11.12.1962
Efri deild: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

6. mál, almannavarnir

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í þessu frv, er svo fyrir mælt, að gerðar skuli margs konar ráðstafanir til þess að vernda lif og heilsu Íslendinga vegna hugsanlegra hernaðaraðgerða. Hér er um allverulegar breytingar að ræða frá gildandi löggjöf um almannavarnir.

Svo mikið er búið að tala og rita um hugsanlega styrjöld milli stórvelda heimsins, að það leikur víst ekki á tveimur tungum, að slíkur hildarleikur verði kjarnorkustyrjöld. Sjálfsagt getum víð Íslendingar ekki gert okkur neina grein fyrir því, hvað kjarnorkustyrjöld er, en þeir, sem meira vita, kalla það gereyðingarstyrjöld. Hvort nokkrar varnir koma að liði og þ. á m. þær, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., það vitum við ekkert um. En ég tel þó sjálfsagt og að ekki geti verið skiptar skoðanir um, að það beri að bjarga því, sem bjargað verður, hversu lítið sem það er. Og með tilliti til þess vil ég styðja að því, að þetta frv. verði samþ., og mun greiða því atkv.

Hitt á ég erfitt með að skilja, hversu sáralitlu fé á að verja til þessara varna á næsta ári. Eins og hv. þm. er kunnugt, er lagt til í fjárlfrv., að 1 millj. kr. eigi að verja í þessu skyni á næsta ári. Mér virðist, að sú upphæð muni ekki hrökkva fyrir meira en fremur lítilli skrifstofu, og ekki bjargar hún neinum ein út af fyrir sig.

Það hafa miklar umr. orðið um þetta mál í hv. Nd., og er það ekki óeðlilegt. M.a. hefur þar borið á góma hinn erlenda her á Keflavíkurflugvelli. Það er kunnugt, að mikil andstaða hefur verið frá upphafi hér innanlands gegn erlendri hersetu, og mun svo sjálfsagt verða, meðan hún er við lýði. Þeir, sem andvígir henni eru, hafa sýnt fram á, að erlendur her í landinu er þjóðinni á marga vegu viðsjárverður og hættulegur. Hættan af erlendri hersetu í landinu er fyrst og fremst hin menningarlega og þjóðernislega hætta. En svo kemur til sú líkamlega hætta, sem kann af þessari hersetu að stafa á styrjaldartímum. Hin menningarlega hætta liggur fyrst og fremst í sífelldum samskiptum og sambúð við hinn erlenda her, ekki sízt æskufólks. Þar má nefna hermannaútvarp, sem glymur daglega á íslenzkum heimilum um land allt. Hún liggur í áhrifum frá erlendu hermannasjónvarpi, því eina sjónvarpi, sem starfrækt er á Íslandi og nú nær sífellt til fleiri og fleiri manna í þéttbýlasta hluta landsins. Meðvitundin um áframhaldandi hersetu í landinu og sífelld samskipti við hinn erlenda her verður í huga æskufólksins sem sjálfsagður og eðlilegur þáttur í daglegu lífi og sljóvgar hæfileikann til að skilja, hvað er íslenzkt og hvað er ekki íslenzkt. En jafnframt þessu vex æskulýðurinn upp við það að sjá og heyra daglega þær kenningar, að þessir erlendu hermenn séu skjól og skjöldur landsmanna, sem verji líf þeirra og limi og skapi þjóðinni frið og öryggi. Allt þetta og margt fleira örvar þá tilfinningu unga fólksins, að til erlendrar hersetu verði það að sækja þau andlegu verðmæti, sem þjóðin er ekki megnug að veita því. Gegn öllu þessu og mörgu fleira af sama tagi hafa málsvarar erlendrar hersetu í landinu venjulegast þau svör, að allt þetta geti Íslendingar sjálfir forðazt, ef þeir bara vilji. Engum af þessum áhrifum sé þröngvað upp á neinn, enginn sé tilneyddur að hlusta á hermannaútvarp né horfa á hermannasjónvarp, engum sé skipað að sækja gleðisamkomur á Keflavíkurflugvelli, þótt honum sé þangað boðið. Ef hér sé eitthvað viðsjárvert á ferðinni fyrir íslenzk ungmenni, þá sé það þeirra sjálfra að gæta sín. En við hinn erlenda her sé ekki um neitt að sakast.

