11.12.1962
Efri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

6. mál, almannavarnir

Frsm. minni hl. (Alfreð Gíslason læknir):

Herra forseti. Við síðustu umr. ræddi ég lítið eitt þetta frv. almennt og skal ekki að þessu sinni hafa um það efni mörg orð. Ég vil þó aðeins vekja á því athygli, að almannavarnir hafa verið á dagskrá hérlendis fyrr en nú. Öðru hverju hefur verið hafinn áróður fyrir almannavörnum, en jafnharðan hefur allt lagzt í dá, og fram til þessa dags eða síðan stríði lauk hefur bókstaflega ekkert verið gert til almannavarna. Við minnumst þess gauragangs, sem varð hér fyrir rúmu ári í sambandi við mikinn áróður stjórnarvalda um almannavarnir. Þegar kom fram á veturinn, lognaðist áhuginn út af og sjálf hæstv. ríkisstj. dró frv. sitt til baka hér á þingi, kvað það geta beðið síðari tíma samþykktar, ekkert lægi á.

Ég er ekki að fagna þessu. Ég bendi aðeins á þetta. Raunverulegur áhugi fyrir almannavörnum virðist ekki vera mikill, hvorki hjá stjórnarvöldum né öðrum. Af einhverjum ástæðum er þó talið henta að hafa uppi áróður um málið. En það er aðeins áróður og annað ekki. Framkvæmdir eru engar, og það er spá mín, að svo fari nú að þessu sinni sem fyrr. Mér finnst ekki ósvipað því, sem þetta óneitanlega stóra og viðkvæma mál sé öðru hverju sett á svið af ráðnum hug, en í annarlegum tilgangi. Ég skal ekki ráða í, hver sá annarlegi tilgangur er, en mér finnst bera einkennilega mikið á, að samfara þessum áróðri um almannavarnir er hafður uppi hatursfullur áróður til annarra þjóða. Og spurningin er sú: Er þetta nokkuð annað af hendi stjórnarvalda en þáttur í kalda stríðinu, framlag íslenzkra stjórnarvalda til kalda stríðsins?

Sé þetta svo, er það auðvitað stórvítavert, því að almannavarnir eru alvarlegt mál, mál, sem stjórnarvöld og allir ábyrgir menn í landinu ættu að taka hátíðlega. Og af því að ég er einn af þeim, sem vilja taka það mál hátíðlega, vil ég enn einu sinni minna á mikilvægustu ráðstöfunina til almannavarna. Hún er sú að nema brott þá hættu, sem við vitum um, herstöðvarnar, hernaðarmannvirkin á Keflavíkurvelli og hernaðarmannvirkin hér á landi yfirleitt. Þar vitum við um þörf ráðstöfunar, þegar um almannavarnir er að ræða. Við eigum að krefjast þess, að þessi mannvirki verði gerð ónothæf, og með því leggjum við fram drýgsta þáttinn til almannavarna.

Þegar sérfræðingar hæstv. ríkisstj, eru að rannsaka þörf ráðstafana um almannavarnir, þegar þeir athuga þörf einstakra ráðstafana, þegar þeir gera kostnaðaráætlun um framkvæmd þessara ráðstafana, þá er ævinlega við það miðað, að herstöðvarnar verði hér til frambúðar. Það er miðað víð, að ægilegasta hættan, sem um er að ræða í þessu efni, verði hér til frambúðar, að hún sé óumflýjanleg. En þetta er hinn mesti misskilningur. Við eigum að minnast þess, að það er á valdi okkar Íslendinga að leggja þessi hernaðarmannvirki niður og vísa hernum í burtu, hvenær sem okkur sýnist. Sé nú einhver alvara á bak við allt skrafið um almannavarnir, ber að líta á þetta fyrst og fremst. Það fer ekki á milli mála, að sérfræðingar eru í mestu vandræðum með lausn almannavarnamálsins. Þetta er mikið vandamál og allt að því að vera óleysanlegt, sumpart vegna þess, að varnir í kjarnorkustyrjöld eru litlar, og sumpart vegna þess, að þær ráðstafanir, sem helzt eru taldar koma til greina, eru frámunalega kostnaðarsamar.

Ég skal nefna sem dæmi, að forstöðumaður almannavarna, sem mætti á nefndarfundi með okkur um daginn, tjáði n., að gerður hefði verið kostnaðarútreikningur varðandi öryggisbyrgi í Arnarhóli. Sá kostnaður er áætlaður 20 millj. kr. Er þetta öryggisbyrgi nóg fyrir Reykvíkinga? Nei, svaraði forstöðumaðurinn. Það má gera ráð fyrir, að það þurfi 4 eða 5 slík byrgi í Reykjavík. Þessi liður einn gerir þá í Reykjavík allt að 100 millj. kr., og þetta er aðeins brot úr þeim framkvæmdum, sem gera þarf, ef nokkuð á að gera að gagni í almannavarnamálinu.

