis og á erlendum markaði, og það eru O. Johnson & Kaaber, Samband íslenzkra samvinnufélaga og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna.

Það sýndi sig, þegar leið á s.l. ár, að þessir aðilar gátu ekki selt þá síld, sem nauðsynlegt var að selja á erlendum markaði, og þá tók stjórn síldarverksmiðja ríkisins þá ákvörðun, að ráða mann til að fara í söluferð til Bandaríkjanna og um Evrópu til þess að reyna að finna markað fyrir þá ágætu vöru, sem þessi síld vissulega er. Stjórn síldarverksmiðjanna hafði ákveðinn mann í huga til þessa starfa, en því miður vildi þannig til, að hann hefði ekki tækifæri til að hefja þetta starf sitt fyrr en nú í apríl. Þessi maður er nú á leiðinni til Bandaríkjanna. Þar ætlar hann að byrja sína söluferð. En rétt er að hafa það í huga, að þó að menn tali mikið um ágæti okkar íslenzku síldar, þá er mjög þröngt á markaðinum með sölu á niðurlagðri síld, og sérstaklega er rétt að hafa það í huga, að hún er mjög vandmeðfarin og þolir mjög illa geymslu.

Ég vil því ekki ásaka þá menn nyrðra, sem hafa tekið þá ákvörðun nú í bili að hætta niðurlagningu, meðan ekki er meiri trygging fyrir sölu á þeirra framleiðslu en nú er vitað um.

Sala hér á heimamarkaðinum hefur gengið mjög vel. Síldin hefur líkað ágætlega. En það er, eins og alþjóð veit, mjög takmarkaður markaður hér heima vegna fólksfæðar.

Ég held, að það sé ekki ástæða til fyrir hv. þm. að beina orðum sínum að stjórn síldarverksmiðjanna fyrir slælega frammistöðu í þessum efnum. Það hefur verið gert, sem stjórnin álítur rétt, og hún hefur venjulega farið eftir ábendingum sinna framkvæmdastjóra, sem eiga að vera þessum málum kunnugastir. Við gerum okkur miklar vonir um, að sú söluferð, sem sölumaður síldarverksmiðja ríkisins er að fara í nú, muni bera einhvern árangur, og ég efast ekki um, að það góða fólk, sem byggir Siglufjörð, skilji, að það er erfitt að leggja niður mjög mikið af síld og vita ekki um horfur á sölu ú henni.

Það er vissulega ósk mín og von okkar; sem erum í stjórn síldarverksmiðjanna, að fljótlega lagist þannig með sölu á þessari vöru, að sú síld, sem er í þeim saltsíldartunnum, sem liggja á Siglufirði, verði lögð niður til sölu, bæði hér á innlendum og erlendum markaði.