Ef þessi svör væru á rökum reist, mætti með sama rétti segja, að neyzla deyfilyfja sé alveg saklaus og skaðlaus. Enginn þyrfti að neyta þeirra, ef hann vildi það ekki sjálfur. Það væri því sök neytandans, ef tjón hlytist af neyzlunni, en ekki lyfjanna. Sjálf deyfilyfin ættu enga sök á því tjóni, er af þeim hlytist. En þrátt fyrir þetta eru menn samt sammála um, að engum skuli heimilað að leyfa neyzlu deyfilyfja nema sérfræðingum og það leyfi skuli vera háð ströngu eftirliti heilbrigðisyfirvaldanna. Þau svör, sem ég nefndi og málsvörum hersetunnar eru tiltækust, sýnist mér því vera harla fánýt.

Menn verða að gera það upp við sig, að annaðhvort er erlend herseta í landinu skaðleg eða hún er skaðlaus. Ef áhrif af erlendri hersetu eru óskaðleg eða jafnvel eftirsóknarverð, vinna menn að sjálfsögðu ekki gegn þeim, vilja jafnvel miklu frekar greiða götu þeirra. Ef þau eru skaðleg, þá eiga menn að vinna gegn þeim.

Það eru að vísu til menn, sem eru öfgaminni en þetta og viðurkenna, að erlend herseta í landinu sé viðsjárverð fyrir þjóðina, en hins vegar sé þjóðin í svo mikilli árásarhættu, að ekki verði komizt hjá að sjá henni fyrir vernd og öryggi með erlendum her. Ekki mun þessi árásarhætta talin stafa af því, að Íslendingar eigi einhverja þá óvini í heiminum, sem líklegir séu til þess að ráðast á landið. Hér er auðvitað átt við það, að Sovétríkin séu líkleg til þess að ráðast á vesturveldin og í þeim hildarleik sé Ísland svo hernaðarlega mikilvægt, að Rússar mundu hertaka það sér í hag, ef það væri óvarið.

Um árásarfyrirætlanir Rússa skal ég ekki dæma, enda mun varla einn vera öðrum fróðari um þá hluti hér á landi. En jafnvel þó að rétt sé til getið um árásarhugleiðingar þeirra, er vitneskja manna þó enn þá minni um hitt, á hvaða lönd eða á hvaða staði í heiminum yrði ráðizt í hugsanlegri styrjöld. Allt eru þetta spádómar og ágizkanir, sem um þetta hefur verið sagt, og þar sem hernaðarsérfræðingar vita harla lítið um þessa hluti, má nærri geta, hversu vitneskja íslenzkra manna nær þarna langt.

Því hefur mjög verið haldið á loft, enda berum orðum sagt í hinum svokallaða varnarsamningi, að v arnarlið á Íslandi sé ekki aðeins Íslendingum til varnar, heldur löndum Norður-Atlantshafsbandalagsins. Ef svo er, þá hlýtur það að vekja nokkra eftirtekt, hverjum er fengið það vald í hendur að ákveða, hvort nokkurt varnarlið skuli vera hér eða ekki. Ef varnarlið á Íslandi er hernaðarlega mikilvægt til öryggis NATO-ríkjunum yfirleitt, hvernig stendur þá á því, að þeirri þjóð, Íslendingum, sem ekkert vit hefur á hernaði, er fengið allt vald í hendur til þess að ákveða, hvort þessar varnir séu viðhafðar eða ekki öðrum NATO-ríkjum til öryggis? Þessi ákvæði varnarsamningsins benda óneitanlega til þess, að NATO-ríkjunum þyki litið hernaðarlegt öryggi fyrir sig vera í herliðinu á Keflavíkurflugvelli. Annars mundu þau ekki láta öryggismál sín í hendur hernaðarlega fávísum mönnum. En það hafa þau gert með samningnum frá 1951, því að samkv. honum ráða Íslendingar því algerlega sjálfir, hvort hér skuli vera erlendur her eða ekki.