Ég sting upp á því, að þetta mál verði athugað betur, og umfram allt, að þetta mál verði athugað á breiðari grundvelli. Ég vil láta rannsaka málið, og rannsókn tekur enn alla vega langan tíma. Ég vil láta rannsaka málið, eins og það er gert nú, á grundvelli þess, að hér verði herstöðvar áfram, hvað þarf að gera þá og hvað það kostar. En ég vil jafnhliða og samtímis láta rannsaka, hvað þarf að gera í almannavörnum og hve mikið það kostar, ef ekki eru herstöðvar í landinu. Mér þykir bæði sanngjarnt og eðlilegt, að hæstv. ríkisstj., að Alþingi, að almenningur vilji gjarnan fá þennan samanburð. Hvers vegna þá að neita um það? Hví ekki gera þennan samanburð? Hví ekki gera áætlunina í tvennu lagi, úr því að það er á valdi okkar að segja hernum upp, að leggja niður mannvirkin, ef okkur þóknast svo? Á þetta vil ég leggja megináherzlu nú að þessu sinni. Eins og það lá ekkert á að samþykkja þetta frv. á þinginu í fyrra að dómi hæstv. ríkisstj., eins liggur ekkert á að samþykkja það nú. Við eigum lög um almannavarnir. Þau duga okkur enn um hríð. Það virðist langt í land, að til framkvæmda komi í almannavarnamálinu. Eins og forstöðumaður almannavarna segir, þetta vandamál er flókið og krefst vandlegs og mikils undirbúnings. Ég vil aðeins útfæra þennan undirbúning og þessa athugun á þann veg, sem ég lýsti, að hann verði gerður í tvennu lagi, þannig að hægt sé að bera saman möguleika og kosti.

Ég legg því til, að þetta frv. verði afgreitt nú á þessu þingi með rökst. dagskrá, og ég vil lesa upp till., með leyfi hæstv. forseta:

„Með því að þær athuganir, sem fram hafa farið varðandi væntanlega tilhögun almannavarna á Íslandi, eru allar miðaðar við, að í landinu verði hernaðarmannvirki og erlendur her til frambúðar, og með því að það er á valdi Alþingis að ákveða, að þessi herbúnaður skuli ekki vera hér framvegis, þá æskir deildin þess, að nefndum athugunum verði fram haldið á grundvelli samanburðar, þannig. að unnt verði að meta þörf einstakra ráðstafana til almannavarna svo og að gera framkvæmda- og kostnaðaráætlun í þeim tilvikum báðum: a) að hér verði herstöðvar áfram, og b) að herinn verði látinn fara og hernaðarmannvirkin gerð ónothæf. Í trausti þess, að ríkisstj. verði við þessari ósk, að hún láti hraða athugunum eftir föngum og leggi síðan fyrir Alþingi till. sínar ásamt grg., þar sem nefndur samanburður kemur fram, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Þetta er aðaltill. minni hl. heilbr.- og félmn. Fari svo, að þessi till. verði ekki samþ., hef ég til vara borið fram nokkrar brtt. við frv. í einstökum atriðum, og ég vil nú leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum.

Þetta frv. virðist satt að segja ekki vel úr garði gert. Þetta frv. er ekkí mikið unnið. Það er kastað til þess höndunum. Fyrirmynd þessa frv. er sótt í ákveðna átt, aðeins til eins lands, og lausn þessara mála annaðhvort ekki athuguð í öðrum löndum eða ekkert tillit til hennar tekið. Það, sem einkennir þetta frv. sérstaklega, er, hve mjög er gengið á persónulegt frelsi landsmanna með ýmsum ákvæðum þess. Það er ekki aðeins, að það sé gert að borgaralegri skyldu að starfa í þágu almannavarna, það læt ég allt vera, heldur er á margan annan hátt og í ýmsum greinum frv. gengið inn á helgan rétt borgarans fram yfir það, sem mér þykir góðu hófi gegna. í Noregi munu samsvarandi lög vera nokkuð svipuð og þetta frv. Aftur á móti í Danmörku eru þau allt öðruvísi. Mér er tjáð af sjálfum forstöðumanni almannavarna hér, að þar sé það ekki borgaraleg skylda að gegna án endurgjalds starfi í þjónustu almannavarna, þau störf séu unnin af sjálfboðaliðum. En um þetta atriði geri ég samt ekki ágreining. Það eru nokkur önnur atriði, sem ég legg til að gerð verði breyting á.