En hvaða líkur eru svo til þess, að Rússar ráðist á Ísland, því að ekki er eftir neinu öðru að fara en aðeins líkum, þegar meta skal, í hversu mikilli árásarhættu Ísland er?

Svo er að sjá, að hernaðarþjóðir telji mesta hættu stafa af þeim herstöðvum andstæðinga sinna, sem eru þeim næstar. Þannig leit Kennedy Bandaríkjaforseti á, þegar kjarnorkuvopnum hafði verið komið til Kúbu, og þannig leit Krúsjeff á, þegar hann krafðist þess, að Bandaríkjamenn flyttu kjarnorkuvopn sín frá Tyrklandi. En eins og menn vita, liggur Kúba um 150 km undan ströndum Bandaríkjanna, en Tyrkland og Sovétríkin hafa sameiginleg landamæri. Ekki er þessu til að dreifa um Ísland. Það er ekki í neinu slíku nábýli við Sovétríkin og enga herstöð að óttast hér, ef hún er hér engin.

Það má einnig telja líklegt, að styrjaldaraðili reyni fyrst og fremst að eyðileggja þær bækistöðvar óvina sinna, sem hann telur sér hættulegastar. Sennilegt er, að Rússar telji nú einhverjar herstöðvar í heiminum sér hættulegri en Keflavíkurflugvöll, ef þar er enginn her. Líkurnar fyrir rússneskri árás á Ísland eru því ekki sterkar, hvað sem kann að liða árásarhugmyndum þeirra að öðru leyti, ef hér er ekki herstöð.

Þeirri kenningu hefur lengi verið haldið á loft hér á landi, að árásaraðilinn, hver sem hann er, ráðist jafnan á garðinn; þar sem hann er lægstur. Sé þessi kenning rétt, má segja, að Ísland gæti orðið framarlega í röðinni sem árásarmark. En ekki hafa Rússar verið þessarar skoðunar, þegar þeir voru að flytja kjarnorkuvopnin til Kúbu, því að varla hafa þeir talið, að í Bandaríkjunum væri garðurinn lægstur til þess að ráðast á.

Það er náttúrlega erfitt fyrir menn ófróða hernaði að dæma um slíkar kenningar sem þessar, að ráðizt verði á garðinn, þar sem hann er lægstur. En ég held, að það sé þó enn þá erfiðara fyrir slíka menn að rökstyðja réttmæti slíkrar kenningar.

En hafa þá forsvarsmenn íslenzku þjóðarinnar í raun og veru óttazt rússneska árás á Ísland á undanförnum árum? Það eina, sem bendir til þess, að svo hafi verið, er það, að hernum hefur verið haldið kyrrum í landinu og haldið hefur verið uppi skrifum um árásarhættuna. Það er annað, sem bendir hins vegar til þess, að forsvarsmenn þjóðarinnar hafi ekki óttazt neina árás á undanförnum árum. Það er það, að þau 11 ár, sem liðin eru síðan varnarsamningurinn var gerður, hefur enginn íslenzkur valdsmaður hreyft hönd eða fót til þess að vernda líf eða limi Íslendinga í slíkri árás. Varnirnar hafa engar verið og eru ekki enn. Eða hver trúir því, að forsvarsmenn þjóðarinnar hafi búizt við þessari árás í 11 ár eða lengur og ekkert gert, hvorki til að vernda sjálfa sig né aðra, þar til nú er loksins flutt frv. um mjög auknar varnarráðstafanir? Og þegar svo frv. er flutt, þá á ekki að verja svo að segja neinu fé til varnanna. Ég hef reyndar heyrt menn segja sem svo, að varnirnar gegn slysa- og lífstjóni í árás hafi alla tíð verið fólgnar í sjálfu varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. En sé það svo, að varnarliðið á Keflavíkurflugvelli hafi getað algerlega komið í veg fyrir árás og þar af leiðandi þær afleiðingar, sem árás hefur fyrir líf og heilsu manna, hvernig stendur þá á því, að nú þarf að setja miklu fullkomnari ákvæði um almannavarnir en hafa verið að undanförnu? Ef erlendur her hefur verið þetta öryggi Íslendingum í undanfarin 11 ár, af hverju er hann það þá ekki áfram, fyrst hann á að vera kyrr?