Í 7. gr. segir: „Ráðstafanir til almannavarna samkv. 10. gr. skal hefja þar, sem ríkisstj. ákveður í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórn og sýslunefnd.“ Hér er hlutunum snúið við frá því, sem nú er í gildi. Í gildandi lögum er það sveitarstjórnarinnar að ákveða ráðstafanir til almannavarna í samráði við ríkisstj. En nú skal ríkisstj. ákveða þær í samráði við sveitarstjórnirnar. Ég tel hér vera of langt gengið í þessu efni, sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna skertur um of. Við skulum aðeins minnast þess, að sveitarfélögin eiga svo sannarlega að fara að taka þátt í kostnaði við almannavarnir. Og hvers vegna skyldu þau þá ekkert hafa um það að segja, í hvaða framkvæmdir ráðizt verður í þessum efnum? Vitanlega á hvert einasta sveitarfélag að hafa sitt að segja um það. Því legg ég til, að þetta ákvæði verði orðað á þann hátt, að ráðstafanir til almannavarna skuli hefja þar, sem ríkisstj. ákveður með samþykki hlutaðeigandi sveitarstjórnar eða sýslunefndar. Ég vara einnig við því, sem í þessari breytingu felst, eins og hún er í frv., að ganga um of á rétt sveitarfélaganna. Það hefur alltaf verið tilhneiging hjá ríkisstj. að gera þetta, en þetta er varhugavert. Sjálfstæði sveitarfélaganna er mjög mikilsvert atriði í lýðfrjálsu landi. Og það á ekki að gera mikið að því að taka réttinn af sveitarfélögunum og leggja undir ríkisvaldið. Ríkisvaldið er nógu sterkt fyrir því.

Í 9. gr. er um það rætt, hvað almannavarnanefndum skuli falið að gera, en almannavarnanefndir skulu vera í hverju sveitarfélagi. Meðal þess, sem almannavarnanefnd er ætlað að gera, er að hafa eftirlit með einkavörnum í íbúðarhúsum, atvinnufyrirtækjum og stofnunum og vera til leiðbeininga á því sviði. Það er eins og ég sagði áðan, það er nokkuð langt gengið í afskiptaseminni í þessu frv. Nú á almannavarnanefnd að hafa eftirlit með einkavörnum í íbúðarhúsum. Hér er einnig of langt gengið. Það á ekki að veita hinum og þessum mönnum, sem fyrir einhverjar sakir veljast í almannavarnanefnd, rétt til að vaða inn í íbúðir manna til eftirlits. Þetta eru engir embættismenn hins opinbera í raun og veru og verða aldrei. Hér er of langt gengið, og ég legg til, að því verði alveg sleppt úr gr., að almannavarnanefndir skuli hafa eftirlit með einkavörnum í íbúðarhúsum. Þær geta þá eftir sem áður haft eftirlit með einkavörnum atvinnufyrirtækja og stofnana. Það er fyrir sig.

Þriðja aths., sem ég vil gera, snertir 10. gr. frv. Þar segir, að það skuli vera borgaraleg skylda þeirra, sem eru á aldrinum 18–65 ára, að gegna án endurgjalds starfi í þágu almannavarna í því umdæmi, þar sem þeir dveljast. Það er borgaraleg skylda að gegna störfum í þágu almannavarna, skylda allra á aldrinum 18–65 ára. Þetta er alveg furðulegt ákvæði. Menn eiga fram á elliár að vera skyldugir til þess að gegna störfum í þágu almannavarna, jafnvel menn yfir 65 ára eiga að fá að gera þetta, ef þeir óska þess sjálfir. Ef elliær gamalmenni koma, skal þeim veittur réttur til starfa í þágu almannavarna.

Hér er allt of langt gengið, vegna þess að eins og 9. gr. ber með sér, er um að ræða mjög erfið líkamleg störf innan um og saman við. Á að fela það sextugum eða 65 ára manni? Það nær engri átt. Ég vil láta lækka þessa herskyldu ofan í a.m.k. 40 eða 45 ár. Það er það minnsta. Og ég er satt að segja mjög hissa á þessu aldurshámarki og þætti fróðlegt að heyra, hvaðan þetta kæmi.

Fjórða brtt. mín snertir 13. gr. Þar er ákvæði um það, að ef maður verður fyrir meiðslum eða tjóni á námskeiði eða æfingu, skuli hann eiga rétt á bótum. Þetta er sanngjarnt. Ég geri engar aths. við það, en vildi aðeins bæta við einum málslið þess efnis, að sá maður, sem sannanlega verður fyrir tekjumissi vegna undirbúningsstarfa í þágu almannavarna, skuli fá það tap bætt. Það mætti orða það eitthvað á þessa leið: „Sömuleiðis á hann rétt til bóta, ef hann verður fyrir tekjumissi vegna undirbúningsstarfa í þágu almannavarna.“ Við skulum hugsa okkur verkamann, sem vinnur tímavinnu frá kl. 8 á morgnana til 6–7 á kvöldin. Hann er síðdegis kallaður til starfa í þágu almannavarna og verður að yfirgefa sína tímavinnu. Hann missir laun sín um leið. Þetta verður að bæta þessum manni upp að sjálfsögðu.