Það er skylt að hugleiða rækilega annars vegar, hvort herinn á Keflavíkurflugvelli getur komið í veg fyrir árás og þá um leið verndað Íslendinga gegn því tjóni á lífi og heilsu manna, sem af árás hlyti að leiða, og hins vegar, hvort herinn eykur árásarhættuna.

Það er kunnugt, að bæði Bandaríkjamenn og Rússar hafa skotið eldflaugum mörg þúsund km vegalengd og hæft það mark, sem þeir hafa sett sér. Ef Rússar teldu sér nauðsynlegt að eyðileggja herstöðina á Keflavíkurflugvelli, er mjög líklegt, að þeir gætu skotið eldflaug með kjarnorkusprengju heiman frá sér á herstöðina. Hvaða varnir eru á Keflavíkurflugvelli gegn þessu? Það er einnig kunnugt, að bæði Bandaríkjamenn og Rússar eiga kafbáta búna eldflaugum með kjarnorkusprengjum. Þessir kafbátar fara um heimshöfin án þess að gera boð á undan sér. Ætli Rússum yrði það ofvaxið, ef þeir teldu mikið liggja við, að senda slíkan kafbát upp undir Reykjanesið og skjóta eldflaug með sprengju á Keflavíkurflugvöll? Hvaða varnir er yfirleitt um að tala á Íslandi í kjarnorkuárás? Kennedy Bandaríkjaforseti taldi, að eldflaugarnar á Kúbu ógnuðu flestum ríkjum Vesturheims. Þeim mætti skjóta allt norður til Hudsonflóa og suður til Perú. Hvað þá um Ísland? Mér sýnist það vera augljóst hverjum manni, að í hernum á Keflavíkurflugvelli er engin vörn og hefur aldrei verið nein vörn gegn kjarnorkuárás á Ísland.

En getur það verið, að þessi herstöð auki á árásarhættuna? Í því efni segja menn, að það skipti höfuðmáli, hvort herstöð sé gerð til árása á Rússa eða aðeins í varnarskyni fyrir vesturveldin. Ekki er því að neita, að á þessu tvennu er reginmunur. Íslendingar þurfa ekki að vera í neinum vafa um það, að herstöðin á Keflavikurflugvelli er ekki gerð í neinu árásarskyni. Vesturveldin hafa ekki í huga neinar árásir á eitt eða neitt land. Meginkjarni Sameinuðu þjóðanna er uppbyggður af lýðræðisríkjum hins vestræna heims. Höfuðtilgangur þeirra hefur verið og verður að vernda friðinn í heiminum, og það hefur þeim tekizt fram á þennan dag. Sameinuðu þjóðirnar hafa stöðvað styrjaldarátök milli einstakra ríkja í heiminum hvað eftir annað, og þær hafa komið í veg fyrir, að til styrjaldarátaka kæmi milli annarra ríkja. En þótt við Íslendingar vitum það nægilega vel, að á Íslandi er engin árásarherstöð, þá vitum við ekkert um það, hvernig Rússar kynnu að líta á þessa herstöð, ef til ófriðar drægi milli þeirra og vesturveldanna. Ef þeir trúa því, að þarna sé um árásarherstöð að ræða eða henni megi í skyndi breyta í slíka stöð, þá haga þeir sér sjálfsagt samkv. því. Þannig gæti Keflavíkurflugvöllur orðið fyrir sams konar eyðileggingu og hver önnur herstöð, sem nota má til árásar, þótt ekki sé um neina árásarherstöð að ræða.

Þá dregur það ekki úr tortryggni Rússa gegn þessari herstöð, að hæstv. ríkisstj. hefur nú leyft Bandaríkjamönnum að flytja hingað hernaðarflugvélar, sem nota má fyrir kjarnorkusprengjur. Þetta virðist mér auka mjög á árásarhættuna, ef til styrjaldar drægi.

Meðan friður helzt milli stórveldanna, sé ég ekki, að um neina árásarhættu sé að ræða, hvort sem hér er erlent herlið eða ekki. Hins vegar sitjum við með áhrifin af hinum erlenda her, meðan hann er, sem við værum lausir við, ef hann væri ekki. Ef til styrjaldarátaka kæmi milli þessara stórvelda, erum við varnarlausir gegn kjarnorkuárás þrátt fyrir hinn erlenda her og þar af leiðandi í mikilli hættu. En án herstöðva værum við a.m.k. í miklu minni hættu, því að líklegt má telja, að fyrstu árásir yrðu gerðar á herstöðvar, en ekki á óvopnað land.

Það hefur mjög verið rætt um, að hlutleysisstefna gæti verið Íslendingum mikil vörn, ef til styrjaldar drægi. Það auki hins vegar á árásarhættu, að Íslendingar hafi gengið í hernaðarbandalag og tengzt þannig fyrir fram ákveðnum hernaðaraðilum. Óneitanlega er það andstætt íslenzkum hugsunarhætti að ganga í hernaðarbandalag, þar sem um óvopnaða þjóð er að ræða, sem aldrei hefur haft her og ætlar sér ekki að hafa her. Hitt er annað mál, hvort hlutleysisstefna annars vegar eða þátttaka í hernaðarbandalagi hins vegar veitir nokkra vörn. Svo sem kunnugt er, er lega Íslands á hnettinum þannig, að það liggur svo að segja inn á milli vestrænna stórvelda og er á siglingaleiðum. Landið hefur því mikla hernaðarlega þýðingu á styrjaldartímum, eins og bezt sýndi sig í síðustu styrjöld. Ef til styrjaldar kynni að draga, t.d. milli Rússa og vesturveldanna, mundu vesturveldin hagnýta sér Ísland þegar í styrjaldarbyrjun, hvort sem Íslendingar vildu eða vildu það ekki. Til þess hefðu þau margfalt auðveldari skilyrði en Rússar vegna legu landsins. Undir slíkum kringumstæðum yrði ekkert spurt um hlutleysisstefnu eða þátttöku í hernaðarbandalagi. Það var ekki heldur gert 1940, þegar Bretar hertóku Ísland í upphafi þeirrar styrjaldar. Hvort tveggja er að mínum dómi jafnþýðingarlaust til varnar þjóðinni á styrjaldartímum, hlutleysisstefna og þátttaka í hernaðarbandalagi. Það er lega landsins, sem ræður mestu, og sem betur fer er hún hinum vestrænu ríkjum í hag. í þessu tel ég að sé skýringin á því, að með varnarsamningnum eru Íslendingar látnir hafa fult vald til þess að ákveða, hvort hér á landi skuli vera erlent herlið eða ekki.

Í fáum orðum sagt sýnist mér, að aðalatriðin í þessu máli séu þessi: Erlend herseta á Íslandi er menningu þjóðarinnar hættuleg. Þess vegna á herinn að hverfa á brott. Íslendingar hafa ekki búizt við neinni árás á landið á undanförnum árum og þurfa ekki frekar að búast við henni nú. Þess vegna þarf hér engan her. Ef til styrjaldar dregur milli Rússa og vesturveldanna, er Íslendingum miklu hættara við rússneskri árás í upphafi styrjaldarinnar, ef hér er herstöð, en ef hún er engin. Sú hætta er enn þá meiri fyrir það, að hingað eru komnar hernaðarflugvélar, sem beitt gætu kjarnorkusprengjum. Hlutleysisstefna er engin vörn og ekki heldur þátttaka í hernaðarbandalagi, því að þegar stórveldastyrjöld hefur brotizt út, mun sá aðilinn, sem betri aðstöðuna hefur, taka undir sig landið, hvað sem Íslendingar segja eða hafa áður sagt í þeim efnum. Í hugsanlegum hernaðarátökum á milli Rússa og vesturveldanna eiga Íslendingar samstöðu með vesturveldunum, en þá samstöðu tryggir bezt lega landsins og í raun og veru ekkert annað, engir samningar, engar yfirlýsingar eða neitt af því tagi. Von Íslendinga sem annarra þjóða hlýtur að byggjast fyrst og fremst á því, að Sameinuðu þjóðunum auðnist að vernda friðinn í heiminum, eins og þeim hefur tekizt hingað til.

Ég vil endurtaka það, að þó að margt megi að þessu frv. finna og vandséð sé, hvort nokkrar raunverulegar varnir á að framkvæma samkv. frv. eða ekki, þá mun ég greiða því atkv.