Í 21. gr. er rætt um brottflutning af hættusvæði, og þar segir, að eftir að ríkisstj. hafi tekið ákvörðun um slíkan brottflutning, skuli öllum skylt, sem um það fá fyrirmæli, að flytjast á þeirri stundu, á þann hátt og til þess staðar, sem ákveðið verður, enn fremur, að enginn megi hreyfa sig úr stað, þar sem hann hefur verið settur, nema að fengnu leyfi. Hér er enn eitt ákvæði, sem sýnir tillitsleysi til réttar og frelsis einstaklingsins. Hver einasti maður, sem um það fær skipun að flytja brott úr átthögum sínum, frá heimili sínu á hættustundu, hann skal gera það, að viðlagðri refsingu samkv. lögum, ef hann óhlýðnast. Hér er allt of langt gengið. Ef ríkisstj. væri alvitur forsjón, væri öðru máli að gegna. En þegar til þess kæmi að gefa fyrirskipun um brottflutning fólks í stórum stíl vegna yfirvofandi hættu eða áskollinnar styrjaldar, þá er hér um svo vandamikið mál að ræða og vafasamar ráðstafanir, að það er ekki hægt að skylda nokkurn borgara til að fara eftír þeim. Það er hægt að gefa fólki kost á því, en ekki heldur meir.

Þegar ríkisstj. tæki ákvörðun um brottflutning fólks af hættusvæði, er hún vitanlega að gera það í beztu meiningu og að beztu manna yfirsýn. En allt þetta gæti brugðizt. Allir útreikningar gætu brugðizt, og það gæti svo farið, að þeir, sem flyttu brott, lentu í mestu hættunni, lentu jafnvel í mestu hörmungunum, en þeir, sem sætu kyrrir, slyppu. Svo óútreiknanlegir eru þessir hlutir, eins og okkur öllum er ljóst. Þess vegna nær engri átt að skylda einstaklingana. Hitt er jafnsjálfsagt að gefa þeim kost á því. Gamalt fólk, lasburða, getur óskað eftir því, að það fái að vera kyrrt, fái að deyja á heimili sínu. Það er ekkert við því að segja, það á að leyfa það. Það getur líka kostað lasburða fólk lífið að flytjast á slíkri stundu burt. Þetta er eitt af þeim ákvæðum, sem mér finnst vera feikilega vanhugsuð í þessu máli.

Þá er það loks síðasta brtt. mín, en hún snertir 24. gr. Þar segir, að ákveða megi með reglugerð, að í húsi af tiltekinni stærð, sem byggt er eftir gildistöku laganna, skuli vera gert öryggisbyrgi fyrir þá, sem í húsinu búa eða starfa. Húseigandi greiðir kostnað vegna byrgisins, og skal það fullnægja þeim lágmarkskröfum um öryggi, sem reglugerð kveður á um.

Hér gildir það sama, þótt í öðru efni sé. Það er gengið of langt í því að skuldbinda einstaklingana eða gefa ríkisstj. rétt til þess að skuldbinda einstaklingana. Hlutur eins og þessi, hvort húsbyggjandi byggir sér öryggisbyrgi í húsi sínu eða ekki, á að vera algerlega á hans valdi og hans eins. Ríkisvaldið á ekkert að hafa með þetta að gera og ekkert að skipta sér af því annað en að gefa viðkomandi manni leiðbeiningar, ef hann óskar þess. Og ég vil benda á, að í því góða landi, Bandaríkjunum, er þetta gert. Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í ræðu í nóvember 1961, fyrir einu ári, að stjórn hans mundi ekki gera kröfur um slíkt, mundi ekki gera kröfur til húsbyggjenda eða einstaklinga, að þeir kæmu sér upp öryggisbyrgjum. Þetta hefur líka mikinn kostnað í för með sér. Það er áætlað, að slíkt byrgi hér í Reykjavík fyrir eina meðalstóra íbúð mundi kosta 20–30 þús. kr. Og það er skildingur ofan á allan annan byggingarkostnað. Þetta ætti að nema í burtu úr frv., svo framarlega sem það verður samþ. á annað borð á þingi að þessu sinni. En eins og ég tók fram, legg ég til, að það verði ekki gert, heldur að því verði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar og endurskoðunar.

Ég lýk svo máli mínu, en vil endurtaka það, að ég er ákaflega hissa á vinnubrögðunum við samningu þessa frv. Þetta er hroðvirkni að sækja fyrirmyndina í eina einustu átt, láta einn einasta erlendan hershöfðingja ákveða hlutina fyrir okkur í okkar landi. Frv. ber þetta með sér. Hér er allt undir heraga ríkisstj. Þetta er illt. Og ég víti harðlega þau vinnubrögð.